Brautryðjandi blaðagrein um fiskeldi

Saga íslenzks fiskeldis var hrakfallasaga, þar til erlendir fjárfestar með sérþekkingu á greininni og víðtæk markaðstengsl rufu vítahring fjármagnsskorts og einangrunar, sem hrjáði greinina hér. Nú er þetta glæsileg grein í góðum vexti, sem er orðin kjölfesta atvinnulífs og viðgangs byggðar í landinu á þeim stöðum á landinu, þar sem henni er leyft að starfa, en sjókvíaeldi á laxi er miklum takmörkunum háð af hálfu íslenzkra yfirvalda.

Um leið og greininni hefur vaxið fiskur um hrygg, hafa stofnanir og yfirvöld þróað vísindalegar og hlutlægar aðferðir við mat á því, hversu mikið fiskeldi getur talizt vistfræðilega sjálfbært á hverjum stað.  Það var þess vegna tímabært að kynna til sögunnar nýja hugsun um það, hvar við landið er ráðlegt að hafa tilgreint fiskeldi í stað auglýsingar landbúnaðarráðuneytisins um þau efni frá 2004. 

Þetta gerði Teitur Björn Einarsson, 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vestur-kjördæmi, í Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2020 undir fyrirsögninni:

"Vísindaleg sáttargjörð um fiskeldi".

Hún hófst þannig:

"Ávinningur af fiskeldi er mikill fyrir íslenzkt samfélag, og sérstaklega eru áhrifin jákvæð á þau byggðarlög, þar sem eldið er starfrækt.  Alvarlegar efnahagsþrengingar vegna kórónuveirunnar draga enn betur fram mikilvægi slíkrar nýsköpunar og auðlindanýtingar fyrir landsmenn.  Yfirlýst stefna stjórnvalda er að byggja áfram upp fiskeldi í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og tryggja rannsóknir og vöktun áhrifa á lífríkið." 

Þarna er brugðið upp mynd af hinu nýja fiskeldi við Ísland.  Einkenni þess eru bezta fáanlega tækni á þessu sviði, strangir staðlar og hlíting þeirra við rekstur og búnaðarkaup ásamt vísindamiðaðri umgjörð ráðgjafar- og eftirlitsstofnana ríkisins. Gjaldeyrissköpunin í ár gæti numið jafnvirði mrdISK 25, þrátt fyrir verðlækkun á mörkuðum af völdum sóttvarnarráðstafana erlendis, og framleiðslan orðið 30-35 kt.  Þróunarstarf bíður fiskeldisins á sviði vinnslu afurðanna. Stækkunarmöguleikar eru töluverðir, en e.t.v. er beðið með mestri óþreyju eftir endurskoðun á áhættumati Hafrannsóknarstofnunar um laxeldi í Ísafjarðardjúpi til aukningar.

Við þessar aðstæður skýtur skökku við, að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli nú kanna, hvort rétt sé að banna sjókvíaeldi í Eyjafirði, Jökulfjörðum og hluta Norðfjarðarflóa. Teitur Björn bendir á, að ráðherra verði að reisa slíkt mat á niðurstöðu vísindalegra rannsókna og útreikninga á þeim grunni, en ekki einhvers konar huglægu, hugmyndafræðilegu eða pólitísku mati ráðuneytisins:

"Ráðherra hefur ekki heimild samkvæmt fiskeldislögum til að loka hafsvæðum, ef ekki liggja fyrir lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir, þ.e. burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldi hafi neikvæð áhrif á umhverfið. 

Fyrir liggur, að ráðherra hefur ekki óskað eftir burðarþolsmati fyrir firðina 3, sem um ræðir, og ekkert áhættumat erfðablöndunar er til um þau svæði."

Spyrja má, hvað ráðherra málaflokksins sé að bauka ?  Sú leið, sem Teitur Björn nefnir, er málefnaleg og vænleg til að höggva á hnút tilfinninga og hugmyndafræðilegrar andstöðu við laxeldi í sjókvíum, enda fullyrðir Teitur Björn:

"Eina raunhæfa sáttin um uppbyggingu fiskeldis verður að vera byggð á vísindalegri ráðgjöf."

Næst víkur Teitur Björn að þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að mega hefja fiskeldi í nýjum firði, sem hingað til hefur verið undanskilinn fiskeldi með auglýsingu frá 2004, sem nú víkur fyrir fiskeldislögum, sem þá voru ekki til.  Hér er um alveg nýja stefnumörkun í mikilvægum málaflokki að ræða:

"Til að starfrækja fiskeldi, t.d. í Steingrímsfirði á Ströndum, þarf að uppfylla veigamikil skilyrði fiskeldislaga. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir burðarþolsmat.  Í öðru lagi þarf að liggja fyrir svæðaskipting byggð á burðarþoli, að teknu tilliti til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Í þriðja lagi þarf áhættumat erfðablöndunar að ná yfir Steingrímsfjörð. Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir úthlutun eldissvæða af hálfu ráðherra og í fimmta lagi þarf að liggja fyrir staðfest mat á umhverfisáhrifum um starfsemi fiskeldis í Steingrímsfirði. 

 

Auglýsing um bann við fiskeldi í Steingrímsfirði einfaldlega víkur fyrir rétthærri fiskeldislögum og hefur enga þýðingu samkvæmt þeim."

Þarna kemur berlega í ljós í hverju breytingin á stjórnskipulagi fiskeldis er fólgin.  Fyrirkomulagið um leyfilega staðsetningu hefur þróazt úr auglýsingu, sem reist var á ráðleggingu Veiðimálastofnunar 2001, yfir í að verða niðurstaða vísindalegs mats samkvæmt núverandi fiskeldislöggjöf. Ráðherra hefur þetta ferli með því að óska eftir burðarþolsmati, en Umhverfisstofnun og Matvælastofnun ljúka því með útgáfu starfs- og rekstrarleyfa. 

Þessa fróðlegu grein sína endaði Teitur Björn Einarsson þannig:

"Vísindaleg ráðgjöf verður að ráða för til að tryggja, að auðlindir landsins séu nýttar með skynsamlegum og ábyrgum hætti í þágu allra landsmanna.  Íbúar við sjávarsíðuna, þar sem tækifæri eru í fiskeldi, eiga það enn fremur skilið. Gera má ráð fyrir, að meiri sátt verði þannig náð um uppbyggingu fiskeldis, ef stjórnvöld fylgja þeirri stefnu fastar eftir." 

Hér hefur verið fjallað um sjókvíaeldi.  Það er mikil þróun á því sviði innan greinarinnar.  Sjókvíarnar og eftirlitið með þeim verða sífellt öflugri.  Sjálfvirknin eykst og notkun innlendra hráefna í fóðrið sömuleiðis.  Í Noregi eru gerðar tilraunir með lokaðar sjókvíar og úthafskvíar.  Þær munu vafalítið koma hingað líka.  Það er þó önnur þróun enn nær í tíma og ekki síður merkileg, en hún er á sviði landeldis. Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji er þegar með reynslu á þessu sviði, t.d. á Suðurnesjum, og hefur kynnt til sögunnar stórbrotna hugmynd um útvíkkun starfseminnar á Suðurnesjum.  Markaður Fréttablaðsins kynnti hugmyndina til sögunnar 14. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Samherji vill kaupa eignir Norðuráls við Helguvík og hefja laxeldi".

Frásögnin hófst þannig:

"Norðurál og Samherji hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Samherja á lóð og byggingum Norðuráls við Helguvík samkvæmt heimildum Markaðarins. Áætlanir Samherja snúa að því að hefja laxeldi á landi og nýta til þess byggingar í Helguvík, sem upprunalega var ætlað að hýsa álver Norðuráls." 

Þessu ber að fagna og vona, að Samherji finni hagkvæma leið til að koma eldiskerum fyrir í þessum tveimur kerskálum Norðuráls.  Samherji styrkir hér verulega eldisþátt starfsemi sinnar, og fiskeldið verður einn af grundvallarþáttum gjaldeyrisöflunar Íslendinga. Á grunnatvinnuvegunum lifir síðan alls konar þróunar, þjónustu- og framleiðslustarfsemi, sem krefjast sérhæfingar.  Þannig þróast nýjar greinar.  Hugverkastarfsemi verður ekki til í lausu lofti.  Góð dæmi er alls konar sprotastarfsemi, sem sprottið hefur upp í samstarfi við sjávarútveginn við gernýtingu sjávaraflans.  Svipaða sögu er að segja frá stóriðjunni og ekki má gleyma fluginu.  Hátæknistarfsemi fer fram við flughermi Icelandair í Hafnarfirði og við umfangsmikið flugvélaviðhald þessa undirstöðufélags íslenzkrar ferðaþjónustu.  Merkileg rannsóknar- og þróunarstarfsemi fer fram í íslenzkum landbúnaði, skólum og rannsóknarstofnunum tengdum honum.  Þannig eru grunnatvinnuvegirnir 4 undirstaða sprotafyrirtækja og nýsköpunar, sem orðið geta að öflugum tæknifyrirtækjum, sem starfa á innlendum og erlendum mörkuðum.

Umsvif Samherja á sviði landeldis eru ekki öllum kunn, en fyrirtækið framleiðir þannig um 1,5 kt/ár af eldislaxi.  Sú framleiðsla verður margfölduð, ef áformin í Helguvík verða að veruleika, og gæti fyrirtækið orðið stærst á sviði landeldis á laxi í heiminum.

"Samherji starfrækir þegar fiskeldi á Suðurnesjum.  Fyrirtækið rekur 2 áframeldisstöðvar bleikju skammt frá Grindavík og á Vatnsleysuströnd.  Þar að auki rekur Samherji vinnslu í Sandgerði, þar sem bleikju er slátrað og pakkað í neytendaumbúðir.

Ætla má, að uppbygging laxeldis við Helguvík falli því harla vel að núverandi starfsemi fyrirtækisins á Suðurnesjum.  Samherji stundar þegar laxeldi á landi við Núpsmýri í Öxarfirði."

Laugardaginn 31. október 2020 skrifuðu Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, grein í Morgunblaðið um gildi hugvits og nýsköpunar í atvinnulífinu.  Bezt hefur verið og mun verða hlúð að sprotafyrirtækjum, þegar grunnatvinnuvegirnir eru öflugir.  Með því að skapa grunnatvinnuvegunum góð starfsskilyrði, munu nýsköpunarfyrirtækin spretta fram.  Forysta SI virðist í téðri grein vera þeirrar skoðunar, að stjórnvöld landsins geti galdrað slíka kanínu upp úr sínum hatti.  Hætt er við miklu meiri afföllum af slíkum sprotum en þeim, sem vaxa og dafna í skjóli öflugra fyrirtækja með skilning á mikilvægi tækniþróunar.

Grein sína nefndu tvímenningarnir:

"Fjórða stoðin - til mikils að vinna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

"Í megindráttum eru 3 stoðir útflutnings, sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta.  Nú hriktir í 2 stoðunum.  Ferðaþjónusta á undir högg að sækja um heim allan vegna veirufaraldursins [og dýrkeyptra viðbragða yfirvalda við honum - innsk. BJo]. Hömlur eru á ferðalögum, og ferðavilji fólks er minni meðan á faraldrinum stendur.  Þá eru blikur á lofti í orkusæknum iðnaði á Íslandi [af því að íslenzk yfirvöld hafa dregið lappirnar við að leiðrétta raforkuverðið, eins og ýmis önnur yfirvöld hafa þó beitt sér fyrir-innsk. BJo], afkoma iðnfyrirtækja, sem nýta raforku, versnar, og umsvif hafa dregizt saman.  Það yrði mikið áfall, ef 2 stoðir létu undan á sama tíma."   

 

 

 

    

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband