Hagkerfi á heljarþröm

Kórónaveiran SARS-CoV-2 er ekki jafnbráðdrepandi og SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og fáeinum öðrum ríkjum 2003-2004, en var ekki jafnsmitandi.  Þekkt er frá þessari öld önnur og bráðdrepandi veira, sem olli EBÓLU-veikinni á afmörkuðu svæði Afríku, en hana tókst að hefta og kveða niður sem betur fór. 

 Mjög mismunandi dánarfregnir berast frá löndum um hlutfall dauðsfalla af af smituðum af SARS-CoV-2 veirunni.  Á Íslandi virðist hlutfall látinna af fjölda sýktra vera einna lægst eða tæplega 0,6 %.  Yfirleitt er hlutfallið 10-20 sinnum hærra.  Á meðan svo er, er ekki hægt að áfellast stjórnun sóttvarna hérlendis, heldur vera þakklátur stjórnendunum og öllu heilbrigðisstarfsfólki.

 Hins vegar er ljóst, að efnahagsleg fórnarlömb hérlendis og á alþjóðavísu verða fjölmörg, og íslenzka hagkerfið og hagkerfi heimsins verða lengi að ná sér, enda gæti verið um að ræða versta efnahagsáfall hérlendis síðan í Móðuharðindunum, þótt ólíku sé saman að jafna um fjárhagslegan og heilsufarslegan viðnámsþrótt. Verst er, að nægilega skelegga forystu virðist vanta á landsvísu og á meðal launþega til að sammælast um nauðsynleg neyðarlög til að draga úr  reiðarslaginu á atvinnulífið. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þó á Alþingi viðrað það, að æðstu menn ríkisvaldsins gengju á undan með góðu fordæmi um launalækkanir. Verkalýðsforingjar virðast sumir halda, að ríkissjóður einn geti séð um að létta byrðum í nægilegum mæli af fyrirtækjum, sem nú brenna upp eigin fé sínu, til að þau tóri nógu lengi til að ná bata, þegar rofar til.  Það er dýrkeypt strútshegðun. 

Af grunnatvinnuvegunum mun matvælaframleiðslan braggast fyrst, iðnaðurinn mun vonandi braggast síðar á þessu ári eftir miklar fórnir, en ferðageirinn mun koma með gjörbreytta ásýnd, og þar verða ekki veruleg umsvif fyrr en 2021.  Allt hefur þetta sýnt ofboðslega veikleika nútíma þjóðfélags.  Það hlýtur að verða sett í framhaldinu mikið fé til höfuðs veirum til að draga úr líkum á faröldrum af þessu tagi.  Þær virðast flestar gjósa upp í Kína, og hefur athyglin beinzt að matarmörkuðum þar, sem eru varla mönnum bjóðandi nú á tímum.  Þar á ofan bætist hættan á, að hættulegar veirur sleppi út af rannsóknarstofum.  Kínverski herinn mun t.d. reka eina slíka í borginni Wuhan, en veirur eru þróaðar í nokkrum löndum í hernaðarskyni. 

Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, ritaði þann 21. apríl 2020 eina hinna fróðlegustu greina í Morgunblaðið um hagfræðilegar afleiðingar COVID-19, sem birzt hafa í fjölmiðlum landsins. Hún hét:

"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld"

Þar var boðskapurinn sá, að þegar upp verður staðið, mun tjónið af völdum veirunnar markast af viðbrögðunum.  Sem fyrr erum við okkar eigin gæfu smiðir.  Þá kvað hann "mikilvægt að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu.  Þessir aðilar eru ekki framleiðendur.  Þeir ráðstafa einungis þeirri framleiðslu þjóðarinnar, sem hún lætur þeim í té með sköttum."  Þess vegna er það arfavitlaus leið, sem þingmaður Samfylkingar lagði til sem lausn á atvinnuleysinu, að nú skyldi ríkið hefja stórfelldar ráðningar.  Það eru villuljós af þessum toga, sem eru til þess eins fallin að lengja í hengingaról landsmanna.  Það vantar framsæknar tillögur, sem lágmarka tjónið og flýta endurreisninni, sem jafnframt verður að fela í sér hraða uppgreiðslu lána til að vera í stakk búin að mæta næsta áfalli án þess að renna á rassinum í fang AGS. 

 "Afleiðingar Covid-faraldursins bitna á flestum höfuðgreinum íslenzks efnahagslífs. Ferðaþjónustan, sem lagt hefur beint um 8 % til íslenzkrar þjóðarframleiðslu og e.t.v. 10-12 %, þegar allt (beint og óbeint) er talið, hefur því nær verið þurrkuð út.  Sjávarútvegur og stóriðja hafa orðið að þola verulegar verðlækkanir og sölutregðu.  Framlag þessara atvinnugreina til þjóðarframleiðslunnar minnkar að sama skapi.  Svipaða sögu má segja um fjölmargar iðnaðargreinar.  Margar þjónustugreinar og verzlun hafa orðið að þola enn meiri samdrátt."

 Þessar hörmungar hafa opnað augu manna fyrir því, að ferðaþjónustan er ekki venjuleg atvinnugrein, heldur stóráhættu grein ("high risk activity").  Fjárfestingar í þessari grein hljóta að draga dám af því.  Greinin, sem hefur státað af að draga hlass "íslenzka efnahagsundursins" eftir 2009, er nú að miklu leyti við dauðans dyr í fangi ríkisins sem aðalfórnarlamb veirunnar.  Það verður mjög áhættusamt að láta þessa grein áfram í framtíðinni verða stærstu gjaldeyristekjulind landsins.  Það verður að þróa aðrar gjaldeyrislindir, sem eru ekki jafnsveiflugjarnar, og umfram allt þarf að fjölga stoðum gjaldeyrisöflunar.  Bent hefur verið á fiskeldið í því sambandi, og yfirvöld landsins verða fremur að liðka þar fyrir nýjungum en að þvælast fyrir, t.d. varðandi þróun úthafskvía, sem t.d. Norðmenn eru með á tilraunastigi núna.

"Eins og staðan er núna, má fullvíst telja, að þjóðarframleiðsla Íslands minnki mjög mikið á þessu ári.  Nánar tiltekið eru nú horfur á, að hún minnki um 10-15 % frá árinu 2019.  Þetta merkir, að þjóðin hefur mrdISK 300-450 minna af raunverulegum verðmætum til að ráðstafa til neyzlu og fjárfestinga.

Ástæða er til að undirstrika, að hér er um gríðarmikið efnahagshögg að ræða, sennilega það mesta í heila öld.  Þarf að leita aftur til ársins 1920 til að finna svipaða samdráttartölu í þjóðarbúskapnum.  Jafnvel í kreppunni miklu 1931 og fjármálakreppunni 2008-2009, sem mörgum er í fersku minni, var samdrátturinn ekki svona mikill."

Af nýjustu fréttum má ráða, að efri mörk Ragnars, 15 % samdráttur þjóðartekna m.v. 2019, verði nær sanni.  Það gefur til kynna, hver niðurfærsla launa í landinu þarf að verða til að aðlaga launastigið raunhagkerfinu í stað verðbólgu vegna gengissigs.  Um 10 % m.v. meðallaunataxta 2019 er lágmarks tímabundin lækkun, sem æðsta stjórn ríkisins ætti að ganga á undan með til að vera fordæmisgefandi.  Þetta mun létta og flýta fyrir endurreisninni.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Menn eru enn uppteknir af því að lágmarka heilsufarslegann skaða, nú er kominn tími á að fara að opna hagkerfið aftur.

Emil Þór Emilsson, 24.4.2020 kl. 16:14

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég er reyndar ekki viss um að hægt sé að fullyrða, á grunni þeirrar sjálfsmorðsárásar á efnahagslífið og lífsafkomu fólks sem stjórnvöld um allan heim hafa nú ákveðið að gera, að ferðaþjónusta sé stóráhættugrein. Ekkert frekar en álframleiðsla eða sjávarútvegur, sem þó verða fyrir miklum búsifjum vegna árásarinnar. Svona lagað hefur nefnilega aldrei gerst áður.

Ég held fremur að þegar öll kurl koma til grafar muni það koma á daginn að áhættan liggur í tvennu: Annars vegar er það tilheiging okkar til skaðlegrar hjarðhegðunar. Hins vegar virðist mér vera að koma upp á yfirborðið djúpstæð hugsunarvilla í vísindum nútímans, en hún er sú að láta ávallt töluleg gögn ráða ákvörðunum, jafnvel þótt ljóst megi vera að gögnin eru kolröng.

Niðurstaðan verður líklega sú að tugmilljónir manna munu deyja úr hungri og vesöld vegna viðbragða við veirusjúkdómi sem hefur í för með sér dánartíðni sem er litlu hærri en fylgir venjulegri inflúensu.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.4.2020 kl. 00:03

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er margt til í þessu, Þorsteinn, og "sjálfsmorðsárás á efnahagslífið" er sláandi lýsing á gjörðum stjórnmálamanna, sem þjóðir heims verða lengi að bíta úr nálinni með.  Ég held, að veirufaraldrar verði meginógn 21. aldarinnar, en ekki t.d. CO2 í andrúmslofti.  Það er þá frekar mikil mengun í andrúmslofti og á jörðu niðri, sem ógna mun tilverunni.  Fyrr á þessari öld slapp mannkynið fyrir horn í þrjú skipti.  SARS og Mers voru ekki eins smitandi og núverandi SARS-CoV-2, en ebólan var bráðsmitandi og drap 60 % sjúklinga.  Með samstilltu stórátaki tókst að hemja hana á afmörkuðum svæðum Afríku.  Mér vitanlega hefur enn ekki verið þróað bóluefni gegn henni.  Reynslan af COVID-19 faraldrinum sýnir, að ferðaþjónustan fer langverst út úr afleiðingum slíkra smitandi heimsfaraldra, og nú er talið, að ferðahugur verði ekki sá sami og áður í nokkur ár.  Á þessum grundvelli er niðurstaða mín sú, að fjárfestingar í ferðaþjónustu séu áhættusamari en talið hefur verið og áhættusamari en fjárfestingar í matvælaframleiðslu og iðnaði.  Þjóðhagslega virðist mér óráð að reiða sig á langmesta gjaldeyrsöflun þessarar greinar, en samt vona ég, að greinin rísi úr öskustó.  Ég má t.d. ekki til þess hugsa, að Icelandair fari á hausinn.

Bjarni Jónsson, 26.4.2020 kl. 10:22

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, sé það svo að heimsfaröldrum fjölgi er hárrétt að ferðaþjónustan verður væntanlega sveiflukenndari grein en áður. Þar með verður hún áhættusamari, nema ef henni tekst að laga sig að nýjum aðstæðum, sért þú sannspár um þetta. Velta í ferðaþjónustu gæti líka minnkað.

Fram til þessa hefur meginvandinn við að reiða sig á gjaldeyrisöflun ferðaþjónstunnar verið sá að hún er láglaunagrein og það er ekki endilega svo mikið sem situr eftir af gjaldeyrisöfluninni á endanum, þegar tekið hefur verið tillit til aðfanga vegna rekstrar og fjárfestinga. Ég er alveg gallharður á því að alvöru tækniiðnaður sem skilar háum virðisauka sé besta leiðin til að auka auðlegð í samfélaginu. Við þurfum miklu fleiri fyrirtæki á borð við Marel og Össur, fyrirtæki sem geta skapað sér samkeppnisforskot og þannig verðlagt framleiðsluvöruna hátt. Matvælaframleiðsla getur líka skilað sínu. Hér er það sjávarútvegurinn sem gerir það. Landbúnaður er hins vegar almennt ekki mjög samkeppnisfær hér vegna loftslagsins.

En svo er annað sem vert er að velta fyrir sér. Á undanförnum árum og áratugum hefur aðfangakeðjan lengst verulega í mörgum greinum. Mun hættan á að það sem við sjáum nú í formi stórfelldrar truflunar á samgöngum og flutningum ekki hafa þau áhrif að fyrirtæki reyni að stytta þessa keðju? Það merkir í flestum tilfellum að fyrirtæki færa framleiðsluna nær sér. Það gæti þýtt að efnahagslíf á Vesturlöndum færi að færast aftur í það horf sem það var áður en framleiðslan fór að flytjast til Kína.  

Þorsteinn Siglaugsson, 27.4.2020 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband