15.8.2019 | 10:54
Framsal fullveldis yfir auðlindum landsins
Stefna Evrópusambandsins í orkumálum er að búa til einn samhæfðan orkumarkað fyrir rafmagn, þar sem öll landssvæði og lönd EES eru rækilega samtengd. Meginorkuflutningarnir og dreifing til neytenda eru einokunarstarfsemi, en innan orkuvinnslunnar skal fjórfrelsið ríkja óheft og óbjagað af ríkisvaldinu.
Framkvæmdastjórnin vill einkavæða vatnsorkuver í ríkjum, þar sem þau eru í talsverðum eða miklum mæli í höndum ríkisfyrirtækja. Ástæðan er sú, að hún vill fá aukna fjárfestingargetu og fjárfestingaráhuga inn í þennan geira til að búa í haginn fyrir mikla aukningu uppsetts vélaafls í vatnsorkuverum, jafnvel tvö- til þreföldun, til að bæta orkuframboðsmissi frá vindmyllunum upp, þegar lygnir á álagstíma.
Til þess að gera þetta þykir einfaldast að beita Þjónustutilskipun #123/2019 á ríkisvaldið, og er það þá sakað um úthlutun takmarkaðra gæða á ógegnsæjan og ívilnandi hátt til ríkisfyrirtækja. Þarna séu samkeppnisreglur brotnar, og þessum gæðum verði að ráðstafa til hæstbjóðanda í útboði á um 30 ára fresti. Fyrirtæki, sem öðlast afnotarétt á orkulindinni, hér vatnsréttindunum, geta sett virkjunareigandanum stólinn fyrir dyrnar og samið um "sanngjarnt" verð á virkjun. Það er jafnframt ljóst, að 0,36 M manns á Íslandi geta ekki staðið gegn 460 M manns (eftir BREXIT) á opnum markaði.
Þetta mál, sem þegar hefur rekið á fjörur íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem ólíkt norsku ríkisstjórninni hefur enn ekki svarað því, að því bezt er vitað, varðar fullveldisrétt þjóðarinnar, þótt lögfræðileg umræða hafi ekki verið áberandi um það. (Norska ríkisstjórnin var 5 vikur að semja svar til ESA við fyrirspurn um úthlutunarfyrirkomulagið norska.) Það er fullveldisréttur þjóðarinnar, og ríkisvaldið fer með það vald, að ráðstafa afnotarétti yfir auðlindum sínum án afskipta erlends valds, hvað þá yfirþjóðlegs valds. Þessu þarf að gera ESA bréflega grein fyrir, en síðasta ríkisstjórn og sú núverandi hafa heykzt á því að halda fram fullveldisrétti þjóðarinnar í þessu máli. Það lofar ekki góðu um framhald innleiðingar á Orkustefnu ESB hérlendis með orkupökkunum.
Af þessum sökum stangast orkustefna ESB á við fullveldi landsins, og allir orkupakkarnir eru reistir á henni, og þess vegna er nauðsynlegt að synja OP#3 samþykkis. Í raun þarf að fá undanþágu frá orkustefnu ESB og þar með öllum orkupökkunum.
Í grein sinni í sumarhefti Þjóðmála 2019,
"Umrót vegna orkupakka",
hafði Björn Bjarnason, formaður nefndar um mat á reynslunni af EES, eftirfarandi eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi 22. marz 2018 um OP#3:
"Hér er um að ræða í efnisatriðum mjög stórt mál, sem á yfirborðinu, hugsanlega, varðar ekki með beinum hætti raforkumarkaðinn vegna þess, að boðvald viðkomandi sameiginlegrar stofnunar [ACER] virkjast ekki fyrr en íslenzki markaðurinn tengist þeim evrópska."
Þessi málflutningur stenzt ekki skoðun, eins og sýnt var fram á í pistlinum:
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2238491
Þar kemur fram, að íslenzk yfirvöld munu þurfa að sæta því, að Landsreglarinn innleiði hérlendis markaðsstýringu raforkukerfisins að hætti ESB, þótt yfirvöld kynnu að kjósa fremur orkulindastýringu, sem stunduð hefur verið innan Landsvirkjunar um árabil, en þarf að verða opinber stefnumörkun í lögum og spanna allt landið, þ.e. öll virkjanafyrirtæki yfir tiltekinni stærð. Þetta verður fyrsta aðalverkefni Landsreglarans, því að honum ber að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að þeim evrópska áður en hingað verður lagður sæstrengur. Að boðvald ACER "virkist" fyrst með sæstreng er rangt. Það virkjast strax við innleiðingu OP#3.
Björn Bjarnason bætir síðan við:
"Þarna sló Bjarni strax varnagla vegna sæstrengsins. Athuganir lögfræðinga og álit hafa síðan áréttað þennan grundvallarþátt. Það verði ekkert framsal án sæstrengs, og þrátt fyrir strenginn telja sumir ekki um neitt framsal að ræða."
Varðandi álit lögfræðinga er það eitt að segja, að á meðal þeirra eru deildar meiningar um OP#3. Verður að segja alveg eins og er, að ólíkt hafa nú komið traustari röksemdafærslur frá þeim, sem varað hafa við innleiðingu OP#3 en hinum. Nægir að nefna þá hæpnu kenningu, sem ekki styðst við neitt dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, að Evrópuréttur víki fyrir Hafréttarsáttmálanu. Það er þvert á móti. Hitt er undarlegra, að þeir skuli ekki hafa athugað þá afleiðingu innleiðingar Orkustefnu ESB hér, sem reist er á Lissabonsáttmálanum frá 2009, sem hefur ekkert gildi hér, að orkulindarnar munu margar hverjar lenda í höndum sterkra erlendra orkufyrirtækja, sem eru líkleg til að bjóða hæst í afnotaréttinn. Það verður að spyrna við fótum og beita fullveldisréttinum yfir auðlindum landsins til að koma í veg fyrir þá einkavæðingu, sem ESA og Framkvæmdastjórnin stefna að.
Síðan kom tilvitnun í Bjarna Benediktsson úr sömu umræðu á Alþingi við Þorstein Víglundsson:
"Það, sem ég á svo erfitt með að skilja, er áhugi háttvirts þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi ? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á að komast undir boðvald þessara stofnana ?"
Því miður virðist hér um að ræða einskæra "retorikk", málskrúð, hjá formanninum, nokkuð sem nú tíðkast að kalla "poppúlisma", sem er auðvitað lýðskrum, þ.e. að slá um sig með einhverju, sem aldrei er ætlunin að standa við. Það hefur nú komið á daginn hjá þessum formanni Sjálfstæðisflokksins, að honum liggur svo mikið á að koma þjóðinni undir boðvald ACER og inn í Orkusamband ESB, að hann ljær ekki máls á að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara til að skapa frekara svigrúm til samninga, þótt til þess hafi löggjafinn fulla heimild.
Ekki tekur betra við, þegar íhuguð eru ummæli varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, um OP#3, í viðtali í Fréttablaðinu 13.07.2019:
"Málið snýst um réttindi neytenda og upplýsingaskyldu orkufyrirtækja, sem eru að mestu opinber. Umræðan hefur að miklu leyti snúizt um sæstreng. Alveg óháð þriðja orkupakkanum væri hægt að leggja sæstreng. Það er jafnerfitt að gera það núna og áður. En vegna umræðunnar höfum við girt fyrir það, að hægt sé að leggja sæstreng með ákvörðun eins ráðherra einhvern tíma í framtíðinni. Nú er það Alþingi, sem þarf að samþykkja slíka framkvæmd, og opnað hefur verið á þjóðaratkvæðagreiðslu um framkvæmdina, ef einhvern tímann kæmi til þess, að slík framkvæmd kæmist á dagskrá. Því hún er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar."
Þessi lesning er algerlega með ólíkindum frá ráðherra og er, frómt frá sagt, alveg út úr kú:
1) Réttindi neytenda verða fyrir borð borin á altari markaðsstýringar raforkuvinnslunnar. Í því kerfi er ein stefnumörkun öðrum framar: að hámarka tekjur orkubirgjanna.
2) Ef snuðri Landsreglarans verður ekki sinnt, getur hann lagt fésektir á viðkomandi fyrirtæki allt að 10 % af árlegri veltu.
3) Fyrir Íslendinga þýðir OP#3 sæstreng, svo að það er ekki undarlegt, að umræðan snúist um hann. Allur OP#3 snýst um millilandatengingar í Orkusambandi ESB.
4) Ef Alþingi samþykkir OP#3, tekst ríkisvaldið á hendur alvarlegar skyldur. Þær eru að sjálfsögðu ekki fólgnar í að leggja sæstreng, heldur að byggja upp alla innviði í landinu, sem nauðsynlegir eru fyrir sæstreng samkvæmt "Union List of Projects of Common Interest". Einnig verður um að ræða s.k. neikvæðar skyldur, sem verða fólgnar í að leggja engan stein í götu sæstrengslagnar. Að áskilja samþykki Alþingis fyrir tengingu sæstrengs við kerfi Landsnets er klárt brot á þessari skyldu samkvæmt OP#3 og verður brotið á bak aftur með vísun ESA til dóms ESB-dómstólsins í máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn Belgíu 2019 eða með skaðabótamáli frá sæstrengsfjárfesti.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.