Áhrif CoVid-19 hérlendis

Sóttvarnalæknir hefur beitt hefðbundinni áhættustjórnun hérlendis, sem miðar að lágmörkun heildartjóns, þ.e. heilsutjóns/fjörtjóns og efnahagstjóns.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig til tekst, en árangurinn hingað til lofar góðu.  Ef mat tölfræðinga á vegum sóttvarnalæknis gengur eftir, verður CoVid-19 í hámarki um páskana 2020, og mun þá e.t.v. ganga yfir hérlendis á 3 mánuðum. Nú (23.03.2020) er fjöldi smitaðra tæplega 600, en sú tala getur hafa meira en fimmfaldazt um það leyti, sem fjölgun smita nær hámarki. 

Ef svo fer í lok maí, þegar vonazt má eftir, að pest þessi verði um garð gengin, að fjöldi smitaðra hafi ekki farið yfir 6000 manns (1,7 % mannfjöldans), hafa aðgerðir sóttvarnalæknis borið mikinn árangur, þegar fjöldi sýktra af Spænsku veikinni er hafður til samanburðar, en smitnæmi þessara tveggja pesta gæti verið svipað (hver sýktur smitar 2-3, ef ekkert er að gert). Þá gæti heilbrigðiskerfið líka hafa náð mjög góðum árangri við að lækna sjúka, og hlutfallslegur fjöldi látinna af sýktum orðið lægri en annars staðar þekkist.  Hins vegar er hlutfallslegur fjöldi sýktra meiri en annars staðar hefur sézt.

Aðgerðir sóttvarnalæknis hafa verið dýrar, en munu aftur á móti spara mikinn sjúkrahúskostnað og bjarga mannslífum áður en yfir lýkur. Varnarherfræðin hér er svipuð og þar sem bezt hefur til tekizt, þ.e. í Suður-Kóreu, enda er fjöldi skimana hér per milljón íbúa sá langhæsti í heiminum (28 k).    

Fjárhagstapið af völdum CoVid-19 er aðallega fólgið í töpuðum tekjum af erlendum ferðamönnum. Þær gætu numið mrdISK 200 á þessu ári, því að ferðamenn hugsa sér varla til hreyfings fyrr en veiran er hætt að grassera bæði hérlendis og í heimalandi þeirra.  Kostnaður af vinnutapi sýktra og sóttkvíaðra gæti numið mrdISK 10 og annar kostnaður af völdum pestarinnar mrdISK 30, svo að heildarkostnaður nemi mrdISK 240 eða 8 % af VLF. Kynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast nema mrdISK 230. Þetta er svakalegt högg, sem mun taka nokkur ár að vinna upp og hlýtur að koma niður á lífskjörum hér.  Það er yfirgengilegt óraunsæi, ef ekki raunveruleikafirring við þessar aðstæður, að stunda hér harða verkfallsbaráttu og beita verkfallsvopninu.  Þessi kröfuharka og stéttabarátta á engan veginn við á gildistíma Lífskjarasamninganna. Slíkt framferði er einsdæmi í veröldinni og getur engan veginn orðið verkalýð til hagsbóta. Fólk á ekki að láta pólitíska loddara teyma sig á asnaeyrunum við þessar aðstæður eða aðrar.  Hér ættu allir að sameinast um að lágmarka tjónið og síðan að hraða uppbyggingunni sem mest í kjölfarið, þótt örugglega verði að rifa seglin um sinn vegna mikilla efnahagsvandræða í viðskiptalöndum okkar.   

Við þessar fordæmalausu aðstæður hafa miklar sviptingar orðið á verðbréfamörkuðum og t.d. hlutabréf ferðaþjónustufyrirtækja hrunið, eins og gefur að skilja, þótt t.d. Icelandair hafi eitthvað rétt úr kútnum.  Þegar flug nánast stöðvast í heiminum vikum eða mánuðum saman, er líklegt, að slíkt muni hafa langvarandi áhrif á flugfélögin og þau týna tölunni.  Komið hefur fram sú hugmynd í Noregi að sameina norrænu félögin Finnair, Icelandair, Norwegian og SAS undir einu eignarhaldsfélagi, en nú eru British Airways og Iberia Airlines undir sama félagi og Air France og KLM undir öðru.  Lufthansa hefur keypt millilandaflugfélögin í Austurríki og Belgíu.  Icelandair yrði sem sagt áfram flugrekandi, en með öflugan fjárhagslegan bakhjarl, sem hugsanlega gæti létt ábyrgðum af ríkissjóði, ef til þeirra þarf að koma.  Eignir lífeyrissjóðanna íslenzku eru þarna og miklu víðar í uppnámi um þessar mundir. Ávöxtun þeirra verður ekki upp á marga fiska 2020.

Hagkerfin hafa lamazt eitt af öðru, og nú virðast Bandaríkin stefna í eitthvað, sem hægt er að líkja við ítalskt ástand.  Það er vegna andvaraleysis stjórnvalda þar, sem hæglega getur kostað Donald Trump embættið í hendur Joe Bidens, sem elliglöp hafa þó hrjáð í forvalsbaráttu demókrata.  Þótt andvaraleysið geti framkallað hjarðónæmi, veldur það miklum veikindum, öngþveiti á heilbrigðisstofnunum og hárri dánartíðni smitaðra. Nú berast fréttir af útgöngubanni í Kaliforníu og í fleiri fylkjum BNA a la Ítalía.  

ISK gaf eftir, þegar ósköpin dundu yfir, enda munar hvert ferðamannaland um það, að innstreymi erlendra ferðamanna stöðvist í 3 mánuði eða meira.  Þótt mikill erlendur gjaldeyrir tapist, um mrdISK 200, sparast erlendur gjaldeyrir líka vegna færri utanlandsferða landsmanna, minni fjárfestinga og minni neyzlu Íslendinga á þessum erfiðu tímum.  Ef þar við bætist, að lífeyrissjóðir flytji stóran hluta af fjárfestingum sínum í evrum "heim ins Reich", sem þeir ættu hiklaust að gera, og stöðvi erlendar fjárfestingar sínar, þá verður sennilega hægt að hindra það, að viðskiptajöfnuðurinn snarist á neikvæðu hliðina yfir allt árið 2020.  Þar með gæti gengi ISK gagnvart EUR jafnað sig (140 ISK/EUR), en gengi USD virðist munu stíga m.v. EUR. Það er venjan, að á óvissutímum leita spákaupmenn í bandaríkjadalinn. Umfjöllun um EUR á tímum CoVid-19 er efni í annan pistil. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Samdrátturinn er miklu meiri en nemur tekjum af erlendum ferðamönnum. Þegar meira og minna öll þjónusta, verslun, veitingasala á innanlandsmarkaði leggst niður líka eins og við erum að sjá gerast verður samdrátturinn enn dýpri. Það liggur í áhrifum samkomubannsins.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.3.2020 kl. 19:00

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Þorsteinn, efnahagssamdrátturinn verður enn meiri en nemur missi gjaldeyristeknanna af erlendum ferðamönnum.  Það er vegna margfeldisáhrifa gjaldeyristekna um þjóðfélagið, en mikið af minnkuðum viðskiptum landsmanna sjálfra á milli mun ekki koma fram sem hreint tap, heldur sem sparnaður á móti.  Ég fer kannski einu sinni sjaldnar í klippingu á árinu.  Við það verður ekkert mælanlegt tap á verðmætasköpun, heldur eykst sparnaður minn sem þessu nemur.  Það er ekki slæmt fyrir mig, þó að það sé neikvætt fyrir rakarann.  

Nú berast hins vegar fréttir af því, að útflutningsverðmæti sjávarútvegs kunni að dragast saman vegna áhrifa veirunnar hérlendis og erlendis.  Það er hreint efnahagslegt tap fyrir hagkerfið íslenzka, ef sú verður raunin.  

Bjarni Jónsson, 24.3.2020 kl. 11:08

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Svona algeng stelpu viðhorf hafandi rökrætt efnahagsmál lands og lýðs við dóttur/dóttur mína í síma dágóðastund. Það verður þér ekkert erfitt vina mín að sleppa t.d.flugferðum til útlanda; Nei! ég var einmitt að hugsa hvað loftið kringum hnöttinn hreinsast meðan þetta fár gengur yfir...alltaf ehv.jákvætt.   

Helga Kristjánsdóttir, 24.3.2020 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband