24.5.2020 | 18:05
"Óttast um framtíð evrunnar"
Ofangreind fyrirsögn var á frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu 7. maí 2020 í tilefni dóms Stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins í Karlsruhe. Hvort ástæða er til að óttast um framtíð evrunnar vegna þess dóms skal ósagt láta, enda hefur hún ýmsa fjöruna sopið. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2007-2008, þegar evran stóð tæpast 2012, var henni haldið uppi af framleiðslumætti Þýzkalands. Nú hefur framleiðslumáttur Þýzkalands lamazt, og æðsti dómstóll Þýzkalands hefur skotið aðvörunarskoti bæði í átt að Evrópudómstólinum, ECJ, og Evrubankanum, ECB, fyrir það að túlka heimildir ECB til ríkisskuldabréfakaupa allt of vítt og frjálslega. Þetta er gamalkunnugt viðhorf þýzkra hagfræðinga í Bundesbank og fulltrúa hans í stjórn ECB og stangast alveg á við stefnu rómanskra þjóða um lausatök á ríkisfjármálum, dúndrandi ríkissjóðshalla og skuldasöfnun hins opinbera. Fyrir vikið er efnahagslegur viðspyrnukraftur þessara þjóða núna afar takmarkaður, og þau reiða sig á, að germönsku þjóðirnar á evru-svæðinu hlaupi undir bagga með sér aftur.
Til þess m.a. að kaupa ríkisskuldabréf hefur Evrópusambandið (ESB) safnað saman í "Faraldurseignakaupasjóð" - "Pandemic Equity Purchase Program" - PEPP, mrdEUR 750. Hinn franski bankastjóri ECB hafði hins vegar ekki þolinmæði til að bíða eftir þessum sjóði og taldi, að miklu meira þyrfti til, enda hefur ECB nú þegar spreðað út mrd EUR 2´200 frá 2014. Þetta var kært í hópmálssókn Þjóðverja til Karlsruhe.
"Óvæntur úrskurður þýzka stjórnlagadómstólsins í fyrradag hefur hleypt mikilli óvissu í tilraunir Evrópusambandsins til þess að finna sameiginlega lausn fyrir ríki evrusvæðisins á kórónaveirukreppunni.
Stjórnlagadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að Seðlabanki Evrópu hefði líklega farið gróflega fram úr heimildum sínum við kaup á skuldabréfum vegna kórónaveirunnar, en upphæð þeirra nemur nú um 2´200 milljörðum evra [nær yfir lengra tímabil-innsk. BJo]. Um leið hefði bankinn óbeint seilzt inn í fjárveitingarvald þýzka sambandsþingsins.
Gaf dómstóllinn bankanum þrjá mánuði til þess að sanna, að meðalhófi hefði verið fylgt við skuldabréfakaupin, ellegar yrði Seðlabanka Þýzkalands meinað að taka frekari þátt í magnbundinni íhlutun evrópska bankans.
Niðurstaða dómstólsins kemur á einkar óheppilegum tíma fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem leggur nú allt kapp á að finna sameiginlega lausn á kórónaveirukreppunni."
Hér er gamalkunnugt deilumál Þjóðverja og Frakka í brennidepli. Réttara væri að segja, að germönsku þjóðirnar eru hallar undir þýzka hagfræðiskólann, sem leggur áherzlu á aðskilnað ríkisstjórnar og seðlabanka, þar sem annar á að sjá um hallalausan rekstur ríkisins, en hinn á að varðveita heilbrigði peningakerfisins með lágri verðbólgu og jákvæðri ávöxtun sparnaðar. Það er órói á meðal Þjóðverja með það, að raunvextir eru nánast engir orðnir, en Þjóðverjar eru sparsöm þjóð og spara m.a. til elliáranna á bankareikningum.
Rómönsku þjóðirnar vilja, að ríkisstjórnirnar grauti í öllu saman, aðhaldslítið (og drekki rauðvín með). Afleiðingin af því er bullandi halli á ríkissjóði, skuldasöfnun og verðbólga.
Stjórnlagadómstóli Þýzkalands hefur ofboðið hegðun ECB í kórónafárinu og telur evrubankann skorta heimildir til stórfelldra skuldabréfakaupa af ríkissjóðum, sem Gallinn Lagarde hefur beitt sér fyrir. Stjórnlagadómstóllinn leitaði álits ESB-dómstólsins, ECJ, sem taldi ECB mega stunda þessa peningaprentun. Hugsunargangur Framkvæmdastjórnarinnar kemur vel fram í eftirfarandi:
"Sagði Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri Sambandsins í efnahagsmálum, að ef sum ríki svæðisins drægjust um of aftur úr öðrum, gæti það hæglega ógnað framtíð evrunnar og Innri markaði ESB, en að um leið væri hægt að koma í veg fyrir hana [ógnina-innsk. BJo] með sameiginlegum aðgerðum."
Það sem ECB er að gera er að kaupa skuldabréf ríkissjóða rómönsku landanna og Grikkja í miklum mæli og í minni mæli af öðrum, til að koma í veg fyrir, að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa illa settra ríkja rísi upp í himinhæðir yfir ávöxtunarkröfu skuldabréfa þýzka ríkissjóðsins og lendi þar með í ruslflokki. Þar með yrði hætt við greiðsluþroti þessara ríkissjóða, einnig hins franska, svo að mjög mikið hangir á spýtunni. Þjóðverjar telja, að Christine Lagarde, hinn franski aðalbankastjóri ECB, sé að draga allt evrusvæðið ofan í svaðið, og Karlsruhe beitir fyrir sig lagabókstaf, að sjálfsögðu:
"Það vakti sérstaka athygli, að fyrir utan "viðvörunarskot" stjórnlagadómstólsins þýzka í átt að Seðlabanka Evrópu, setti hann einnig ofan í við dómstól Evrópusambandsins og sagði, að afstaða hans til meðalhófs í þessu efni væri "óskiljanleg" og í engu samræmi við afstöðu dómstólsins á nánast öllum öðrum sviðum Evrópuréttar. Ályktaði stjórnlagadómstóllinn því sem svo, að dómarar Evrópudómstólsins hefðu farið út fyrir lagalegar heimildir sínar.
Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi Evrópusamrunans árið 1957, sem Stjórnlagadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu, að ákvarðanir og gerðir evrópskra stofnana hafi brotið í bága við þýzku stjórnarskrána, en Stjórnlagadómstóllinn hefur aldrei viðurkennt, að lög og reglur Evrópusambandsins séu rétthærri en þýzka stjórnarskráin.
Um leið benti Stjórnlagadómstóllinn á það sérstaklega í úrskurði sínum, að Lissabon-sáttmálinn hefði ekki sett lög ESB ofar lögum aðildarríkjanna og að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki."
Hér er fram komin tímabær og gagnmerk yfirlýsing, eins konar fullveldisyfirlýsing æðsta dómstóls Sambandslýðveldisins Þýzkalands, sem hafa mun lögfræðileg og fullveldisleg bylgjuáhrif um allt Evrópska efnahagssvæðið.
Þetta kom flatt upp á ECJ, dómstól ESB, sem tók þessari þýzku breiðsíðu ekki þegjandi, eins og frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Mogganum 9. maí 2020 bar með sér. Hún hafði fyrirsögnina:
"Hafnar niðurstöðu stjórnlagadómstólsins":
"Evrópudómstóllinn lýsti því yfir í gær, að hann einn hefði lögsögu yfir evrópska seðlabankanum. Hafnaði dómstóllinn þar með alfarið niðurstöðu þýzka stjórnlagadómstólsins, þar sem bæði bankinn og Evrópudómstóllinn voru gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart skuldabréfakaupum bankans.
Í tilkynningu dómstólsins sagði m.a., að til þess, að hægt væri að tryggja, að lög ESB væru alls staðar túlkuð á sama hátt, hefði dómstóllinn einn "lögsögu til að skera úr um, að [hvort] aðgerð stofnunar ESB sé í trássi við lög Sambandsins.
Þá sagði, að skoðanamunur milli dómstóla hvers og eins aðildarríkis um lögmæti slíkra gjörða myndi vera líklegur til að setja hina lagalegu skipan sambandsins úr skorðum og draga úr réttaröryggi."
Þetta er þunnur þrettándi hjá ESB-dómstólinum og jafngildir pólitískum orðahnippingum við þýzku Stjórnlagadómarana, því að ECJ hefur enga tilburði uppi til að vísa í þá lagagrein, sem veitir evrubankanum svo takmarkalitlar heimildir, sem hann hefur tekið sér, eða hvaðan ECJ hefur einn lögsögu yfir evrubankanum.
"Úrskurður stjórnlagadómstólsins á þriðjudaginn var sérstaklega harðorður í garð Evrópudómstólsins, sem að sögn þýzku dómaranna hafði farið fram úr lagalegum heimildum sínum, þegar hann fjallaði um mál Seðlabankans, og hefði í raun gerzt "afgreiðslustofnun" fyir bankann.
Þá áréttaði Stjórnlagadómstóllinn þá afstöðu sína, að aðildarríki Sambandsins væru "ábyrg fyrir [gagnvart - innsk. BJo] sáttmálum þess" og að ESB væri ekki sambandsríki."
Hér eru stórtíðindi á ferð. Dómstóll ESB, ECJ, er vanur að fara sínu fram og skeytir lítt um lagaheimildir, ef "eining ESB" er annars vegar. Nú mætir hann aðhaldi, er bent á af stjórnlagadómurum aðildarlands, að hann skorti heimildir fyrir gjörðum sínum og sé í reynd þægt verkfæri annarra; starfi eftir pöntun. Þá firrtist ECJ og fer í ham einvaldskonunga í Evrópu á fyrri tíð:
"Vér einir vitum".
Hvorki ECB né ECJ hafa heimildir fyrir gjörðum sínum samkvæmt stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonsáttmálanum. ESB er ekki sambandsríki og er þess vegna ekki ábyrgt gagnvart þessum sáttmála eða öðrum, heldur aðildarríkin, og æðsti dómstóll hvers aðildarríkis sker úr um, hvað má og hvað má ekki. Nú flæðir undan réttargrundvelli óhófsaðgerða ECB.
Frétt Morgunblaðsins, þar sem óttast var um framtíð evrunnar, lauk þannig:
"Sú ályktun [Karlsruhe] kallaði á svar frá Brüssel, og sagði talsmaður Framkvæmdastjórnar ESB það vera skoðun Sambandsins [svo ?], að lög þess væru rétthærri lögum aðildarríkjanna og að ríki þess hefðu fallizt á að vera bundin af úrskurðum dómstóls ESB. Framundan gæti því verið hörð lagaleg rimma um stöðu Evrópuréttar innan Þýzkalands, eins helzta forysturíkis ESB.
Um leið virðist nokkuð ljóst, að tilraunir til þess að leysa kórónaveirukreppuna með útgáfu sameiginlegra "kórónuskuldabréfa" muni rekast á þýzku stjórnarskrána og komi því ekki til greina.
Ríkisstjórnir Spánar og Ítalíu gætu því orðið nauðbeygðar til þess að sækja um neyðarlán til Seðlabanka Evrópu, en þær hafa verið tregar til þess að stíga slík skref, ekki sízt í ljósi þess fordæmis, sem Grikklandskreppan 2012 gaf, þar sem harðir skilmálar fylgdu neyðarláni bankans.
Úrskurður Stjórnlagadómstólsins hefur því leitt til stórra spurninga um framvinduna innan ESB, og hvernig það muni leysa úr þeirri stöðu, sem kórónaveirufaraldurinn færði því."
Neyðarlán frá ECB einum til ríkisstjórna kemur ekki til greina nú fremur en 2012, því að bankinn er ekki þrautavaralánveitandi. Árið 2012 endurskipulagði þríeykið AGS, ESB og ECB, ríkisfjármál Grikklands, og sami háttur verður líklega hafður á aftur, ef ríkissjóðir aðildarlanda ESB lenda í greiðsluþroti. Það er svo lítillækkandi ferli, að reyna mun mjög á veru viðkomandi ríkis í myntsamstarfinu. Ekki var í fréttinni minnzt á bleika fílinn í stofunni, Frakkland. Þjóðverjar munu væntanlega ekki taka þá neinum vettlingatökum nú fremur en á krossgötum fyrri tíðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Dómstóll Evrópusambandsins (ESB) er æðsta dómsvald ESB og hefur aðsetur í Lúxemborg."
"Sérhvert aðildarríki ESB skipar eina dómarastöðu við dómstólinn. Hver dómari gegnir embættinu í sex ár í senn en getur verið endurskipaður. Stjórnvöld aðildarríkjanna tilnefna eigin dómara."
"Stofnanir ESB, aðildarríki, einstaklingar og lögaðilar innan ESB geta átt aðild að málum dómstólsins.
Þá geta landsdómstólar aðildarríkjanna beðið um forúrskurð frá dómstólnum og er hann bindandi. Dómari getur beðið um forúrskurð ef vafi leikur á hvernig eigi að túlka tiltekin ákvæði ESB-löggjafar sem geta haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Dómstóll ESB tekur þó ekki afstöðu til málsins sjálfs og lætur landsdómstólnum eftir að dæma í málinu. Niðurstaðan verður að vera í samræmi við túlkun Dómstóls ESB á viðkomandi ákvæði ESB-laga.
Túlkun Dómstóls Evrópusambandsins á Evrópurétti er bindandi fyrir aðildarríkin og eru fordæmi hans því afar mikilvæg réttarheimild."
Þá kemur fram í 3. og 6. gr. EES-samningsins að EES-ríkin skuldbindi sig til að skýra og beita ákvæðum samningsins í samræmi við úrskurði og dóma Dómstóls ESB og EFTA-dómstóllinn vísar nær alltaf til fordæma Dómstóls ESB í niðurstöðum sínum."
Þorsteinn Briem, 24.5.2020 kl. 18:42
Bretland er að sjálfsögðu stórt ríki en hvorki með evru né á Schengen-svæðinu.
Írland er hins vegar með evru en ekki á Schengen-svæðinu, eins og Ísland og Noregur, sem eru de facto í Evrópusambandinu með aðild þeirra að Evrópska efnahagssvæðinu en hafa ekki atkvæðisrétt í Evrópusambandinu.
Og Írar hafa engan áhuga á að hætta að nota evru sem sinn gjaldmiðil.
Á evrusvæðinu búa um 340 milljónir manna, fleiri en í Bandaríkjunum.
Eistland fékk aðild að evrusvæðinu árið 2011, Lettland 2014 og Litháen 2015.
Og Króatía fékk aðild að Evrópusambandinu árið 2013.
3.7.2015:
Þrír fjórðu Grikkja vilja halda evrunni og einungis 15% telja drökmu vænlegri gjaldmiðil
Þorsteinn Briem, 24.5.2020 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.