26.4.2020 | 10:49
Heimilisbölið er verst
Vágestur frá borginni Wuhan í Kína hefur sett heimsbyggðina á annan endann. Við sérstakar aðstæður á matarmarkaði í Wuhan er sagt, að veiran SARS-CoV-2 hafi borizt úr leðurblöku í hreisturdýr og þaðan í menn, þar sem hún hefur stökkbreytzt oft. Það er líka orðrómur um, að þessi veira hafi sloppið út af lífefnafræðistofu í Wuhan, sem starfrækt er af kínverska hernum. Þykir uppbygging veirunnar styðja þá sviðsmynd, þar sem hún virðist vera samsett úr SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og nágrannalöndum, og HIV-eyðniveirunni, sem var meira smitandi en hin. Það er einmitt smitnæmi veirunnar, sem gerir hana viðsjárverða og hefur valdið örvæntingarfullum viðbrögðum þjóða, sem hafa reynzt ofboðslega kostnaðarsöm og hagkerfin eru ekki búin að bíta úr nálinni með. Þetta ástand hefur líka leitt hugann að því, hversu tortímandi veiruhernaður getur verið í höndum hryðjuverkamanna eða ríkisvalds, sem einskis svífst. Slíkt ríkisvald gæti t.d. þróað skæða veiru og bóluefni gegn henni og bólusett eigin þjóð og bandamenn sína og sleppt svo veirunni lausri. Það er voðalega hætt við því, að alþjóðaviðskiptin bíði varanlegan hnekki við C-19 og að ferðaþjónustan verði stærsta fórnarlambið. Það er óhætt að leggja stækkunarhugmyndir ISAVIA vegna FLE á ís.
Það hverfur allt í skugga frétta af C-19, enda munu daglegir fundir sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarna hafa verið vinsælasta sjónvarpsefnið, þegar veiran geisaði, þótt ótrúlegt megi heita.
Það eru örlagaríkir tímar nú hjá ISAL í Straumsvík, og ber ekki á öðru en stefnt sé að lokun verksmiðjunnar 30.06.2020, en þá renna kjarasamningar við starfsmenn fyrirtækisins út. Álag verksmiðjunnar á raforkukerfið dvínar með hverri vikunni, sem líður, enda er áreiðanlega hætt að endurnýja rafgreiningarker, sem falla úr rekstri. Þetta er þyngra en tárum taki nú, þegar landið þarf á allri sinni framleiðslugetu að halda til útflutnings og gjaldeyrissköpunar, þegar engir erlendir ferðamenn koma til landsins.
Það er fyrir neðan allar hellur, ef ríkisstjórnin ætlar að láta þetta gerast fyrir framan nefið á sér, því að Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkisins. Það er enginn að tala um fúlgur fjár úr ríkissjóði til ISAL, heldur að varðveita tekjustreymi frá fyrirtækinu og starfsmönnum þess til hins opinbera með lækkun á einu hæsta raforkuverði í heimi til starfandi álvers.
Sérfræðingur í orkumálum og orkusamningum Landsvirkjunar, enda stoð og stytta stjórnarformanns og forstjóra fyrirtækisins um orkusamninga þess um langa hríð, Elías B. Elíasson, ritaði grein um þessi málefni, sem birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2020 undir neðangreindri fyrirsögn. Hann gerði fyrst að umræðuefni sláandi upplýsingar um stöðu ISAL og samskiptin við Landsvirkjun, sem var efniviður mjög athygliverðrar forsíðufréttar og baksviðsgreinar Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 7. apríl 2020. :
"Að þrasa frá sér viðskiptavin":
"Hið síðara var svar Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, þar sem hann m.a. fárast yfir arðgreiðslum Ísal fyrir þrem árum og býsnast yfir því, að kjarasamningar þar voru ekki samþykktir lengur en fram á sumar. Skýrar verður því varla kastað yfir borðið til viðsemjanda, að það sé ekkert við hann að tala. Svona einfaldlega gerir maður ekki, þegar um er að ræða samninga, sem eru jafn þjóðhagslega mikilvægir og þessir, allra sízt á svo viðsjárverðum tímum sem nú."
Þetta er hárrétt mat hjá Elíasi. Viðbrögð forstjóra Landsvirkjunar við bitrum sannleikanum, sem þarna birtist þjóðinni umbúðalaust, báru vott um dómgreindarleysi og voru forstjóraembættinu ósamboðin með öllu. Þennan forstjóra varðar ekkert um fjárstreymi, sem fram fer á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis, sem kaupir af Landsvirkjun orku. Fjárstreymi þetta er búið að vera margfalt í hina áttina, og munar þar mestu um MUSD 500 fjárfestingu Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008. Þá er hreinn dónaskapur af forstjóranum að blanda sér í efni eða tímalengd kjarasamninga í Straumsvík. Allt sýnir þetta, að þessi forstjóri er bara í bullandi pólitík gegn erlendum iðnaðarfjárfestum á Íslandi. Á slíkum þurfum við sízt á að halda nú á þessum síðustu og versu tímum með tæplega 20 % atvinnuleysi og sums staðar 40 %.
"Áður fyrr var það reglan, að viðræður fóru fram í "góðri trú", eins og það heitir á lagamáli. Landsvirkjun virðist hafa vikið af þeirri braut, en tímabært er að taka þá góðu siði upp aftur. Það er svo annað mál, hvort hægt sé að koma upp því trausti, sem ríkja þarf [á] milli aðilanna án þess að skipta um í brúnni."
Í góðri trú í þessu sambandi merkir, að báðir aðilar eru staðráðnir í að ná samkomulagi, sem báðir mega við una, og báðir eru sannfærðir um, að gagnaðilinn sé í viðræðunum af fullum heiðarleika og án undirmála. Þetta felur auðvitað í sér, að hvorugur aðilinn hótar hinum og komið er fram af fullri hreinskilni.
Nú er öldin önnur. Síðan vinstri stjórnin réð Hörð Arnarson til starfa, hefur forstjóri Landsvirkjunar verið herskár í garð viðskiptavina sinna og látið í veðri vaka við þá, að ef þeir gangi ekki að skilmálum hans, hafi Landsvirkjun þann möguleika að selja rafmagn inn á sæstreng, sem tengja myndi Íslandskerfið við Innri orkumarkað ESB. Þá hefur verið skellt hurðum og komið þar með fram af ókurteisi við viðsemjendur. Það þarf minna til en þetta til að hleypa illu blóði í gagnaðilann, kannski ekki sjóaða samningamennina, heldur þá, sem þeir starfa í umboði fyrir. Þegar ríkisfyrirtæki á í hlut, sem er langstærsta raforkufyrirtæki landsins, þá hefur framkoma af þessu tagi pólitískt inntak, sem er grafalvarlegt fyrir þingmenn og þjóðina alla.
"Búast má við miklum breytingum í öllum viðskiptum milli þjóða í kjölfar COVID-19-faraldursins. Sterkar raddir eru uppi í vestrænum ríkjum um, að tryggja þurfi örugg aðföng mikilvægra vöruflokka betur en nú er, jafnframt því sem hert er aftur á hjólum efnahagslífsins. Þó að nú sé mest rætt um vörur til heilbrigðisgæzlu, fer ekki [á] milli mála, að ál er grundvallar hráefni fyrir þessar þjóðir. Þjóðirnar verða að tryggja iðnaði sínum greiðan aðgang að þessu hráefni, hvað sem líður öllum ófriðarblikum og tilraunum annarra, eins og Kína, til að ná yfirráðum á þeim markaði."
Elías skrifar þarna um ýmis merki um aukinn stuðning við kaupauðgistefnu ("merkantílisma"), sem núverandi forseti Bandaríkjanna virðist reyndar vera fulltrúi fyrir, þegar hann ræðir ekki um hreinsiefni í æð eða útfjólubláa geislun í heilsuverndarskyni "í kerskni". Það getur verið, að sú verði raunin um lykilvörur fyrir næringaröryggi, sóttvarnaöryggi og landvarnir, en meginstefnan verður vonandi áfram frjáls viðskipti með sem minnstum tollahindrunum. Hvernig Kínverjar hafa hagað sér á álmarkaðinum jafngildir grófri misnotkun viðskiptafrelsis, og hundsun á mikilvægum sjónarmiðum, sem þjóðir heims hafa sammælzt um til að draga úr áhrifum mannsins á náttúruna. Þeir hafa ekki hikað við að reisa kolaorkuver hundruðum saman til þess m.a. að framleiða ál með niðurgreiddum kostnaði af hálfu opinberra aðila, sem sent er á vestræna markaði til þess eins að valda þar offramboði og að drepa af sér samkeppni á þessu sviði á Vesturlöndum. Það skaðar ekki frjálsa samkeppni að stöðva þetta framferði. Hvers vegna eigum við svo að beygja okkur í duftið fyrir Huawei og kaupa af þeim 5 G tækni ? Varaforseti BNA varaði okkur við því í heimsókn sinni hingað í fyrra, þar sem forsætisráðherra varð heldur betur á í messunni, eins og eftirminnilegt er.
"Vesturlöndum er líka ljóst, hvaða þýðingu lágt orkuverð hefur, þegar byggja þarf upp hagvöxt þjóða, eins og nú þarf. Það er því líklegt, að baráttan gegn loftslagsvánni muni færast yfir á önnur svið en það að hækka verð á rafmagni upp úr öllu valdi. Sú sviðsmynd, sem Landsvirkjun hefur boðað, að orkuverð, og sérstaklega verð hreinnar orku, muni hækka og hækka er því orðin afar varasöm."
Þarna skyggnist Elías af skarpskyggni sinni inn í heim orkumála nánustu framtíðar. Atburðir, sem gerðust á olíumörkuðum heimsins eftir birtingu greinarinnar og á síðustu dögum nýliðins vetrar, veita smjörþefinn af því, sem koma skal og sýna, að Elías á kollgátuna. Hann kveður helzt til veikt að orði um stefnu Landsvirkjunar við orkuverðlagningu. Stefna, sem er útúrboruleg sérvizka, verður þjóðhættuleg, þegar hún er gerð að stefnu helzta orkufyrirtækis landsins. Að svo skyldi vera gert, er gjörsamlega ólíðandi, því að stefnumörkunin var ekki aðeins röng, heldur fór hún fram á rangan hátt. Ef gæta átti lýðræðishagsmuna, eins og vera ber um ríkisorkufyrirtæki, mátti það ekki gerast, að stefnumörkun Alþingis fyrir Landsvirkjun væri snúið á haus án umræðu, hvað þá samþykkis, á Alþingi. Hvaðan kom stjórn og forstjóra umboð til að kúvenda stefnu Landsvirkjunar ? Ef umboðið var ekki fyrir hendi, ætti slíkt að geta leitt til brottvikningar.
"Það er stefna Landsvirkjunar að hámarka verðmæti þeirra auðlinda, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, en túlkun Landsvirkjunar virðist vera, að verðmætin komi í ljós í tekjustreymi hennar einnar án tillits til þess virðisauka, sem lágt orkuverð veldur í þjóðfélaginu. Þetta er röng túlkun. Þjóðin stofnaði þetta fyrirtæki til að skapa sjálfri sér tækifæri til að hagnast, og Landsvirkjun er því ætlað að hámarka þjóðhagslegt verðmæti auðlindanna, svo [að] öll þjóðin njóti góðs af. Þá túlkun þarf að marka með eigendastefnu fyrirtækisins."
Allt er þetta satt og rétt hjá Elíasi, og góð vísa er aldrei of oft kveðin, segir máltækið. Hér skal fullyrða, að lágt orkuverð auki hagvöxt í landinu, en hátt orkuverð hægi á hagvexti. Þar af leiðandi verður miklu meiri þjóðhagslegur ávinningur í landinu af, að Landsvirkjun gæti hófs í verðlagningu sinni, gæti þess að skila góðri framlegð til fjárfestinga sinna, en algerlega verði hætt við að skila sem mestum arði í þjóðarsjóð, sem mun vera hugarfóstur forstjórans, Harðar Arnarsonar. Hann hefur haft forgöngu um kolranga verðlagsstefnu, sem valdið hefur tjóni á þjóðarbúinu. Ætla má, að ókunnugleiki hans á orkumálum og rótgróin andúð á stóriðjufyrirtækjum í erlendri eigu hafi ráðið þarna mestu um. Þessi stefna hans er nú komin á leiðarenda, og endurupptaka fyrri stefnu Landsvirkjunar, sem alltaf hefur verið stefna Alþingis, svo bezt er vitað, hlýtur að verða eitt af endurreisnarverkefnum ríkisstjórnar og þingmanna á næstunni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 27.4.2020 kl. 10:02 | Facebook
Athugasemdir
Það hefur verið bent á, að mest virðisaukandi starfsemi sé fólgin í hönnun og smíði á sérhæfðum búnaði, þar með hugbúnaði. Þar er þýzka "Mittelstand" glæsilegt fordæmi. Þetta eru lítil og meðalstór fyrirtæki, oft fjölskyldufyrirtæki, sem hafa þróað sérhæfða framleiðslu. Oftar en ekki hafa þau skotið rótum með því að þjónusta stórfyrirtæki í Þýzkalandi. Á Íslandi hafa hafa hátækni-framleiðslufyrirtæki líka oftast orðið til með því að bjóða stórum greinum, eins og sjávarútvegi og stóriðju, þjónustu sína. Þeim þarf að vaxa fiskur um hrygg með viðskiptum innanlands. Öðru vísi er mjög erfitt að þróa þessa sérhæfðu starfsemi. Þegar hún er komin á legg, skapar hún mikil verðmæti á hvert starf. Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin, sagði skáldið.
Bjarni Jónsson, 27.4.2020 kl. 21:48
Froðlegt og gott að lesa.
Helga Kristjánsdóttir, 27.4.2020 kl. 23:56
Fróðlegt
Helga Kristjánsdóttir, 27.4.2020 kl. 23:56
Takk fyrir, Helga. Gott, að þú hafðir not af lestrinum. Nóg er af "froðusnakkinu".
Bjarni Jónsson, 28.4.2020 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.