Syrtir í álinn

Nú fara saman minnkandi hagvöxtur á alþjóðavísu og á Íslandi.  Greiningardeildir hérlendar í viðskiptabönkunum og Seðlabankinn voru í fyrra of bjartsýn um efnahagshorfur hérlendis 2020. Fyrir þremur mánuðum spáði Seðlabankinn 1,6 % hagvexti hérlendis í ár, en nú spáir hann aðeins 0,8 % hagvexti, sem er ávísun á vandræði margra fyrirtækja og mikið atvinnuleysi á íslenzkan mælikvarða. Veiran CoV-1-19 mun að öllum líkindum keyra hagkerfi heimsins í kreppuástand, og sumir spá lausafjárþurrð á borð við fjármálakreppuna 2007-2008. 

Það eru í meginatriðum 3 ástæður fyrir líkum á samdrætti íslenzka hagkerfisins, þótt verstu áhrifum veirunnar sé sleppt.  Í fyrsta lagi sveiflur í lífríki hafsins, t.d. minni uppsjávarafli, en aukning þorskveiða og hækkun á verði fiskafurða í erlendri mynt ásamt framleiðsluaukningu fiskeldisins hafa reyndar sveiflazt í hina áttina til útjöfnunar.

Í öðru lagi er minnkandi hagvöxtur í heiminum og áframhaldandi kreppuhætta í Evrópusambandinu (ESB) og Japan með stýrivexti þar niðri við 0 og skuldabréfakaup seðlabankanna.  Nýja kórónaveiran, CoV-1-19, sem upp gaus í Kína í desember 2019 og varð að skæðum faraldri þar mánuði seinna, hefur alla burði til að setja Kína, annnað stærsta hagkerfi heims, á hliðina, og hún hefur þegar borizt til Vesturlanda.  Tölur um sýkta og látna frá Kína eru tortryggilegar.  Opinberar tölur um dánarhlutfallið hélzt lengi vel fast frá degi til dags, 2,1 %, sem vekur grunsemdir um, að það kunni að vera miklu hærra, og fréttir frá Taiwan (Formósu) lúta að því.  Til að gera sér grein fyrir raunverulegu hlutfalli dauðsfalla þarf að reikna hlutfall látinna sem hlutfall af sýktum á sama tíma og hinir látnu.  Þá fæst fimmfalt ofangreint hlutfall, sem setur þessa veiru í flokk, sem er miklu skæðari en spænska veikin 1918-1919, en þá veiktust 63 % íbúa í þéttbýli, og af þeim létust 2,6 %. Þessi óáran hlýtur að hafa mjög neikvæð, tímabundin áhrif á ferðaiðnaðinn í heiminum. Nú sést varla kínverskur ferðamaður á götum Reykjavíkur. 

Þriðja ástæða kólnunar íslenzka hagkerfisins í fyrra kom fram í Baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020,

"Hagvöxtur helmingi minni í ár en fyrri spá gerði ráð fyrir".

Vitnað var í fund á vegum Seðlabanka Íslands, SÍ, daginn áður:

"Í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings SÍ, á kynningarfundi í gær kom fram, að útflutningur vöru og þjónustu hefði dregizt saman í fyrra um 5,8 %, og væri það mesti samdráttur frá árinu 1991.  Þá gerir bankinn ráð fyrir, að enn muni [útflutningurinn] draga[st] saman sem nemi 1,4 % í ár.  Gangi sú spá eftir, er það í fyrsta sinn, sem samdráttur mælist samfellt í 2 ár frá árunum 1991-1992."

Þessi rýrnun útflutningstekna landsins stafar að langmestu leyti af færri millilendingarfarþegum og komufarþegum til landsins. Að einhverju leyti stafar þetta af gjaldþroti VOW-air, en þó virðist nægt framboð flugsæta til landsins, enda flugfélögin um 25, sem hingað fljúga.  Ferðamönnum til hinna Norðurlandanna fjölgaði í fyrra, svo að ástæða fækkunar hingað er að mestu leyti hátt verðlag. Eftir er að taka áhrif Kína-faraldursins CoV-1-19 með í reikninginn, en þau verða mikil, ef spá faraldursfræðinga um, að 60 %-80 % jarðarbúa smitist af þessari veiru í ár, rætist, og minni álútflutningur og lækkandi álverð eru heldur ekki þarna meðreiknuð. 

Samkeppnishæfni landsins hefur dalað eftir Lífskjarasamningana, sem þýðir, að þeir voru of dýrkeyptir, a.m.k. fyrir fyrirtæki, þar sem stór hluti starfsmanna er í neðri hluta launastigans.  Það á einmitt við um ferðamannaiðnaðinn.  Verkefni ríkisvaldsins er að leggja drögin að endurheimt samkeppnishæfninnar, en það eru engin teikn á lofti um það, nema yfir Svörtuloftum, og þaðan berast þó blendin boð vegna gamallar ákvörðunar FME, sem nú er stjórnað af Svörtuloftum, um aukna eiginfjárbindingu viðskiptabankanna. 

Að starfsmenn hjá hinu opinbera skuli nú berjast með kjafti og klóm fyrir meiri hækkunum launa en kveðið er á um í téðum Lífskjarasamningum, er atlaga að þanþoli hagkerfisins og lýsir einhvers konar sjálfstortímingarhvöt og/eða veruleikafirringu, nema hér sé um gamalkunna stéttabaráttu eða hreinræktaða skemmdarverkastarfsemi í anda Marx og Leníns að ræða.  Þeir, sem nú skekja sverðin framan í atvinnurekendur, verða að sjá að sér, slíðra þau og sæta betra færis en nú er, þegar hagkerfið riðar til falls vegna fallandi útflutningstekna. Á hinum Norðurlöndunum væri þessi uppákoma útilokuð.  

Baldur Arnarson birti 5. febrúar 2020 opnuviðtal í Morgunblaðinu við Sigurð Hannesson, sem gerir sér grein fyrir vandanum, og hvað þarf að gera.  Kostnaður fyrirtækjanna er of hár, launakostnaðurinn er sá hæsti innan OECD sem hlutfall af verðmætasköpun þeirra.  Við þessu er brugðizt með aðgerðum til að auka skilvirkni fyrirtækjanna og framleiðni vinnuaflsins.  Afleiðingin er uppsagnir starfsfólks og aukið atvinnuleysi, en það eru fleiri kostnaðarþættir, sem hafa hækkað, t.d. raforkan. 

Það er alveg stórfurðulegt og algert sjálfskaparvíti í ljósi þess, að yfir 90 % raforkugeirans er í opinberri eigu, og hagnaður fyrirtækjanna er meiri en nokkru sinni fyrr.  Hið opinbera verður að sýna þá ábyrgðartilfinningu í þessari stöðu að birta stjórnum þessara fyrirtækja þá eigendastefnu að setja samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs ofar á forgangslistann en arðgreiðslur til eigendanna.  Slík eigendastefna yrði öllum landsmönnum að gagni og felur ekki í sér mismunun viðskiptavina, á meðan landið er ótengt innri markaðinum fyrir raforku. Þetta er alls engin niðurgreiðsla rafmagns, eins og þó virðist vera stunduð í samkeppnislöndum okkar, enda skulu allar virkjanir reknar með hagnaði. Flutnings- og dreififyrirtækin þarfnast væntanlega tímabundins fjárhagslegs stuðnings vegna átaksþarfar nú á framkvæmdasviðinu án hækkunar gjaldskráa.

Opnuviðtalið bar þessa fyrirsögn: 

"Það er óveðursský yfir Íslandi".

Úrdrátturinn hljóðaði þannig:

"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hagkerfið á krossgötum.  Ef ekki verður gripið til aðgerða, sé hætta á stöðnun í verðmætasköpuninni.  Bezta leiðin til að snúa vörn í sókn sé að styrkja samkeppnishæfni landsins og ráðast í uppbyggingu innviða."

Sigurður ræddi um orkuverðið út frá hagsmunum iðnaðarins, en ítreka ber, að hátt orkuverð skerðir samkeppnishæfni alls athafnalífs, og það er útilokað, að íslenzkt atvinnulíf verði samkeppnishæft við evrópskt atvinnulíf með hærra einingarverð rafmagns í heild (raforka, flutningur, dreifing) en virðist nú vera við lýði t.d. í Noregi, Danmörku og Hollandi (ylrækt), að teknu tilliti til niðurgreiðslna í þessum EES-löndum.

Undir fyrirsögninni:

"Orkuverð skerðir samkeppnishæfni",

gaf þetta á að  líta:

"Sigurður telur rétt, í samhengi við, að blikur séu á lofti í hagkerfinu, að víkja að áhrifum raforkuverðsins á iðnaðinn:

"Orkusækinn iðnaður hefur skipt miklu máli fyrir hagkerfið.  Það var pólitísk ákvörðun á 7. áratugnum að stofna Landsvirkjun, ráðast í uppbyggingu slíks iðnaðar og fá stóra viðskiptavini til landsins.  Þessi uppbygging á mikinn þátt í, að lífskjör hér á landi eru jafngóð og raun ber vitni", segir Sigurður. Máli sínu til stuðnings vísar hann til þeirrar niðurstöðu SI, að framlag álframleiðslu til verðmætasköpunar í hagkerfinu nemi um mrdISK 1150 frá gangsetningu álversins í Straumsvík 1969, eða sem samsvari um 40 % af [núverandi] landsframleiðslu [á ári]."

 

""Þetta hefur því verið vel heppnuð vegferð og skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum.  Á síðustu árum hafa gagnaver orðið mikilvægur kaupandi raforku.  Það er hins vegar engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn, og það á líka við um virðiskeðjuna.  Þótt einn hlekkur í keðjunni hámarki sinn styrk, dugar það skammt, ef aðrir hlekkir eru við það að liðast í sundur", segir Sigurður og vísar til hámörkunar á arðgreiðslugetu Landsvirkjunar."

Frá sjónarmiði ríkisins, sem á Landsvirkjun, er það beinlínis óskynsamleg og óhagstæð stefna, sem tekin var upp hjá Landsvirkjun árið 2010 án umræðu á Alþingi, að stórhækka verð á afurð fyrirtækisins, sem eru aðföng þeirra fyrirtækja, sem verðmæti skapa úr orkunni.  Þjóðhagslega er hagkvæmara að skapa grundvöll fyrir samkeppnishæfri framleiðslu í landinu með því að vinna upp það óhagræði, sem felst í framleiðslu á Íslandi miðað við hagstæðustu staðsetningar í Evrópu.  Ísland á ekki að verða hráefnisland, heldur framleiðslu- og úrvinnsluland, sem hámarkar verðmætasköpunina.  Það verður þegar í stað að móta orkufyrirtækjunum þessa eigendastefnu, sem þýðir, að verðlagning raforkunnar ætti að vera sveigjanleg og háð skráðu markaðsverði á afurðum  útflutningsfyrirtækja í hópi viðskiptavinanna.

"Lengi vel tryggði orkuverðið hér á landi samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar.  Þróunin undanfarinn áratug er hins vegar sú, að orkuverðið hér hefur hækkað á sama tíma og orkuverð erlendis hefur heldur lækkað. Þannig að samkeppnishæfnin er ekki sú, sem hún var.  Nú má auðvitað deila um, hvort bilið í orkuverðinu milli landa var allt of mikið, en þetta er í öllu falli staðan núna."

 Í upphafi var raforkuverðið ákvarðað þannig, að það stæði undir kostnaði við Búrfellsvirkjun, sem var afar hagstæð, og 220 kV línur frá henni til þéttbýlisins á SV-landi (höfuðborgarsvæðinu) ásamt gasolíuknúinni neyðarrafstöð í Straumsvík, sem einnig þjónaði höfuðborgarsvæðinu fyrst í stað.  Þetta var gert til að draga hingað fjárfesta í orkukræfum iðnaði.  Síðan var nokkrum sinnum samið um hækkun raforkuverðs til fyrstu verksmiðjanna í Straumsvík og á Grundartanga, og var það ætíð í góðu samkomulagi á milli aðila, enda hafði afhendingaröryggið og þar með gæði raforkunnar tekið stakkaskiptum frá sokkabandsárum Búrfellsvirkjunar.

Samkomulag var um, að raforkuverð til álveranna tæki mið af skráðum alþjóðlegum markaðsverðum áls.  Með því vannst, að álverin mundu geta haldið áfram fullri framleiðslu, þótt í móti blési á mörkuðum, og þyrftu hvorki að fækka starfsmönnum né að draga úr orkukaupum sínum.  Þegar kom að gerð nýs raforkusamnings 2010 við ISAL, var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn hjá Landsvirkjun, sem heimtaði afnám verðtengingar við álmarkaðina, en hins vegar aðra vísitölutengingu, sem er óskyld afkomu bæði álframleiðenda og orkuvinnslufyrirtækja.  Þetta reyndist illa, en fjárfestir í álveri er landfræðilega bundinn sinni fjárfestingu, og á þess vegna óhægt um vik, nema verksmiðjan sé talin afskrifuð.  Svo háttar ekki til í Straumsvík. Á afarkosti Landsvirkjunar var fallizt, en þegar markaðsaðstæður þróast á verri veg, eins og raunin hefur orðið vegna feiknarlegrar aukningar á framleiðslugetu Kínverja á áli, þá dregur slíkt dilk á eftir sér.

Það mætti hugsa sér aðra og fjölbreytilegri tengingu raforkuverðs til stórnotenda við alþjóðlegar vísitölur, sem varða bæði viðskiptavininn og birginn, t.d. að hluti raforkuverðsins verði tengdur alþjóðlegri vísitölu afurðaverðsins og hluti við alþjóðlega vísitölu orkuverðs, t.d. olíuverðs, en vitað er, að fylgni er á milli raforkuverðs í heiminum og olíuverðs.  Við slíkt ættu aðilar beggja vegna borðs að geta sætt sig í bráð og lengd. 

"Hyggjast samtök iðnaðarins beita sér fyrir því, að orkuverðið lækki ?  "Nei, það gerum við ekki, en við erum að segja, að við verðum að vera samkeppnishæf á öllum sviðum.  Það yrði auðvitað áfall, ef kaupendur að orkunni myndu frekar sjá sér hag í því að hætta starfsemi hér á landi en að halda henni áfram.  Áhrifin af því yrðu mikil", segir Sigurður.  Telur hann raunhæfar líkur á, að stórnotendur raforku hætti starfsemi hér á landi á næstu árum."

SI er auðvitað ekki samningsaðili, en mjög mikilvægur ráðgjafi fyrir félaga sína og stjórnvöld.  Það hljóta að blikka rauð ljós núna á skrifstofu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og orkuráðherra m.m., þegar framkvæmdastjóri SI telur raunverulega hættu á, að hluti orkukræfrar starfsemi hérlendis, sem Sjálfstæðisflokkurinn barðist farsællega fyrir að fá til landsins á sinni tíð, leggi senn upp laupana.

"Ég verð að segja það hreint út, að ég er mjög ósammála þeim málflutningi Landsvirkjunar, að orkuverð hér á landi sé mjög samkeppnishæft á sama tíma og stórir viðskiptavinir félagsins eru annaðhvort að draga úr framleiðslu eða kjósa að byggja upp starfsemi í öðrum löndum.  Viðbrögð fyrirtækjanna styðja ekki þennan málflutning Landsvirkjunar, sem vísar alltaf til meðalverðs á raforku.  En eins og réttilega hefur verið bent á, stendur engum til boða að kaupa á meðalverðinu.  Það er eðli slíkra meðaltala, að í þýðinu eru sumar tölur hærri og aðrar lægri."

[Undirstr. BJo.]

Dr Sigurður Hannesson fer ekki með neitt fleipur.  Orð hans tala skýru máli um það, að Landsvirkjun hefur neytt einokunaraðstöðu sinnar í samningum um raforkuviðskipti við fyrirtæki með útrunna stórsamninga og farið offari í verðlagningu á afurð náttúruauðlinda Íslands, þótt sanngirnissjónarmið og heilbrigð skynsemi standi til að gæta meðalhófs með atvinnuöryggi og gjaldeyrissköpun að leiðarljósi. Ríkisstjórnin verður að hrista af sér hlekkina og leiðrétta þetta villuráf Landsvirkjunar, og Alþingi, þar sem fulltrúar eigendanna sitja, þarf að ýta henni til verka.  Það verður einfaldlega síðan að sjá til, hvort Landsreglarinn gerir einhverjar athugasemdir við þá framgöngu í nafni ACER (Orkustofnunar ESB). Það er þó enginn að ætlast til niðurgreiðslna af hálfu ríkisins á raforkuverðinu, enda samrýmist slíkt engan veginn samkeppnisreglum Innri markaðar EES.   

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband