Tengsl orkupakka ESB við hátt orkuverð á Íslandi

Elias B. Elíasson, verkfræðingur, hefur ritað fróðlegar og skarplegar greinar í Morgunblaðið um orkumál, orkupakka ESB og orkustefnu, sem af þeim leiðir. Undanfarið hafa þessar greinar snúizt um birtingarmynd hrikalegra afleiðinga innleiðingar orkulaggjafar Evrópusambandsins (ESB) á starfsemi stórnotenda raforku, einkum álverksmiðjunnar ISAL í Straumsvík. Er nú fram að koma, hversu umhendis og skaðleg innleiðing orkulöggjafar ESB er á Íslandi. 

Það, sem er einkennandi fyrir skarplega greiningu Elíasar á stöðu orkumálanna á Íslandi, er, að hann tengir hana með skýrum hætti við gildandi orkulög í landinu, sem að meginstofni koma frá ESB, þar sem gjörólíkt orkukerfi og orkumarkaðskerfi eru m.v. íslenzkar aðstæður, og þar með fæst einhver botn í þá kúvendingu á stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum sínum, sem átt hefur sér stað síðan 2010. 

Í ESB er aðalorkugjafinn jarðefnaeldsneyti, og á orkumarkaði þess ríkir frjáls samkeppni.  Í orkustefnu ESB eru innbyggðir hvatar til að hækka orkuverð til að örva áhuga á að reisa nýjar virkjanir, aðallega endurnýjanlegra orkulinda, en einnig hinna til að brúa bilið, þegar lygnt er eða sólarlaust. 

Frjáls samkeppni á Innri markaðinum hindrar hins vegar, að verðið rjúki þar upp úr öllu valdi. Reyndar er botninn dottinn þar úr markaðinum (verðinu) núna vegna eftirspurnarleysis. Hérlendis er hins vegar engin samkeppni um stóra viðskiptavini.  Allir ættu að sjá, að löggjöf, sniðin utan um orku- og markaðskerfi ESB hentar ekki á Íslandi.  Nú er þar að auki komið í ljós, að skaðsemisáhrif þessarar löggjafar á Íslandi eru feikileg og sízt minni en varnaðarorð í OP#3 umræðunni kváðu á um.  Orkupakkarnir valda stórtjóni á Íslandi, og er þó ekki bætandi ofan á loðnubrest og CoVid-19, sem er að ganga af mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum og að setja íslenzka hagkerfið á hliðina um stundarsakir.

Grein Elíasar í Morgunblaðinu 7. marz 2020 bar yfirskriftina:

"Enn um raforkuverð ÍSAL".

Ein fjögurra undirgreina bar fyrirsögnina:

"Áhrif ESB":

"Áhrif ESB á þessa samninga [við álverin-innsk. BJo] eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson, forstjóri, stefnu fyrirtækisins, sem lýst var svo: "Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi."  [Undirstr. BJo.]

Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið, að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því, sem í þessum orðum felst.  Lögin, sem hann vitnaði til, eru lög ESB innleidd í EES-samninginn.  Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt.  [Undirstr. BJo.]

Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um, hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram.  Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika, sem hér þarf að vera, til að skapa íslenzku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim, sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.  

Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum, að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða, hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenzka þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um, hvar arðurinn af orkunni kemur fram.  Þessu þarf að breyta."

Þetta er kjarni málsins varðandi það efnahagslega tjón, sem orkupakkar ESB valda á Íslandi.  Það er vafalaust rétt túlkun hjá Elíasi, að forstjórinn og þá væntanlega stjórn Landsvirkjunar túlka lögin (orkupakkana) þannig, að allur arður orkulindanna í nýtingu hjá Landsvirkjun eigi að falla til Landsvirkjunar. 

Sama dag og grein Elíasar birtist í Mogganum birtist þar önnur góð grein, og var sú eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann.  Þar stóð m.a., að hann liti svo á, að þessi arður væri bezt ávaxtaður hjá samfélaginu sjálfu, þ.e. heimilum og fyrirtækjum.  Undir það er heilshugar hægt að taka, og um þetta snýst meginágreiningurinn um orkumálin.  

Þar sem í ofangreindri stefnuyfirlýsingu Landsvirkjunar er einnig minnzt á verðmætasköpun, er þó ljóst, að túlkun forstjórans á stefnunni er röng.  Hann hámarkar ekki verðmætasköpun úr orkunni hér innanlands með því að hámarka verð hennar, heldur með því að orkuverðið skapi framleiðslufyrirtækjunum lífvænlega samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, svo að þau geti framleitt og hagnazt sem mest á að auka virði raforkunnar í vöruútflutningi.  Slíkt verður ætíð helzti virðisaukinn af raforkuvinnslunni.

Þá eru orð forstjóra Landsvirkjunar almennt um flutning arðs innan samstæðu dylgjur einar um stóriðjuna í heild og sýna, að forstjórinn er úti á túni sem faglegur forstjóri stærsta raforkufyrirtækis landsins, kominn langt út fyrir verksvið sitt og er raunar farinn að stunda bullandi pólitík gegn erlendum fjárfestingum í landinu.  Við svo búið má ekki standa hjá Landsvirkjun.  Það eru umbrotatímar og vorhreingerninga er þörf.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband