Íslenzkur sjávarútvegur er grundvöllur velmegunar í landinu

Af nýlegri umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið íslenzka mætti ætla, að sumir stjórnmálamenn líti á sjávarútveginn sem leikvöll sinn (eða kannski vígvöll ?). Sporin hræða mjög í þeim efnum.  Affarasælla er að líta á sjávarútveginn, veiðar, vinnslu og markaðssetningu, sem vettvang einkaframtaks, sem hafi það hlutverk að hámarka sjálfbæra atvinnusköpun um allt land og sömuleiðis að hámarka verðmætasköpun úr lífríki hafsins. 

Sjávarútveginum er spáð miklum vexti, en rekstur hans er reyndar undirorpinn meiri óvissu en rekstur flestra greina, því að afkoman veltur að miklu leyti á duttlungum náttúrunnar, og þróun lífríkis hafsins getur tekið óvænta stefnu í nánustu framtíð, eins og reyndar oft áður. 

Í "Á bak við yztu sjónarrönd", riti útgefnu af "Íslenzka sjávarklasanum", eru samt settar fram spár um aukningu veltu veiða og vinnslu úr mrdISK 300 árið 2019 í mrdISK 444 árið 2029 (48 % aukning á 10 árum) og í mrdISK 657 árið 2039 (119 % aukning á 20 árum).  Hvernig er þessi bjartsýna spá rökstudd ?

Til að skýra það skal vitna í 200 mílur Morgunblaðsins, 4. desember 2019:

"Þór Sigfússon er stofnandi íslenzka sjávarklasans og einn af höfundum ritsins.  Hann segir vöxt í veiðum og vinnslu m.a. skýrast af því, að vænta má verulegra hækkana á fiskverði á komandi áratugum í takti við fólksfjölgun í heiminum og vaxandi kaupmátt neytenda í öllum heimshlutum.  Þá megi reikna með, að íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki láti að sér kveða erlendis og taki t.d. þátt í verkefnum af ýmsum toga í Evrópu og Bandaríkjunum.  Sjávarklasinn spáir hins vegar hlutfallslega meiri vexti í fiskeldi og áætlar, að þar aukist veltan nærri sautjánfalt á næstu 20 árum."

Í fyrra hækkaði fiskverð erlendis á mörkuðum íslenzkra fyrirtækja meira en sem nemur fólksfjölgun og hækkun kaupmáttar þar.  Það eru fleiri kraftar en þessir, sem styðja við spádóm Sjávarklasans. Í fyrra gekk mikil svínapest, og skáru Kínverjar niður meira en helming síns svínastofns.  Þeir herða ekki sultarólina að sama skapi, heldur auka innflutning á matvælum, ekki sízt fiskmeti, enda hefur það jákvæða umhverfisímynd og hollustuyfirbragð.  Ekki er ólíklegt, að kolefnisspors vottaðra matvæla verði getið á umbúðum eða í kjöt- og fiskborðum verzlana, og þar mun fiskmetið standa sterkt að vígi í samanburði við margt kjötmeti. Á sama tíma fer framboð villts fiskmetis þverrandi vegna breytinga í hafinu og ofveiði. Afli fiskveiðiflota ESB-ríkjanna minnkaði 2019 m.v. 2018, en eftirspurnin jókst, svo að dæmi sé tekið.  Þetta olli yfir 30 % verðhækkun í evrum talið.  Það er mjög mikið á einu ári og mun ganga til baka, ef framboðið nær fyrri mörkum. 

Sjávarútvegurinn er stundaður út frá útgerðarstöðum í öllum landshlutum hérlendis.  Vöxtur og viðgangur hans mun efla landsbyggðina, góðu heilli, og styrkja jafnframt viðskiptajöfnuð landsins, gengi ISK og þar með hag allra landsmanna.  Dreifing veltunnar er um allt þjóðfélagið, eins og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, gaf ágætt yfirlit um að gefnu tilefni í grein í Fréttablaðinu, 10. janúar 2020, sem hét:

"Slóð makrílmilljarða rakin".

Þar vísar hann í Fréttablaðsgrein sína 18. desember 2019, þar sem hann áætlaði, "að meðalverð hvers útflutts kílós af makríl hefði numið 130 kr/kg."  Síðan segir:

"Sé skattspor KPMG fyrir Vinnslustöðina yfirfært á íslenzkan sjávarútveg í heild, er skipting útflutningsverðmætis makríls [árin 2006-2018] sýnd í töflu, sem greininni fylgir."

Töfluna birti Sigurgeir til að sýna, að Kári Stefánsson, læknir og frumkvöðull á sviði erfðavísinda, óð reyk, er hann illkvittnislega sáði fræjum tortryggni í garð útgerðarmanna og vændi þá um að stela  frá íslenzka þjóðarbúinu, eins og eftirfarandi tilvitnun í grein Sigurgeirs Brynjars sýnir: 

"Kári birti hér í Fréttablaðinu grein 3. desember [2019] undir fyrirsögninni Landráð ? og taldi líklegt, að útgerðarmenn hefðu stolið 300 milljónum króna af verðmæti makríls af íslenzkri þjóð.  Ég sýndi fram á það með rökum hér á sama vettvangi 18. desember, að sú þjófnaðarkenning stæðist enga skoðun." 

Þeir, sem slá sér á brjóst, uppfullir af heilagri vandlætingu yfir framferði útgerðarmanna og ýja jafnvel að landráðum í því sambandi án þess að hafa krufið málin til mergjar, eru greinilega í einhvers konar krossferð gegn núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og telja sig um leið koma höggi á hóp útgerðarmanna, sem þeir meðhöndla sem þjóðaróvini og sérhagsmunaseggi. Hér er verið að draga upp útlínur sýndarveruleika, sem ætlað er að gagnast í áróðursstríði, en mun hitta þessa ofstækisfullu hatursmenn fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir sem bjúgverpill, þegar þeir verða krafðir um valkostina. Að því verður vikið betur í þessum vefpistli, en næst er að skoða makríltöflu Sigurgeirs Brynjars:

  •                mrdISK   %    Skipting 130 ISK/kg
  • Alm. rekstrark.   88   44      57
  • Laun starfsf.     37   18      24
  • Skattar & lífsj.  47   24      31
  • Afkoma VSV        17    9      11
  • Fjármögnun        10    5       7
  • _______________________________________________
  • Samtals          200  100     130     
 
Stærsti liðurinn, almennur rekstrarkostnaður, er orkukostnaður, kostnaður viðhalds og viðgerða, löndunarkostnaður og útflutningskostnaðurn, nemur 44 %. Næst stærsti útgjaldaliðurinn fer til hins opinbera og samtryggingar okkar í lífeyrissjóðunum, 24 %, og þá koma laun starfsmanna, 18 %. Sá liður, sem hælbítar útgerðarmanna fjargviðrast mest út af, án þess að hafa vit á útgerð, er afkoman.  Hún er í þessu tilviki 11 ISK/kg af þessum 130 ISK/kg, sem fengust að jafnaði fyrir makrílinn, eða 9 %. Hún gengur til afborgana af lánum, til nýfjárfestinga og til arðgreiðslu.  Með sanngirni og samanburði við fyrirtæki utan sjávarútvegs er ekki hægt að halda því fram, að 9 % sé hátt hlutfall fyrir allt þetta.
 
Þetta sýnir, að það er engin auðlindarenta í þessum makrílveiðum.  Þá væri afkoman betri en í öðrum greinum atvinnulífsins.  Það er eins og mörgum finnist útgerðarmenn vera forréttindastétt, sem græði óeðlilega á eign þjóðarinnar, aflahlutdeildum í nytjastofnum við Ísland, sem þeir hafi þegið að gjöf frá ríkinu.  Allt er þetta öfugsnúið í meira lagi, því að útgerðarmenn hafa fjárfest í dýrum búnaði til að nýta stofnana, og langflestir þeirra hafa keypt þessar aflahlutdeildir á frjálsum markaði. Ríkið getur ekki hirt þær af þeim si svona á pólitískum forsendum. Það væru kommúnistískir stjórnarhættir.
Þeir gerðu, það sem ríkisvaldið ætlaðist til af þeim á sinni tíð, kvóti gekk kaupum og sölum og útgerðarmönnum og fiskiskipum fækkaði, svo að hallarekstri var snúið í hagnað í sjávarútveginum sem heild.
Íupphafi (1983) var aflahlutdeildum úthlutað á grundvelli veiðireynslu til þeirra, sem þá stunduðu útgerð. Þetta var aðferð, sem Alþingi samþykkti eftir mikla umfjöllun.  Enginn á óveiddan fisk í sjó, en íslenzka ríkið hefur hins vegar óskoraðar stjórnunarheimildir og gjaldálagningarheimildir á miðunum samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögunum og hefur góðu heilli falið Hafrannsóknarstofnun ráðgjöfina og fylgt henni í seinni tíð, en verið ærið mislagðar hendur með gjaldaálagninguna og fjármögnun Hafró. Er ámælisvert, að fjármögnun Landhelgisgæzlunnar og Hafrannsóknarstofnunar skuli skuli vera ábótavant þrátt fyrir nægt fé fyrir veiðileyfin frá útgerðunum til að fjármagna þessar grundvallar stofnanir sómasamlega.   
 
Lok tilvitnaðrar greinar Sigurgeirs Brynjars voru þannig:
""Skylt er að hafa það heldur, er sannara reynist", sagði Ari fróði forðum.  Hér liggur sem sagt fyrir gróflega áætluð skipting tekna af makrílveiðum Íslendinga.  Á grunni talna, en ekki sögusagna eða rakalausra fullyrðinga, geta nú Kári Stefánsson og aðrir rökrætt, hvað teljist "sanngjarn hlutur" hvers og eins.  Þá vænti ég þess, að áframhaldandi blaðaskrif hans byggist á þeirri vísindalegu aðferðafræði, sem fleytt hefur honum í hóp færustu vísindamanna heims."
 
 Á það hefur skort, að gagnrýnendur sjávaútvegsins íslenzka bentu á fýsilegri kosti en núverandi kvótakerfi. Á meðan sú staða er uppi, missir gagnrýnin marks. Þar eru mest áberandi gamlar lummur og afdankaðar stjórnunaraðferðir fyrir þessa mikilvægu auðlind. Allt er þetta óboðlegt.  Aðallega er bent á tvær aðferðir:
  1. Að færa byggðunum (sveitarstjórnum, bæjarstjórnum) kvótann.  Kerfi bæjarútgerða var aflóga, þegar kvótakerfið var samþykkt á Alþingi 1983.  Bæjarútgerðir voru reknar með dúndrandi tapi, enda hvernig á annað að vera ?  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að stjórnmálamenn hafi meira vit á útgerð en meðallandkrabbi.  Að setja slíkt fólk yfir útgerðirnar er ávísun á ófaglegan, óskynsamlegan og óskilvirkan rekstur, sem mun enda sem baggi á byggðarlögunum og þjóðhagslegt tap upp á tugi milljarða ISK á ári hverju. Það tap er af slíkri stærðargráðu, að það mun verða dragbítur á hagvöxt og rýra lífskjör allra landsmanna til muna.  
  2. Uppboðskerfi veiðiheimilda.  Samfylking og Viðreisn hafa talað fyrir þessu kerfi á Alþingi, en hætt er við, að ESA-Eftirlitsnefnd EFTA með framkvæmd EES-samningsins muni krefjast þess, að slíkt uppboð fari fram á öllum EES-markaðinum, eins og krafan hljómar frá ESA/ESB um uppboð virkjanaleyfa fyrir vatnsorkuver innan EES.  Sannleikurinn er sá, að þetta fyrirkomulag hefur alls staðar gefizt illa, þar sem það hefur verið reynt, og það hefur verið aflagt eftir misstuttan tíma, þar sem það hefur leitt til samþjöppunar, þ.e. fækkunar útgerða, og aukinnar skammtíma hugsunar fyrirtækjanna, sem hafa veikzt og orðið að minnka nauðsynlegar fjárfestingar í nýjustu tækni.  Dæmi eru Eistland og Rússland og nú síðast Færeyjar.  Hér að neðan er byrjun á frétt úr Fiskifréttum, 9. janúar 2020:

"Færeyingar hætta að bjóða upp kvóta":

 

"Veiðiheimildir hafa að hluta verið boðnar upp á opinberum markaði í Færeyjum undanfarin ár.  Frá þeirri leið verður nú horfið.

Færeyska lögþingið samþykkti stuttu fyrir áramót breytta fiskveiðistjórnunarlöggjöf.  Þar er m.a. fallið frá uppboðsleiðinni, en hún fól í sér, að 15 % uppsjávarkvóta og 15 % botnfiskkvóta í Barentshafi hafa verið boðin upp á opinberum markaði.

Áfram verður sóknardagakerfi í gildi um botnfiskveiðar í færeyskri lögsögu, en veiðileyfakerfið notað sem fyrr í uppsjávarveiðum og veiðum á fjarlægum slóðum."

Sjávarútvegi, eins og öðrum atvinnugreinum, hlýtur að vera bezt fyrir komið þannig, að verðmætasköpun hans með sjálfbærum hætti verði í hámarki.  Þannig verður hagur landsmanna sjálfra bezt tryggður. Til að réttlæta umbyltingu stjórnkerfis, sem í heildina hefur reynzt vel og er horft til sem fyrirmyndar sums staðar erlendis, þarf að sýna fram á yfirburði annars kerfis með gildum rökum og helzt vitna til reynslu annarra.  Erlendis er slík fyrirmynd ekki til, enda hefur engum tekizt að sýna fram á, að annað fyrirkomulag hérlendis en núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé þjóðhagslega hagkvæmara. 

Hópur manna stendur á hliðarlínunni og hrópar, að skipting teknanna af sjávarútvegsfyrirtækjum sé ósanngjörn.  Dæmið hér að ofan um makrílinn bendir ekki til, að svo sé, en sínum augum lítur hver á silfrið.  Þegar stjórnmálamenn fara að krukka í tekjuskiptinguna, er sú afskiptasemi oftast til bölvunar, þ.e. til þess fallin að draga úr verðmætasköpun greinarinnar og þar með úr hagvexti á landsvísu í tilviki sjávarútvegsins.

Dæmi um þetta er s.k. veiðileyfagjald.  Hugmyndafræðin að baki því er, að fyrirtæki, sem sækja hráefni í greipar náttúrunnar, búi við minni tilkostnað en hin, sem kaupa hráefni sitt á markaði, og þess vegna verði hagnaður hinna fyrrnefndu meiri en hinna, sem þá þurfi að jafna (með skattheimtu) til að gæta réttlætis.  Mismuninn, s.k. auðlindarentu, eigi ríkisvaldið með öðrum orðum rétt á að hirða. Gallinn við þessa kenningu er tvíþættur:

  Hún er fjarri því að vera algild, og t.d. hefur, að því bezt er vitað, enn engum tekizt að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi, og styður makríldæmið hér að ofan þá ályktun, að hún sé þar ekki fyrir hendi.  Þá virkar auðlindagjald á sjávarútveginn sem hver önnur viðbótar skattheimta, og slík dregur alltaf úr verðmætasköpun og nýsköpunarkrafti og veikir samkeppnishæfnina í bráð og lengd um fé, fólk og markaði.  Það er vegna þess, að fjárfestingargeta fyrirtækjanna minnkar með aukinni skattheimtu, og þar með hægir á tækniþróun, sem er grundvöllur aukinnar skilvirkni á öllum sviðum, og fyrirtækin eiga á hættu að dragast aftur úr samkeppnisaðilunum.

Hinn gallinn við auðlindagjald á íslenzka sjávarútveginn er einmitt sá, að það tíðkast yfirleitt hvergi, nema á Íslandi og í Færeyjum, heldur þvert á móti nýtur sjávarútvegur víðast hvar ríkisstyrkja á mismunandi formi, meira að segja í Noregi, sem Ísland keppir við á ýmsum fiskmörkuðum. Stærstu útgerðarfyrirtæki Noregs eru þó talsvert stærri en þau stærstu hérlendis, enda má aflahlutdeild þeirra í hverri tegund verða hlutfallslega meira en tvöfalt stærri (25 %) en hér (12 %), og í heildina eru umsvif (velta) norsks sjávarútvegs a.m.k. þreföld á við umsvif hins íslenzka.  

Að tala, eins og sumir stjórnmálamenn tala hér um veiðileyfagjaldið, að það sé sérstakt réttlætismál fyrir landsmenn í ljósi fiskveiðistjórnunarlaganna að hækka gjaldið verulega, er í raun ekkert annað en að saga í sundur greinina bolmegin við okkur öll, sem á henni sitjum.  Talið er helbert lýðskrum, sem auðvelt er að sjá í gegnum.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband