Lengi getur vont versnað

SARS-CoV-2 veiran herjar á alla markaði íslenzkra útflutningsatvinnuvega og líklega á alla markaði í henni versu. Á fiskmörkuðum Kína, Evrópu og Bandaríkjanna, hefur þannig orðið verðfall.  Verðin gætu orðið lengi að ná hæstu hæðum, því að fiskætur, eins og almenningur allur, hefur orðið fyrir kaupmáttarrýrnun, sem mun taka tíma að jafna sig.  Hún mun ekki hverfa, eins og hendi sé veifað. Sízt af öllu í skuldsettum þjóðfélögum. Tíminn, sem það tekur að endurreisa hagkerfið, fer alveg eftir því, hvernig efnahagslegar björgunaraðgerðir munu ganga, en búast má við, að gríðarleg verðmæti fari í súginn, og þar af leiðandi verður efnahagsáfallið ekki V-laga, eins og bjartsýnismenn vonuðu, en var vonlaust í ljósi umfangs tekjutapsins, heldur U-laga, þ.e. sennilega stöðnun fram á næsta ár eftir feikilegan samdrátt (mrdISK 300-500 í ár). Samt veittu nýjar fréttir frá Kína í lok marz 2020 von um, að þar yrði tiltölulega hraður viðsnúningur á framleiðslukerfinu, en það er ekki nóg fyrir okkur, þegar aðalmarkaðirnir eru í Evrópu og í Vesturheimi, og þar sér ekki fyrir endann á ósköpunum.

Ekki þarf að orðlengja, að ferðaiðnaður heimsins hefur stöðvazt.  Undirstrikar það, hversu viðkvæm þessi grein er og áhættusöm. Fjárfestingar í þessari grein verða taldar áhættusamar, því að nýr áhættuþáttur er kominn til skjalanna, sem getur raungerzt hvenær sem er aftur.   Hérlendis var fleyttur rjóminn af þessari grein, þegar vel áraði og áhugi var á norðurslóðum jarðar, m.a. vegna loftslagsumræðunnar,  en vegna hás og hækkandi kostnaðar á Íslandi var samdráttur hafinn hérlendis í þessari grein áður en botninn féll gjörsamlega úr henni í marz 2020. Sennilega er búið að offjárfesta í greininni, og gæti orðið mjög erfitt að ná aftur 2 M ferðamanna til landsins, hversu háum fjárhæðum, sem varið er úr ríkissjóði til að auglýsa landið.  Því fé kann að verða kastað á glæ.  Það er gagnslaust að sá í ófrjóan jarðveg. Vegna efnahagsáfallsins um allan heim mun fólk ekki endurheimta ferðaáhuga sinn upp til hópa á þessu ári.  Ofvaxin grein mun verða að endurskipuleggja sig í ár, því að hún getur ekki verið í fangi ríkissjóðs í heilt ár.  Lokun, eftirgjöf gjalda og greiðslustöðvun kemur til greina, en þennan leik verður tæplega hægt að endurtaka, næst þegar landinu verður lokað að kröfu þeirra, sem reka Schengen-samninginn.  

Segja má líka, að botninn sé dottinn úr áliðnaðinum, þegar LME-markaðurinn fyrir ál til endurbræðslu er staddur í kringum 1450 USD/t Al, eins og um þessar mundir.  Þótt framboðið hafi vafalaust minnkað, t.d. frá Kína, þá hefur eftirspurnin minnkað enn meir vegna þjóðfélagslömunar víða af völdum aðgerða sóttvarnayfirvalda.  Sama gildir um þessa eftirspurn og aðra.  Hraði endurreisnarinnar verður háður því, hvernig fjárhagur fyrirtækja, alþýðu og ríkissjóða, verður útleikinn eftir rothöggið. Til skamms tíma hækkar verðið ekki fyrr en bílaverksmiðjurnar opna aftur.  

Fólk verður að nærast á hollum og góðum mat, hvernig sem allt veltur.  Áður en fólk fer aftur í sitt hefðbundna neyzlufar er afar líklegt, að það veiti sér kaup á dýrum fiski úr Norðurhöfum. Ef hægt verður að koma því á framfæri, að neyzla þessarar vöru efli ónæmiskerfið, er leiðin greið.  Það er þess vegna líklegt, að fiskmarkaðir verði einna fyrstir til að ranka úr rotinu og spurn eftir eldislaxi muni aftur aukast hratt.  Þess vegna var ánægjulegt að lesa grein Kjartans Ólafssonar, sjávarútvegsfræðings og stjórnarmanns í Arnarlaxi, í Morgunblaðinu 21. marz 2020,

"Margföldum útflutningsverðmæti sjávarafurða Íslands".

Hún hófst svona:

"Nú þegar við stöndum andspænis nýjum áskorunum í efnahagslífinu og útlit er fyrir samdrátt í einni stærstu atvinnugrein landsins, þá þykir væntanlega mörgum athyglisvert að heyra, að Íslendingar geti á næstu árum margfaldað verðmæti þeirra sjávarafurða, sem við flytjum út. Hvernig ?  Jú, með því að rækta bláu akrana, sem finnast í efnahagslögsögu landsins.  Við Íslendingar urðum ein fremsta fiskveiðiþjóð á nýliðinni öld.  Ræktun fisks er hins vegar í dag orðinn stærri hluti sjávarútvegs en fiskveiðar á heimsvísu."

Það, sem Kjartan skrifar um þarna, er eina markverða hálmstráið, sem Íslendingar geta gripið til núna til að mynda nýjan og eftir atvikum traustan grunn fyrir nýja atvinnu- og gjaldeyrissköpun í landinu, en á henni veltur framtíð landsins. Greinin er þegar búin að slíta barnsskónum, tækniþekkingin og viðskiptasamböndin eru fyrir hendi og áhættufjárfestar eru reiðubúnir til að grípa tækifærið. Ferðaáhugi heimsbyggðarinnar verður ekki endurreistur í einni sviphendingu, og heimskreppa mun halda aftur af málmeftirspurn, en spurn eftir mat á borð við villtar og ræktaðar sjávarafurðir hlýtur að glæðast tiltölulega fljótt.  Þess vegna eiga stjórnvöld að gefa þessum lífvænlegasta sprota atvinnulífsins lausan tauminn innan marka áætlaðs burðarþols fjarða á leyfðum svæðum, nema vel rökstuddur grunur sé um óviðunandi áhættu fyrir lífríkið á viðkomandi stað. 

"Burðarþol þeirra fjarða og flóa, sem Hafrannsóknastofnun hefur þegar metið, er í heildina rúm 140 kt, margfalt það magn, sem fiskeldisfyrirtækin hafa nú leyfi til að ala í þessum fjörðum. Enn er eftir að meta nokkra firði, þannig að burðarþol þeirra svæða, sem henta og þola fiskeldi að mati vísindamanna og eftirlitsstofnana, gæti verið nær 200 kt.  Heildarburðarþol strandlengjunnar er þó líklega mun meira eða um 500 kt ársframleiðsla.  Með 500 kt ársframleiðslu af laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar. Með því væru Íslendingar að byggja ofan á aldalanga reynslu sína af fiskveiðum, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða.  Það er bæði skynsamlegt og gæti einnig verið nauðsynlegt til að verja stöðu okkar, nú þegar eldi sjávarafurða er orðið umfangsmeira en fiskveiðar í heiminum."   

 Hér er um efnilegasta vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs að ræða um þessar mundir. Það þarf í ljósi aðstæðna í atvinnulífi landsmanna að hraða áhættugreiningum, sem eftir eru og endurskoðun bráðabirgða greininga, sem gefa eiga til kynna ráðlegan hámarks lífmassa í eldiskvíum á leyfilegum eldisstöðum við Ísland m.t.t. lífríkisins, sem þar er fyrir, aðallega laxfiska. Þetta verður sú grein, sem borið getur uppi atvinnusköpun og hagvöxt framtíðarinnar og tekið við af ferðaþjónustunni í þeim efnum.  

Það, sem Kjartan Ólafsson líklega á við, þegar hann nefnir burðarþol strandlengjunnar, eru risakvíar, sem hægt er að staðsetja úti fyrir fjörðum.  Slíkar kvíar eru Norðmenn farnir að prófa hjá sér.  Hérlend stjórnvöld þurfa nú endilega að hefja athugun á því, hvar ráðlegt er að leyfa þessar risakvíar. Norðmenn eru þegar búnir að koma fyrir a.m.k. einni slíkri risakví til reynslu.  Hún var smíðuð í Kína og dregin í sjónum til Noregs.

Ef hérlendis verður árlega slátrað 500 kt (k=þúsund) af eldislaxi, má búast við, að gjaldeyrisverðmæti hans muni nema a.m.k. 500 mrdISK/ár, sem er um 40 % aukning útflutningsverðmæta undanfarinna ára og meira en nam gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar í fyrra.  Til þess að viðhalda hér hagvexti til að halda uppi lífskjörum, að áfalli vegna SARS-CoV-2 slepptu, þá þarf þessi aukning útflutningstekna að eiga sér stað á 10 ára tímabili að hámarki. Það er engin önnur atvinnugrein í sjónmáli, sem afkastað getur lunganum af þessari verðmætaaukningu.  Þess vegna á að veðja á hana, nú þegar komið hefur í ljós, hversu hættulegt er, að ferðaþjónustan sé aðalgjaldeyrisskapandi landsins.

 Auðvitað á að þróa fóðurframleiðslu fyrir þetta eldi hérlendis.  Hráefnið í það kemur bæði úr hafi og af landi.  Það kemur t.d. úr fiskbræðslum og tilvonandi repjuræktun.  Sú síðarnefnda getur þannig orðið mjög ábatasöm, því að stönglarnir og hratið fara í fóðrið, en fræolían í eldsneyti, t.d. fyrir togaraflotann.  

Fiskeldið skapar um 7 bein störf/kt og 14 óbein störf/kt eða alls 21 starf/kt samkvæmt norskum viðmiðunum.  Þannig gæti þessi framleiðsla skapað tæplega 11 þúsund heilsársstörf og raunar meira m.v. reynsluna hérlendis og með áðurnefndri fóðurframleiðslu. Greinin mun ekki hafa í för með sér nein ruðningsáhrif á vinnumarkaðnum, heldur skapa kærkomin tækifæri.   

Þann 10. febrúar 2020 skrifaði Einar K. Guðfinnsson, starfsmaður SFS og fyrrverandi ráðherra, mjög upplýsandi grein í Morgunblaðið,

"Búhnykkur nú þegar þörf krefur".

Undirgreinin, "Fiskeldi vex fiskur um hrygg",

hljóðaði þannig:

"Sem betur fer sjáum við mikilsverð dæmi um aukinn útflutning.  Þannig hefur fiskeldi svo sannarlega  "vaxið fiskur um hrygg", svo [að] vitnað sé í fleyg orð úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Framleiðsla í fiskeldi hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári.  Alls var slátrað um 34 kt.  Árið 2018 nam þessi framleiðsla rúmum 19 kt.  Þetta er 80 % aukning á milli ára, og á laxeldi þar langstærstan hlut að máli.  Laxeldisframleiðslan tvöfaldaðist á milli ára, fór úr rúmum 13 kt í 27 kt.  Framleiðsla á bleikju jókst sömuleiðis myndarlega, var tæp 5 kt árið 2018, en 6,3 kt í fyrra, sem er 29 % aukning.

Útflutningsverðmæti fiskeldisins nam á síðasta ári um mrdISK 25.  Það svarar til um MISK 100 hvern einasta virkan dag ársins.  Þetta er um 90 % aukning - nær tvöföldun - á milli ára.

Til þess að setja þetta í annað samhengi má benda á, að útflutningsverðmæti fiskeldisafurða var um 10 % af verðmæti sjávarafurða í fyrra, og hefur hlutfallið aldrei verið hærra."

Það eru gríðarlegir vaxtarmöguleikar fólgnir í fiskeldinu, eins og sjá má af því, að á næstu tveimur áratugum gæti framleiðslan 20-faldazt með því að taka úthafskvíarnar í brúk.  Þetta mun veita mörgum vinnufúsum höndum og hugum eftirsóknarverða vinnu, eins og fram kemur í næstu tilvitnun, sem er úr undirgrein Einars:

"80 % launateknanna falla til á landsbyggðinni":

"Tæplega 500 manns unnu í fiskeldi hér árið 2018, sem er þreföldun á einum áratug.  Launagreiðslur námu um mrdISK 3,5 á því ári.  Um 80 % launatekna í fiskeldi falla til á landsbyggðinni.  Varlega talið, samkvæmt því, sem Byggðastofnun reiknaði út og rímar við það, sem við þekkjum frá öðrum löndum, má ætla, að afleidd störf séu annað eins.  Ljóst er, að störfum fjölgaði umtalsvert og launatekjur jukust í fyrra með stóraukinni framleiðslu, og sú þróun mun halda áfram.  Þetta er fagnaðarefni, ekki sízt við efnahagsaðstæðurnar núna."

Einar tiltekur þarna fjölda launþega, en ekki ársstörf, svo að um hlutastörf kann að vera að ræða í einhverjum mæli.  Alla vega jafngilda þessar upplýsingar 26 manns/kt árið 2018, sem er mjög hátt m.v. 7 bein ársstörf/kt í Noregi.  Þar eru afleiddu störfin talin vera 14 ársstörf/kt eða alls 21 ársstarf/kt, en á Íslandi um 50 starfsmenn/kt samkvæmt upplýsingum Einars.  Það er áreiðanlega meiri framleiðni í Noregi á þessu sviði vegna hagkvæmni stærðarinnar, en jafnframt er öruggt, að framleiðnin mun vaxa hér með aukinni framleiðslu. Sé gert ráð fyrir, að hér verði 40 ársstörf/kt, þá munu vegna fiskeldisins, beint og óbeint, verða hér 20 k heilsársstörf, ef tekst að koma framleiðslunni í risakvíar úti fyrir úthafinu. 

Í lok greinar sinnar skrifaði Einar K. Guðfinnsson:

"Veruleg tækifæri liggja í frekari vexti.  Miðað við útgefin leyfi og þær forsendur, sem fyrir liggja af hálfu löggjafans, má búast við aukinni framleiðslu og útflutningi í ár og í framtíðinni.  Með minnkandi útflutningstekjum og meira atvinnuleysi er hið aukna fiskeldi því kærkominn búhnykkur, sannkallað búsílag.  Vaxandi fiskeldi mun hjálpa okkur að ná nauðsynlegum markmiðum um auknar útflutningstekjur, hagvöxt, ný og fjölbreytt störf, og veita komandi kynslóðum spennandi tækifæri.  Fiskeldið er sem betur fer þegar orðin þýðingarmikil stoð í efnahagslífi okkar og mun skipta stöðugt meira máli í framtíðinni."

Það er hægt að taka heilshugar undir þessa sýn Einars K. Guðfinnssonar á þessa atvinnugrein, sem lofar góðu um traust og verðmæt störf á þeim svæðum, þar sem Alþingi hefur leyft hana, aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum.  Stjórnvöld mega þá fyrir alla muni ekki draga lappirnar. Þau þurfa að gefa í á öllum sviðum nýsköpunar.  Það verður að koma nýrri, öflugri stoð undir atvinnulífið eftir alkul í ferðaþjónustu. Það á við um umgjörð greinarinnar, leyfisveitingaferli og eftirlitsþjónustuna, en þó sérstaklega þróun innviðanna.  Þeir verða að taka stakkaskiptum. 

Stórfelld starfsemi á þessu sviði útheimtir greiðar samgöngur á landi allan ársins hring og örugga afhendingu raforku af viðunandi spennugæðum (samkvæmt alþjóðlegum staðli).  Þetta þýðir, að 66 kV flutningskerfið og allt dreifikerfi raforku þarf að fara í jörðu.  Áformum um dreifikerfið var flýtt til 2025 eftir norðanáhlaupið í desember 2019, og vonandi bætir Landsnet flutningskerfið verulega á allra næstu árum líka.  Hins vegar verður 132 kV Vesturlínan alltaf vonarpeningur í óveðrum, og þess vegna er bráðnauðsynlegt, að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um rafmagn, enda eiga þeir næga virkjanakosti til þess í vatnsföllum sínum.  

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Bragi Benediktsson

Er nokkur von til þess að Umhverfisstofnun eða Kommúnistastjórn Íslands leyfi ræktun "bláu akranna" eða stuðli yfirhöfuð að nokkurs konar efnahaggsvexti nema fyrir slysni. 

Guðjón Bragi Benediktsson, 18.4.2020 kl. 20:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Neyðin kennir nakinni konu að spinna.  Það eru gömul sannindi, sem gætu átt hér við. 

Bjarni Jónsson, 19.4.2020 kl. 10:38

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sé ekki alveg hvernig þetta gengur upp. Ef vandamál hefðbundins sjávarútvegs er fiskverð, hlýtur það þá ekki einnig að vera vandamál fiskeldis?

Hins vegar er skynsamlegt að einbeita sér að því að nýta orkuna, fari svo að stóriðjan hverfi úr landi, til að stórauka grænmetisræktun hér.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.4.2020 kl. 11:01

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hægt og sígandi (e.t.v. á 3 árum) hlýtur verð á villtum fiski og eldisfiski að jafna sig.  Fólk þarf prótein, hvernig sem allt veltur, og prótein úr bæði villtum þorski og eldislaxi hefur tiltölulega lítið kolefnisspor.  Við markaðssetninguna verður væntanlega aukin áherzla lögð á heilnæmi umhverfisins hér norður frá.  Eldislax hefur lengst af verið með meiri framlegð en villtur þorskur, en markaðurinn vill auðvitað báðar tegundirnar.  

Markaðurinn, innanlands og utan, ætti að vera móttækilegur fyrir mun meira af íslenzkum ylræktarvörum, ef greinin nær hagstæðum orkusamningum, sem gætu verið blanda af samningum um forgangsorku og ótryggða orku.  Það er nóg svigrúm fyrir slíka samninga, þótt núverandi stóriðja framleiði á fullu líka.  Aðalorkunotkunin er heitt vatn til upphitunar.  Raforkuþörfin verður aðeins lítið brot af raforkunotkun málmverksmiðjanna 2018.  Ef samningar takast bráðlega um raforkuviðskipti Landsvirkjunar og ISAL, þá þarf að fara að hefja næstu virkjun.  Ef ekki, verða 3,0 TWh/ár bráðlega á lausu í kerfinu, en það er ekki þar með sagt reyndar, að LV megi selja þá orku öðrum.  Á viðmiðunarverði LV eru reyndar engir kaupendur.  

Bjarni Jónsson, 20.4.2020 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband