21.4.2020 | 18:01
Útflutningsdrifinn hagvöxtur
Íslenzkum sóttvarnaryfirvöldum og landsmönnum virðist hafa tekizt betur upp við að hemja útbreiðslu SARS-CoV-2 veirunnar en flestum öðrum, og miðað við staðfestan fjölda sýktra ("virk smit") á hverjum tíma hefur fjöldi á sjúkrahúsi verið tiltölulega lágur, og sama er að segja um fjölda dauðsfalla m.v. önnur lönd. Þann 2. apríl 2020 hætti fjöldi sjúkra að aukast og fór síðan lækkandi. Það þýðir hjöðnun faraldursins um 5 vikum frá fyrsta greindu smiti, sem er ágætur árangur á alþjóðavísu.
Hugmyndafræðin, sem Sóttvarnalæknir beitir, virðist hafa haldið dreifingu sjúkdómsins í skefjum, eins og kostur var, en starfsfólk heilbrigðiskerfis og umönnunarstofnana á stóran hlut að góðum árangri, sem hefur t.d. lízt sér í tiltölulega mjög fáum dauðsföllum, en með það var lagt af stað í upphafi vegferðar. Síðan 26.03.2020 hefur dagleg hlutfallsleg aukning smita verið vel undir 10 % og iðulega undir 5 %. Fjöldi sjúklinga á sjúkrahúsi af völdum COVID-19 fór fyrst í 5,0 % 13. apríl, eftir að hjöðnun sjúkdómsins hafði staðið yfir í eina viku, þ.e. sjúklingum farið fækkandi, og það er líklega einstakt í heiminum. Ástæðan er stjórnunarlegt meistarastykki, sem var fólgið í að sinna sjúklingum í einangrun, aðallega heima hjá sér, með símtali eða heimsókn heilbrigðisstarfsmanns.
Það skiptir máli fyrir orðspor Íslands, hvernig til tekst við að ráða niðurlögum þessa COVID-19 faraldurs, og það kann aftur að hafa áhrif á viðreisn viðskiptanna, aðallega á matvæla- og ferðamannasviðunum. Ferðageirinn mun koma illa laskaður út úr nánast allsherjar stöðvun mánuðum saman, og ferðamannastraumurinn ekki ná sér á strik fyrr en e.t.v. árið 2022, þótt reytingur geti orðið á næsta ári.
Hins vegar verður fólk að borða, og ef þessi reynsla hefur kennt fólki eitthvað, þá er það um mikilvægi hollrar næringar og heilsusamlegra lífshátta til eflingar ónæmiskerfinu. Þetta gæti létt undir með íslenzkum útflutningsaðilum matvæla og auðveldað þeim að hasla sér völl að nýju bæði á mörkuðum fyrir veitingahús og heimiliskaup.
Í Fiskifréttum 26. marz 2020 var fróðleg umfjöllun um matvælamarkaðina í ljósi faraldursins:
""Eftirspurn eftir ferskum fiski er lítil sem engin í Evrópu, og sambærileg staða er í Bandaríkjunum", segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Hann ræddi áhrif COVID-19 á bæði sjávarútveg og landbúnað á ríkisstjórnarfundi á þriðjudagsmorgun [24.03.2020]. Undanfarið hefur hann reglulega upplýst ríkisstjórnina um stöðuna."
Það er ljóst, að útgöngubann eða samkomubann hefur áhrif á sölu matvæla, en eitthvað mun fólk kaupa sér til viðurværis, þegar það hefur gengið á birgðirnar (í frystinum). Í þessu ljósi eru eftirfarandi orð ráðherrans umhugsunarverð:
"Hann segir þetta ástand mögulega gett sett strik í reikninginn til lengri tíma. "Það er ekkert ólíklegt, að neyzluhegðun fólks breytist í framhaldinu, og í því eru bæði tækifæri og miklar ógnanir og áskoranir.""
Ef þetta mat ráðherrans er rétt, þá ætti breytingin á matarvenjum fólks eftir sjúkdómsfaraldur fremur að verða í átt til hollustusamlegra mataræðis. Þar ætti íslenzkur fiskur, kjöt og grænmeti, að koma sterklega til skjalanna, enda hljóta íslenzkir matvælaútflytjendur nú að hamra á hollustunni frá Íslandi. Vissulega getur tiltölulega góð útkoma COVID-19 sjúklinga hérlendis styrkt þessa ímynd af Íslandi, því að, þrátt fyrir tiltölulega útbreitt smit á meðal landsmanna framan af, lenda fáir smitaðra á sjúkrahúsi og dauðsföll eru tiltölulega fá. Auðvitað má draga þá ályktun, að ónæmiskerfið í landsmönnum eigi þátt í því, hvernig til hefur tekizt.
Ráðherra virðist vera svartsýnn á framhaldið, eins og neðangreind tilvitnun ber með sér. Það kann að stafa af vissunni um lægri kaupmátt almennt á erlendum (og innlendum) mörkuðum eftir fárið en áður var, og þá ríður á að geta haft áhrif á forgangsröðun neytandans:
""Hins vegar hef ég áhyggjur af markaðssetningu íslenzkra sjávarafurða erlendis og því umhverfi, sem þar er. Það er atriði, sem við þurfum að gaumgæfa vel, hvernig við getum farið til þess verks", segir Kristján og bætir því við, að Atvinnuvegaráðuneytið sé að vinna að aðgerðapakka, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Hann verði kynntur fljótlega eða öðru hvoru megin við næstu helgi."
Tók fjallið jóðsótt og fæddist lítil mús ?
Ásgeir Ingvarsson tók Ásdísi Kristjánsdóttur tali í 200 mílum mbl.is 25. marz 2020. Það er alltaf fengur að boðskap Ásdísar:
"Umræðan um íslenzkan sjávarútveg er ólík umræðunni um flestar aðrar atvinnugreinar. Hún litast af deilum um allt frá grunnforsendum fiskveiðistjórnunarkerfisins; hvernig kvótanum er skipt, eða hve mikið má veiða; yfir í, hvernig sjávarútvegsfyrirtækin starfa, og með hvaða hætti á að skattleggja afnot þeirra af auðlindinni. Virðist stundum, að því betur sem árar í greininni, þeim mun háværari verði deilurnar, og segir Ásdís Kristjánsdóttir, að svipður tónn hafi komið í umræðuna um ferðaþjónustu, þegar uppgangur varð í þeirri grein."
Það er ekki deilt um góða skilvirkni fiskveiðistjórnunarkerfisins á sviði bæði umhverfisverndar, fjárfestinga og rekstrar. Í kerfinu er lágmarkssóun, það hvetur til gjörnýtingar hráefnisins. Má segja án þess að skreyta mikið, að enginn komist með tærnar, þar sem Íslendingar hafa hælana í þessum efnum. Þess vegna eru deilur um þetta stjórnunarfyrirkomulag á auðlindanýtingu sjávar í raun deilur um keisarans skegg, sem litlu máli skipta.
"Þegar vel gengur hjá fyrirtækjunum, í sjávarútvegi sem í öðrum greinum, er efnahagslegur ábati m.a. fólginn í aukinni verðmætasköpun, fjölgun starfa og hærri skatttekjum. "Lífsgæði okkar eru í grunninn byggð á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Ísland er dropi í hafi heimshagkerfisins og því mikilvægt, að útflutningsgreinar okkar geti sótt inn á stærri markaði."
Sjávarútvegurinn er ekki aðeins undirstöðugrein fyrir lífsafkomu landsbyggðarinnar. Hann er meginundirstaða hagkerfis landsins, eins og COVID-19 hefur berlega leitt í ljós, en þessi heimsfaraldur hefur drepið ferðamennskuna sem atvinnugrein hvarvetna í dróma og lamað áliðnað og aðra málmframleiðslu. Þótt veiran hafi svæft fiskmarkaði Íslendinga erlendis, standa engin rök til annars en þeir verði langt á undan flestum öðrum mörkuðum að hjarna við og ná sér á strik. Á meðan hjarðónæmi hefur ekki náðst, hvorki í hinum vestræna heimi né í Austur-Asíu, er hætta á, að faraldurinn gjósi upp aftur, og þessi hætta gæti haldið ferðamennskunni í heljargreipum mánuðum saman.
"Lífskjör eru góð á Íslandi, raunar ein þau beztu í heimi, og forsenda þess, að við getum bætt lífskjör okkar áfram er, að hér vaxi og dafni áfram útflutningsgreinar, sem standa framarlega á sínum sviðum."
Það er tómt mál á allra næstu árum að bæta hér lífskjörin. Eftir stórfellt efnahagsáfall af völdum veirunnar SARS-CoV-2, sem leiða mun til samdráttar hagkerfisins um allt að 15 % í ár (mrdISK 450), eru versnandi lífskjör óhjákvæmileg af þeirri einföldu ástæðu, að miklu minna er til skiptanna en áður. Launþegar verða að taka á sig hluta af þessu áfalli og fjármagnseigendur hluta. Til að vinna svo þetta tap upp er grundvallaratriði að treysta undirstöður vöruútflutnings frá landinu til bezt borgandi markaða heims og að komast framhjá tollmúrum þeirra. Til þess þurfum við víðtækan fríverzlunarsamning við Engilsaxana, Breta og Bandaríkjamenn, tollaafnám fyrir sjávarafurðir á Innri markaði Evrópu, að nýta betur fríverzlunarsamninginn við Kínverja og að opna aftur vinsamlegt viðskiptasamband við Rússland.
"Ásdís bætir við, að á Norðurlöndunum vegi umræðan um samkeppnishæfni útflutningsgreina þungt, þegar skattheimta og launaþróun eru ræddar. "Við þurfum á hverjum tíma að spyrja okkur, hvort verið er að ganga of langt í skattheimtu, og hvort laun séu í samræmi við undirliggjandi verðmætasköpun atvinnulífsins og getu þess til að standa undir hækkandi launakostnaði. Nú, þegar atvinnulífið stendur frammi fyrir verulegum samdrætti í efnahagslífinu vegna kórónuveirufaraldursins, blasir við, að höggið verður þeim mun meira á útflutningsgreinar okkar, enda eru landamæri víða að lokast, útflutningur á ferskum fiski hefur dregizt saman um tugi prósenta, og fiskvinnslustöðvar búa sig undir frekari samdrátt."
Þetta er rétt, og sá ósveigjanleiki, sem einkennt hefur afstöðu Alþýðusambandsins (ASÍ) gagnvart viðbrögðum, sem sniðin eru til að minnka tjón launþeganna, mun hitta verkalýðshreyfinguna illilega fyrir. Kjaramál á Íslandi eru í ólestri, og nú er eigið fé íslenzks atvinnulífs að brenna upp. Hraði þess bruna jókst 1. apríl 2020, þegar umsamdar launahækkanir tóku gildi á almenna vinnumarkaðinum, eins og enginn væri morgundagurinn. Hryggjarstykki ríkisvaldsins er með þeim hætti, að það hafði ekki bolmagn til að tefja kollsteypuna (með lagasetningu). Það blasir við, að lífskjör á Íslandi eru nú fölsk og munu hrapa. Verkalýðshreyfingin bætir ekki úr skák með því að stinga hausnum í sandinn. Atvinnuleysið og lífskjaraskerðingin verða meiri fyrir vikið. Atvinnulífið getur ekki staðið undir núverandi launatöxtum.
"Ásdís segir mikilvægt að bregðast skjótt við þeim aðstæðum, sem nú eru uppi og taka breytingum dag frá degi. Þegar faraldurinn hefur gengið yfir, tekur við tímabil uppbyggingar, og þá skiptir öllu máli að styðja við sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar, þannig að þær nái viðspyrnu á sem skemmstum tíma.
Fyrirsjáanlegt er, að rekstur ríkisins verði þungur næstu misserin samfara minni efnahagsumsvifum og fallandi skatttekjum, en viðbrögð stjórnvalda megi hins vegar ekki vera af sama meiði og eftir síðustu efnahagskrísu, þegar skattar á atvinnulífið voru hækkaðir.
"Verkefnið framundan er að leggja grunninn að áframhaldandi hagvexti; það verður ekki gert með aukinni skattheimtu á atvinnulíf, sem er nú þegar verulega laskað eftir þessar efnahagsþrengingar"
"Ásdís minnir á, að það sé þessi fjárfesting í bættum veiðum og vinnslu, sem hafi hjálpað sjávarútveginum að dafna. "Samfara aukinni fjárfestingu í tækjum og tækni hefur tekizt að bæta nýtingu og auka verðmæti sjávarafurða, svo að við stöndum vel í samanburði við helztu samkeppnisþjóðir okkar. Árið 1985 var t.d. nýtingarhlutfall þorsks 58 %, en í dag [2020] er það rúmlega 80 %. Á sama tíma er nýtingarhlutfall þorsks 53 % í Færeyjum og 46 % í Kanada."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta er góður pistill, en það er margt sem þarf að hafa í huga. Þeir sem eru að berjast við að hafa í sig og á kaupa ekki mikið af "lúxus" fæði. Íslenskur fiskur fellur almennt í þann flokk.
Virkilega góður og hollur matur, sem margir vilja kaupa, spurningin verður hversu margir munu leyfa sér það?
Þannig að það veltur mikið á hvernig tekst til í viðskiptalöndum Íslendinga með uppbygginguna og hvernig millistéttin fer út úr þeim hildarleik sem nú geysar.
Auðvitað verður efsti hlutinn í veitingahúsageiranum ennþá til staðar. En hann er varla nóg.
Það verður alltaf hægt að selja fisk, en hvað verð fæst fyrir hann er spurningin.
Ef mikil minnkun verður í flugi til langframa, verður sömuleiðis erfiðara að koma honum ferskum á markað.
G. Tómas Gunnarsson, 21.4.2020 kl. 18:19
Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort breytingar á heimsviðskiptum í kjölfarið á þessu gætu orðið til þess að það skapist grundvöllur fyrir alvöru virðisaukandi framleiðslustarfsemi hérlendis. Einhverjir myndu segja að það væri langsótt að Íslendingar gætu byggt upp slíka starfsemi, en við eigum samt einhver fyrirtæki sem hefur tekist það. Þar eru Össur og Marel fremst í flokki. Eitt af því sem hefur staðið slíkri starfsemi fyrir þrifum hér er einmitt mjög hár launakostnaður. En kannski verða breytingar á stöðu okkar varðandi þetta gagnvart öðrum löndum á næstu árum.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.4.2020 kl. 22:18
Það eru eftirtektarverð fyrirtæki í landinu, e.t.v. um 40 talsins, sem nýta sér þróun og nýsköpun til að kynna markaðnum nýjungar, sem fela í sér umtalsverða verðmætasköpun vegna meiri gæða, betri nýtingar hráefnis og orku og framleiðniaukningu. Þetta gerist nánast alltaf í samstarfi við væntanlega kaupendur og notendur, og oftar en ekki kemur ný hugmynd þaðan, og fundin er lausn til að verða við óskum viðskiptavinarins hjá s.k. hátæknifyrirtækjum. Þessir viðskiptavinir koma oftast úr röðum framleiðsluatvinnuveganna, t.d. sjávarútvegs og stóriðju. Þess vegna eru atvinnuklasarnir athyglisverð fyrirbæri. Þar koma ólíkir aðilar saman innan sömu grunngreinar. "Virðisaukandi framleiðslustarfsemi" verður aldrei til í tómarúmi. Hún þarf náin tengsl við notendur framleiðslu sinnar og þjónustu. Hvort COVID-19 hefur varanleg áhrif hérlendis, verður alfarið háð áhrifum pestarinnar á mörkuðum okkar. Það er þó ljóst, að skuldsetning hérlendis mun vaxa mikið, en líklega ekkert síður í markaðslöndum okkar. Allt hægir það á efnahagsbatanum.
Bjarni Jónsson, 23.4.2020 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.