Aðlögun ferðaþjónustu að nýjum aðstæðum

Ýmsir spámenn hafa tjáð sig um framtíð ferðaþjónustu í heiminum.  Áhrif COVID-19 hafa varpað ljósi á fallvaltleika þessarar atvinnugreinar.  Hið sama gerðist í Eyjafjallagosinu 2010, en það reyndist í kjölfarið hin vænsta auglýsing fyrir Ísland.  Hver veit, nema ferðamenn muni í kjölfar COVID-19 leita meira á fáfarnari slóðir ?  Það gæti orðið ferðaþjónustunni í dreifðum byggðum Íslands til framdráttar.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritar áhugaverðar greinar í Morgunblaðið um umhverfismál, þjóðmál og heimsmál.  Þann 11. maí 2020 birtist þar eftir hann grein með fyrirsögninni:

"Maðurinn þarf að laga sig að náttúrunni sem við erum hluti af".

Þar stóð m.a.:

"Eins og horfir, má telja útilokað, að ferðalög hefjist í einhverjum mæli til og frá landinu fyrr en í fyrsta lagi næsta vetur, og móttaka stórra farþegaskipa frá útlöndum hlýtur að bíða um sinn."

Mánuði seinna benti fátt til, að þessir spádómar muni rætast.  Þann 15. júní 2020 var krafan um sóttkví fyrir fólk frá öðru Schengen-landi gerð valkvæð á móti skimun fyrir SARS-CoV-2 veirunni, og f.o.m. 1. júlí 2020 á hið sama að gilda um farþega frá ýmsum öðrum löndum, sem ESB af sinni vizku dæmir sem tiltölulega hrein af þessari kórónuveiru. Leitt er til þess að vita, að ESB skuli ekki meta sýnatöku á landamærum Íslands og skimun að verðleikum.  Það er meira hald í þessari skimun en einhvers konar huglægri síun embættismanna í Brüssel á grundvelli smittalna frá löndum vítt og breitt um heiminn. Sýnir þetta í hnotskurn tréhestaeðli fjarlægrar stjórnunar á málefnum Íslands.

Ferðamenn eru farnir að tínast til landsins, e.t.v. að jafnaði 2000-3000 á sólarhring, og ekkert snöggt hopp upp á við er í vændum í vetur, þótt ekki sé það útilokað.  Móttaka "stórra farþegaskipa frá útlöndum" bíður ekki um sinn, heldur hefur verið tilkynnt um þau eitt af öðru í sumar.  Að sjálfsögðu verður fjöldinn mun minni en síðast liðin ár, þegar þau hafa verið yfir 100 talsins. Mikill fjöldi er ekki keppikefli, heldur hámörkun tekna af hverjum ferðalangi. 

Þá minntist Hjörleifur á skýrsluna "Endimörk vaxtarins" eða "Limits to Growth", 1972.  Hjörleifur telur, að greining höfunda skýrslunnar hafi í meginatriðum reynzt rétt.  Sú einkunn kann að orka tvímælis, t.d. varðandi nytjaefni í jörðu, sem höfundarnir töldu, að ganga mundu til þurrðar innan fárra ára, en enginn skortur er á enn þá. 

Í inngangi skýrslunnar segir samkvæmt Hjörleifi:

"Niðurstöður skýrslunnar sýna, að mannkynið fær ekki ætlað sér þá dul að margfaldast með sívaxandi hraða og láta efnislegar framfarir sitja í fyrirrúmi án þess að rata í ógöngur á þeirri vegferð; að við eigum um það að velja að leita nýrra markmiða og ráða þannig sjálf örlögum okkar eða kalla yfir okkur afleiðingar hins taumlausa vaxtar, sem við fáum þá óumflýjanlega að kenna enn harðar á."  

 Það, sem mest hefur munað um í þessu tilliti síðan 1990 er stórsókn fjölmennra ríkja Asíu til bættra lífskjara, og munar þar mest um Kínverja og Indverja. Kínverjar eru gríðarlega þurftarfrekir á hráefni jarðar og matvæli, og hefur þetta valdið mikilli mengun lofts, láðs og lagar í Kína og aukið styrk koltvíildis í andrúmslofti mikið, en mestu losarar heims á CO2. Hafa Kínverjar varizt gagnrýni með því að halda því fram, að þeir séu að vinna upp áratuga forskot Vesturlanda í góðum lífskjörum. 

Kínverjar eru ekki einsdæmi um þetta val á milli bættra lífskjara og þess að hlífa jörðunni við miklu vistfræðilegu álagi og mengun.  Það virðist t.d. verða mjög á brattann að sækja fyrir flestar þjóðir heims að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum frá 2015. Með fjárfestingum í orkuskiptum eygja Íslendingar raunhæfa möguleika á að standa við markmið sín fyrir 2030, sem þeir hafa samið um á vettvangi EES. 

Hjörleifur hélt áfram að rifja upp sögu alþjóðlegrar viðleitni til að snúa mannkyninu af þeirri óheillabraut, sem lýst var í "Endimörkum vaxtarins":

"Vegna áframhaldandi vaxandi umhverfisvanda settu Sameinuðu þjóðirnar á fót árið 1983 sérstaka nefnd, "World Commission on environment", undir formennsku Gro-Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs.  Skilaði nefndin af sér 1987 með skýrslunni "Sameiginleg framtíð okkar" ( Our common Future, Oxford 1987), oftast kennd við hugtakið sjálfbæra þróun. Skilgreining þess hugtaks var: "Mannleg starfsemi, sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.""

Þessi skilgreining á nauðsynlegum skilyrðum fyrir athafnir manna til að tryggja viðunandi lífsgæði í nútíð og framtíð á þessari jörð hefur staðizt tímans tönn.  Ef við lítum á höfuðatvinnuvegi Íslendinga í þessu ljósi sést, að fiskveiðistjórnunarkerfið tryggir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, iðnaðurinn nýtir orku, sem fengin er með sjálfbærri nýtingu innlendra orkulinda, en hann nýtir að vísu einnig vörur unnar úr jarðefnaeldsneyti, sem ekki er hægt að flokka sem sjálfbæra starfsemi, en allt stefnir það til bóta. Bæði á iðnaðurinn þess kost að kolefnisjafna starfsemi sína með því að fjárfesta í landgræðslu og/eða skógrækt, hann getur hugsanlega bundið gróðurhúsalofttegundir, t.d. í "steindum" neðanjarðar, og síðast, en ekki sízt, getur hann þróað nýjar framleiðsluaðferðir án losunar koltvíildis.  Á vegum Alcoa og Rio Tinto hefur um nokkurra ára skeið verið starfrækt þróunarverkefnið Elysis, sem miðar að því að leysa núverandi forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með kolefnislausum efnablöndum.  Nú er góð framvinda í þessu verkefni, og er stefnt að því, að fyrir árslok 2021 verði hafin framleiðsla á áli með fullum iðnaðarstraumstyrk í slíkum kolefnisfríum kerum í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi.  Gastegundin, sem myndast, er súrefni, O2. 

Um íslenzkan landbúnað verður ekki annað sagt en hann sé nú rekinn með umhverfislega sjálfbærum hætti, þótt e.t.v. kunni notkun tilbúins áburðar að orka tvímælis. Þá kann beitarþoli sumra hrjóstugra svæða að vera ofgert, og verður þá að bæta úr því snarlega. Afurðir íslenzkra bænda eru af gæðum, sem vandfundin eru í heiminum.  Ferðaþjónustan með sinni miklu brennslu eldsneytis og of mikla álagi á viss svæði landsins getur ekki talizt umhverfislega sjálfbær, en allt getur það staðið til bóta með orkuskiptum og bættu skipulagi. 

Í lokin skrifaði Hjörleifur Guttormsson:

"Núverandi lífsmynztur samræmist engan veginn burðarþoli móður jarðar, og þar er breyting á ríkjandi efnahagskerfi og viðskiptaháttum lykilatriði.  Svonefnt fótspor okkar Íslendinga í umhverfislegu samhengi er talið a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir, og losun gróðurhúsalofts hérlendis hefur verið með því hæsta í Evrópu, eða 14 tonn á mann.  Um leið og staldrað er við vegna veirunnar, þarf að leggja grunn að lífsháttum, sem raunverulega skila afkomendum okkar sjálfbæru umhverfi."

Það þarfnast útskýringa, hvernig komizt er að því, að "umhverfisfótspor" Íslendinga sé "a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir", í ljósi þess, sem að framan er skráð um sjálfbærni höfuðatvinnuveganna. 

Sú atvinnugrein, sem mest orkar tvímælis frá umhverfisverndarsjónarmiði, kann nú að standa andspænis markaði, sem féll til grunna í kórónuveirufaraldrinum COVID-19 og mun tæplega vaxa í sömu hæðir hérlendis eða alþjóðlega, hvað fjölda ferðalanga snertir.  Baldur Arnarson birti um þetta baksviðsgrein í Morgunblaðinu 12. júní 2020 undir fyrirsögninni:

 "Ferðaþjónusta í nýju ljósi".

Þar var vitnað til Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, og hófst greinin þannig:

"Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur það ekki æskilegt að stefna að mikilli fjölgun erlendra ferðamanna, þegar ferðalög aukast á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.

Þvert á móti sé rétt að staldra við og gera langtímaáætlanir.  "Ferðaþjónustan var gríðarlegur búhnykkur síðustu árin og hefur aflað mikils gjaldeyris.  Gjaldeyrisstaða landsins hefur snarbatnað og hefur aldrei verið betri. Það er líka jákvætt við þessa grein, að tekjurnar hafa dreifzt yfir þjóðfélagið miklu meira en segjum tekjur af sjávarútvegi.  En mótsögnin í greininni er, að hún byggist á lágum launakostnaði og keppir við önnur lönd í ferðaþjónustu, þar sem laun eru lægri", segir Gylfi og rökstyður mál sitt."

Eyjafjallagosið setti Ísland á radar ferðamanna, og þá var ISK mjög ódýr eftir hrun ofvaxins fjármálakerfis landsins.  Með fjölgun ferðamanna styrktist gengi ISK, og svo var komið árið 2019, að erlendum ferðamönnum fækkaði um 13 % m.v. toppárið 2018 með 2,3 M ferðalanga.  Það kemur spánskt fyrir sjónir, að Gylfi telur tekjur af erlendum ferðamönnum hafa dreifzt betur um landið en frá sjávarútvegi.  Lungi ferðamannanna dvaldi á hótelum höfuðborgarsvæðisins og skrapp í skoðunarferðir þaðan.  Sjávarútvegurinn er með starfsemi nánast meðfram allri ströndinni og kaupir sér þjónustu hvaðanæva að af landinu, t.d. frá vélsmiðjum og fyrirtækjum, sem þróa og selja iðntölvustýrð framleiðsluferli.  Íslendingar þurfa einmitt á slíkri starfsemi að halda.  Þeir þurfa fyrirtæki með mikla fjárfestingarþörf og mikla framleiðni.  Þannig verður til mikil verðmætasköpun á hvern starfsmann.  Íslenzki vinnumarkaðurinn er lítill og dýr, og þess vegna henta vinnuaflsfrekar greinar aðeins upp að vissu marki.

""Samkvæmt OECD voru meðallaun á Íslandi árið 2018 þau hæstu í OECD-ríkjunum.  Lífskjörin eru óvíða betri, og launin eru mjög há.  Þegar grein, sem byggist á því að halda launakostnaði í hófi, fer að vaxa mikið í hálaunalandi, skapast togstreita.  Greinin vex með því að ráða til starfa á ári hverju fjölda aðfluttra starfsmanna, sem felur í sér aðflutning fólks frá löndum, sem eru yfirleitt með lægri laun.  Þá myndast sú mótsögn, að fólkið kemur hingað, af því að launakjör í ferðaþjónustu eru betri en kjörin í heimalandinu, en launin eru hins vegar að jafnaði lág í samanburði við laun í öðrum greinum hér innanlands.  Þá myndast spenna á vinnumarkaði, sem brauzt út fyrir rúmu ári.  Þá var samið um hóflega launahækkun, fasta krónutöluhækkun upp á 17 þúsund, sem fór mjög illa með þessa grein.  Það má t.d. ætla, að rekstrargrundvöllur margra veitingastaða í miðborginni hafi brostið með þessari hækkun, en hann var veikur fyrir." 

Staðan í hnotskurn er þá sú, að ferðaþjónustan er í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn.  Löndin, sem samkeppni veita, eru auðvitað önnur norræn lönd, en einnig lönd með mun lægri tilkostnað, m.a. launakostnað, en hér.  Spurningin er sú, hvort eftirsóknarvert sé fyrir Íslendinga að keppa á sviði vinnuaflsfrekrar láglaunastarfsemi.  Starfsemin á auðvitað fullan rétt á sér með annarri atvinnustarfsemi, en umfangið í árlegum ferðamannafjölda talið orkar meir tvímælis.  Að hámarka tekjur af hverjum ferðamanni er eftirsóknarverðara en mikill fjöldi.

""Svo myndast spenna í þjóðfélaginu milli láglaunahóps í þessari stóru og mikilvægu atvinnugrein og meðaltekjuhópa í landinu.  Láglaunahópurinn hefur það ekki eins gott og aðrir íbúar landsins.  Þannig eru innri mótsagnir í þessu öllu saman, sem voru farnar að valda erfiðleikum í ferðaþjónustu", segir Gylfi.  Ásamt launaliðnum hafi skapazt spenna vegna gengisþróunar.  Gjaldeyriskaup hafi haldið genginu niðri fram til ársins 2016 og byggt upp mikinn gjaldeyrisforða.  Um leið hafi ferðaþjónustan notið góðs af lægra gengi."

Á árinu 2019 var svo komið, að hröð fækkunarþróun var hafin í komum erlendra ferðamanna til landsins, en þá fækkaði þeim um 300 k  frá árinu áður. Meginástæðan var vafalaust versnandi samkeppnisstaða vegna aukins kostnaðar við ferðir hingað mælt í erlendum myntum.  Botninn hrundi auðvitað í veirufárinu, og markaðurinn er sennilega ekki tilbúinn til að standa undir sama umfangi og áður og þjóðhagslega er óvíst, að slíkt sé áhættunnar virði.

Síðan sló Gylfi fram hugmynd um kvótasetningu, en ekki er víst, að nokkur þörf verði fyrir hana:

""Hver segir, að allir sem vilji, eigi að geta fengið lendingarleyfi í Keflavík ?  Fyrirkomulagið er t.d. þannig víða annars staðar, að leyfin eru gefin út í kvótum, sem ganga kaupum og sölum milli flugfélaga.  Með því að takmarka leyfin mætti tryggja, að ferðamönnum fjölgi ekki nema um vissa tölu á ári, svo [að] fjöldinn fari ekki yfir þolmörk", segir Gylfi." 

Að svo búnu kom Gylfi að kjarna málsins.  Kannski mun markaðurinn dæma áhyggjuefnið sem einvörðungu akademísks eðlis:

"Gylfi segir hætt við, að ef ferðaþjónustan verði gerð að aðalatvinnugrein landsins [aftur-innsk. BJo], verði Ísland um leið gert að láglaunalandi.  Heppilegra sé að gera langtímaáætlanir, "þannig að kraftar einkafjármagnsins fari í að skapa betri störf"." 

Það er hægt að taka undir þessa skoðun Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, og einnig lokaorð hans í þessu baksviðsviðtali:

"Það er gott að hafa ferðaþjónustu.  Hún er góð búbót, einkum í sveitum landsins, en ekki góð sem leiðandi atvinnugrein."

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Fallvaltleiki" ferðaþjónustunnar hér á Íslandi er nú ekki meiri en svo að í fyrradag, í miðju kóvítinu, voru fleiri en tvö þúsund sýnatökur á Keflavíkurflugvelli en fyrir nokkrum árum komu um 1.500 erlendir ferðamenn hingað til Íslands að meðaltali á degi hverjum. cool

Þessir ferðamenn í fyrradag voru að vísu ekki allir erlendir en á móti kemur að Færeyingar þurfa ekki að fara í sýnatöku hér og fyrir flugfélögin skiptir ekki máli hvort ferðamennirnir eru íslenskir eða erlendir.

Þar að auki kemur fjöldinn allur af erlendum ferðamönnum hingað til Íslands með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar og með henni komu um sex hundruð farþegar síðastliðinn fimmtudag.

3.7.2020 (í fyrradag):

"Í dag stefndi í að fleiri en 2.000 farþegar kæmu til landsins um Keflavíkurflugvöll:

"Greiningargetan á sýnunum er 2.000 en við gátum gert ráðstafanir í þessu tilviki," segir Rögnvaldur Ólafsson deildarstjóri hjá Almannavörnum."

2.7.2020 (síðastliðinn fimmtudag):

"Norræna kom til Seyðisfjarðar í morgun með um sex hundruð farþega og þurfti að skima tæplega 400 þeirra."

Hægrimenn hér á Moggablogginu hafa allt frá árinu 2007 haft allt á hornum sér hvað snertir ferðaþjónustuna hér á Íslandi, kölluðu hana meira að segja fjallagrasatínslu, og hafa aldrei haft rétt fyrir sér í spám hvað hana varðar.

Mörlenskir hægrimenn ættu hins vegar að hafa meiri áhyggjur af stóriðjunni hér á Íslandi, sem þeir hafa alla tíð mært í bak og fyrir, en hefur verið á hvínandi kúpunni mörg síðastliðin ár, að minnsta kosti að eigin sögn, og þykist því hvorki geta greitt hér eðlilegt raforkuverð né mannsæmandi laun. cool

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 11:15

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 29.10.2015:

"Í birtum tölum Hagstofu Íslands námu heildargjaldeyristekjur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja um 304 milljörðum króna á árinu 2014 og gera má ráð fyrir að þær verði um 350 milljarðar króna á þessu ári. cool

Af þessum tekjum er áætlað að rúmlega 200 milljarðar séu tilkomnir vegna neyslu erlendra ferðamanna innanlands en um 150 milljarðar tekjur íslenskra flug- og ferðaþjónustufyrirtækja af erlendum ferðamönnum (þ.e. fargjaldatekjur erlendra ferðamanna til og um Ísland að stærstum hluta, sem og tekjur vegna umsvifa íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja erlendis).

Þessi skipting á ekki að koma á óvart og hefur legið fyrir um árabil og er í samræmi við alþjóðlega staðla um milliríkjaviðskipti."

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 11:24

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Lattelepjandi lýður" Miðflokksins í miðbæ Reykjavíkur:

Þorsteinn Briem, 2.7.2012:

Í Kvosinni í Reykjavík er fjöldinn allur af veitingastöðum, skemmtistöðum, krám og verslunum.

Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.500 manns á dag að meðaltali, og þeir fara langflestir í Kvosina vegna þess að hún er miðbærinn í Reykjavík en ekki til að mynda Kringlan.

Í Kvosinni, á Laugaveginum, sem er mesta verslunargata landsins, og Skólavörðustíg dvelja erlendir ferðamenn á hótelum, fara á veitingahús, krár, skemmtistaði, í bókabúðir, plötubúðir, tískuverslanir, Rammagerðina í Hafnarstræti og fleiri slíkar verslanir til að kaupa ullarvörur og minjagripi, skartgripi og alls kyns handverk.

Margar af þessum vörum eru hannaðar og framleiddar hérlendis, til að mynda fatnaður, bækur, diskar með tónlist og listmunir. Og í veitingahúsunum er selt íslenskt sjávarfang og landbúnaðarafurðir, sem eru þá í reynd orðnar útflutningsvara. cool

Allar þessar vörur og þjónusta er seld fyrir marga milljarða króna á hverju ári, sem skilar bæði borgarsjóði og ríkissjóði miklum skatttekjum.

Þar að auki fara erlendir ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá gömlu höfninni í Reykjavík. Þar er langmestum botnfiskafla landað hérlendis og jafnvel öllum heiminum, um 87 þúsund tonnum árið 2008, um tvisvar sinnum meira en í Grindavík og Vestmannaeyjum, fimm sinnum meira en á Akureyri og fjórum sinnum meira en í Hafnarfirði. cool

Við gömlu höfnina og á Grandagarði eru til dæmis fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækin Grandi og Fiskkaup, Lýsi og CCP sem selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld. cool

Cafe Latte er kaffi með mjólk, sem hvorutveggja eru landbúnaðarvörur, og hvergi í heiminum hefur undirritaður drukkið meira kaffi með mjólk en í norðlenskum afdal, þar sem ég bjó í áratug.

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 11:33

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem unnið hefur í sjö ár hjá Norðuráli, hafi fengið 308.994 króna mánaðarlaun í nóvember 2010. cool

12. 6.2008
:

"Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336 þúsund krónur á mánuði, með innifalinni yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru." cool

Samkvæmt launakönnun VR, sem gerð var í ársbyrjun 2009 og tæplega ellefu þúsund manns svöruðu, voru heildarmánaðarlaun á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum 362 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og flutningaþjónustu 377 þúsund krónur og flugsamgöngum 391 þúsund krónur. cool

(Og í matvæla- og drykkjariðnaði voru heildarmánaðarlaunin 391 þúsund krónur, lyfjaiðnaði 411 þúsund krónur, ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi 441 þúsund krónur, byggingavöruverslunum 363 þúsund krónur og stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum 352 þúsund krónur.)

Félagssvæði VR
nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.

Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum, bls. 23-25


Þorsteinn Briem, 11.2.2015:


Að minnsta kosti 1.600 íslenskir flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar og flugumferðarstjórar starfa hér í ferðaþjónustunni við innanlandsflugið og millilandaflugið.

Þeirra laun hafa ekki verið tekin hér með í reikninginn og þau hækka að sjálfsögðu meðallaunin töluvert í ferðaþjónustunni.

Rúmlega 600 eru í Félagi atvinnuflugmanna (FÍA), rúmlega sjö hundruð í Félagi flugfreyja. um 200 flugvirkjar vinna hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og um 100 flugumferðarstjórar starfa hér á Íslandi.

Meðallaun flugmanna virðast vera um ein milljón króna á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar 2009 og þar má finna flugfreyjur með 400 og 500 þúsund krónur á mánuði, flugvirkja með 400 og 700 þúsund krónur á mánuði og flugumferðarstjóra með um eina milljón króna á mánuði.

Ræstingafólk vinnur í öllum fyrirtækjum, bæði í þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum, álverum sem ferðaþjónustu.

Og á móti þeirra launum koma mun hærri laun flugmanna, flugfreyja, flugþjóna, flugvirkja og flugumferðarstjóra. cool

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 11:36

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verð á íslenskum sjávarafurðum hefur lækkað mikið erlendis vegna Covid-19 og stóriðjan hér á Íslandi er á hvínandi kúpunni eins og dæmin sanna, til að mynda á Húsavík og í Hafnarfirði, og hvar er stóriðjan í Reykjanesbæ?! cool

7.8.2015:

"Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan sendi starfsmönnum bréf í dag þar sem hún útskýrir afstöðu fyrirtækisins."

"Rannveig segir í bréfinu að fyrirtækið hafi tapað samtals sjö milljörðum árin 2012 og 2013 og að hagnaður fyrirtækisins hafi aðeins verið 0,3% arðsemi eigin fjár." cool

19.11.2015:

"Alcoa á Íslandi hefur frá upphafi starfsemi sinnar hér á landi greitt tæpa sextíu milljarða króna í vexti til Alcoa-félags í Lúxemborg. Starfsemin hér á landi er rekin með samfelldu tapi. cool

"Tilbúið tap" og "skandall" að mati fyrrverandi ríkisskattstjóra."

"Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar segir að á síðasta ári hafi Alcoa á Íslandi, móðurfélag álverksmiðjunnar á Reyðarfirði sem rekin er undir merkjum Alcoa Fjarðaáls ehf, greitt móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæpa 3,5 milljarða króna í vexti og vitnar til nýlegra ársreikninga Alcoa félaganna á Íslandi.

Kastljós hefur ítrekað fjallað um þá staðreynd að Alcoa hafi aldrei greitt svokallaðan fyrirtækjaskatt hér á landi, enda hefur félagið aldrei skilað hagnaði hér. cool

Á sama tíma hafa 57 milljarðar króna runnið út úr rekstrinum hér til Lúxemborgar í formi vaxtagreiðslna sem ekki eru skattlagðar og dragast í leiðinni frá hagnaði starfseminnar hér á landi."

Alcoa aldrei greitt fyrirtækjaskatt hér á Íslandi - Alcoa greitt Alcoa um 60 milljarða króna í vexti

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 11:42

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna hér á Íslandi árin 2015-2019

Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hér á Íslandi eru um ein milljón króna að meðaltali af hverri fjögurra manna fjölskyldu og laun í ferðaþjónustunni hér eru hærri en í stóriðjunni. cool

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða

"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi. cool

Sé tekið mið af meðaltali undanfarinna sjö ára gegna konur 54% þessara starfa en karlar 46%."

Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015

Um 139 milljarða króna afgangur af þjónustuútflutningi en 11 milljarða króna halli á vöruskiptum árið 2014

27.9.2015:

"Ef ferðaþjónustan hefði ekki komið til væri hagsveiflan sennilega á enda, þar sem vöruskiptajöfnuður er orðinn neikvæður á nýjan leik. cool

Ferðaþjónustan hefur gegnt algjöru lykilhlutverki í að byggja upp gjaldeyrisforða Seðlabankans."

Ásgeir Jónsson hagfræðingur (nú seðlabankastjóri) útskýrir það sem er að gerast í íslenska hagkerfinu

Auknar fjárveitingar ríkisins til Landspítalans, háskólanna og vegagerðar koma frá ferðaþjónustunni. cool

27.11.2014:

Hagvöxturinn byggist á vexti ferðaþjónustunnar

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 11:54

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er 227. þéttbýlasta land í heimi, næst á eftir Ástralíu, með um þrjá íbúa á hvern ferkílómetra og nóg pláss fyrir erlenda ferðamenn í báðum löndunum.

Hér á Íslandi voru að meðaltali um 22 erlendir ferðamenn á hvern ferkílómetra árið 2017 en í Færeyjum um 114. cool

Helstu niðurstöður úr könnun á meðal erlendra ferðamanna hér á Íslandi sumarið 2016 - Ferðamálastofa:

"Íslandsferðin stóðst væntingar 95,5% svarenda sem er álíka hátt hlutfall og í vetrarkönnuninni 2015-2016 og sambærilegum könnunum sem framkvæmdar voru á sama tímabili sumrin 2014 (95,6%) og 2011 (96%)." cool

"Tæp 82% svarenda töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur hingað til Íslands, sem er álíka hátt hlutfall og sumrin 2014 (83,3%) og 2011 (79,1%).

Tæplega helmingur sumargesta 2016 sagðist vilja koma aftur að sumri, um 29% að vori eða hausti og fjórðungur að vetri."

Rúmlega fjórar milljónir manna heimsóttu Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2018, meira en tvisvar sinnum fleiri en erlendir ferðamenn sem dvöldu hér Íslandi sama ár, en Ísland er ellefu sinnum stærra og ég veit ekki betur en að Yellowstone þjóðgarðurinn sé í góðu lagi. cool

"Hann var það, Steini, þegar ég kom þangað 2008."

Ómar Ragnarsson, 20.3.2013

Þorsteinn Briem, 5.7.2020 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband