Bölmóður "Besserwisser"

Það er stórfurðuleg fullyrðingagirni, sem gætir hjá sumum "beturvitum", um atvinnustarfsemi, sem þeim virðist vera mjög mjög í nöp við, en hafa þó sáralítið vit á.  Á þetta benti skarpur, en þó ekki óskeikull (frekar en aðrir), pistilhöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, 31. október 30. janúar 2020, í pistlinum:

"Bölmóður spámaður, álskallinn & orkubúskapur".

Upphaf pistilsins gaf tóninn:  

"Óðinn undrast það reglulega, hve sumir þeir, sem búa á þessari litlu, afskekktu eyju [svo ?], eru iðnir við að tala hagsmuni fólksins í landinu niður. Veitir eyjarskeggjum þó varla af uppörvun nú eða bara áminningu um staðreyndir málsins: að landið er fagurt og frítt, þjóðin hugmyndarík og harðdugleg og að hún hefur náð einstæðum árangri við að þrífast, eflast og að auðga mannlífið þrátt fyrir fásinnið, erfið búsetuskilyrði og óblíð náttúruöfl.  

Það hefur ekki sízt gerzt með aukinni, en ábyrgri nýtingu náttúrugæða landsins, sem vísindi og verkþekking hafa á innan við einni og hálfri öld fært Íslendinga úr hópi fátækustu þjóða í röð þeirra, þar sem almenn velmegun er mest í heimi."

Þarna kemst Óðinn á skáldlegt flug, en sannleikurinn er sá, að úrtölumenn framfaranna hafa á öllum tímum reynt að láta að sér kveða, en undir mismunandi formerkjum og í ólíkum gæruskinnum.  Eftir fólksflutningana miklu úr sveitum landsins og "á mölina" á sjö fyrstu áratugum 20. aldarinnar, skapaðist atvinnupólitískur grundvöllur fyrir því að stofna til stóriðnaðar í grennd við þéttbýli, sem knúinn væri af virkjaðri orku vatnsfalla.  Landsmenn höfðu hins vegar hvorki næga þekkingu þá né fjárhagslegt bolmagn til að reisa slík mannvirki, og erfitt reyndist að finna fúsa áhættufjárfesta til að ríða á vaðið. 

Viðreisnarstjórninni undir forystu dr Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafstein tókst þetta samt á tímabilinu 1960-1966, en mættu þó feiknarlegu pólitísku moldviðri þeirra, sem töldu eða létu sem erlendar fjárfestingar væru tilræði við sjálfstæði landsmanna.  Þessi áróður var runninn undan rifjum kommúnista, sem skildu ekki, að landsmenn þurftu á að halda erlendu fjármagni og þekkingu fyrir sjálfbæra verðmætasköpun og að hún er undirstaða fjárhagslegs og þar með pólitísks sjálfstæðis landsins.

Nú hefur landsmönnum vaxið fiskur um hrygg, og þeir eru fyrir löngu færir um að hanna og reisa sjálfbærar virkjanir á eigin spýtur og að reka stóriðnað í fremstu röð, og íslenzka ríkið hefur jafnvel bolmagn til að eignast meirihluta í fyrirtæki um stóriðjurekstur á borð við Norsk Hydro, eins og norska ríkið, en það er hins vegar ekki minnsta vitglóra í að festa skattfé í svo áhættusömum rekstri.  Þess vegna var upprunaleg stefnumörkun ríkisins um að hafa öruggar tekjur af raforkusölu til stóriðjunnar ásamt skatttekjum af viðkomandi fyrirtækjum og starfsmönnum, hvernig sem kaupin gerðust á eyrinni með afurðir hennar, hárrétt.  

Nú eru hins vegar komin fram á sjónarsviðið þjóðfélagsöfl, sem setja sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum í landinu, sem tengjast frekari orkunýtingu og jafnvel bráðnauðsynlegum endurbótum á núverandi flutningskerfi raforku á milli landshluta.  Áfram er þessi barátta háð á hugmyndafræðilegum grunni, en nú algerlega laus við atvinnupólitíska skírskotun eða vísun til sjálfstæðis þjóðarinnar, eins og voru ær og kýr kommúnistanna "í den", heldur er nú hamrað á útliti og meintu skaðlegu inngripi í náttúruna.  Málflutningurinn einkennist af tilfinningaþrungnum frösum um náttúruvernd, eins og "náttúran á að njóta vafans", þótt náttúran sjálf sé mesti mögulegi breytingavaldurinn í íslenzku umhverfi, og maðurinn léttvægur í því tilliti, eins og dæmin sanna.   

Hér þarf auðvitað að koma að almennri skynsemi og láta ákvarðanatöku fara fram á grundvelli fjárhagslegs mats á kostum og göllum, þar sem fórnarkostnaður náttúru er metinn á móti tekjum af mannvirkjum og tjóni af að láta vera að framkvæma.

"Einmitt til þess [að halda öfgakenndum náttúruverndarsjónarmiðum á lofti- innsk. BJo] var Bölmóður spámaður tekinn tali í Silfrinu á dögunum, en þar var kominn Tómas Guðbjartsson læknir, Lækna-Tómas sjálfur.  Sá sparaði ekki stóru orðin og sagði, að álverið í Straumsvík væri í líknandi meðferð, eins og þar væri dauðvona sjúklingur, en það líkingamál af eigin starfsvettvangi notaði hann vafalaust, til þess að enginn efaðist um, að hann vissi um, hvað hann væri að tala."

Bölmóður þessi í læknislíki lætur ósnotrar tilfinningar sínar í ljós í garð starfseminnar í Straumsvík, þegar hann hrapar illilega að niðurstöðu sjúkdómsgreiningar sinnar á ISAL.  Innyfli fyrirtækisins eru nefnilega í góðu lagi og að töluverðu leyti aðeins um 8 ára gömul vegna mikilla fjárfestinga Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008, þegar Íslendingar þurftu einmitt mest á fjárfestingum í atvinnustarfsemi að halda.  Aðföngin eru hins vegar of dýr m.v. afurðaverðið, en það stendur til bóta, þar sem verð á súráli og kolum er að þokast niður.  Raforkuverðið er hins vegar hið hæsta á Norðurlöndunum til sambærilegrar starfsemi, enda t.d. niðurgreitt af ríkissjóði í Noregi til að viðhalda starfsemi stóriðju í dreifðum byggðum Noregs.  Er út af fyrir sig einkennilegt, að Samkeppniseftirlitið í Noregi eða ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skuli ekki opinberlega fetta fingur út í slíka ríkisaðstoð á Innri markaði EES. Ef ISAL er líkami, eins og Tómas, læknir, stillir upp, má líkja raforkuverðinu við blóðtöku, sem ekki gengur lengur, enda raforkukostnaður tæplega 30 % af tekjum fyrirtækisins.  Enginn aðili í landinu er tilbúinn að kaupa orkuna, sem ISAL nú notar, eða drjúgan hluta hennar, á viðlíka skilmálum og ISAL má búa við, enda er það langhæsta verðið til áliðnaðarins í landinu og sennilega á Norðurlöndunum.  Verðið er þess vegna gjörsamlega ósamkeppnishæft.  Samningurinn er óviðunandi og að alþjóðarétti á Rio Tinto þá rétt á endurupptöku samningsins, enda eru forsendur um verðþróun á afurð ISAL brostnar. Ef Landsvirkjun þrjózkast við að semja, verður ISAL lýst gjaldþrota og Rio Tinto mun krefjast þess fyrir rétti með vísun til misbeytingar Landsvirkjunar á einokunarstöðu sinni að losna undan orkukaupskyldu raforkusamningsins.  Hér er um leiftursókn stjórnar Rio Tinto að ræða áður en Landsvirkjun gefst kostur á að sýna fram á, að hún hafi aðra viðskiptavini fyrir umrædda orku við fjarlægan enda aflsæstrengs.

 Ofangreind ummæli Tómasar, læknis, eru þýðingarlítil í þessu samhengi, en þau eru hins vegar ósmekkleg og bera vott um ótrúlega meinfýsi, sem jaðra við illgirni.  Um þau hafði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Ágúst Bjarni Garðarsson, eftirfarandi orð á bls. 39 í Morgunblaðinu, 6. febrúar 2020:

"Nýlega sagði Tómas Guðbjartsson, læknir, álverið í Straumsvík vera dauðvona og á líknandi meðferð.  Það er dapurlegt að skynja þau viðhorf, sem fram koma í ummælum læknisins til þessa stóra vinnustaðar í landinu og þeirra einstaklinga, sem þar starfa. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu ásamt því, að álverið er einn stærsti útflytjandi vara frá Íslandi. Það gefur því augaleið, að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt og er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum.  Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur." 

Það fer ekki á milli mála eftir þennan lestur, að Tómas, læknir, Guðbjartsson, hefur unnið málstað virkjana- og iðnaðarfénda eftirminnilegt tjón með málflutningi sínum.

 

Téður Bölmóður beitti þó ýmsum áróðursbrögðum í þessum Silfursþætti til að vekja samúð með málflutningi sínum, sem er samt eins loftslagsfjandsamlegur og hugsazt getur.  Reyndi hann m.a. að líkja alræmdum fjandskap sínum í garð umhverfisvænstu raforkuvinnslu á jörðunni við baráttu Íslendinga fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á 200 mílna lögsögu sinni í kringum Ísland. Þessi samanburður var algerlega út í hött hjá lækninum. Þar voru Íslendingar að berjast fyrir efnahagslegri tilveru sinni, en Bölmóður Besserwisser berst hins vegar gegn því, að orkulindir landsins séu nýttar með aðferðum beztu tækni hvers tíma til að skapa vinnu í landinu og gjaldeyri til að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd. Áfram með Óðin:

"Íslendingar framleiða ál með endurnýjanlegri og hreinni orku, mestmegnis frá vatnsaflsvirkjunum.  Kínverjar framleiða 87 % af áli sínu með kolabruna.  Það felst því gríðarlegur tvískinnungur í því að segjast vera umhverfisverndarsinni og vera á móti álverum á Íslandi.  Kallar raunar annaðhvort á einbeittan brotavilja eða fádæma vanþekkingu.  Því [að] þó að það kunni að vera hægt að halda smitsjúkdómum í skefjum með landamæravörðum, þá virðir mengunin engin landamæri."

Óskir Bölmóðs Besserwissers um, að allar frekari virkjanaframkvæmdir í landinu verði stöðvaðar, eru ósanngjarnar, óraunhæfar og taka ekkert tillit til þess, sem um þessar mundir er kölluð mesta umhverfisvá jarðar; hættan á óviðráðanlegri hlýnun af völdum koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þessar óskir eru ósanngjarnar vegna þess, að þær vinna gegn eðlilegri þróun verkmenningar og atvinnulífs í landinu, sem fjöldi manns mun hafa lífsviðurværi sitt af og er eitt helzta skattaandlagið til tekjuöflunar fyrir sífellt dýrara heilbrigðiskerfi og annarrar samfélagslegrar þjónustustarfsemi.  Óskirnar um að stöðva þessa þróun eru óraunhæfar vegna þeirra gríðarlegu viðbótar verðmæta, sem nýjar virkjanir geta skapað.  Þá hefur fólksfjölgun í landinu í för með sér aukna orkuþörf, og orkuskipti á landi, legi og í lofti eru ekki möguleg án nýrra virkjana.

Ávinningur og fórnarkostnaður af virkjunum endurnýjanlegrar orku er hins vegar misjafn. Vítt og breitt um heiminn hafa þjóðir veitt háum fjárhæðum til að niðurgreiða raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum vegna þess, að þær hafa ekki í önnur hús að venda með endurnýjanlega orku. Ríkisstjórnir hafa jafnvel niðurgreitt raforkuverð til stóriðju á byggðapólitískum eða þjóðhagslegum grunni. 

Hérlendis hefur slíkt sem betur fer ekki komið til tals, en hins vegar hafa ýmsir uppi áform um að reisa vindmyllugarða, sem tengdir yrðu inn á stofnkerfi raforku. Hár fórnarkostnaður fylgir þó vindmyllum.  Landnýting þeirra er léleg, mæld í MWh/ár/km2, í samanburði við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á fallorku vatns og jarðgufu.  Þetta þýðir, að vindmyllugarðar þurfa tiltölulega mikið land og vegna hæðar sinnar sjást þeir mjög víða að.  Þeir eru til lýta langt að. Frá vindmyllum stafar skaðlegur hvinur á lágum tíðnum, og fuglum er hætta búin af spöðum á miklum hraða (spaðaendar). 

Á Íslandi er ekki sambærileg þörf á að taka á sig þennan fórnarkostnað og víða erlendis, af því að enn er nóg af virkjanakostum endurnýjanlegrar orku í landinu með lægri fórnarkostnað í ISK/MWh/ár en vindmyllugarðar. Þess vegna er áhugi fyrir vindmyllugörðum á Íslandi ótímabær, og kannski verða þær aldrei réttlætanlegar.  Það eru þó helzt íbúar í grennd við fyrirhugaða vindmyllugarða, t.d. á Hróðnýjarstöðum við Hvammsfjörð, sem látið hafa andstöðu sína opinberlega í ljós.  Á þessu vefsetri hefur verið bent á tiltölulega stórt kolefnisspor uppsettra vindmyllna.

"Tómas sagði í pistli sínum, að ef álverið hætti starfsemi, gæti "Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda, og flýtt fyrir rafvæðingu bíla og skipaflotans".

 Þetta er aumkvunarverður málflutningur hjá Bölmóði Besserwisser.  Á Landsvirkjun að mismuna viðskiptavinum og flokka þá eftir því, hvort þeir stunda "uppbyggilegri starfsemi" en álver eða ekki ?  Reyndar hefur Bölmóður sjálfur gefið þarna forskriftina.  Það er misskilningur hjá honum og dæmigert fyrir "rörsýn", að orkusala Landsvirkjunar eigi að snúast um annaðhvort eða.  Hjá Landsvirkjun á valið að vera hvort tveggja.  Rafmagnsálag gróðurhúsa getur verið tiltölulega jafnt, a.m.k. lungann úr árinu, og hefur þess vegna svipuðu hagstæðu einkenni og álag álvers fyrir orkuvinnslufyrirtækið.  Ef langtímasamningar takast, ætti Landsvirkjun að geta teygt verðlagningu til gróðurhúsa í átt að því, sem gildir um álverin.  Orkunotkun meðalstórs gróðurhúss er hins vegar innan við 0,7 % af orkunotkun minnsta álversins á Íslandi á ári.  Gróðurhúsabændur gætu e.t.v. haft samflot um orkusamninga, ef Samkeppnisstofnun leyfir slíkt, en það er varla hægt að bera saman orkusölu til gróðurhúsa og álvera vegna stærðarmunar á samningum. 

Það er enn fráleitara að stilla álveri og orkuskiptum bíla- og skipaflotans upp sem valkostum, hvorum gegn öðrum, og tæknin fyrir rafvæðingu alls skipaflotans er enn ekki fyrir hendi.  Það er mjög óheilbrigt, þegar læknir fer að bölsótast út í tiltekna atvinnustarfsemi og leggja eitthvað til í staðinn, þegar hvorugur kostanna útilokar hinn.  Því miður veður læknirinn á súðum, þegar kemur að umfjöllun um virkjanir og iðnaðarmál.  Vonandi heldur hann samt ótrauður áfram að tjá sig, því að hann er duglegur við að varpa ljósi á, hversu lítið ofstækisfullir náttúruverndarsinnar hafa til síns máls.

Óðinn bendir svo á aðra hlið þessa máls, sem eru gróðurhúsaáhrifin, ef farið yrði að tillögu læknisins:

"En hvort ætli skili meiri árangri í minnkun útblásturs að rafvæða íslenzkan bílaflota eða nota endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu áls í heiminum.  Svarið er auðvitað augljóst hverjum þeim, sem hugsar um það eitt augnablik."

Allir bölmóðar og "Besserwisserar" þurfa að fara að gera sér grein fyrir því, að þegar meta á, hvort virkja á eða vernda, og einnig, þegar ákveða á til hvers á að nota hina endurnýjanlegu orku, þá verður nú á dögum að taka áhrif orkunýtingarinnar á koltvíildisstyrk andrúmslofts jarðar með í reikninginn. Það virðist hafa farið framhjá "Lækna-Tómasi" í öllum bægslaganginum.

Síðan kemur ályktun Óðins af þessari fremur lágreistu orkumálaumræðu; umræðu, sem fremur sorglegt er, að þurfi að fara fram árið 2020, því að hún er af svipuðum rótum runnin og orkumálaumræðan fyrir 55 árum, þ.e. frá afturhaldinu í landinu:

"Mergurinn málsins er sá, að hér er ekki um annaðhvort eða að ræða.  Ekkert er því til fyrirstöðu, að raforka verði nýtt í auknum mæli innanlands til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, líka til þess að rækta banana fyrir lýðveldið, en að áfram leggi Íslendingar sitt af mörkum til þess að framleiða ál með umhverfisvænum hætti og minnki fyrir vikið losun gróðurhúsalofttegunda."

Við þetta má bæta, því sem er ekki á allra vitorði, að rafgreining súráls fer í íslenzku álverunum fram með fast að því tæknilega mögulegri lágmarksmyndun CO2 og algengt er, að í öðrum álverum verði til a.m.k. tvöfalt lágmarksmagn koltvíildis við framleiðslu hvers áltonns.  Þetta stafar af því, að íslenzku verksmiðjurnar hafa náð mjög góðum tæknilegum tökum á rekstrinum við venjulegar aðstæður.  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að mistök Rio Tinto hafi verið þau að semja um fast orkuverð í stað þess að tengja það álverði. Líklega hafa væntingar fyrirtækisins um verðþróun ekki verið byggðar á nægilega traustum forsendum. Þetta hefur mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins þegar verð er lægra en gert var ráð fyrir, og þau áhrif bætast við áhrifin af minni tekjum. Vinnuafl er einnig stór kostnaðarliður álvera og launahækkanir hafa verið gríðarlegar hér á undanförnum árum. Ofan á þetta bætist svo framleiðslutapið vegna rekstrarvandræða á síðasta ári.

Og það að forsendur kaupanda um verðþróun á afurðum hans bresti gefur vitanlega ekkert tilefni til að ógilda samninga um aðföng, ekkert frekar samninga um verðþróun en kjarasamninga, samninga um hráefniskaup eða neitt annað.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2020 kl. 15:48

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Varðandi vinnuaflið Þorsteinn, þá er það einna lægst í stóriðjunni, undir 10% af rekstrarkostnaði. Jafnvel þó stóriðjan greiði einna hæstu laun per starfsmann í landinu, geta fá eða engin önnur fyrirtæki státað sig af jafn lágu hlutfalli launa af rekstrarkostnaði.

Hvort RT hafi óskað eftir að semja um fast orkuverð er spurning. Sennilega var þó fyrirtækið sett upp við vegg þar, enda aðstöðumunur við samningaborðið nokkur, þar sem LV hafði töglin og haldið.

Gunnar Heiðarsson, 13.2.2020 kl. 16:45

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held ekki að það hafi endilega verið neinn sérstakur aðstöðumunur Gunnar. Fyrirtækið er að kaupa fjórðung af orku LV. Og launakostnaðurinn er um 10%, það er alveg rétt, en þegar tekjurnar lækka fara þessi miklar breytingar á þessum lið að skipta talsverðu máli því þarna er um að ræða fastan kostnað.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2020 kl. 17:22

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Í raforkusamninginum er ákvæði um, að samningsaðili geti óskað eftir upptöku samnings, ef hann verður honum þungbær af ástæðum, sem eru utan valdmarka hans.  Það eru fordæmi fyrir þessu, þegar Landsvirkjun í samráði við iðnaðarráðherra óskaði upptöku samningsins, og Alusuisse samþykkti það.  Mig minnir tilfærð ástæða hafi verið mikil hækkun olíuverðs og þar af leiðandi hækkun alls orkuverðs í heiminum.  Nú er ástæðan langvarandi lækkun álverðs vegna þeirrar stefnumörkunar kínverska kommúnistaflokksins að ná tökum á álmarkaðinum.  Það sér ekki fyrir endann á verðlækkunartilhneigingu vegna offramboðs á vestrænum mörkuðum.  Engin þörf hefði verið á upptöku samnings, ef verðtenging raforku við skráð markaðsverð áls hefði ekki verið afnumin frá 1.10.2011 að eindreginni kröfu Landsvirkjunar.  Af því að launakostnaður ISAL (án verktakagreiðslna) er nefndur hér að ofan, má geta þess, að raforkukostnaðurinn er tæplega þrefaldur þessi launakostnaður.  Það hlýtur að vera öllum ljóst, að svona getur það ekki gengið lengur.

Bjarni Jónsson, 13.2.2020 kl. 18:13

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef þetta er tiltekið í samningnum þá hlýtur það að gilda. Ég hef ekki séð þennan samning. En sé þetta svona hlýtur fyrirtækið einfaldlega að geta nýtt sér það ákvæði og samið um hagstæðara verð. Ég veit ekki hvort það er skynsamlegra að kaupandinn eða seljandinn taki á sig áhættuna af verðsveiflum á álmörkuðum. Að öðru óbreyttu myndi maður ætla að það skipti ekki máli, en auðvitað hlýtur verðið að endurspegla þetta, hærra án áhættunnar, lægra með henni.

En allavega eru það góðar fréttir ef þarna er ákvæði sem heimilar upptöku samningsins. Þá hlýtur málið að leysast farsællega, sé yfirleitt rekstrargrundvöllur fyrir verksmiðjunni að öðru leyti. Loðnubrestur, samdráttur í ferðaþjónustu og kínavírus er kannski alveg nóg að fást við fyrir okkar efnahagslíf núna þótt lokun Ísal bætist ekki þar ofan á.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2020 kl. 19:57

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

... að ekki sé minnst á valdaránstilraunir sósíalista, svo öllu sé nú til haga haldið af leiðindunum embarassed

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2020 kl. 19:58

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

"hærra án áhættunnar, lægra með henni." Þetta er ekki nógu skýrt orðað hjá mér: Þarna ætti að standa að kaupandinn greiði hærra verð, taki hann ekki áhættuna, en lægra, taki hann hana.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2020 kl. 20:07

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll Bjarni, gott að lesa pistil þinn og rifja upp þennan eftirminnilega tíma þegar ábyrgir forystumenn voru við . stjórnvölinn og tókst að leysa vandamál sem fylgdu stórfelldum fólksflutningum úr sveitum landsins á mölina.

Fátæk þjóð átti ekkert gull né þekkingu til að hrinda hugmyndum Bjarna Benediktssyni og Jóhanns Hafstein um stóriðju frá afli virkjaðra fallvatna í framkvæmd,en ábyrgum stjórnarmönnum þessa tíma var treyst fyrir láni og hjólin tóku að snúast.Ég man vel umræðu þess tíma;hún var flauelsmjúk miðað við það sem er í dag. En alltaf er það vinstrið!! sem lét hæst; þá var það tilræði við sjálfstæði landsins að þiggja lán frá útlendingum.- Get ekki skilgreint pólitík í dag, læt því þessu lokið bíðandi eftir fárviðrinu; ætli það sé af mannavöldum? Blessaður ævinlega Bjarni Jónsson.  





Helga Kristjánsdóttir, 14.2.2020 kl. 03:54

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Með tengingu raforkuverðs við afurðaverð kaupanda raforkunnar, hér skráð álverð, deila samningsaðilar með sér áhættunni, sem afkomunni stafar af verðsveiflum á markaðinum.  Það er eðli þessarar tengingar.  Aðilar koma sér saman um viðmiðunarverð raforkunnar, sem báðir telja svara sínum væntingum um afkomu m.v. spá um þróun afurðaverðsins.  Lækkunin má aldrei færa orkuverðið undir væntan meðalkostnað seljandans á samningstímanum, en hækkunin þarf í rauninni ekkert þak.

Bjarni Jónsson, 14.2.2020 kl. 11:22

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga.

Í minningunni var umræðan um samninginn við Alusuisse hörð og tilfinningaþrungin, en ég hef nú ekki flett henni upp og endurlesið.  Atkvæðagreiðslan á þingi réðist með hrossakaupum um skóla í Húnaþingi, segir sagan.   Ég sem menntaskólanemandi fylgdist agndofa með og skrifaði meira að segja í blöðin um málið af þeirri takmörkuðu yfirsýn, sem mér var þá gefin.  Ég var einn af þeim mörgu, sem síðan fengu vinnu (ég í sumarvinnu sem skólastrákur) við Búrfellsframkvæmdirnar. Það voru spennandi tímar og lærdómsríkir.  Álverssamningurinn létti efnahagsáfallið, sem hvarf síldarinnar hafði í för með sér.  

Bjarni Jónsson, 14.2.2020 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband