Verkfræðingur, lyfjafræðingur og veiran

Þann 24. marz 2020 birtust góðar greinar eftir 2 mæta menn á sömu síðu Morgunblaðsins.  Annar skrifaði af miklum þunga um þann mikla vanda, sem blasir við stjórnvöldum og eigendum Landsvirkjunar (landsmönnum öllum) vegna stefnu fyrirtækisins, sem það hefur mótað sér sjálft án aðkomu eigandans, gagnvart smærri og stærri stórnotendum raforku, en hinn fjallaði um hinn gríðarlega vanda, sem nú blasir við heimilum landsmanna, fyrirtækjum og stjórnvöldum, vegna CoVid-19 veirupestarinnar.  Auðvitað yfirgnæfir SARS-CoV-2 veiran og afleiðingar hennar alla umræðu hvarvetna um þessar mundir.

Elías Elíasson, verkfræðingur, skrifaði greinina:

"Ef ÍSAL verður lokað, hvað þá ?"

Þar reifaði hann þær ógöngur, sem Landsvirkjun hefur ratað í síðan 2010 í samskiptum sínum við viðskiptavini sína, þegar aðilar standa frammi fyrir ákvörðunartöku um að endurnýja raforkusamninga eða að slíta viðskiptasambandinu. Hann rifjaði upp spár frá þessum tíma, sem reyndust reistar á sandi, um þróun orkuverðs og álverðs á heimsmörkuðum upp á við.  Kröfuharka Landsvirkjunar var reist á þessum vitlausu spám ásamt nýjum raforkulögum, mótuðum af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) og þar af leiðandi sniðnum við annars konar orkukerfi og markaðsaðstæður en hér ríkja.  Gefum Elíasi orðið:

"En hvar stöndum við, ef álverinu verður lokað ?

Þó [að] móðurfyrirtæki álversins ábyrgist að greiða stóran hluta orkunnar þrátt fyrir rof á starfsemi, þá er ekki gefinn hlutur, að lögfræðingar þess finni ekki leið út úr þeim vanda. Alla vega er varla eðlilegt, að þessi orka verði látin óseld og ónotuð fram til 2036 og Landsvirkjun haldi áfram að reisa nýjar virkjanir, þegar eftirspurn vex, en Rio Tinto haldi áfram að borga allan þann tíma. 

Það verða málaferli og óvissuástand, þar til sú deila leysist, og Landsvirkjun verður að leita nýrra viðskiptavina á meðan; ella veikist staða hennar í málinu.  Með öðrum orðum: orkan fer á markað, hugsanlega brunaútsölu." 

Þetta er afar mikilvæg ábending hjá Elíasi um atriði, sem Landsvirkjun virðist hafa flaskað á.  Hún getur ekki komið fram, eins og bergþursi, og skákað í því skjólinu, að þótt ISAL verði lokað, hafi hún nánast allt sitt á þurru, þ.e. greiðslur fyrir 85 % forgangsorkunnar samkvæmt núverandi orkusamningi.  Það væri rétt einn fingurbrjóturinn, framinn á þeim bæ, sem hefði mjög slæmar afleiðingar fyrir nærsamfélag Straumsvíkur og reyndar þjóðfélagið allt.  Jafnframt myndu réttarhöld, sem allt stefnir í nú, setja Ísland í óæskilegt ljós í augum fjárfesta, og þurfum við sízt á því að halda nú.  Stjórnvöld verða hér að koma vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða að skipta um stjórn. 

"Markaðshorfur með raforku eru allt aðrar nú en þegar samningar við ÍSAL voru undirritaðir 2011.  Af er sú kenning, að orkuverð muni ekki breytast, nema til hækkunar; meira að segja gefa spár nú til kynna, að orkuverð kunni að lækka, ef tækniþróun verður ör.  

Ljóst er orðið, að spár á fyrri hluta þessa áratugar um síhækkandi orkuverð byggðust á óskhyggju og oftrú á stefnuna í loftslagsmálum, en vaxandi vantrúar gætir nú á því, að þær baráttuaðferðir gegn hlýnun jarðar, sem þá var lagt upp með, skili árangri.  Áhættumatið bak við orkuviðskiptin er gjörbreytt."  

Forstjóra og stjórn Landsvirkjunar hefur dagað uppi.  Þeim varð á sú reginskissa að misskilja þróunina, að rangtúlka skammtímafyrirbæri sem langtíma þróun.  Vestræn þjóðfélög hafa enga burði til að keppa á mörkuðum heimsins búandi við raforkuverð, sem er úr takti við raunkostnað frumorkunnar og raforkuverð í öðrum heimsálfum.

Þetta þýðir, að hin "klassíska" íslenzka orkunýtingarstefna, sem mótuð var á Viðreisnarárunum (7. áratug 20. aldar), stenzt tímans tönn, en viðvaningar á orkumálasviði, sem yfirtóku Landsvirkjun og að einhverju leyti stjórnsýslu orkumálanna á tímum hinnar mistæku "vinstri stjórnar" 2009-2013,  gleyptu orkupakka ESB hráa og tóku upp einhvers konar spákaupmennsku með raforkuna, sem hefur reynzt atvinnulífi landsins og verðmætasköpun hin versta forsending.  Ný orkulöggjöf frá 2003 og síðan orkupakkar 2 og 3 hafa síður en svo reynzt landinu hjálplegir, enda eru þessir ESB-orkupakkar eins og örverpi í íslenzku umhverfi, hvort sem litið er á orkukerfið eða orkumarkaðinn. 

"Þegar endursamið var við ÍSAL snemma á áratugnum, spáðu sérfræðingar hækkandi orkuverði í Evrópu, sem þó var hátt. Á þessum tíma fór Landsvirkjun að mæla fyrir sæstreng og komst þar með í aðstöðu til að setja viðsemjendum úrslitakosti með hótunum.  Nú hefur dæmið snúizt við.  Orkuverð í Evrópu hefur lækkað, svo [að] sæstrengur er fjarlægur möguleiki, WOW lagði upp laupana, ferðaiðnaðurinn er í bakslagi og loðnan að bregðast í annað sinn.  Eftir samningshörku sína á liðnum áratug getur Landsvirkjun ekki búizt við öðru en hörku á móti, nú þegar dæmið er annað.  

Ekki er að efast um, að Rio Tinto leitar allra leiða til að losna undan verulegum hluta greiðsluskyldunnar með öllum ráðum.  Málaferli skapa óvissu, sem kann að hafa áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar og jafnvel orðspor Íslands, þegar þau komast í fréttir.  Þetta bætist ofan á vinnutap slíks fjölda manna, að um munar í hagkerfinu.  Sú staða, sem nú er uppi, hefur greinilega ekki verið ein sviðsmyndin í áhættumati Landsvirkjunar eða stefnumörkun." 

Eins og þessi texti kunnáttumanns á sviði orkumála ber með sér, eru stjórn og forstjóri Landsvirkjunar nú komin á leiðarenda í sinni illa grunduðu vegferð, sem reist var á fádæma röngu stöðumati, sem nú er að koma eigendum fyrirtækisins í koll.  Af þessum sökum eiga stjórnvöld nú ekki annarra kosta völ en að leysa þessa stjórn frá störfum og skipa nýja stjórn, sem er í stakk búin til að leiða hina klassísku orkunýtingarstefnu Landsvirkjunar til vegs og virðingar á ný, því að núverandi forysta fyrirtækisins hefur beðið algert skipbrot.  Þar með væri unnt að gera sér vonir um, að tjón af völdum fráfarandi forystu yrði lágmarkað.  Öðru vísi en að gera hreint fyrir sínum dyrum geta stjórnvöld ekki stýrt Landsvirkjun inn í nýtt tímabil, þar sem horfið verður frá rangsleitni og ranghugmyndum um hlutverk Landsvirkjunar.

"Sú stefna, sem er ráðandi í orkupökkum ESB, að allar ákvarðanir fyrirtækja í raforkugeiranum skuli byggjast á markaðsverðum, er óheppileg fyrir Ísland.  Markaðsverð raforku fyrir stóriðju ræðst á alþjóðamörkuðum, og annar markaður hér er lítill og myndar varla orkuverð, sem mark er á takandi.

  Stefnumótun fyrirtækja tekur mið af reglum orkupakka ESB, en ekki þörfum þjóðfélagsins.  Fyrirtæki orkugeirans leitast helzt við að styrkja stöðu sína hvort [hvert á e.t.v. betur við-innsk. BJo] gagnvart öðru og gagnvart stjórnvöldum, fulltrúum eigenda sinna.  Þetta er ekki farsælt til lengdar, og stjórnvöld þurfa að vinna orkugeirann út úr þessari stöðu."

Að ríkjandi stefna í orkumálum á Íslandi sé "óheppileg fyrir Ísland", er of vægt til orða tekið, eins og raunar má ráða af því, sem á eftir fer í tilvitnuninni. Hún er óviðeigandi og skaðleg, af því að aðstæður á orkumálasviði eru gjörólíkar þeim, sem orkupakkar Evrópusambandsins eru sniðnir við.  Þar af leiðandi fara hagsmunir Íslands og ESB ekki saman í orkumálum.  Það, sem stjórnvöld á Íslandi, utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið með stuðningi og hvatningu Alþingis, ættu að marka stefnu og "strategíu" (framkvæmdaáætlun) um, er, að fá undanþágu fyrir Ísland frá öllum helztu tilskipunum og reglugerðum orkulöggjafar ESB.  Þannig kýs höfundur þessa vefpistils að túlka lokamálsgreinina í þessari ágætu grein Elíasar.  

Hin greinin hét:

 "Frá sjónarhóli lyfjafræðings" 

og er höfundur hennar Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur.  Hann hefur réttilega áhyggjur af aðdráttum aðfanga til landsins á tímum lömunar athafnalífs og af langtímaáhrifum CoVid-19 faraldursins.  Ein þessara aðfanga eru vissulega orkugjafar á formi eldsneytis og gefur auga leið, að því fyrr sem orkuskiptin verða til lykta leidd hérlendis, þeim mun minni vá stendur landinu af truflun aðdrátta vegna hvers konar óáránar.  

Viðar reit m.a.:

"Hvað sem öllu líður, er mikilvægt að koma í veg fyrir, að fyrirsjáanlegur samdráttur leiði af sér framleiðslukreppu á nauðsynjum eða keðjuverkandi langtímaáhrif á atvinnuleysi. Innlend matvælaframleiðsla er hluti af þjóðaröryggi, og nú, þegar heimurinn er að lokast, hlýtur öllum að vera það ljóst.  Árásir umrótsmanna á landbúnað og sjávarútveg þarf því að brjóta á bak aftur.  Áform um að heimila innflutning á hráu kjöti, eggjum og mjólkurafurðum, þarf að leggja til hliðar, og þar sem sóttvarnir eru til umræðu, má skjóta því inn, að sýklalyfjaónæmar bakteríur drápu um 33 þúsund manns innan Evrópska efnahagssvæðisins á árinu 2015."

 

"Ísland verður í öllu falli ekki undanskilið yfirvofandi efnahagsáhrifum, en staða íslenzkra fyrirtækja er erfið og var erfið áður en faraldurinn lét á sér kræla.  Verkalýðsforystan virðist gengin af göflunum, og þeirra skollaleikur ásamt ofurgjöldum hins opinbera hefur þrýst fyrirtækjum í að keyra áfram á undirmönnun, og lítið má út af bregða. 

Líklega munu mörg fyrirtæki ekki lifa af næstu misseri.  Stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð, því [að] ekki verður hægt að huga að neinum innviðum án verðmætaframleiðslu hjá fyrirtækjum og mannauði þeirra."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Bragi Benediktsson

Já Árasirnar á landbúnaðinn hafa verið miklar. Landbúnaðarráðuneytið molað í mél og unnið gegn bændum á mörgum vígstöðvum. Næst fyrirhugað með hálendisþjóðgarði sem mun gera út af við hefðbundinn íslenskan landbúnað að mati t.d. Guðna Ágústssonar. Landbúnaðurinn þarf vernd vegna byggðasjónarmiða. Hvernig væri líka að stjórnmálamenn hættu "Réttarhöldunum" yfir atvinnulífinu, - hættu endalausri ábót á reglugerðarfargið, eftirlitsbrjálæðið og stofnanaveldið. Dæmi: Umhverfisstofnun leyfir bónda ekki að halda nokkra silunga í tjörn á eigin landi. 

Guðjón Bragi Benediktsson, 17.4.2020 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband