25.6.2020 | 11:13
Stórtækar og öfgafullar friðlýsingartillögur
Umhverfis- og auðlindaráðherra án þingsætis hefur viðrað tillögur um risavaxinn Hálendisþjóðgarð, sem engin þörf er fyrir og yrði varðveizlu náttúru að engu leyti hjálplegri en núverandi fyrirkomulag, þar sem sveitarfélög og íbúar (bændur) þeirra koma mest við sögu. Nóg um það. Nú hefur hann gengið fram með tillögu, e.t.v. "spill for galleriet", sýndarleik, sem fjallar um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Jón Gunnarsson, Alþingismaður, sýndi almenningi fram á það með Morgunblaðsgrein sinni 26. maí 2020:
"Að friðlýsa landið og miðin",
að hér er um löglaust framferði ráðherrans að ræða, sem engin sátt getur orðið um á meðal meirihluta þingheims, enda er málið á leiðinni fyrir dómstóla.
Öfgafullt hugarfar og viðhorf umhverfis- og auðlindaráðherra til reglusetninga um það, hvernig nýta má hálendið og reyndar hefðbundnar orkulindir, hvar sem þær er að finna hérlendis, er sorglegt. Hvers vegna vill hann stöðugt breyta leikreglunum sínum skoðunum í vil ? Það verður að þræða hinn gullna meðalveg í þessum efnum, sem felst í að nýta þær orkulindir, sem spurn er eftir, ef fórnarkostnaðurinn "að beztu manna yfirsýn" og með blessun Alþingis er minni en hinn þjóðhagslegi ávinningur. Spriklið í umhverfis- og auðlinda bendir til, að hann sætti sig ekki við þessa nálgun. Hann á dálítið bágt að geta ekki spurt kjósendur sína ráða, því að þeir eru engir. Hann getur aðeins hlustað í bergmálshelli Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það er ógæfulegt til ákvarðanatöku í þágu þjóðar.
Nú verður vitnað til hinnar öflugu greinar Jóns:
"Tillaga verkefnisstjórnarinnar og þar með þingsályktunin var því unnin áður en málsmeðferðareglur laganna tóku gildi. Í þeim felast m.a. verklagsreglur, sem verkefnisstjórn og faghópar skulu fylgja. Verkefnisstjórn rammaáætlunar 2 vann sem sagt aldrei eftir þessum reglum, því að þær voru ekki til. Verkefnisstjórnin hafði ekki á þessum tíma (fyrir 2011/2013) það hlutverk að afmarka virkjunarsvæði eða virkjunarkosti. Af því leiðir, að afmörkun virkjunarsvæða eða virkjunarkosta var ekki hluti af tillögu verkefnisstjórnar og þar með heldur ekki hluti af ályktun Alþingis. Rammaáætlun 2 skorti því öll fyrirmæli um, hver væru mörk virkjunarsvæða eða virkjunarkosta og þingsályktunin því mjög ófullkomin að þessu leyti."
"Það er greinilega úr vöndu að ráða fyrir ráðherra umhverfis- og auðlindamála, þegar ákveða skal leiðina. En ráðherrann ákvað sem sagt, að lög og verklagsreglur, sem ekki voru til, þegar verkefnisstjórn vann tillögu að ramma 2, og ekki voru í gildi, þegar þingsályktunin frá 2013 var samin og samþykkt, skuli veita leiðsögnina um mörk friðunar."
Þetta er góð röksemdafærsla fyrir því, að umhverfis- og auðlindaráðherra veður reyk í tilraunum sínum til friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Gjörðir ráðherrans eru ólögmætar og út í hött. Það gengur ekki, að ráðherra gangi erinda sérhagsmunaafla í landinu, sem draga úr möguleikum núverandi og komandi kynslóða til að taka ákvarðanir um atvinnutækifæri, gjaldeyrissparnað eða gjaldeyrissköpun.
Síðan heldur Jón áfram:
"Í engu tilviki voru heil vatnasvið sett í verndarflokk í rammaáætlun 2, þingsályktun 13/141. Í öllum tilvikum er talað um virkjunarkosti. Friðanir eða tillögur þar um verða að taka mið af þessu. Ekki kemur til álita að friða vatnasvið og árfarvegi, nema rammaáætlun segi það berum orðum."
Jón Gunnarsson er betur að sér en flestir aðrir menn á þingi um þessi mál, baksvið lagasetningar um orkumál og ætlun löggjafans. Hann er ennfremur víðsýnn þingmaður með þau viðhorf, að fjölbreytileg nýting landsins gæða eigi að fá að njóta sín. Jón Gunnarsson mun ekki láta ráðherra komast upp með rangsleitni, yfirgang og öfugsnúna lagatúlkun.
"Ég sat á sínum tíma í þingnefndinni, sem um þetta fjallaði, og í þeim nefndum, sem síðan hafa fjallað um þennan málaflokk. Vilji löggjafans er alveg skýr í þessum efnum. Ljóst er, að ef skýringar og stefna ráðherrans fengju að ráða, þarf ekki mikið að velta fyrir sér nýtingu orkuauðlinda okkar. Ef henni yrði beitt í ýtrasta tilgangi, yrði landið nánast allt friðað fyrir frekari virkjunum. Það liggur í augum uppi, að löggjafinn var ekki að færa svo mikilvægar ákvarðanir í hendur eins manns, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra."
Ráðherrann er með brambolti sínu að troða sjónarmiðum jaðarhóps í þjóðfélaginu að sem stefnu ríkisvaldsins. Þessi stefna er ekki reist á neinum haldbærum rökum, heldur aðeins þeirri tilfinningu, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt þjóðin verði að éta, það sem úti frýs. Þetta er afturhaldssjónarmið reist á rökvillu um, að maðurinn sé eini breytingavaldurinn í náttúrunni. Hið rétta er, að náttúran sjálf er öflugasti breytandinn og sjónræn áhrif vatnsaflsvirkjanaframkvæmda á náttúruna eru flest lítil og sum til bóta og mörg eru afturkræf. Kosti og ókosti þarf auðvitað að vega saman og málamiðlanir að gera, en ofstæki á ekki heima í þessum málaflokki frekar en öðrum, þar sem fjallað er um tæknilegar lausnir.
"Ákvarðanir um friðlýsingarmörk verða augljóslega að vera hluti af ákvörðunum um að setja virkjunarkost í verndarflokk. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki á móti friðlýsingum, en öfgar og útúrsnúningar sem þessir eru í andstöðu við vilja löggjafans. Ef skilningi ráðherrans yrði fylgt til hins ýtrasta varðandi virkjanakosti í verndarflokki, yrðu möguleikar til nýtingar orkuauðlinda okkar skertir stórkostlega og gerðu út af við möguleika okkar til sóknar á þeim vettvangi."
Þetta er mergurinn málsins. Ráðherrann stefnir að því að leggja höft á komandi kynslóðir um nýtingu landsins gæða. Það er í senn ólýðræðislegt og andstætt heilbrigðri skynsemi, því að nýjar kynslóðir búa við nýjar þarfir og ný úrræði til að beizla náttúruna. Þessi ríkisstjórn er ekki studd af meirihluta þings og þjóðar til slíkra óhæfuverka.
"Hér eru gríðarlegir þjóðhagslegir hagsmunir undir, og við höfum ekki efni á að skerða möguleika þjóðarinnar til að skapa verðmæti með nýtingu auðlinda sinna. Málamiðlun í þessu sem öðru þarf að vera það leiðarljós, sem við fylgjum. Það eru mörg tækifæri til að friða viðkvæmar náttúruperlur án þess, að gengið sé á möguleika okkar að öðru leyti."
Hér er vel að orði komizt um kjarna málsins. Það er engin glóra í því að útiloka virkjunartilhögun fyrirfram áður en hún hefur verið sett fram. Slíkt eru handabakavinnubrögð og fórn verðmæta með bundið fyrir augun. Þetta virkjanahatur er heimskulegt í ljósi umhverfismála heimsins og í ljósi þarfar þjóðarinnar fyrir aukna gjaldeyrissköpun um 50 mrdISK/ár til að halda í horfinu fyrir vaxandi þjóð, sem er að eldast.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
18.3.2014:
"Skoðanakönnun Capacent Gallup hefur sýnt fram á víðtækan stuðning við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Um 56% aðspurðra voru því hlynnt, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu.
Hugmyndin átti vísan stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, meðal allra aldurshópa og um allt land."
Þorsteinn Briem, 25.6.2020 kl. 11:56
"Þjóðlenda er skilgreind í þjóðlendulögum sem "landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi"."
"Fram að gildistöku þjóðlendulaga voru til landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur."
Þjóðlendur - Yfirlitskort
Allir íslenskir ríkisborgarar eiga til að mynda allar íslenskar þjóðlendur, öll fiskimiðin hér við Ísland, alla íslenska þjóðvegi og Landsvirkjun.
"1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."
Lög um stjórn fiskveiða nr. 116/2006
Íslenska ríkið heldur utan um eignir íslensku þjóðarinnar, til að mynda þjóðlendur og Þjóðleikhúsið, og ekki er til ríki án þess að menn búi í ríkinu, frekar en til eru fiskiskip án nokkurra útgerða.
Veiðigjald í íslenskum sjávarútvegi er gjald til íslenska ríkisins fyrir að fá að veiða fisk en ekki skattur.
Og fyrir hönd íslensku þjóðarinnar útdeilir sjávarútvegsráðherra aflakvótum ár hvert til íslenskra útgerða.
Alþingishúsið og hús Stjórnarráðsins eru eign íslensku þjóðarinnar og þingmenn eru kosnir af þjóðinni til að sjá meðal annars um eignir hennar.
Íslenska þjóðin á ríkissjóð Íslands og þjóðin greiðir skatta til að greiða til að mynda kostnaðinn við rekstur Alþingis, Stjórnarráðsins, Þjóðleikhússins, Landspítalans, Landhelgisgæslunnar, þjóðvega og hafna.
Þjóðin getur einnig haft tekjur af eignum sínum, til dæmis rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu með virðisaukaskatti af því sem þar er selt og tekjuskatti fólks sem þar starfar. Og tekjurnar fara meðal annars í að greiða kostnað þjóðarinnar við rekstur hússins.
Fjármálaráðherra sér um rekstur ríkissjóðs fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, ráðherrar verða að hafa stuðning meirihluta alþingismanna, sem kosnir eru af íslensku þjóðinni, rétt eins og forseti Íslands. Og íslenska þjóðin þarf einnig að greiða kostnaðinn við rekstur forsetaembættisins.
Íslenska þjóðin á einnig til að mynda Landsvirkjun, ráðherra skipar stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og stjórn hennar ræður forstjórann. Þjóðin á því til dæmis Kárahnjúkavirkjun.
Og íslenska þjóðin á íslenskar þjóðlendur og fiskimið. Íslenskir útgerðarmenn eiga ekki fiskimiðin, sem eru takmörkuð auðlind, og sjávarútvegsráðherra útdeilir aflakvótum til útgerða fyrir hönd íslensku þjóðarinnar ár hvert. Útgerðirnar geta hins vegar selt aflakvótana til annarra útgerða.
Útgerðir greiða veiðigjald til íslensku þjóðarinnar fyrir þau fiskveiðiréttindi, aflakvóta, sem sjávarútvegsráðherra úthlutar þeim fyrir hönd þjóðarinnar og veiðigjaldið fer til að mynda í að greiða kostnaðinn við rekstur hafna og Landhelgisgæslunnar.
Þorsteinn Briem, 25.6.2020 kl. 12:59
Skoðanakönnun Gallup gefur í besta falli afstöðu aðspurðra - sem þarf ekki endilega að vera þverskurður af þjóðinni.
Þjóðaratkvæði myndi hins vegar gera það.
Kolbrún Hilmars, 25.6.2020 kl. 13:01
Sæll Bjarni
Mergir málsins er sá að enginn einn maður á að hafa þau völd að friðlýsa svæði hér á landi, ekki frekar en enginn einn maður á að hafa þau völd að ákveða hvar skuli virkjað. Sér í lag á þetta við ef viðkomandi er án umboðs þjóððarinnar. Þetta vald liggur hjá þjóðkjörnu Alþingi.
Allar stærri framkvæmdir þurfa að fara í gegnum langt og strangt ferli. Að friðlýsa stóran hluta landsins hlýtur að teljast með allra stærstu framkvæmd sem landsmenn hafa farið í.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 27.6.2020 kl. 08:29
Að mínu mati hárrétt athugað hjá þér, Gunnar. Þetta er allt of einfalt ferli fyir þennan kæruglaða umhverfis- og auðlindaráðherra. Er úrskurður hans um friðlýsingu ekki kæranlegur ?
Bjarni Jónsson, 27.6.2020 kl. 17:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.