29.9.2020 | 10:34
Ríkisvaldið er fjötur um fót
Það virðast illa fara saman hljóð og mynd, þegar kemur að þætti ríkisvaldsins við að liðka fyrir um afgreiðslu ýmiss konar umsókna um leyfi til framkvæmda eða aukningar rekstrarumsvifa, svo að ekki sé nú minnzt á hugmyndir um endurskoðun raforkusamninga sem forsendu fyrir fjárfestingum.
Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 9. september 2020 fjallaði um tilraunir Jóns Gunnarssonar við að ýta við ráðherrunum, sem sumum hverjum virðist vera tamara að tala um það, sem þarf að gera til að skapa viðspyrnu til að komast út úr Kófskreppunni, en að láta hendur standa fram úr ermum. Þetta er þýfgað hér, því að tíminn er dýrmætur:
"17 umsóknir frá árunum 2015-2018 til fiskeldis og fiskvinnslu voru óafgreiddar hjá Matvælastofnun, þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, alþingismanns, um stöðu umsókna um starfsleyfi [á líklega að vera rekstrarleyfi, sem eru á könnu MAST-innsk. BJo]. Þá voru 23 umsóknir frá árinu 2019 óafgreiddar og 19 frá 2020. Flestar umsóknirnar eru um rekstrarleyfi vegna fiskeldis.
Í svari iðnaðarráðherra kom fram, að 21 umsókn um nýtingarleyfi og virkjanaleyfi er óafgreidd hjá Orkustofnun; þær elztu frá janúar 2019.
Umhverfisráðherra hefur ekki svarað fyrirspurn þingmannsins."
Það er sleifarlag af hálfu umhverfis- og auðlindaráðherra að svara ekki fyrirspurn um málefni, sem miklu skiptir, að sé í lagi núna, þegar kreppa hefur lagzt yfir efnahagslífið og mest ríður á, að ríkisvaldið þvælist ekki fyrir fjárfestingum einkaframtaksins, sem hafa illu heilli dregizt mikið saman. Á þeim tíma leggur þessi ráðherra meiri áherzlu á friðlýsingar og að koma fram opinberlega og tengja nafn sitt við það, sem hann telur til vinsælda fallið, enda maðurinn á leið í framboð til Alþingis.
Þessi öfugsnúna forgangsröðun ráðherrans vitnar um ábyrgðarleysi og léttúð gagnvart atvinnu fólks og verðmætasköpun í landinu, sem hann margoft áður á ferli sínum hefur gerzt sekur um, t.d. sem framkvæmdastjóri Landverndar. Þessu hampar Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Verði henni að góðu. Stórtækar bremsur á framfarir í landinu undir hans ráðuneyti eru Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Kannski þolir syndalistinn ekki dagsljósið.
Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi, að Matvælastofnun skuli hanga yfir starfsleyfisumsóknum í hálfan áratug. Séu umsóknirnar formlega ófullnægjandi, ber að leiðbeina og hjálpa umsækjanda og koma honum á sporið. Ef það, sem sótt er um, uppfyllir ekki efnislegar kröfur laga, reglugerða eða aðrar viðmiðanir stofnunarinnar, á hún að hafna umsókninni með rökstuddum hætti. Sú afgreiðsla er þá kæranleg af hagsmunaaðilum.
Athygli vekja margar óafgreiddar umsóknir um virkjana- og nýtingarleyfi auðlinda, þótt ekki séu þær ýkja gamlar. Nú verða þær væntanlega afgreiddar á grundvelli Þriðja orkupakka Evrópusambandsins af Landsreglaranum ("National Energy Regulator") og þess vegna allar samþykktar á endanum, ef þær uppfylla kröfur um vistvæna orkuvinnslu. Á þeim bænum hefur "græn" orkuöflun forgang fram yfir verndun óbreyttra árfarvega o.s.frv.
"Hann [Jón Gunnarsson] segist hafa kallað eftir því, að áætlun um það, hvað hægt sé að gera til að koma atvinnuverkefnum hraðar í gegnum frumskóg leyfisumsókna, án þess að slaka á kröfum, sem til þeirra eru gerðar."
Það ætti að vera höfuðviðfangsefni stjórnsýslunnar núna að vinda bráðan bug að afgreiðslu leyfisumsókna, sérstaklega í þeim tilvikum, þar sem "strax" er hægt að fara í framkvæmdir, þ.e. fjármagn til fjárfestinga er til reiðu. Ekki er átt við að stimpla eigi slíkar umsóknir rýnilaust, heldur að leiða þær til lykta, fá nauðsynlegar viðbótar upplýsingar strax og samþykkja eða hafna umsókn eftir atvikum.
"Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir í svari sínu, að Matvælastofnun hafi ekki getað afgreitt hluta af þeim rekstrarleyfum fyrir fiskeldi, sem sótt hafi verið um, vegna þess að umsækjandi hafi ekki skilað fullnægjandi gögnum.
Ráðherra lætur þess einnig getið, að [á] meðal aðgerða ráðuneytisins til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins hafi verið að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, og sé sú vinna í gangi hjá Matvælastofnun."
Frumkvæði ráðuneytisins til að laga það, sem hallast hefur á merinni, er lofsvert, en afsökun Matvælastofnunar er dæmigerð fyrir búrókrata. Ef gögn eru ófullnægjandi að mati búrókratans, þá leggur hann umsóknina á ís. Það er ekki nóg að vanda um við hina búrókratísku stofnun; það verður að leggja henni lífsreglurnar, þegar kemur að verklagi, og ráðuneytið þarf að fylgjast með málahala þessarar stofnunar, því að tafir hennar eru kostnaðarsamar og jafngilda í mörgum tilvikum töpuðu fé. Kannski Matvælastofnun þurfi hvatakerfi frá ráðuneytinu ? Þetta snýst þó aðeins um, að allir starfsmenn vinni vinnuna sína af kostgæfni.
Jón Gunnarsson nefndi þrautagöngu Kalkþörungafélagsins og sagði síðan:
""Ég á líka við laxeldið. Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenzkt samfélag til sköpunar verðmæta og atvinnu og einnig í byggðaþróun. Ég tel, að við þurfum að finna leiðir til að greiða verkefnum leið. Það er okkar svar við þeim erfiðu aðstæðum, sem við erum í, og hvernig við eigum að vinna okkur út úr þeim", segir Jón og bætir því við, að hann hafi fulla trú á því, að ferðaþjónustan komi sterk inn aftur, þegar löndin opnast."
Varðandi hið síðast nefnda er rétt að benda á þá staðreynd, sem ekki hefur sézt í umræðunni, að senn verða 30 milljón manns í heiminum, sem engin smithætta stafar af, hafa bólusett sig sjálfir gegn COVID-19 með því að vinna bug á veirunni. Þeir hafa myndað mótefni sjálfir gegn SARS-CoV-2-veirunni og geta fengið skírteini um það. Íslenzk yfirvöld viðurkenna engin slík skírteini enn þá, en þau gætu samt boðið þetta fólk velkomið til Íslands í lögmætum erindum með skírteinið sitt gegn blóðprufu á landamærunum og að hámarki eins dags sóttkví, þar til óyggjandi niðurstaða fæst, sem staðfestir skírteinið.
Nú fer því fólki ört fjölgandi í heiminum, sem náð hefur bata eftir COVID-19. Það verður varla öðru trúað en Schengen-stjórnin (framkvæmdastjórn ESB o.fl) veiti þessu fólki fararleyfi inn fyrir Schengen-landamærin gegn framvísun viðurkennds skírteinis og e.t.v. gegn viðbótarskilyrðum, sem hvert land ákveður. Staða ferðaþjónustunnar hérlendis er skelfileg, og allt er hey í harðindum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Viðskipti og fjármál, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.