Af áliðnaðinum

Framleiðsla undirstöðuefna fyrir iðnað heimsins hefur átt mjög á brattann að sækja á þessu ári, og um þverbak keyrði, þegar bráðsmitandi veirusjúkdómur í öndunarfærum manna barst um allan heim frá Kína, og sér enn ekki fyrir endann á ósköpunum. Nú hafa læknar á Langbarðalandi upplýst um þá niðurstöðu reynslu sinnar og rannsókna, að umrædd kórónaveira geti í raun lagzt á hvaða líffæri líkamans sem er.  Það er nýtt af nálinni og bendir til, að eigi sé allt með felldu um tilurð þessarar veiru.

Þar sem sóttvarnaraðgerðir flestra yfirvalda koma í veg fyrir myndun hjarðónæmis, verður SARS-CoV-2 líklega ógnvaldur, þar til bóluefni hefur verið þróað, e.t.v. árið 2021.  Veiran hefur leikið hagkerfi heimsins grátt, lamað atvinnulífið og spurn eftir undirstöðuefnum á borð við ál, járnblendi og kísil, hefur fallið.  Nýlega komu fréttir af tímabundinni lokun kísilverksmiðju PCC á Bakka, vitað er um viðsjárverða framtíð álvers ISAL í Straumsvík, og samningaviðræður Norðuráls og Verkalýðsfélags Akraness voru mjög þungar, þegar síðast fréttist.  

Eftir þóf og þjark hófust alvöru samningaviðræður um raforkusamninginn á milli ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar seint í maí 2020.  Ef slitnar upp úr þeim samningaviðræðum, mun ISAL að líkindum stöðva starfsemi sína og kaup á öllum aðföngum, þ.m.t. rafmagni, síðsumars. Ætlunin er að leiða í ljós nú í júlí 2020, hvort samningar um endurskoðun raforkuverðs Landsvirkjunar til ISAL geti náðst.

Ekki þarf að orðlengja, að það yrði enn eitt áfallið fyrir efnahag landsins, og tap gjaldeyristekna, sem raska mun viðskiptajöfnuðinum til hins verra með mögulega slæmum afleiðingum fyrir gengi ISK og verðlagið á Íslandi, ef af stöðvun þessarar starfsemi verður.  Þótt fjárhagstap eigandans af þessari starfsemi hafi síðast liðin 2 ár numið tæplega mrdISK 20, þá hefur íslenzka þjóðarbúið verið með allt sitt á hreinu og notið tugmilljarða gjaldeyristekna á hverju ári vegna greiðslna fyrirtækisins fyrir raforku, vinnu starfsmanna þess og verktaka og fyrir ýmsa aðra þjónustu.  

Lítið spyrst út um gang viðræðnanna, en ýmislegt annað gerist, sem er ekki til þess fallið að bæta andann manna á milli í þessum viðræðum.  Í miðju Kófinu tilkynnti Landsvirkjun um tímabundna lækkun raforkuverðs til viðskiptavina sinna með langtímasamninga til að létta undir með þeim.  Fyrirtækið tilkynnti ISAL um 10 % tímabundna lækkun, sem er aðeins 40 % af hámarkslækkuninni, sem tilkynnt var.  Síðan hvarf fyrirtækið frá þessari lækkun án þess að tilkynna um þá stefnubreytingu opinberlega. Hvers konar stjórnarhættir eru þetta eiginlega ?  Ekki er síður furðulegt að innheimta fyrir maí 2020 fyrir meiri raforku en þá var notuð.  Það hefur verið sameiginlegur skilningur beggja fyrirtækjanna á orkusamninginum hingað til, að ákvæðinu um 86 % kaupskyldu af forgangsorku eigi aðeins að beita við ársuppgjör viðskiptanna.  Nú gæti myndazt inneign ISAL hjá Landsvirkjun, því að það er ætlun fyrirtækisins að auka aftur framleiðsluna kröftuglega, ef samningar takast.  Með framferði Landsvirkjunar, t.d. skammarbréfum til Rio Tinto, syrtir stögut í álinn.  

Innan Landsvirkjunar er orðrómur uppi um, að forstjórinn óttist viðbrögð skuldabréfaeigenda, ef kaupskyldan er ekki innheimt jafnóðum.  Hann virðist þannig hafa lofað upp í ermina á sér í blóra við orkusamningana.  Ef slitnar upp úr samningaviðræðum á milli ISAL/RT og LV og ISAL verður lokað, þá mun Rio Tinto vafalítið láta reyna á það frammi fyrir dómurum að fá verulegan afslátt á kaupskyldunni m.a. vegna þess, að LV hafi ekki gengið til samninga í góðri trú.  Forstjóra ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar virðist verða á hver fingurbrjóturinn öðrum verri.  Hann starfar á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins.  Hversu lengi er hún reiðubúin að taka þátt í og ábyrgjast þessa gandreið forstjórans ?

Í Morgunblaðinu 24. júní 2020 birtist frétt Höskuldar Daða Magnússonar um "íslenzka uppgötvun" á sviði álframleiðslu.  Nú veit höfundur þessa vefpistils ekki gjörla um smáatriði þessarar uppgötvunar.  Þó kom það fram, að ál hefði verið framleitt við 500 A straum með þessari nýju tækni og að skautin séu úr keramik og málmum.  Þetta rímar við frumbýlingstilraunir álfyrirtækja um aldamótin síðustu við að framleiða ál án kolefna. Hætt er við, að mikilvægi þessarar "uppgötvunar" sé mjög orðum aukið og í raun séu stór álfyrirtæki miklu lengra komin á þessu sviði en fyrirtækið Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðin. Hvers vegna er látið eins og það sé í fyrsta sinni undir sólunni, að ál er framleitt kolefnisfrítt ?

Sannleikurinn er sá, að Alcan, sem Rio Tinto keypti fyrir allmörgum árum, og Alcoa hafa stundað rannsóknir í mörg ár með það stefnumið að gera álframleiðsluna kolefnisfría.  Sá áfangi að gera þetta í litlu tilraunakeri við 500 A náðist fyrir fjöldamörgum árum. Með því er björninn ekki unninn. Tæknilegi vandinn er að gera þetta með hagkvæmum og öruggum hætti við fullan iðnaðarstraum.  Þá er átt við 1000 sinnum hærri straum en frumkvöðlar á Íslandi voru að föndra við og básúnuðu síðan sem meiriháttar uppgötvun (technical breakthrough ?). 

Fyrir nokkrum árum stofnuðu fyrirtækin Rio Tinto og Alcoa með sér þróunarfélagið Elysis og lögðu fyrirtækinu til mikið fé.  Þetta þróunarfélag hefur náð svo miklum árangri, án þess að berja sér tiltakanlega á brjóst fyrir það, eins og Ketill, skrækur, gerði á sinni tíð, að nú er verið að framleiða kerbúnað fyrir tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi (þróunaraðstaða franska ríkisálfélagsins Pechiney, sem Alcan keypti á sinni tíð), sem á að verða tilbúin til rekstrar með  fullum iðnaðarstraumi fyrir árslok 2021. Gangsetning þessarar tilraunaverksmiðju markar raunveruleg tímamót í álheiminum, en ef gjörningur Arctus Metals og Nýsköpunarstöðvarinnar mun hafa einhverja þýðingu, á eftir að útskýra í hverju sérstaðan felst m.v. rannsóknir t.d. rússneska álrisans Rusal.

Frétt Höskuldar bar hið vafasama heiti:

"Íslensk tækni í kapphlaupi við risa á álmarkaði".

Efasemdir hljóta að vakna, þegar þess er gætt, að fyrir 20 árum voru ýmsar rannsóknarstofnanir, t.d. í hinu rótgróna áltæknisamfélagi Tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, að feta sig áfram með kolefnisfría álframleiðslu með lágum straumi. Var þetta iðulega kynnt á námstefnum Tækniháskólans í Þrándheimi, sem haldnar voru annað hvert ár. Hérlendis virðist vera um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum, og "íslenzka tæknin", sem áhöld geta verið um, hvort er íslenzk, vera a.m.k. tveimur áratugum á eftir tímanum. Ef um einhverja sérstöðu er að ræða, sem hafi marktæka kosti framyfir t.d. Elysis-tæknina, hefur algerlega mistekizt að koma henni á framfæri.  

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, kom í þessari frétt með fráleita speki.  Hann gerði því skóna, að nýja tæknin myndi hafa minna umhverfislegt gildi, væri hún nýtt Kína, með öll sín kolakyntu orkuver, en á Íslandi.  Lofthjúpur jarðar gerir auðvitað engan greinarmun á því, hvort t.d. 1 Mt/ár eru framleidd með þessari nýju tækni í Kína eða á Íslandi.  Svona málflutningur frá félagi álframleiðenda á Íslandi gerir ekkert gagn.  

Þá var í lok fréttarinnar viðtal við Guðbjörgu Óskarsdóttur, forstöðumann hjá Nýsköpunarmiðsöð Íslands og framkvæmdastjóra Álklasans:

""Við viljum sjá svona lausnir koma sem fyrst hingað til lands, svo [að] það er ánægjulegt, að íslenzkt fyrirtæki sé að vinna að þessari byltingu.  Öll stærstu álfyrirtækin í heiminum eru að horfa til þessarar tækni í framtíðinni", segir Guðbjörg Óskarsdóttir, forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og framkvæmdastjóri álklasans.  

Guðbjörg segir, að líklega verði þess ekki langt að bíða, að umrædd tækni verði tekin í gagnið.  Á stórum álmarkaði sé pláss fyrir fleiri en eina lausn. 

"Jón Hjaltalín hefur sagt sjálfur, að álver, sem ekki eru tengd þessum stóru, sýni tækni hans áhuga, enda vilja allir vera með svona lausn, þegar hún kemur og er tilbúin.  Það, að íslenzkur frumkvöðull sé kominn þetta langt núna, styrkir samkeppnisforskot hans."" 

Um þetta er vægast að hafa þá umsögn, að orð Guðbjargar lýsi meðvirkni. Það er fráleitt að tala um nýja tækni, þegar í hlut á tilraunastarfsemi í mælikvarðanum 1:1000, því að megnið af þróunarvinnunni er eftir, og hún er að baki í þróunarverkefninu Elysis. Ef um nýja aðferð er að ræða, í hverju lýsir hún sér, og hverjir eru kostir hennar m.v. við löngu þekktar aðferðir háskólasamfélaga og álrisa ? 

Fyrir utan rafkerfið í álverksmiðju, þá er rafgreiningin hjartað í henni.  Í hvoru tveggja liggja gríðarlegar fjárfestingar.  Engum, sem snefil af þekkingu og reynslu hefur af starfsemi þessa geira, dettur í hug, að nokkurt álfyrirtæki kjósi fremur samstarf við smáfyrirtæki og nýgræðing á þessu sviði, sem virðist vera langt á eftir tímanum, en þróaða og reynda tækni, sem tækni Elysis verður eftir áratug. 

Hugtakaruglingur tröllríður umfjöllun sumra fjölmiðla um álframleiðslu.  Hann var áberandi í frétt Markaðar Fréttablaðsins 25. júní 2020 og kom fram í fyrirsögninni:

"Juku framleiðslu hreins áls eftir lokanir á meginlandinu".

Í þessu felst fullkomin mótsögn, því að hreinálsframleiðsla er sérgrein, sem ekki þrífst, ef markaðir "lokast".  Hreinál er yfir 99,9 % ál, sem yfirleitt næst aðeins með flóknu hreinsiferli í steypuskála, en það sem í fyrirsögninni er átt við, er hráál, ómeðhöndlað ál, beint upp úr venjulegum rafgreiningarkerum, sem ekki er notað beint í neina framleiðslu, heldur fer allt í endurbræðslu. Hráál keranna inniheldur vanalega minna en 97,5 % ál.  Þetta hlutfall mun hækka með innleiðingu kolefnisfrírrar framleiðslutækni. Á hrááli og hreináli er grundvallarmunur, og ruglingurinn kann að stafa af ónákvæmri orðanotkun talsmanna sumra álveranna, þó ekki ISAL, því að blaðafulltrúi fyrirtækisins notaði orðið "hráálskubbar", sem getur verið rétt, en einnig eru sums staðar við lýði hleifasteypuvélar, og þar eru steyptir hráálshleifar við þessar og aðrar aðstæður, þar sem ríður á að halda uppi eða auka til muna afkastagetu steypuskálanna án þess að steypa samkvæmt pöntunum.  

Upphaf þessarar fréttar Markaðarins var þannig:

"Þegar kórónuveirufaraldurinn hafði skollið á Evrópu af fullum krafti, brugðust íslenzku álverin við með því að framleiða hreinál í stað sérhæfðara málmblendis að sögn talsmanna álveranna.  Minni orkukaup og afslættir á raforkuverði til stórnotenda munu draga úr tekjum Landsvirkjunar á árinu [2020]."

Þessi frásögn bendir til, að vitleysan eigi rætur að rekja til talsmanna Norðuráls og Fjarðaáls, en þeir mega ekki mæta svona illa lesnir til leiks.

Svo undarlega sem það hljómar, þá hefur stóriðjufyrirtækið, sem hæst verð greiðir fyrir raforku Landsvirkjunar, enn engan Kófsafslátt fengið, þótt fyrirtækið hafi í apríl 2020 tilkynnt ISAL um 10 % lækkun.  Ekki nóg með það, heldur rukkaði fyrirtækið fyrir meiri orku en notuð var í maí.  Þetta heitir ruddaframkoma, þegar ekki er skafið utan af óþverranum. 

Landsvirkjun reyndi í Kófinu að koma sér í mjúkinn hjá eigendum sínum (hún gefur skít í viðskiptavinina), og til marks um slepjuháttinn er eftirfarandi úr sömu frétt:

"Afslættir til stórnotenda einir og sér námu allt að 25 % og munu kosta fyrirtækið a.m.k. mrdISK 1,5 á þessu ári.  Orkukaup álveranna hafa að sama skapi verið minni á þessu ári en hinu síðasta, en ekki liggur fyrir, hversu mikið þessi minni eftirspurn raforku mun kosta Landsvirkjun að sögn talsmanns Landsvirkjunar."

Upphæðin mrdISK 1,5, sem talsmaður Landsvirkjunar segir hana fórna með sjálfskipaðri verðlækkun, er dropi í hafið og t.d. aðeins um 11 % af tapi ISAL 2019.  Það er víða pottur brotinn.

S1-ipu_dec_7-2011

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ketill Sigurjónsson, 17.4.2019:

"Á nýlega afstöðnum ársfundi Lands­virkj­unar var til­kynnt að fyrir­tæk­ið hefði skil­aði met­tekj­um vegna rekstrar­árs­ins 2018. Líkt og grein­ar­höf­und­ur hafði áður spáð fyrir.

Á fund­in­um kom einn­ig fram af hálfu Lands­virkj­unar að vind­orka á Ís­landi sé sam­keppn­is­hæf. cool

Eins og grein­ar­höf­und­ur hafði áður lýst. Fram að þessu hafði Landsvirkjun látið nægja að segja að vind­orkan sé "að verða" sam­keppn­is­hæf. Þarna var því um að ræða tíma­móta­yfir­lýs­ingu af hálfu Landsvirkjunar um hagkvæmni vindorku."

"Norska stór­iðjan hefur und­an­far­ið verið að færa sig yfir í að kaupa vind­orku með lang­tíma­samn­ing­um við vind­myllu­garða í Nor­egi og Sví­þjóð. cool

Með því móti tryggir norska stór­iðjan sér fast og hóg­vært raf­orku­verð til langs tíma. cool

Vind­orkan er sem sagt að sumu leyti að taka yfir það hlut­verk sem vatns­afls­virkj­an­irnar í Noregi höfðu áður fyrr.

Um leið verða fyrir­tækin sem kaupa vind­ork­una síð­ur háð mark­aðs­verð­inu á norræna orku­mark­aðnum (Elspot á Nord Pool).

Ástæða þess­ar­ar þró­un­ar er sú að svona vind­orku­kaup eru nú ódýr­asti kost­ur­inn, þ.e. ódýr­ari kost­ur en að kaupa raf­orku sem tengd er verði á norræna raf­orku­mark­aðnum og ódýr­ari kost­ur en lang­tíma­samn­ing­ar við aðra tegund raf­orku­fram­leiðslu." cool

"Það er sem sagt norskri og sænskri vind­orku veru­lega að þakka að t.a.m. ál­ver í Nor­egi munu senni­lega lengi enn halda sam­keppnis­hæfni sinni í alþjóð­leg­um sam­an­burði.

Þetta er til marks um hvern­ig lands­lagið í sam­keppn­is­hæfni raf­orku­mark­aða er að breyt­ast. Og þess má vænta að þess­ar breyt­ing­ar í orku­geir­an­um muni á ein­hverj­um tíma­punkti líka hafa áhrif á sam­keppnis­hæfni stórra raf­orku­not­enda og orku­fyrir­tækja á Íslandi." cool

Hækkandi raforkuverð til stóriðju - Ketill Sigurjónsson

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 19:12

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Denmark was a pioneer in developing commercial wind power during the 1970s, and today a substantial share of the wind turbines around the world are produced by Danish manufacturers such as Vestas and Siemens Wind Power along with many component suppliers.

In Denmark electricity sector wind power produced the equivalent of 47% of Denmark total electricity consumption in 2019, increased from 43.4% in 2017, 39% in 2014, and 33% in 2013. cool

In 2012, the Danish government adopted a plan to increase the share of electricity production from wind to 50% by 2020, and to 84% by 2035.

Denmark had the 4th best energy architecture performance in the world in 2017 according to the World Economic Forum, and the second best energy security in the world in 2019 according to the World Energy Council.
" cool

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 19:15

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

1.7.2020:

"Að sögn Harðar [Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar] áætlar Landsvirkjun að samdráttur eftirspurnar raforku muni nema að minnsta kosti einni teravattstund á þessu ári, eða á bilinu 6-8% frá síðasta ári.

"Tekjusamdráttur Landsvirkjunar á fyrsta fjórðungi nam um 10% milli ára en við sögðum þá að annar fjórðungur yrði verri," segir Hörður.

Í uppgjöri fyrsta fjórðungs þessa árs kom fram að raforkusala Landsvirkjunar hefði dregist saman um 3,4% samanborðið við sama tímabil í fyrra.

Í skýringum með ársreikningi stendur að óvissa sé uppi um áhrif Covid-19 á rekstur Landsvirkjunar en þó sé rekstur fyrirtækisins talinn traustur." cool

"Ég reikna ekki með öðru en að Landsvirkjun skili hagnaði á þessu ári þrátt fyrir allt saman, enda hafa skuldir verið lækkaðar um 150 milljarða króna á síðustu 10 árum," segir Hörður Arnarson og bætir við:

"Þetta hefur áhrif á arðgreiðslu til ríkissjóðs á þessu ári.""

Tekjufall Landsvirkjunar gæti orðið töluvert á árinu

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 19:27

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.7.2020:

"Álfram­leiðslu Rio Tinto, Tiwai Po­int og New Zea­land Alum­ini­um Smelters (NZAS) verður lokað 31. ág­úst 2021, sem er í sam­ræmi við end­ur­skoðun á rekstri ál­vera fyr­ir­tæk­is­ins sem hófst í októ­ber í fyrra.

Árið 2014 var greint frá því að árið á und­an hafi ný­sjá­lensk­ir skatt­greiðend­ur neyðst til að reiða fram þrjá­tíu millj­ón­ir dala til dótt­ur­fé­lags Rio Tinto á Nýja-Sjálandi. cool

Fram kom í ný­sjá­lensk­um fjöl­miðlum að fé­lagið hafi hótað því að loka ál­ver­inu Tiwai Po­int í suður­hluta lands­ins ef það fengi ekki orku á lægra verði.

Þrátt fyr­ir ábend­ing­ar fjár­málaráðuneyt­is­ins um að ekki væri skyn­sam­legt að niður­greiða ork­una til ál­vers­ins var það að lok­um samþykkt.

Benti fjár­málaráðuneytið meðal ann­ars á að niður­greiðslan fæli í sér mikla til­færslu á fjár­magni frá Nýsjá­lend­ing­um til hlut­hafa Rio Tinto." cool

Loka álverum á Nýja-Sjálandi

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 19:46

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.7.2020:

"Vanga­velt­ur um tekjutap Lands­virkj­un­ar vegna hugs­an­legr­ar upp­sagn­ar raf­orku­samn­ings við Rio Tinto á Íslandi eru ekki tíma­bær­ar.

Þá eru traust­ar ábyrgðir að baki skuld­bind­ing­um beggja aðila í nú­gild­andi raf­orku­samn­ingi. Þetta seg­ir Ragn­hild­ur Sverr­is­dótt­ir upp­lýs­inga­full­trúi Lands­virkj­un­ar.

"Samn­ing­ur fyr­ir­tækj­anna gild­ir til 2036 en áður hef­ur verið greint frá því að hægt sé að virkja end­ur­skoðun­ar­á­kvæði í samn­ingn­um.

Við telj­um hins veg­ar traust­ar ábyrgðir fyr­ir skuld­bind­ing­um beggja aðila í nú­gild­andi raf­orku­samn­ingi og það hef­ur eng­inn ágrein­ing­ur verið um það í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir und­an­farið," seg­ir Ragn­hild­ur."

Vangaveltur um tekjutap ótímabærar

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 19:58

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

2.7.2020:

"Tveir stærstu framleiðendur kísilmálms í Bandaríkjunum hafa óskað eftir því við viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að innflutningstollar verði lagðir á kísilmálm innfluttan frá Íslandi
, að því er kemur fram í tilkynningu frá framleiðendunum.

Áskorunin er í nafni Ferroglobe PLC og Missisippi Silicon LLC, sem samanlagt stjórna meira en helmingi allrar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum.

Ásamt því að leggja á innflutningstolla á íslenskan kísilmálm vilja bandarísku framleiðendurnir að tollar verði lagðir á sambærilega vöru sem flutt er til Bandaríkjanna frá Bosníu, Malasíu og Kasakstan.

Að sögn Ferroglobe og Missisippi Silicon njóta framleiðendur landanna fjögurra ósanngjarns samkeppnisforskots með því að selja kísilmálm á niðursettu verði í krafti ósanngjarna niðurgreiðslna við framleiðslu (e. dumping). cool

Er því haldið fram að innflutningsverð á málmi frá löndunum fjórum sé á bilinu 54-85% lægra en eðlilegt getur talist.

Ekki er útskýrt nánar um hvaða ósanngjörnu niðurgreiðslur er að ræða en í málum sem þessum er gjarnan litið á óeðlilega lágan kostnað við aðföng, svo sem hráefni til framleiðslu eða raforku." cool

Bandarísk fyrirtæki vilja tolla á íslenskan kísilmálm

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 20:06

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.6.2020:

Hér á Íslandi var heildarlosun í iðnaði rúmlega 1,8 milljónir tonna í CO2-ígildum árið 2019 (þar af 1,6 milljónir tonna frá álverum), eða rúmlega þrisvar sinnum meiri en í flugi, sem þá var tæplega 600 þúsund tonn, samkvæmt viðskiptakerfi Evrópusambandsins. cool

"Þá var heildarlosun frá flugi íslenskra flugrekenda, sem fellur undir kerfið, innan við 1% af heildarlosun allra evrópskra flugrekenda innan kerfisins."

Losun íslenskra flugfélaga minnkaði á milli áranna 2018 og 2019

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 20:11

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað mikið, aðallega vegna aukinnar þjónustu og háskólastarfsemi á því svæði og það á einnig við um Akureyri. cool

Íbúum í þeim sveitarfélögum sem nú mynda Fjarðabyggð, framleiðslusveitarfélagi, fækkaði hins vegar um 11,2%, eða 582, á árunum 1998-2013, þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði. cool

Og í framleiðslubyggðarlaginu Vestmannaeyjum fækkaði íbúum á þessu tímabili um 8,8%, eða 407, og þeim sem búa á því svæði sem nú er í Dalvíkurbyggð fækkaði um 10,5%, eða 218, í byggðarlögum sem nú mynda Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 15,3%, eða 675, og þeim sem búa á svæðinu sem nú er í sveitarfélaginu Norðurþingi, til að mynda Húsavík, fækkaði um 14,6%, eða 489.

Íbúum á svæðinu frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar fjölgaði hins vegar á þessu tímabili um 25%, eða 41.073, og í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði íbúum um 16,5%, eða 2.544, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. cool

Þeim sem búa í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði því meira á tímabilinu 1998-2013 en íbúum í þeim byggðarlögum sem nefnd eru hér að ofan fækkaði, samtals 2.371.

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 20:18

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú ekki nýtt að álverið í Hafnarfirði sé á hvínandi kúpunni. cool

16.9.2015:

Álverið í Straumsvík rekið með tapi frá degi til dags og tapið fer vaxandi segir Rannveig Rist forstjóri

Á fjórða ársfjórðungi 2014 voru 185.700 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaðnum hér á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands. cool

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness. cool

"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi. cool

Sé tekið mið af meðaltali undanfarinna sjö ára gegna konur 54% þessara starfa en karlar 46%."

Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015

Þorsteinn Briem, 18.10.2015:

Frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar eru auk CCP og mikillar ferðaþjónustu til að mynda stór og fjölbreytt framleiðslu- og útflutningsfyrirtæki, í ullarvörum, fiskvinnslu, lýsi, veiðarfæragerð, stoðtækjum, hátækni í matvælaframleiðslu, lyfjum og áli, Ístex (áður Álafoss) í Mosfellsbæ, Grandi hf., Lýsi hf., Hampiðjan og Össur hf. í Reykjavík, Marel í Garðabæ, Actavis og álverið í Hafnarfirði.

Og
skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar er verið að reisa hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen, þar sem um 200 manns munu starfa, flestir háskólamenntaðir.

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna hér á Íslandi árin 2015-2019

Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hér á Íslandi eru um ein milljón króna að meðaltali af hverri fjögurra manna fjölskyldu og laun í ferðaþjónustunni hér eru hærri en í stóriðjunni. cool

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða

Þorsteinn Briem, 16.7.2020 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband