Er allt með felldu ?

Slegið hefur verið upp sem tímamótauppgötvun, að hérlendis hafi ál verið framleitt með rafgreiningu 500 A straums á súráli án kolefnisskauta og þar af leiðandi án myndunar gróðurhúsalofttegunda. Ekki er ljóst að hvaða leyti tímamót eru fólgin í því, að árið 2020 hafi ál verið rafgreint á Íslandi án koltvíildismyndunar, því að frá árinu 2009 hefur slík framleiðsla farið fram í Tæknimiðstöð Alcoa, utan við Pittsburg í Bandaríkjunum, og slíkt var gert í ýmsum rannsóknarstofnunum í heiminum þar á undan.  Höfundur þessa vefpistils getur ekki séð, að nein tímamót séu fólgin í því að gera á Íslandi, það sem fyrir löngu er búið að gera erlendis.  Jafnvel forseti lýðveldisins hefur verið dreginn inn í tilstandið, og Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, hefur tekið undir halelújakórinn hérlendis, þótt honum hefði átt að vera fullkunnugt um staðreyndir málsins. Spurningin er, hvort eigendum álverksmiðjanna á Íslandi sé greiði gerður með þessu sjónarspili, því að t.d. tveir þeirra eru komnir á fremsta hlunn með að rafgreina súrál án kolefnisskauta í verksmiðjurekstri, eins og minnzt verður á síðar í þessum pistli.

Þann 25. júní 2020 birtist grein eftir téðan Pétur í Viðskiptablaðinu, þar sem hann hann mærir þá, sem að framangreindri kolefnisfríu rafgreiningu stóðu á Íslandi, undir fyrirsögn, sem tekur af allan vafa um fyrirætlun höfundarins:

"Tímamót í álframleiðslu".

Hún hófst þannig:

"Það markaði tímamót í álframleiðslu á Íslandi, þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti fyrstu álstönginni, sem framleidd er með óvirkum rafskautum í Nýsköpunarmiðstöð Íslands."

Keisarinn er ekki í neinu.  Ef forseti lýðveldisins hefði sagt Justin Trudau, forsætisráðherra Kanada, frá því, hvað honum var afhent þarna, þá hefði sá hinn sami farið að skellihlæja, því að í maí 2018 lagði hann fyrir hönd kanadíska alríkisins stórfé til þróunar tilraunastofukers upp í ker fullrar framleiðslustærðar á vegum fyrirtækisins Elysis, sem er samstarfsfyrirtæki risafyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa.  Til verkefnisins lögðu líka fram fé fylkið Quebec, þar sem fram fer gríðarlega mikil álframleiðsla og þróun á því sviði, og Apple, sem notar dálítið ál og telur þetta samstarf vera hollt fyrir ímyndina.  Alls voru lagðir fram fjármunir að upphæð MUSD 558 eða tæplega mrdISK 80 til þess að þróa tilraunastofuútgáfuna upp í hagkvæma iðnaðarstærð. Við verkefnið starfa 100 manns í Quebec, og ætlunin er, að 1000 manns starfi fyrir Elysis árið 2030.  Þessi þróun mun tryggja störf 10´500 manns í Kanadískum áliðnaði, sem verður sjálfbær eftir innleiðingu þessarar nýju tækni.   

Það er víðar unnið að þessari þróun Elysis en í Quebec.  Í Voreppe í Frakklandi er nú verið að setja upp verksmiðju með nýjum kerum og kerbúnaði.  Verkinu á að ljúka fyrir árslok 2021, þannig að kolefnisfrí framleiðsla áls hefjist þar í iðnaðarmælikvarða á árinu 2022.  Hvað meina menn á Íslandi með sínu tilraunaföndri ?  Er líklegt, að einhver í iðnaðinum sé líklegur til að fjármagna starfsemi, sem augljóslega er töluvert á eftir sinni samtíð ?

Síðan hélt Pétur áfram og fór þar á hundavaði yfir það um hvað tilraunin merkilega snerist um:

"Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta, og yrði það bylting, ef tækist að innleiða slíka tækni á stærri skala, því að þá losnar súrefni, en ekki koltvísýringur við álframleiðsluna.  Að verkefninu standa Arctus Metals, sem Jón Hjaltalín Magnússon er í forsvari fyrir, og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en það hefur notið rannsóknarstyrkja frá Tækniþróunarsjóði frá 2016."

Af þessari lýsingu að dæma er téð tilraunarframleiðsla Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í engu frábrugðin þeirri, sem fyrir löngu átti sér stað á rannsóknarstofnunum erlendis, bæði í háskólum og hjá alþjóðlegum álfyrirtækjum.  Gamalt vín á nýjum belgjum, sagði einhver. Hvað í ósköpunum ætlast menn fyrir með því að setja fé íslenzkra skattborgara í slíkan leikaraskap hérlendis ?  Stjórnendum Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hlýtur að vera ljóst, hversu gríðarlega fjármuni þarf til að þróa lítla tilraunastarfsemi upp í iðnaðarstærð, og að slík þróun er nú tilbúin hjá Elysis og verið að smíða búnað í tilraunaverksmiðju í Voreppe, sem hefja á rekstur um áramótin 2021/2022.  Öllum má ljóst vera, að tilraunir á þessu sviði enda í blindgötu hérlendis vegna þekkingarskorts og fjármagnsskorts.  

"Vakti hann [Jón Hjaltalín Magnússon] athygli á því í sínu erindi, að ef óvirk skaut væru tekin í notkun í álverinu í Straumsvík, þá myndi það framleiða súrefni til jafns við 500 ferkílómetra skóg."

Þetta er hvorki áhugavert né örugglega rétt.  Það er enginn hörgull á súrefni og virðist gert ráð fyrir, að allt súrefnið í koltvíildinu, sem skógurinn tekur upp, losni aftur út í andrúmsloftið sem súrefni.  Það er mjög hæpið, enda verður til vökvi og fast efni við ljóstillífunina, þar sem súrefni er bundið og fer hluti til rótanna.

Það, sem áhugavert er í þessu sambandi, er hins vegar, að álframleiðendur losna við hvimleiðan brennistein og kolaryk úr framleiðsluferlinu og síðast en ekki sízt við koltvíildi, CO2, úr afsoginu. Þetta er þó ekki eina gróðurhúsalofttegundin frá rafgreiningarferlinu, heldur myndast líka öflugar gróðurhúsalofttegundir á borð við C2H4 og C4H6.  Þær munu menn líka losna við úr rafgreiningarferlinu.  Á móti kemur aukin raforkuþörf, því að við bruna kolaskautanna myndaðist varmi í raflausninni. ISAL hefur náð frábærum árangri við að lágmarka myndun þessara gasa, svo að jafngildi gróðurhúsalofttegunda m.v. 215 kt/ár álframleiðslu nemur aðeins 344 kt/ár CO2.  Það er tæplega 7 % af losun frá starfsemi á Íslandi. 

 "Þá ítrekaði hann, það sem áður hefur komið fram, að álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi.  Munar þar mestu um, að álver á Íslandi eru knúin með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum, en á heimsvísu er það orka úr jarðefnaeldsneyti á borð við kol og gas, sem losar mest við álframleiðslu.  Þess vegna er kolefnisfótspor álframleiðslu margfalt hærra í löndum á borð við Kína, þar sem 90 % af orkunni er sótt til kolaorkuvera."

Það er hæpið að fullyrða, að "álframleiðsla los[i] hvergi minna en á Íslandi".  Hvað með norskan áliðnað ?  Hann er sá mesti í Evrópu með um 1,2 Mt/ár, sem er um þriðjungi meira en á Íslandi.  Hann fær alla sína orku frá vatnsaflsvirkjunum Noregs, sem yfirleitt er nettóútflytjandi raforku, svo að það er ekki hægt að halda því fram, að jarðefnaeldsneyti knýji norskan áliðnað.  Hvað með vatnsorkulandið Argentínu ?  Þar er áliðnaður, sem reistur var á grundvelli aðgengis að hagkvæmri orku frá vatnsorkuverum, og þannig mætti áfram telja.  Enn fráleitara er að beita prósentureikningi þeim málflutningi til stuðnings, að kolefnisfrí framleiðsla á Íslandi sé umhverfisvænni en t.d. í Kína.  Þessu er í raun öfugt farið, því að Íslendingar hafa náð manna beztum árangri við rekstur álvera, t.d. m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda.  Fimbulfamb framkvæmdastjóra Samáls ríður ekki við einteyming og er álverum hér ekki til framdráttar:

"Það er reyndar áhugaverð staðreynd, að ef óvirk skaut [þau eru ekki með öllu óvirk, þótt þau hafi margfaldan endingartíma á borð við kolaskautin - innsk. BJo] verða innleidd í íslenzkum álverum, þá verður losun hér á landi hverfandi af álframleiðslu.  En slík tæknibylting dregur einungis úr losun um 15 % í álverum, sem knúin eru með kolum."

Steininn tekur úr í næstu tilvitnun í grein Péturs:

"Enn eru ljón í veginum í frekari tækniþróun, einkum við að skala upp framleiðsluna.  Nú þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfi Arctus og NMÍ við álfyrirtækið Trimet um að keyra tilraunaker í fullri stærð í einu af álverum þess í Þýzkalandi.  Fáist íslenzkt fjármagn að verkefninu, verður hönnun og framleiðsla á kerum og stjórnbúnaði unnin á Íslandi."

Það er eins og jólasveinn sé þarna kominn til byggða um hásumarið.  Það er nánast öll þróunarvinnan og allur kostnaðurinn eftir, þótt búið sé að rafgreina "í bala" með 500 A.  Þótt leitað sé með logandi ljósi á heimasíðu hins virðingarverða álfélags Trimet, þá finnst ekki stafkrókur um téð samstarf Arctus, NMÍ og Trimet. Þegar orðin "Arctus Metals" eru slegin inn í leitarvél síðunnar, birtist nákvæmlega ekkert.

  Lokamálsgreinin er annaðhvort óráðshjal eða mjög varhugaverð óskhyggja aðila, sem horfa algerlega framhjá því, hvernig kaupin gerast í álheimum og einnig framhjá hinu augljósa markaðsforskoti, sem Elysis hefur öðlazt. 

Að lokum verður vitnað í aðra kostnaðarsugu, sem Pétur nefnir í grein sinni "Gas í grjót":

"Þá fjallaði BBC nýverið um samstarf íslenzkra stjórnvalda og stóriðju á Íslandi um þróun nýrrar tækni til að dæla niður kolefni, sem myndast við málmframleiðslu.  Ætli bezta lýsingin á því ferli sé ekki "gas í grjót".  Undirstrikað er í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, að til standi að gera það verkefni að veruleika." 

PR í þágu hverra er þetta ?  Þetta er allt of dýr og óskilvirk aðferð fyrir það gríðarlega gasmagn, sem á ferðinni er frá einu álveri.  Mun ódýrara og þjóðhagslega hagkvæmara er, að íslenzki áliðnaðurinn kaupi bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, þangað til umbylting verður gerð á framleiðsluferlinu, svo að gróðurhúsalofttegundir verði þar úr sögunni. 

 Framkvæmdastjóri Samáls má ekki láta frá sér ónákvæmni á borð við þessa, að kolefni myndist við málmframleiðslu.  Það eru að sjálfsögðu ýmiss konar efnasambönd kolefnis við önnur frumefni, sem myndast.  

isal_winter

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Þetta eru mjög áhugaverðir punktar, er semsagt verið að styrkja verkefni við að finna upp aðferð sem þegar er búið að finna upp og er að komast á framleiðslustig? Skrítið að t.d. NMÍ eða styrktaraðili hafi ekki áttað sig á þessu.

Emil Þór Emilsson, 28.7.2020 kl. 21:17

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Emil Þór.  Ég fæ ekki betur séð en þú eigir kollgátuna.  Þegar þessi tilraun var kynnt til sögunnar fyrr á þessu ári, fólust ekki í henni nein nýmæli, að því er ég fékk séð.  Það var ekkert drepið á nokkurn virðisauka frá þekktum aðferðum á þessu sviði.  Slíkur hefði t.d. getað falizt í enn lengri endingu forskauta en álverin hafa gefið upp (um 30 mánuðir) eða minni raforkunotkun á hvert framleitt tonn áls, en aukin raforkunotkun frá gömlu Hall-Heroult-aðferðinni verður einmitt Akkilesarhæll hinnar nýju og byltingarkenndu aðferðar.  

Bjarni Jónsson, 29.7.2020 kl. 09:20

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hægt er að sækja um einkaleyfi á framleiðsluaðferð á vörum (process patent)." cool

"Hægt er að fá einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum ef þær eru nýjar og frumlegar og hægt er að fjölfalda þær. cool

Áður en sótt er um einkaleyfi er rétt að kanna hvaða einkaleyfi eru til og hvort uppfinningin er ný, til dæmis með því að leita í gagnabanka Evrópsku einkaleyfastofunnar Espacenet.

Þá getur verið skynsamlegt að leita til fagmanna hjá til dæmis Félagi einkaleyfasérfræðinga og Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa.

Þá býður til dæmis Nordic Patent Institute upp á forkönnun á uppfinningu."

Einkaleyfastofan fer með málefni hugverkaréttar á sviði iðnaðar

"
Hugverkastofan er opinber stofnun sem var sett á laggirnar (þá sem Einkaleyfastofan) 1. júlí 1991 og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins.

Skipulag og starfssvið markast af auglýsingu nr. 187/1991 og reglugerð nr. 188/1991 og hún heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar."

"
Þann 1. júlí 2019 tók Einkaleyfastofan upp nýtt nafn og heitir nú Hugverkastofan. Lög þess efnis voru samþykkt af Alþingi 2. maí 2019.

Enskt heiti Hugverkastofunnar er Icelandic Intellectual Property Office og notast er við skammstöfunina ISIPO í takt við aðrar hugverkastofur og alþjóðastofnanir á sviði hugverkaréttinda.

Á árinu 2018 tók stofnunin við 4.260 vörumerkjaumsóknum, 1.554 einkaleyfaumsóknum og 109 hönnunarumsóknum. Í lok árs voru í gildi 60.770 vörumerkjaskráningar, 7.522 einkaleyfi og 965 hönnunarskráningar á Íslandi."

Hugverkastofan

Þorsteinn Briem, 29.7.2020 kl. 10:30

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

22.6.2020:

"Ný ís­lensk tækni í álfram­leiðslu sem gef­ur frá sér súr­efni í stað kolt­ví­sýr­ings gef­ur von­ir um að hægt sé að eyða kolt­ví­sýr­ings­meng­un úr ferl­inu við fram­leiðslu á áli.

Fyr­ir­tækið Arct­us Metals fram­leiddi á dög­un­um ál með þess­um hætti í sam­starfi við Ný­sköp­un­ar­miðstöð Íslands en helsta ný­ung­in er að í stað raf­skauta úr kol­efni eru notuð skaut úr málmblönd­um og kera­mik.

Þetta gæti þýtt að kolt­ví­sýr­ings­meng­un frá ís­lensk­um ál­ver­um myndi al­veg hætta.

"Íslensk ál­ver gefa frá sér um 1,6 millj­ón­ir tonna af kolt­ví­sýr­ingi á ári.

Ef öll ál­ver­in okk­ar tækju upp þessa nýju tækni mynd­um við minnka los­un koltvísýrings á Íslandi um 30% og upp­fylla þannig alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar okk­ar og gott bet­ur en það," seg­ir Jón Hjaltalín Magnús­son verk­fræðing­ur og for­stjóri Arct­us Metals."

Ný íslensk tækni í álframleiðslu gæti minnkað losun koltvísýrings hér á Íslandi um 30%

Þorsteinn Briem, 29.7.2020 kl. 12:33

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.6.2020:

Hér á Íslandi var heildarlosun í iðnaði rúmlega 1,8 milljónir tonna í CO2-ígildum árið 2019 (þar af 1,6 milljónir tonna frá álverum), eða rúmlega þrisvar sinnum meiri en í flugi, sem þá var tæplega 600 þúsund tonn, samkvæmt viðskiptakerfi Evrópusambandsins. cool

"Þá var heildarlosun frá flugi íslenskra flugrekenda, sem fellur undir kerfið, innan við 1% af heildarlosun allra evrópskra flugrekenda innan kerfisins."

Losun íslenskra flugfélaga minnkaði á milli áranna 2018 og 2019

Þorsteinn Briem, 29.7.2020 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband