Bandaríkin og Ísland

Fróðlegt er að bera saman stöðu Bandaríkjanna og Íslands nú á krepputíma.  Ýmsir hagvísar bentu til þess fyrir SARS-CoV-2 kreppuna, að fjármálakerfi heimsins væri komið á yztu brún og að stutt væri í fjármálakreppu, þegar þessi veira tók að breiðast út fyrir Kína. Alþjóðleg fjármálakreppa var í raun orðin óhjákvæmileg vegna eignabólu langt umfram raunverðmæti í Bandaríkjunum (BNA) og misvægis á milli norðurs og suðurs á evrusvæðinu. Þetta misvægi í Evrópu er óbrúanlegt um fyrirsjáanlega framtíð vegna djúpstæðs mismunar, sem Evrópusambandið (ESB) hefur að sumu leyti magnað (frjáls för fólks hefur magnað vinnuaflsskort af völdum öldrunar samfélaga). Efnahagslegar afleiðingar CoVid-19 veikinnar bætast við eignabólusprengingu í BNA og væntanlegt uppgjör á evrusvæðinu.  Þetta saman mun skapa djúpa og langvinna efnahagskreppu í heiminum.  Við þessar aðstæður mun taka tíma fyrir tapaðar tekjulindir Íslendinga að jafna sig að fullu, og þess vegna er ekki hægt að búast við snöggum bata.  Lífskjaraskerðing hérlendis er óhjákvæmileg, eins og annars staðar.  Það væri fásinna að láta þessar aðstæður af völdum ytri krafta leiða til þjóðfélagsátaka hér.  

Undir þetta rennir Kristrún Frostadóttir stoðum í grein sinni í Markaðnum 18. marz 2020: 

"Hagstjórnarfyrirmynd annarra":

"Talsverður aðdragandi hefur verið að núverandi markaðstitringi víða um heim.  Stutta útgáfan af sögunni snýr að áhrifum lágra vaxta og ódýrs fjármagns í Evrópu og Bandaríkjunum á skuldsetningu og sókn í ávöxtun síðastliðinn áratug.  

Mikið fjármagn hefur streymt inn á hlutabréfamarkaði víða um heim, sérstaklega til Bandaríkjanna.  Í upphafi ársins [2020] var markaðsvirði bandaríska hlutabréfamarkaðarins 160 % af landsframleiðslu.  Árið 2007 var hlutfallið 100 %.  Ásókn í ávöxtun hefur einnig ýtt undir hraðan vöxt fyrirtækjaskulda í formi skuldabréfa í Bandaríkjunum á meðan hægt hefur á útlánavexti banka. 

Útgáfa annarra skuldaskjala hefur einnig stóraukizt, enda opinberar skuldir í Bandaríkjunum farið úr 60 % af VLF í rúmlega 100 % frá 2007. 

Bandaríski fjármálamarkaðurinn, þ.e. hlutabréf að meðtöldum skuldabréfum ríkis og fyrirtækja, mældist þrefalt stærri en raunhagkerfið í upphafi ársins [2020], en var 185 % af hagkerfinu 2007.  Húsnæðisskuldir hafa þó farið fallandi á þennan mælikvarða frá síðustu kreppu, úr 100 % af VLF í 75 %.  Hraður vöxtur á fyrrnefndum mörkuðum leiðir líklega til kreppu í raunhagkerfinu, sem er langt umfram COVID áfallið."

Þarna er lýst sjúku ástandi fjármálakerfis, sem hlaut að enda með verðmætahruni, enda stóð það á brauðfótum.  Skýringarinnar er að nokkru leyti að leita í lágum vöxtum Seðlabanka BNA, en lýsingin ætti þá að eiga í enn sterkari mæli við evrusvæðið, þar sem stýrivextir seðlabanka evrunnar hafa verið niðri við núllið.  Die Bundesbank, Seðlabanki Sambandslýðveldisins, hefur verið mótfallinn þessari lágvaxtastefnu einmitt af því, að hún hvetur til óarðbærra fjárfestinga og spákaupmennsku, sem endar í útþaninni blöðru, sem er dæmd til að springa með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Lágvaxtastefnan hefur hentað þýzku þjóðfélagi illa, því að Þjóðverjar spara mikið á bankareikningum, t.d. til elliáranna, og kunna ekki að meta mjög lága eða jafnvel neikvæða ávöxtun. 

Hvað hafði Kristrún Frostadóttir að skrifa um stöðuna á Íslandi ?:

"Ójafnvægi hefur einnig verið til staðar í íslenzka hagkerfinu síðustu ár, en af öðrum toga.  Laun hafa hækkað mikið samhliða vexti mannaflafrekra greina [á borð við ferðaþjónustuna - innsk. BJo] og mælast nú 55 % af VLF.  Aðeins einu sinni á síðustu 50 árum hefur hlutfallið mælzt hærra eða 2007.  [Þetta er ótvírætt hættumerki og vísbending til verkalýðshreyfingarinnar um, að nú sé tími kröfugerða á enda, en komið að því að einbeita sér að því að treysta grundvöll lífskjaranna með framleiðniaukningu-innsk. BJo.]  Aukin greiðslugeta heimilanna, frekar en skuldsetning, hefur því drifið fasteignamarkaðshækkanir hér heima.  [Þetta er ekki næg skýring á óhóflegum fasteignaverðshækkunum, heldur koma þar til aukinn kostnaður vegna byggingarreglugerðar, lóðaokur og lóðaskortur, aðallega í höfuðstaðnum - innsk. BJo.]

Til samanburðar hefur launahlutfallið farið nær stöðugt lækkandi í Bandaríkjunum frá 1970 og stendur nú í 43 %.  [Þetta er enn óheilbrigðari þróun en á Íslandi.  Raunlaun hafa á þessu tímabili lítið hækkað í BNA og launþegar verið hlunnfarnir um ávinning framleiðniaukningarinnar, þótt eðlilegt sé, að launþegar og vinnuveitendur skipti honum á milli sín - innsk. BJo.] Þetta er spegilmynd hækkana á hlutabréfamörkuðum vestanhafs, þar sem hagnaður fyrirtækja [og arðgreiðslur - innsk. BJo] hefur aukizt hratt á kostnað launafólks og samneyzlu.  Þessi þróun hefur veikt stoðir samfélagsins til að bregðast við áföllum í bókstaflegri merkingu þessa dagana. 

Hér hefur hlutabréfamarkaðurinn hins vegar lítið tekið við sér síðustu misseri þrátt fyrir mikinn hagvöxt, en markaðsvirði fyrir núverandi áfall var um þriðjungur af landsframleiðslu samanborið við 200 % árið 2007.  Skuldabréfamarkaður með ríkis- og fyrirtækjabréf hérlendis er um 40 % af landsframleiðslu, en var tæplega 60 % árið 2007."

Nú eru stýrivextir Seðlabanka Íslands í sögulegu lágmarki, 1,75 %.  Það ætti að styðja við endurfjármögnun fyrirtækja með hlutabréfakaupum í þeim, enda hafa nú myndazt þar kauptækifæri.  Jafnframt er ljóst, að skuldabréfamarkaðurinn mun aukast á þessu ári vegna fjármögnunarþarfar hins opinbera og fyrirtækja, en ríkið hlýtur jafnframt að leita eftir lánveitingum erlendis.  Mun þá reyna á raunverulegan trúverðugleika ríkissjóðs Íslands á erlendum lánamörkuðum og formlegt lánshæfismat, og hvort lausafjárþurrð er orðið vandamál á heimsvísu.  Seðlabanki Íslands ætlar að hindra offramboð skuldabréfa með því að kaupa þau á eftirmarkaði, og fetar þar í fótspor margra annarra seðlabanka, þótt hann hafi látið þetta ógert síðan 1993.  

Botninn virðist vera dottinn úr álmörkuðum heimsins með álverð að nálgast 1400 USD/t, en fisk og aðrar matvörur verður fólk að kaupa, hvernig sem allt veldur, svo að sjávarútvegur og fiskeldi sigla vonandi hraðbyri gegnum þessa gríðarlega erfiðu tíma. Nú berast þó þau tíðindi af sjávarútvegi, að útflutningsverðmæti hans kunni að dragast saman á þessu ári vegna afleiðinga SARS-CoV-2 veirunnar bæði hérlendis og erlendis.  Vonandi nær sjávarútvegurinn þó fljótt og vel vopnum sínum, því að við þurfum á öllu að halda til að laga viðskiptastöðuna við útlönd.  

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband