12.10.2019 | 14:19
Af fylgisflótta og dusilmennum
Síðla septembermánaðar 2019 birtist skoðanakönnun MMR, sem ekki getur hafa verið uppörvandi fyrir stjórnarflokkana né fyrir ríkisstjórnina, sízt af öllu stærsta stjórnarflokkinn, sem mældist í sínu sögulega lágmarki slíkra fylgismælinga. Á því eru auðvitað skýringar, og minntist höfundur Reykjavíkurbréfs á þær 20.09.2019:
"Og svo er hitt augljóst, að eftir því sem flokkur verður ótrúverðugri sjálfum sér og tryggustu kjósendum sínum, gengur sífellt verr að ganga að þeim vísum. Það lögmál er einnig þekkt úr öðrum samböndum."
Þegar kjósendum stjórnmálaflokks finnst í hrönnum, að hann hafi svikið grunngildi sín og hundsað mikilvæg atriði í síðustu Landsfundarsamþykkt sinni, þá er voðinn vís fyrir framtíð flokksins, og hann getur þá breytzt úr breiðum og víðsýnum fjöldaflokki í sértrúarsöfnuð sérhagsmuna. Hver vill það ? Hvers vegna gerist það ? Mun annar stjórnmálaflokkur geta tekið við sem kjölfesta borgaralegra afla í landinu ?
Síðan skrifaði bréfritariinn:
"Villtir leiðsögumenn eru vandræðagemlingar",
í samhengi við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um skipun fyrstu dómaranna í Landsdóm. Furðu sætti vandræðagangur bráðabirgða dómsmálaráðherrans í því máli, hvort vísa ætti úrskurði Neðri deildar til Efri deildar dómsins, þótt Ísland sé ekki bundið að þjóðarétti að hlíta dómnum, heldur dómi Hæstaréttar Íslands, sem dæmt hafði þá þegar skipun að hálfu dómsmálaráðherrans þar á undan (S. Andersen) í dómaraembætti Landsréttar lögmæta með "áferðargöllum" þó.
Bráðabirgðadómsmálaráðherrann gerði þess vegna allt of mikið með dóm Mannréttindadómstólsins, sem auk þess orkar mjög tvímælis sjálfur. Það má heimfæra eftirfarandi orð ritara Reykjavíkurbréfs upp á málatilbúnað sama ráðherra í OP#3 ferlinu líka:
"Til eru þeir lögfræðingar, og það jafnvel í hópi þeirra, sem trúað er fyrir að kenna nýliðum fræðin, sem telja sig mega horfa framhjá grundvallaratriðum eins og því, hvort samningar, sem gerðir hafa verið fyrir landsins hönd, séu bindandi fyrir það eða ekki. Þegar samþykkt er, að landið skuli eiga þátttöku í samstarfi með hópi annarra ríkja, með því fortakslausa skilyrði, að niðurstöður hins yfirþjóðlega valds séu ekki bindandi fyrir það, er það grundvallaratriði, en ekki hortittur. Viðkomandi stofnun, t.d. Mannréttindadómstóllinn, samþykkti þá þátttöku Íslands, og þar með samþykkti hann skilyrðið."
Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn í janúar 1993 var það vitandi um ákvæði samningsins um, að það gæti og mætti synja samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis og þyrfti ekki að tilfæra neina sérstaka skýringu á því. Nú segja ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hins vegar við þing og þjóð, að þetta ákvæði sé ónothæft, því að það setji EES-samstarfið á hliðina. Þessi túlkun hefur enn ekki verið útskýrð með viðunandi hætti fyrir þjóðinni, og á meðan verður að líta svo á, að lögmæti EES-samningsins á Íslandi, og reyndar einnig í Noregi, hangi í lausu lofti. Strangt tekið þýðir þetta, að löggjafarvaldi íslenzka ríkisins hafi verið úthýst úr Alþingishúsinu við Austurvöll og til þess húsnæðis í Brüssel, þar sem Sameiginlega EES-nefndin er til húsa. Þessi staða er óviðunandi, og staða stjórnarflokkanna getur þar með varla styrkzt að óbreyttu.
"Óframbærileg og niðurlægjandi afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar í svokölluðu orkupakkamáli er sama eðlis. Augljóst er, að látið hefur verið undan hótunum, sem hvergi hefur þó verið upplýst um, hvaðan komu. Ríkisstjórnin sjálf viðurkenndi í raun, að hún lyppaðist niður fyrir hótunum um, að gerði hún það ekki, væri EES-samningurinn úr sögunni. Ekkert í samningnum sjálfum ýtti þó undir þá niðurstöðu !
En vandinn er sá, að þar sem þessi dusilmennska náði fram að ganga, er stjórnskipulegur tilveruréttur EES-samningsins að engu gerður. Þeir, sem fyrstir allra misstu fótanna í þessu máli, eru augljóslega algerlega vanhæfir til að leggja trúverðugt mat á stöðu EES-samningsins. Og breytir engu, þótt þeir hafi nú verið í heilt ár hjá Guðlaugi Þór við að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað hans."
Sjaldan hefur ein ríkisstjórn og eitt handbendi hennar fengið svo hraklega útreið í ritstjórnargrein Morgunblaðsins eins og getur að líta hér að ofan. Dusilmenni verður þar með grafskrift ríkisstjórnarinnar að óbreyttu, og stöðuskýrsla Björns Bjarnasonar og tveggja annarra lögfræðinga um EES-samninginn er algerlega ómarktækt plagg, af því að téður Björn hefur gert sig gjörsamlega vanhæfan til verksins með því að missa fótanna fljótlega í umræðunni um Orkupakka 3, og stunda þar að auki ómerkilegan og rætinn málflutning í anda fyrrum andstæðings síns í prófkjöri, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra. Fyrir vikið er umrædd stöðuskýrsla dæmd til að lenda á öskuhaugum sögunnar, og umræddur Björn hefur í þessum atgangi misst allan trúverðugleika.
Þess má geta, að í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla Menon Economics: "Norge, EÖS og alternative tilknytningsformer". Menon Economics er rannsóknar-, greiningar- og ráðgjafarfyrirtæki í skurðpunkti rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði og atvinnustefnumótunar, virt fyrirtæki, sem t.d. var valið ráðgjafarfyrirtæki ársins í Noregi 2015. Skýrslan er hnitmiðað 45 blaðsíðna rit, margfalt verðmætara og gagnlegra fyrir Íslendinga en skýrsla íslenzku lögfræðinganna þriggja á 301 bls., enda er í norsku skýrslunni fjallað hlutlægt um valkostina við EES-samninginn, sem vissulega eru fyrir hendi og eiga við um öll EFTA-ríkin.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að áhöld eru um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá. Í fjarveru stjórnlagadómstóls á Íslandi verður hægt að láta reyna á gjörðir Landsreglarans fyrir dómstólum og ekki ólíklegt, að það verði gert, þegar íþyngjandi ákvarðanir hans birtast almenningi.
Það er þó mjög íhugandi í ljósi kæruleysislegrar umgengni margra Alþingismanna við Stjórnarskrána (að láta hana ekki njóta vafans) að fela Hæstarétti jafnframt núverandi skyldum sínum hlutverk stjórnlagadómstóls. Þá gætu þingmenn skotið málum þangað á undan afgreiðslu máls, forseti lýðveldisins fyrir lagastaðfestingu sína og borgararnir eftir staðfestingu laga. Höfundur sama Reykjavíkurbréfs velti þessu fyrir sér:
"Nú hefur dómstólaskipunin breytzt, og álagið á Hæstarétt er orðið skaplegt, og gæti hann því auðveldlega tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls, sem væri að marki víðtækara en það, sem rétturinn hefur sinnt fram til þessa. Því væri hægt að gera aðgengi að því að fá slíkum spurningum svarað opnara en það er nú, þótt ekki sé verið að mæla með glannalegheitum í þeim efnum."
Það er þörf á formlegra hlutverki Hæstaréttar, þegar kemur að því að úrskurða um stjórnlagalega stöðu lagafrumvarpa og laga. Slíkt yrði til þess fallið að skera úr stjórnlagalegri óvissu. Skemmst er að minnast bosmamikillar umræðu mestallt þetta ár um OP#3, sem að talsverðu leyti snerist um það, hvort innleiðing OP#3, eins og ríkisstjórnin kaus að standa að henni, væri brot á Stjórnarskrá eður ei. Sama umræða mun örugglega koma upp, þegar OP#4 verður til umræðu, og jafnvel einstaka gerðir ESB, sem koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni þangað til, og þá yrði mikill léttir að því að geta skotið álitamálinu til Hæstaréttar, jafnvel áður en það fer fyrir Sameiginlegu EES-nefndina.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Fjölmiðlar | Facebook
Athugasemdir
Frábær grein hjá þér, Bjarni, dregur upp allar helztu línur staðreynda og málsatvika í þessari hryggilegu atburðarás, sem þó er ekki örvænt um, að snúa megi til baka. Góðir og réttlátir eru dómar þínir, og mikilvægum fróðleik kemurðu til skila úr Reykjavíkurbréfi (sem of fáir sjá í blaðinu, of fáir áskrifendur), og hún er góð í lokin þessi tillaga þaðan: að Hæstiréttur ætti að fá stjórnlagalegt álits- eða úrskurðar-hlutverk, úr því að enginn er hér stjórnlagadómstóllinn. En slíkur dómstóll er í ýmsum löndum hin þarfasta stofnun.
Jón Valur Jensson, 12.10.2019 kl. 15:10
Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur reynzt Þjóðverjum vel. Að fela Hæstarétti slíkt hlutverk er til þess fallið að draga úr réttaróvissu og að draga úr stjórnlagadeilum. Eftir samþykkt OP#3 sitjum við uppi með réttaróvissu, eins og Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst bentu á í álitsgerð sinni í vor. Það mundi létta róðurinn á Alþingi, ef þingmenn gætu með samþykki forseta þingsins (það verður að vera sía, svo að píratar og slíkir kónar sendi ekki spurningavaðal til Hæstaréttar) sent Hæstarétti fyrirspurn um lögmæti lagafrumvarps.
Þú veizt jafnvel og ég, Jón Valur, að fullveldisbaráttunni lýkur aldrei.
Bjarni Jónsson, 12.10.2019 kl. 21:43
Kærar þakkir fyrir þessa yfirferð Bjarni!
nú má eg víst ekki lika við greinar á blogginu eg sagði upp morgunblaðinu, þótti bara ekki margt áhugavert þar°,hefur breist mikið til hins verra. En Davíð stendur alltaf upp úr,RAUNGÓÐUR!!!
Greinarnar þínar færa manni alltaf von um að ljós eigi eftir að kvikna og hægt verði að snúa mesta KLÚÐRI Íslenska alþingisins við.
KV af Suðurlandi
Óskar Kristinsson, 13.10.2019 kl. 18:38
Það verður Óskar meðan við eigum þessa sem aldrei bregst heiðarleikinn og virðing á ættjörð sinni. Sjáðu svo alla stólpana î kommentakerfinu,enginn hefur roð við þeim.
Helga Kristjánsdóttir, 14.10.2019 kl. 00:09
Að mínu mati ber Morgunblaðið höfuð og herðar yfir aðra íslenzka fjölmiðla um þessar mundir, þótt fjárhagslega berjist það í bökkum, m.a. vegna skefjalausrar samkeppni ríkisins á fjölmiðlamarkaði með stuðningi úr ríkissjóði, sem skýtur skökku við samkeppnislöggjöfina íslenzku og reglur EES um jafnræði á markaði. Daglega finn ég margt áhugavert og læsilegt efni í Morgunblaðinu og mbl.is, en hið sama verður ekki sagt um alla miðlana. Útvarp Saga er þó vissulega í hópi þeirra, sem fræðandi er að fylgjast með. Þið eruð vonsvikin með frammistöðu Alþingis. Þannig er mörgum farið, en innan vébanda þingræðisins er hægt að breyta því. Morgunblaðið hefur t.d. verið afar gagnrýnið á Alþingi vegna afgreiðslu þess á OP#3. Ég ráðlegg þér, Óskar, að gerast áskrifandi Morgunblaðsins að nýju. Þar er gagnrýnin hugsun í heiðri höfð.
Bjarni Jónsson, 14.10.2019 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.