Þjóðgarðsstofnun til óþurftar

Fram er komið frumvarp til laga um nýtt ríkisbákn, sem fara á með forræði þriðjungs landsins. Það hafa engin sannfærandi rök enn verið færð fram fyrir gagnsemi væntanlegrar ríkisstofnunar, Þjóðgarðsstofnunar, né að meðalhófs á grundvelli faglegrar þekkingar við stjórnun umgengni við og afnota af þessu stóra landsvæði verði gætt í meira mæli en nú, þegar aðliggjandi sveitarfélög bera ábyrgðina og bændur hafa haft svæðið undir handarjaðri sínum, s.s. landgræðsla ber vott um. Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði er óbeysin í þessu samhengi. Það er líklega affarasælla að leggja þessa vanreifuðu og stórkarlalegu miðstýringarhugmynd á ís, enda mætir hún miklum mótbyr í þjóðfélaginu, en endurskoða fremur löggjöfina um Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og sveitarfélögin m.t.t. verndunar og nýtingar þessa landsvæðis.  

Halldór Kvaran, "áhugamaður um náttúruvernd", brá ljósi á þetta stofnunarmál í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.  Af þeirri grein að dæma verður um hreina stjórnsýslulega afturför og jafnvel hnignun umrædds landsvæðis að ræða, ef hugmyndir miðstýringarsinna forsjárhyggjunnar verða ofan á.  Greinin hét:

"Um óþurftarbáknið Þjóðgarðsstofnun".

Hún hófst þannig:

"Eigendur og starfsfólk ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum hafa í 20 ár varið þúsundum vinnustunda við umhverfis- og náttúruvernd á svæðinu.  Við höfum tínt rusl, lagt og merkt göngustíga og göngubrýr, lagfært sár eftir utanvegaakstur og sinnt fleiri verkefnum í sama dúr. Þetta gerðum við að eigin frumkvæði og þóttumst geta verið bærilega stolt af verkum okkar.  

Nú stendur til að stofnanavæða slík verkefni með því að lögfesta Þjóðgarðsstofnun, ríkisbákn, sem á að fara með forræði alls miðhálendisins.  Frumkvæði og forræði þess, sem við höfum brunnið fyrir, skal flytjast suður.  Áður var hrópað "báknið burt" á torgum, en [nú] stefnir í, að hrópað verði "byggjum fleiri og stærri bákn !" fyrir komandi alþingiskosningar. Eða hvað ?  Hve langt og lengi ætla sjálfstæðismenn í ríkisstjórnarmeirihlutanum að láta umhverfisráðherra og lið hans teyma sig í vitleysunni ?"

Þegar ríkissjóður er rekinn með dúndrandi halla, eins og núna, þarf hann sízt á að halda fleiri hvolpum á spenann, og sízt af öllu ætti nú að slá á frumkvæði sjálfboðaliða við landvörzlu og landvernd. Þess vegna á að leggja þessa "þjóðnýtingu" hálendisins á ís.   

"Hugmyndafræði yfirvofandi lagasetningar um Þjóðgarðsstofnun er að færa sjálfan almannaréttinn á stórum hluta Íslands á ríkisklafa, og fyrirmyndin er vandræðafyrirbærið Vatnajökulsþjóðgarður. Mörgum brá eðlilega í brún, þegar aðgengi að Vonarskarði var skert verulega; leið, sem merkt hefur verið á kortum áratugum saman. Sú ráðstöfun er fráleit, og við lestur nýlega birtra blaðagreina má helzt skilja, að vitleysuna í Vonarskarði megi skrifa á forsjárhyggjufyrirmæli og tiktúrur sérlundaðra landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs.  Hvað kemur næst frá þessu fólki ?  Bann við vetrarferðum á snjó og frosinni jörð ?

 Rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs er kapítuli út af fyrir sig.  Þar hefur ítrekað verið farið fram úr fjárheimildum og Ríkisendurskoðun kölluð til, svo [ að] koma megi skikki á reksturinn."

 Það hefur verið deilt mikið á stjórnun þeirra svæða í óbyggðunum, sem ríkið fer með forræði á. Ágreiningur og deiluefni eru þess efnis, að engu er líkara en þetta stjórnunarform, ríkisreknir þjóðgarðar o.s.frv., henti ekki viðfangsefnunum, sem þar eru til úrlausnar, þ.e.a.s reynslan hingað til mælir ekki með því að halda lengra inn á þessa braut, hvað þá að taka risaskref þangað.

Þann 14. ágúst 2020 skrifaði Sighvatur Bjarnason frétt í Morgunblaðið, sem sýnir fram á þetta.  Þar kom m.a. þetta fram:

"Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir, að oft brenni við, að þekkingu skorti hjá stofnunum, sem setja reglur um loftför á vernduðum svæðum.  Hann bendir á, að í gildi séu lög um loftferðir, sem heyri undir málaflokk Samgöngustofu.  Tilraunir annarra til að setja reglur um loftrými hafi verið handahófskenndar, skort innsýn og tilgang og sé einfaldlega ekki á þeirra forræði. Brýnt sé, að einn aðili, þ.e. Samgöngustofa, haldi um stjórnina, annars blasi við mótsagnakennd flækja.  Hann gagnrýnir einnig, að sömu reglur séu látnar gilda um allar tegundir flygilda.  Samkvæmt skilgreiningu geti það spannað á milli breiðþotu og dróna, sem passar í buxnavasa.  Ekki sé raunhæft að ætla allri þessari breidd loftfara hið sama.  Hann segir það augljósa kröfu, að lenda megi á auglýstum flugbrautum innan þjóðgarðsins."

 Það áttar sig hvert barn strax á því, að það býður hættunni heim og er í alla staði óeðlilegt, að Umhverfisstofnun og/eða undirstofnanir hennar séu að bauka við að setja reglur um loftför á yfirráðasvæði sínu.  Það er dómgreindarleysi af viðkomandi starfsmönnum að reyna sig við slíkt.   Ekki tekur betra við um landför:

"Frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gafa deilur staðið um akstur gegnum Vonarskarð.  Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 segir, að þessi gamla akstursleið liggi yfir svartan sand, sem ekki spillist við akstur.  Lokunin hafi komið til vegna verndunar hverasvæða í Snapadal, en hann sé langt utan leiðar og stafi engin hætta af akandi umferð.  Hann bendir á, að svæðið sé afar óaðgengilegt, nema á sérútbúnum bílum, og þangað leggi enginn leið sína, nema fámennir harðkjarna hópar göngumanna. Hann spyr, hvers vegna einn fámennur hópur sé útilokaður fyrir annan ?  

Utanvega akstur hefur komið óorði á jeppamenn, sem Sveinbjörn segir ósanngjarnt, þar sem allir líða fyrir fáeina skussa.  Hann segir, að í samtökunum fari fram mikill áróður fyrir umhverfisvernd og þar á bæ hafi menn strax lýst því yfir, að reglum um Vonarskarð yrði fylgt, þó að baráttan haldi áfram."

Þetta er einmitt hættan við ríkisrekinn þjóðgarð, að þar verði tekin upp einhvers konar ofverndunarstefna og sumir gestir meðhöndlaðir sem hættulegir náttúrunni, en aðrir njóti náðar smákónga, sem á staðnum ríkja.  Það er verið að búa til kerfi, sem gerir landsmönnum erfiðara um vik við að njóta landsins, hver með sínum hætti.  Þröskuldarnir einkennast meir af dyntum en umhverfisvernd.  

Yfir hálendið þarf að leggja klædda, upphækkaða vegi, með einni akrein í hvora átt, útskotum og bílastæðum. Slíkt mun draga úr skaðlegum utanvega akstri.  Í niðurlagi fréttarinnar dró Sighvatur vel saman, það sem fram hafði komið:

"Allir viðmælendur eru á því máli, að svigrúm sé fyrir allar tegundir útivistar á hinum miklu víðernum landsins.  Til að allir geti vel við unað, verði þó að koma til aukið samráð og samtöl fyrr í ferlunum, þ.e. áður en ákvarðanir eru teknar.  Þeir segjast hafna því viðhorfi, að umferð vélknúinna tækja teljist sjálfkrafa ógn við umhverfið og telja það byggt á miklum misskilningi.  Í samtökum þeirra er að finna fjölda harðra umhverfissinna, sem smitist og speglist það í áherzlum hjá þeim félögum, sem þeir fara fyrir."

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

"Hvað kemur næst frá þessu fólki"? Bann við vetrarferðum á snjó og frosinni jörð. Vonandi verður það ekki lengur við völd eftir næstu kosningar,sem er ekki svo langt í.

Helga Kristjánsdóttir, 21.12.2020 kl. 07:08

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga.

Já, Landvernd virðist reisa málflutning sinn á því sjónarmiði, að "homo sapiens" sé óvelkomið aðskotadýr í íslenzkri náttúru, og þetta óhugnanlega viðhorf endurspeglast í gjörðum sumra starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs.  Hvernig halda menn, að verði að tjónka við þetta ofstækislið, ef/þegar það tekur að ríkja yfir öllu miðhálendinu, þriðjungi landsins ?  Það er ekkert vit í að koma þar á einræði einnar ríkisstofnunar.  Hugmyndin sjálf er fáránleg.

Bjarni Jónsson, 21.12.2020 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband