Tíðindi af Akureyri

Vinstra moðið í meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar hefur lagt upp laupana og leitað á náðir minnihlutans, Sjálfstæðisflokksins, um að hjálpa til við að stjórna bæjarfélaginu fram að næstu sveitarstjórnarkosningum. Er það alkunna, að vinstri menn þrýtur iðulega örendið áður en í mark er komið.  Uppgefin ástæða í þetta sinnið er bágborinn fjárhagur þessa stórkostlega bæjarfélags, sem hefur verið skreyttur nafnbótinni "höfuðstaður Norðurlands".

Nú virðist ætlunin að snúa af braut skuldasöfnunar á Akureyri, draga úr rekstrarkostnaði og selja eignir.  Rekstur bæjarins er ósjálfbær við núverandi aðstæður, og Akureyringar verða þess vegna að endurskoða stefnu sína, ef þeir eiga ekki að festast í skuldafeni.  Hvers vegna ekki að reyna að auka við tekjurnar við þessar erfiðu aðstæður ?  Betra væri, að ríkisstjórnin sneri af braut glórulausrar skuldasöfnunar og draumóra um hagvöxt, sem leysi vandann.  Hann er fjarri því að vera í hendi á næsta ári, ef svo heldur fram sem horfir. 

Akureyri samþykkti fyrr á árinu furðutillögu um, að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Engin haldbær rök voru færð fyrir þessari samþykkt, heldur aðeins tíndur til tilfinningavellingur um útlit og ágizkanir um, að lífríki fjarðarins stafi hætta af sjókvíaeldi, og flaggað með vitlausasta frasa nútímans um, að "náttúran verði að njóta vafans".  Ef honum er beitt við stefnumörkun án þess að veita skilmerkilegum rannsóknum kost á að eyða þessum vafa eða að draga úr honum niður í líkindi, sem skynsamlegt er að fella sig við m.v. hættuna, sem lífríki stafar af öðrum orsökum, þá verður fátt um framkvæmdir, sem ætlað er að skapa atvinnu og gjaldeyri, en mikil atvinnuþátttaka og gjaldeyrisöflun eru undirstaða velferðar fólksins í landinu, sem auðvitað er hluti af lífríki þess. 

Jón Örn Pálsson skrifaði stórgóða grein í Bændablaðið fimmtudaginn 2. júlí 2020, þar sem hann gagnrýndi hugmyndir um bann við sjókvíaeldi í Eyjafirði með föstum rökum.  Hann lýsti staðháttum í Eyjafirði.  Sú lýsing eru rök fyrir því að leyfa sjókvíaeldi í Eyjafirði, því að aðstæður eru hvergi betri hérlendis á þeim svæðum, þar sem slík starfsemi er leyfð núna:

"Eyjafjörður er með stærstu fjörðum landsins, og sumir segja stærsti eiginlegi fjörðurinn, ef frá er skilinn Breiðafjörður. (Djúp og Flóar eru jú ekki firðir !)  Eyjafjörðurinn er um 58 km langur og 15 km breiður í fjarðarminni.  Heildarflatarmálið er áætlað 422 km2 (sunnan 66°10 N).  Fjarðarminnið er opið móti úthafinu, þar sem mesta dýpi er 215 m.  Enginn dýpisþröskuldur er í minni fjarðarins, og eru sjóskipti því svo til óheft við úthafið.

Djúpáll gengur inn fjörðinn, og mesta dýpið er austan við Hrísey inn undir Grenivík, þar sem dýpið er enn þá um 100 m.  Áfram grynnkar rólega og þrengist, eftir því sem innar gengur.  Út af Arnarnesi, innan við Rauðuvík, þrengist djúpállinn mikið, og er mesta sjávardýpið 70 m.  Innan við hrygginn dýpkar fjörðurinn á ný og breikkar.  Innan við Hjalteyri er dýpið víða um 75-90 m fram undir Hörgárgrunn.  Mest er þó dýpið í djúpál vestan megin, 110 m.  Innan við Hörgárósa dregur rólega úr dýpinu, og er dýpið út af Skjaldarvík þó enn þá 65 m og við Krossanes 55 m, en úr því dregur hratt úr dýpinu.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið heildar rúmmál Eyjafjarðar 29 km3 (sunnan 66°10 N)."

Mikið rúmtak og hröð sjóskipti mynda að öðru jöfnu kjöraðstæður fyrir sjókvíaeldi bæði m.t.t. laxalúsar og áhrifa á lífríkið, sem fyrir er.  Til samanburðar er rúmtak Arnarfjarðar á Vestfjörðum aðeins 66 % af rúmtaki Eyjafjarðar.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol Arnarfjarðar til fiskeldis 30 kt, og það er óheimilt í hluta fjarðarins.  Metið burðarþol Eyjafjarðar verður á að gizka a.m.k. 50 kt.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætti að fela Hafrannsóknarstofnun tafarlaust að annast burðarþolsmat á Eyjafirði.  Það er fyrsta skrefið í átt að upplýstri ákvarðanatöku. 

Vegna ólíkra hagsmuna kemur fiskeldi ekki til greina alls staðar í firðinum.  Sveitarfélögin, sem að firðinum liggja, þurfa að ákveða, hvar þau vilja leyfa fiskeldi, og áhættugreina þarf hvert leyfissvæði.  Á þeim grundvelli geta fiskeldisfyrirtæki sótt um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Ekki er að efa, að slíkt takmarkað fiskeldi getur orðið íbúum við Eyjafjörð góð búbót, og veitir ekki af í Kófskreppunni.

Í Morgunblaðinu 4. september 2020 fjallaði Helgi Bjarnason í baksviðsgrein um ágreininginn varðandi framvindu fiskeldis í Eyjafirði og dró fram það skrýtna atriði, að opinberar stofnanir virðast strangt tekið hafa gert sig vanhæfar til að leita raka með og á móti með því að taka afstöðu fyrirfram.  Það hlýtur að setja ráðherra í erfiðari stöðu í þessu máli, en hann verður að spila úr því, sem hann hefur á hendi, til að leiða fram staðreyndir, sem hægt sé að reisa vandaða ákvarðanatöku á.  Baksviðsfréttin bar eftirfarandi fyrirsögn, sem er fallin til að vekja furðu:

Stofnanir vilja banna laxeldi.

Fréttin hófst þannig:

"Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa styðja hugmyndir um að friða Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi eða takmarka eldi þar.  Matvælastofnun tekur ekki afstöðu.  Nokkrar sveitarstjórnir styðja eindregið slíkt bann, en aðrar telja ekki tímabært að taka afstöðu vegna skorts á upplýsingum."

Fyrirsögnin er villandi.  Með takmörkuðu eldi í Eyjafirði hljóta stofnanirnar að eiga við, að áhættugreining muni leiða til ráðlegs hámarkseldis, sem sé minna en nemur burðarþoli fjarðarins.  Það kemur ekki á óvart og er eðlilegt vegna ólíkra hagsmuna í firðinum.  

"Matvælastofnun telur hverfandi líkur á dreifingu smitsjúkdóma úr eldisfiski í villtan fisk, og sömuleiðis séu áhrif af smiti með laxalús að öllu jöfnu ekki mikil.  Þótt mat Mast sé annað en Hafró og Fiskistofu, telur stofnunin ekki rétt, að hún taki beina afstöðu til þess, hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í Eyjafirði, enda geti þar komið til önnur sjónarmið, sem ekki eru á verksviði stofnunarinnar."

Þetta er eðlileg afstaða Mast, enda eru ekki fyrir hendi rannsóknir til að rökstyðja takmarkanir á fiskeldi (laxeldi) í Eyjafirði.  Það, sem áhættugreining virðist aðallega þurfa að snúast um, er, hversu mikið laxeldi er ráðlegt að leyfa í opnum sjókvíum með mótvægisaðgerðum, til að hlutfall eldisfisks verði með 95 % öryggi ekki meira en 4 % af villta laxinum í hverri á. 

"Einna eindregnasta afstaðan gegn banni kemur fram í ítarlegri umsögn Fjallabyggðar.  Þar kemur fram sú afstaða, að ekki geti komið til álita að beita lokunarheimild ráðherra, nema sérstakar og vel unnar rannsóknir hafi farið fram, sem styðji við það, að vistfræðileg hætta sé til staðar, sem byggi undir bann eða takmörkun. 

"Ákvörðun ráðherra um lokun eða takmörkun á fiskeldi á tilteknum svæðum verður því ekki byggð á almennri pólitískri afstöðu ráðherrans.  Sú ákvörðun verður að styðjast við niðurstöður rannsókna, til þess að hún teljist lögmæt", segir í umsókninni.

Kallar Fjallabyggð eftir því, að gert verði burðarþolsmat og áhættumat áður en afstaða verði tekin til málsins.  Þau mál standa þannig, að Hafró hóf rannsóknir til að undirbúa mat á burðarþoli.  Í nýjum fiskeldislögum var hins vegar kveðið  á um, að ráðherra skuli kalla eftir slíku mati.  Það hefur hann ekki gert.  Hafró gerir síðan áhættumat vegna erfðablöndunar, eftir að burðarþol hefur verið metið. Þegar ferlið er komið þetta langt, geta fiskeldisfyrirtækin sótt um leyfi til sjókvíaeldis, og viðkomandi stofnanir verða væntanlega að veita þau.  Er því nokkuð ljóst, að ráðherrann mun ekki kalla eftir burðarþolsmati, á meðan hugmyndir eru uppi um að friða fjörðinn.  Þá vaknar spurningin, hvort hægt er að fara í aðrar rannsóknir til að undirbyggja ákvörðun ráðherrans."

 Þarna kemur fram órökrétt skoðun blaðamannsins, enda er hún andstæð ályktun Fjallabyggðar, sem er rökrétt nálgun á viðfangsefninu.  Eins og staðan er núna, er alls engin eining á meðal sveitarfélaga við Eyjafjörð um að friða hann fyrir fiskeldi.  Um svo afdrifaríka stefnumörkun er ekkert vit í að taka ákvörðun fyrr en ljóst er, hvaða verðmætum (verðmætasköpun, atvinnusköpun, gjaldeyrisöflun) er þar með verið að fórna.  Mun þá að líkindum koma í ljós, að á tilfinningaþrunginn hátt er verið að fórna miklu meiri hagsmunum fyrir mun minni hagsmuni með því að útiloka þar fiskeldi.  Kristján Þór Júlíusson, stýrimaður og ráðherra og hagvanur í Eyjafirði, á nú þann leik beztan í stöðunni að fela Hafrannsóknarstofnun þær rannsóknir, sem Fjallabyggð lagði til.  

   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Fyrir  nokkrum árum voru settar kvíar og ræktaður lax við Eyrarvík í Eyjafirði í smáum stíl. Sú tilraun fór að mestu um þúfur . Ástæðan var að jaki úr lagnaðar ís frá pollinum við Akureyri kom siglandi og  hleypti úr kvínum stórum hluta af verðmætinu. Að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi  er pempíulega kjánalegt. En það er nauðsinlegt að vanda til verka.

Snorri Hansson, 3.10.2020 kl. 14:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Góð lýsing á fyrirbrigðinu, "pempíulega kjánalegt".  Sammála, að það verður að vanda til verka í hvívetna, en þekking og búnaður hafa tekið miklum framförum á sviði lavxeldis í sjókvíum hérlendis undanfarinn áratug.  Nú eru eldissvæðin rækilega vöktuð, og viðbúnaðaráætlun mundi spanna ráðstafanir gegn atburði, sem þú nefnir.

Bjarni Jónsson, 3.10.2020 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband