25.12.2020 | 18:16
Metnaðurinn einn og sér hrekkur skammt
Forsætisráðherra hefur tilkynnt þjóð sinni og þjóðum heims um enn torsóttari markmið en áður varðandi samdrátt í losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum. Hérlendir stjórnmálamenn ættu þó að vera brenndir af því að spenna bogann allt of hátt án þess að hafa nokkra getu til að stjórna aðgerðum til að uppfylla loforðin. Afleiðingu þess barnalega hégómaskapar að vera hinn góði riddari loftslags jarðar, sem drepur drekann ógurlega, sem ógnar lífi á jörðunni, eins og við þekkjum það, sjáum við í hörmunginni, sem kallast "annað skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar". Skortur á efndum þar mun kosta íslenzka skattborgara stórfé. Hvað mun þetta síðasta gönuhlaup Katrínar Jakobsdóttur kosta mig og þig ?
Nú verður vitnað í nýjustu "Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. "National Inventory Report-NIR") til Evrópusambandsins (ESB) og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC") frá Umhverfisstofnun sumarið 2020:
"Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliða samning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015), þar sem Ísland fékk úthlutaðar 15.327.217 losunarheimildir [t], sem samsvara losun af 15,33 Mt CO2-íg. af gróðurhúsalofttegundum á tímabilinu 2013-2020 [8 ár-innsk. BJo]. Árið 2023 mun Ísland gera upp annað tímabil Kýótóbókunarinnar við ESB, og ef Ísland hefur losað meira en það fékk úthlutað, mun landið þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir mismuninum."
Ísland fór mjög mikið fram úr þessum losunarheimildum sínum á Öðru Kýótó-skuldbindingartímabilinu eða um 8,35 Mt CO2-íg., sem er um 55 % af úthlutuðum heimildum, og var enn að auka losun sína á árinu 2018, sem er lokaár skýrslunnar með þekktum gildum. Hvaðan í ósköpunum kemur forsætisráðherranum þá sú vitrun (líklega í draumi), að raunhæft sé að ætla Íslendingum að auka enn snúninginn ? Engar aðgerðaáætlanir til 2030 hafa verið birtar, hvað þá, að þær séu fjármagnaðar. Allt er í lausu lofti hjá forsætisráðherra, en hégómagirninni er fullnægt. Það væri svo sem ekki orð á því gerandi, ef það gæti ekki kostað skattborgarana stórfé, og auðvitað er það þarflaust með öllu að binda skattgreiðendum þessar byrðar. Þurfum við ekki á öðru að halda núna en leikaraskap af þessu tagi ?
Hvað mun framúrkeyrslan á Öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar kosta ? Ef reiknað er með lágmarksverði koltvíildiskvótans, sem gilti á þessu tímabili, 5 EUR/t CO2, mun kostnaðurinn nema:
- K2K=8,35 Mt * 5 EUR/t = MEUR 42 = mrdISK 6,5
Meginástæða þess, að það reynist Íslendingum svo torsótt sem raun ber vitni um að standa við Kýótóbókunina og Parísarsáttmálann er sú, að viðmiðunar árið, 1990, er okkur óhagfellt og óhagfelldara en mörgum öðrum. Þá var mesta átak í hitaveituvæðingu landsins nýlega um garð gengið í kjölfar olíukreppa og margföldunar olíuverðs frá 1970. Til að sýna umfang skuldbindinganna í tonnum (enginn veit, hverjar þær verða í evrum) er rétt að vitna aftur í Landsskýrslu UST 2020:
"Árið 2018 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt) 4.857 kt af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 30 % frá árinu 1990 (3.733 kt CO2-íg.) og aukning um 0,4 % frá árinu 2017 (4.836 kt CO2-íg.)."
Okkur miðar þannig ekki nokkurn skapaðan hlut í heild í átt að markmiðum ársins 2030, hvort heldur átt er við 40 % samdrátt eða 55 %. Einn er sá samanburður, sem forsætisráðherra gæti skákað í skjólinu af, en það er "losun, sem fellur undir beina ábyrgð íslenzkra stjórnvalda" með viðmiðunarárinu 2005, en það er einmitt upphafsár kvótaúthlutunar Evrópusambandsins á losunarheimildum koltvíildis. Það, sem forsætisráðherra er mjög líklega að gera, er að skuldbinda Íslendinga til að greiða fyrir það, sem þeir munu ekki standa við tímabilið 2021-2030 samkvæmt þessari skuldbindingu forsætisráðherra og væntanlega ríkisstjórnarinnar.
Þetta er þó hvorki meira né minna en Stjórnarskrárbrot. Stjórnarskráin bannar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins, nema með lögum, og það er mjög hæpið, að stjórnvöldum sé yfirleitt heimilt að skuldbinda skattborgara til greiðslu á óvissum erlendum skuldum. Forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar eru hér stjórnlagalega á hálum ísi.
Í tilvitnaðri Landsskýrslu UST stendur þetta um losun á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda:
"Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda hérlendis, samkvæmt tvíhliða samninginum við ESB, er öll losun Íslands að undanskilinni losun, sem fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), LULUCF, flug (alþjóðaflug og innanlandsflug) og millilandasiglingar, og er þar viðmiðunarárið 2005. Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, nam 2978 kt CO2-íg. árið 2018."
Viðmiðunargildið er 3178 kt CO2 árið 2005, sem þýðir, að markgildið er 1787 kt CO2 með 40 % markmiðinu, en 1430 kt CO2 með 55 % markmiðinu. Mismunurinn er 347 kt CO2, sem er 11,7 % af losunargildinu 2018 (nýjasta þekkta gildi). Það þarf með nýja markmiðinu að draga úr losun orkuferla, iðnaðarferla, landbúnaðar og úrgangsferla um 1548 kt á tímabilinu 2021-2030.
Ef við hugsum okkur, að hver liður þurfi að draga hlutfallslega jafnmikið úr losun, falla 975 kt á orkuferlana, aðallega vegaumferð og fiskiskip, 93 kt á iðnaðarferla, 325 kt á landbúnaðinn og 155 kt á úrgangsferlana. Undir "vegasamgöngur" falla 51 % af losun orkuferlanna, sem jafngilda tæplega 500 kt/ár CO2 minni losun árið 2030 en nú. Hvað jafngildir það mörgum farartækjum ?
Á vegsamgöngur er nú skrifuð um 960 kt/ár CO2 losun, svo að krafa um minnkun nemur um 52 % af öllum flotanum, stórum og smáum tækjum, eða um 150 k. Það er ólíklegt, að þetta náist, enda tæknin hreinlega ekki tilbúin fyrir vinnuvélarnar, en það er þó ekki útilokað. Stjórnvöld mega halda betur á spilum orkuskiptanna á komandi áratug en þau hafa gert til þessa, svo að þetta takist.
Hvað gæti gönuskeið forsætisráðherra kostað íslenzka skattborgara, þegar kostnaðaruppgjörið fer fram fyrir komandi áratug ? Gönuskeið er það að hlaupa út í óvissuna algerlega að þarflausu, en auðvitað fyrir ímyndaða stundarhagsmuni hégómagirninnar. Viðbótarskuldbindingin vegna gönuskeiðsins nemur 347 kt/ár CO2. Koltvíildiskvótaverðið innan ETS-viðskiptakerfisins mun verða miklu hærra á tímabilinu 2021-2030 en 2011-2020. Það gæti að meðaltali tífaldazt. Gerum ráð fyrir, að það verði að jafnaði 40 EUR/t CO2. Þá mun verðmiði "gönuskeiðsins" verða: VGSK=347 kt/ár * 0,5 * 10 * 40 EUR/t = MEUR 69,4 eða á núverandi gengi: VGSK=mrdISK 11.
Reikningur vegna gönuskeiðs forsætisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gæti þannig orðið 70 % hærri en reikningur vegna óleyfilegra búrókratískra afglapa annars uppgjörstímabils Kýótó-samkomulagsins. Er ekki mál að linni, eða hvað verður um allt þetta fé ?
Téður forsætisráðherra birti þjóðinni predikun um áform sín í Morgunblaðinu 10. desember 2020 undir fyrirsögninni:
"Metnaður fyrir framtíðina".
Að leita þar að leiðsögn um, hvers vegna í ósköpunum hún ákvað að herða skuldbindingarólina um háls þjóðarinnar, eða hvernig á að framkvæma hin "göfugu" áform, er jafngilt því að fara í geitarhús að leita ullar. Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi. Þessi forsætisráðherra er allt of dýr á fóðrum. Hún bakar framtíðinni bara vandræði. Lítum á skrifin:
"a) Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40 % samdrátt m.v. árið 1990 í 55 % eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi."
Það er óskiljanlegt að stíga þetta skref, og til að það takist, þarf kraftaverk. Slíkt kraftaverk gæti t.d. verið, að a.m.k. tveimur af orkukræfu iðjuverunum yrði umbylt yfir í kolefnisfría framleiðslu með s.k. eðalskautum, þannig að í stað CO2-losunar komi O2 losun út í andrúmsloftið, og að engin nettólosun verði vegna bruna á jarðefnaeldsneyti í vélum. Markmið Katrínar jafngildir, að heildarlosun Íslands verði undir 1680 kt árið 2030, sem þýðir minnkun losunar um a.m.k. 3177 kt/ár. Þetta er ótrúlega fífldjarft uppátæki, og það eru innan við 5 % líkur á, að það takist að mati pistilhöfundar (ágizkun).
"b) Efldar aðgerðir, einkum í landnotkun, sem munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auki áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda í kringum árið 2030."
Svo virðist hér sem forsætisráðherra ætli að bjarga sér fyrir horn með landnotkun, binda koltvíildi og draga úr losun lands á jafnvel sterkum gróðurhúsagösum, en hvað segir Landsskýrsla UST 2020 um þetta ?:
"Losun, sem kemur frá flokkinum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og er þess vegna ekki talin með í umfjölluninni um heildarlosun fyrir ofan. Það er ennþá takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og vantar meiri rannsóknir á alþjóðavísu. Þar af leiðandi er mjög mikil óvissa í losunartölunum, sem verið er að gera úrbætur á. Ísland getur talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti."
Á grundvelli þessa texta er mjög óvarlegt að búast við, að ræktun og mokstur ofan í skurði geti skilað nokkru, sem heitið geti, á tímabilinu 2021-2030, enda er t.d. endurheimt votlendis mjög vandmeðfarin og getur snúizt í höndunum á mönnum þannig, að losun aukist. Það borgar sig alls ekki að setja fé í þann vonarpening á komandi reikningstímabili, en landgræðsla og skógrækt munu vonandi skila sínu síðar meir inn í þetta bókhald.
"c) Aukin áherzla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku."
Það er mjög í þoku, hvernig forsætisráðherra hugsar sér aðkomu ríkisins að þessu, enda hefur einkageirinn aðallega séð um þennan þátt, og þessi starfsemi er bezt komin hjá honum.
"Í upphafi þessa kjörtímabils ákvað ríkisstjórnin að forgangsraða loftslagsmálunum og kynnti fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum strax haustið 2018. Flaggskip aðgerðaáætlunar eru samdráttur í losun frá samgöngum með orkuskiptum og landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þar settum við okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040."
Þarna vantar alveg hjá forsætisráðherra, hvernig á að láta orkuskiptin fara fram með svo hröðum hætti sem markmið hennar útheimtir. Með núverandi hraða orkuskiptanna nást markmið hennar alls ekki, og hún er jafnvel á undan tækniþróuninni með sín markmið, sem gerir þau ekki aðeins ótrúverðug, heldur óraunhæf. Þá blandar hún þarna landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis inn, sem er að mestu ótímabært samkvæmt Landsskýrslu UST 2020.
"Til að ná markmiði um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðsla lykilatriði til að ná árangri auk annarra aðgerða í landnotkun, s.s. endurheimt votlendis. Efla þarf slíkar aðgerðir, sem geta samhliða frumkvöðlastarfi við bindingu kolefnis í berglögum markað Íslandi sérstöðu meðal fremstu ríkja varðandi upptöku kolefnis úr andrúmslofti, sem er ein megináherzla í Parísarsamningnum. Þær eru einnig til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands, skapa störf og styrkja byggðir auk þess að vera "náttúrulegar loftslagslausnir", sem stuðla að vernd og endurheimt vistkerfa og landgæða. Með auknum aðgerðum á þessu sviði getur Ísland náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust varðandi losun á beinni ábyrgð Íslands í kringum árið 2030."
Hér hefur óskhyggjan náð tökum á forsætisráðherra og leitt hana í gönur. Endurheimt votlendis er tóm vitleysa. Hún breytir nytjalandi, sem komið er í CO2-jafnvægi eða nálgast það, í fúamýrar með CH4-losun, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.
Víða í heiminum eru gerðar tilraunir með niðurdælingu koltvíildis, en ferlið er dýrt og verður sennilega ekki arðsamt fyrr en við kvótaverð á CO2 um 100 USD/t. Þá er miklu hagkvæmara að binda CO2 með skógrækt, en ríkið hefur dregið lappirnar í stuðningi sínum við skógrækt alveg frá hruni bankakerfisins. Styðja þarf við skógarbændur. Sú grein verður fljótt lífvænleg. Í stað þess að greiða nokkra milljarða ISK til Evrópusambandsins vegna óraunhæfra skuldbindinga væri nær að láta féð renna til skógræktar á Íslandi í samkomulagi við ESB.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni og gleðilega hátíð
Orðum fylgir ábyrgð og þegar þjóðarleiðtogar tala er ábyrgðin þjóðarinnar. Því er með öllu óásættanlegt að þjóðarleiðtogi láti hégóma sinn ráða för er hún talar á opinberum vettvangi, sér í lagi þegar hún lofar einhverju fyrir hönd þjóðarinnar, til að uppfylla eigin hégómagirnd. Öllu verra er að forsætisráðherra virðist bara alls ekki vita um hvað hún er að tala. Leggur ofuráherslu á endurheimt votlendis, sem er bara alls ekki viðurkennd aðferð í hinum stóra heimi.
Vissulega er margt hægt að gera hér á landi og margt gott í gangi á þessu sviði. En eins og þú bendir á er viðmiðunarárið 1990 okkur einstaklega óhagstætt. Þá er einnig nokkuð undarlegt að allir útreikningar á losun co2 skuli miðast við fólksfjölda en ekki landstærð. Það er jú um að ræða alheimslosun á co2 og því hlýtur hvert ríki að bera ábyrgð á því svæði sem það ræður yfir. Líklegt er þó að þetta eigi eftir að breytast, þar sem mikil fækkun fólks í Þýskalandi er að gera ráðamönnum þar lífið leitt vegna þessarar aðferðarfræði.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 26.12.2020 kl. 15:24
Allt fyrir að taka þátt í samkomu hinna 40 þúsund fífla í París. Trump lét ekki fífla sig eins og Katrín enda skilur hann peninga sem kommarnir hafa aldrei gert. Og hvert skyldu milljarðarnir okkar renna? Hver mun stjórna því?
Af hverju segjum við okkur ekki frá þessari vitleysu með því að kjósa ekki VG,Samfylkingarflokkana eða Pírata?
Halldór Jónsson, 26.12.2020 kl. 17:03
Gleðilega hátíð, Gunnar;
Það er ýmislegt athugunarvert við framsetningu talna um gróðurhúsaáhrifin. Þegar reynt er að klekkja á framfarasókn Íslendinga, frá því að þeir sluppu úr nýlenduklóm Dana, með því að bera saman losun þjóða á koltvíildi á íbúa lands, eða á landsvæði, km2, eru menn á blindgötu. Það, sem skiptir máli í samanburði á milli landa, til að einhverjar framfarir verði, er að bera saman hverja grein, t.d. áliðnað í tAl/tCO2, orkuvinnslu í MWh/tCO2 o.s.frv. Þannig er hægt að bera saman frammistöðu þjóða og draga fram "best practice" til að beina starfseminni þangað, sem hún er skilvirkust. Það er undir hælinn lagt, hvort losun á íbúa eða á km2 gefur rétta mynd af "best practice" eða "beztu framkvæmd".
Bjarni Jónsson, 26.12.2020 kl. 17:28
Sæll, Halldór og gleðileg jól;
Það var ekkert nema hégómagirni og sjálfbirgingsháttur, sem rak Katrínu Jakobsdóttur til að rjúka á fjarfund með nokkrum þjóðarleiðtogum til að skuldbinda Íslendinga enn frekar, þótt hingað til hafi illa gengið að draga úr losun CO2. Hún er að skuldbinda ríkissjóð til að greiða óvissa upphæð í framtíðinni, ef hin ströngu markmið hennar nást ekki, og þingheimur ætti að íhuga vel, hversu ósiðlegt það er og athuga, hvort slíkt athæfi er í samræmi við Stjórnarskrá.
Bjarni Jónsson, 26.12.2020 kl. 17:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.