Fullveldi í sviðsljósi

Merkileg bók, Uppreisn Jóns Arasonar, eftir Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóra, er nýkomin út. Höfundur þessa pistils er með hana á náttborðinu og hefur enn ekki lokið við hana.  Það er þó ljóst af upphafinu, að Jón Arason, Hólabiskup, hefur verið einstakur maður, og saga hans á sér enga hliðstæðu hérlendis. 

Jón Arason fór fyrir vopnaðri uppreisn gegn yfirráðum Danakonungs hérlendis.  Hann var í bandalagi við Hansakaupmenn frá Hamborg, sem höfðu stundað frjáls viðskipti við landsmenn í heila öld, öllum til hagsbóta, er Jón lét til sín taka. Danska konungsvaldið var tiltölulega veikt á þessum tíma, og það var alveg raunhæf fyrirætlun Hólafeðga að viðhalda hér katólskri trú, a.m.k. um sinn, og Hólaherinn var í raun svo öflugur, að hann gat náð yfirhöndinni í viðureigninni við konungsmenn, enda höfðu Hamborgarar séð honum fyrir vopnum. 

Því miður mættu Hólafeðgar  ekki til bardaga, heldur  til samningaviðræðna við Daða í Snóksdal um jörðina Sauðafell haustið 1550.  Daði, hins vegar, bjóst til bardaga og náði að safna meira liði á Vesturlandi og yfirbugaði þá feðga á Sauðafelli í Dölum, og þar með var úti um stórpólitísk áform Hólafeðga.

Það er að vísu spurning, hvað gerzt hefði á Íslandi árið eftir, ef Hólaherinn hefði haft betur á Sauðafelli haustið 1550, því að Danakonungur, lúterstrúarmaðurinn Kristján III., samdi við Hansakaupmenn um að láta af stuðningi sínum við Jón, biskup, og sendi þýzka "sveitastráka - Landknechten", harðdræga og vel vopnum búna málaliða til Íslands, væntanlega með fyrirmæli um að ganga á milli bols og höfuðs á biskupinum og herforingjum hans.   

Jón Arason var æðsti fulltrúi páfa á Íslandi, eftir að lúterskur biskup var settur yfir Skálholtsbiskupsdæmi að Ögmundi Pálssyni gengnum.  Jón barðist þess vegna ekki fyrir sjálfstæði landsins, en hann mun hafa talið miklu vænlegra, að það nyti verndar Þýzkalandskeisara, sem þá var hinn kaþólski Karl V., en Danakonungs. Í ljósi þróunarinnar hér í síðaskiptunum og áratugina á eftir, klausturrána og flutnings gríðarlegra verðmæta úr landi, viðskiptahamla, einveldis og einokunarverzlunar, þar sem kóngsi ákvað verzlunarstaði og verð, er líklegt, að landinu mundi hafa vegnað betur undir vernd Þjóðverja og með frjáls viðskipti við umheiminn, aðallega við Hansakaupmenn.  Hversu lengi sú skipan mála hefði haldizt, eða hvað hefði tekið við, er óvíst, en staða Jóns Arasonar í sögunni á sér enga hliðstæðu hérlendis. Hann var einstakur og vinsæll af alþýðu manna, enda af alþýðufólki kominn, og almannatengsl hans voru mjög virk með kveðskap hans, sem barst frá manni til manns um landið allt.  Enginn maður hérlendur hefur fengið veglegri líkfylgd en hann.  Norðlendingar sóttu líkamsleifar þeirra feðga um veturinn fljótlega eftir aftökurnar og fluttu heim til Hóla.  Þeir hefndu morðanna grimmilega að áeggjan Þórunnar, dóttur biskups.

Í hausthefti Þjóðmála er ítarleg og ritrýnd grein eftir Arnar Þór Jónsson, dómara, sem hann nefnir: 

"Sjálfstæðisbaráttan nýja".  

Þar leggur hann út af þróun EES-samstarfsins, sem hann hefur áhyggjur af, að sé á þeirri ólýðræðislegu braut, að íslenzk yfirvöld telji sig skuldbundin til að taka við þeirri ESB-löggjöf, sem Framkvæmdastjórnin telur rétt, að fái lagagildi í EFTA-löndum EES, þótt allt annað sé uppi á teninginum í EES-samninginum sjálfum samkvæmt orðanna hljóðan og Norðmenn líti öðruvísi á málið, þegar þeim býður svo við að horfa.  

Þetta eru orð í tíma töluð, og þessi grein þarf að hljóta verðuga umfjöllun.  Aðild Íslands að samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er ekki eina hugsanlega samstarfsform Íslands við ESB á sviði viðskipta.  Sviss hefur annan hátt á; hefur gert yfir 100 samninga við ESB á sviði viðskipta, mennta og menningar.  Bretar vilja gera víðtækan viðskiptasamning við ESB í stað ESB-aðildar, en samningar hafa strandað aðallega á þrennu:

1) ESB vill halda áfram fiskveiðum sínum innan fiskveiðilögsögu Bretlands, eins og ekkert hafi í skorizt, a.m.k. í einn áratug.  Það er fremur ólíklegt, að ESB mundi taka upp þessa kröfu á hendur Íslendingum í samningum um fríverzlun, því að þeir hafa engin fiskveiðiréttindi haft hér í tæplega hálfa öld.

2) Framkvæmdastjórnin vill, að ESB-dómstóllinn verði endanlegur dómstóll í ágreiningsmálum um framkvæmd viðskiptasamningsins.  Á slíkt er ekki hægt að fallast hérlendis fremur en í Bretlandi, en gerðardómur á vegum EFTA og ESB gæti komið í staðinn  eða WTO-Alþjóða viðskiptastofnunin í ágreiningsmálum Íslands og ESB eftir gerð fríverzlunarsamnings á milli EFTA og ESB.

3) ESB vill samræmdar samkeppnisreglur á milli Bretlands og ESB. Bretar ætla sér að veita ESB-ríkjunum harða samkeppni, en ekki er líklegt, að þetta verði ásteytingarsteinn í samningaviðræðum Íslands/EFTA við ESB. 

Það gætu skipazt svo veður í lofti eftir Stórþingskosningar í Noregi haustið 2021, að jarðvegur myndist fyrir því að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi á milli EFTA og ESB. Í Noregi eru miklar áhyggjur og deilur út af fullveldisógnandi áhrifum ýmissar lagasetningar, sem ESB vill, að Stórþingið í Ósló innleiði. Senterpartiet mælist nú með mest fylgi, og ef fram fer sem horfir, verður mynduð ný ríkisstjórn í Noregi næsta haust um gjörbreytta stjórnarstefnu, þar sem afstaðan til ESB verður endurskoðuð.  Ef þetta gerist, verður ekki meirihluti í Stórþinginu fyrir Orkupakka 4, og hann er þá dauður gagnvart EFTA-ríkjunum, þ.e. honum verður hafnað í Sameiginlegu EES-nefndinni, ef hann á annað borð verður lagður fram þar.

Við höfum líka séð harkaleg afskipti fjölþjóðlegs dómstóls, þar sem Ísland á aðild, af íslenzkum innanlandsmálum án eðlilegrar og fullgildrar ástæðu.  Slíkt verður þá að líta á sem ögrun við íslenzkt fullveldi, eins og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, vakti athygli á í hugvekju í Morgunblaðinu 5. desember 2020:

"Með hjartað í buxunum".

Hún hófst þannig:

"Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) lokið dómi á málið, sem þar hefur verið til meðferðar í tilefni af skipun dómara í Landsrétt.  Sú furðulega niðurstaða hefur orðið ofan á hjá dómstólnum, að dómurinn, sem dæmdi hér á landi í máli kærandans, hafi ekki verið réttilega skipaður, til að kröfu 6. gr. mannréttindasáttmálans teldist fullnægt.  Þessi niðurstaða er að mínum dómi alveg fráleit og felur ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands."

Það er mjög mikill fengur að þessum úrskurði hins lögfróða og reynda manns, því að nákvæmlega hið sama blasir við þeim, sem hér heldur á fjaðurstaf, og mörgum öðrum leikmönnum á sviði lögfræði. Fjaðrafokið, sem dómur neðri deildar MDE í sama máli olli, og sú ákvörðun að áfrýja honum til efri deildar, var ástæðulaus og pólitískt röng.  Það sýnir dómgreindarleysi viðkomandi ráðherra (ÞKRG) og ráðgjafa hennar að ímynda sér, að efri deildin, með sama íslenzka dómarann innanborðs og var í neðri deildinni við uppkvaðninguna þar, myndi snúa niðurstöðu neðri deildar við.

Þessi dómstóll hefur ekki lögsögu hér.  Svo er Stjórnarskránni fyrir að þakka.  Við einfaldlega ákveðum í ró og næði, hvað við teljum bitastætt frá þessum dómstóli.  Í þessu tiltekna máli var um þvílíkan sparðatíning að ræða, að furðu sætir, að dómstóllinn skuli ekki hafa vísað kærumálinu frá. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp þann dóm í málinu, sem þarf að hlíta hérlendis. Það er maðkur í mysunni, og Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefur kallað gjörninginn pólitískt at.  Þetta at heppnaðist, því að þessi ágæti ráðherra var hrakinn úr embætti.  Hafði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lítinn sóma af því.

 "Það er eins og MDE hafi verið að leita að tilbúnum ástæðum til að finna eitthvað athugavert við skipun þessa dómara í embætti.  Manni gæti helzt dottið í hug, að einhver dómaranna við réttinn hafi þekkt kæranda eða lögmann hans, ef maður vissi ekki, að sjónarmið af þessu tagi koma auðvitað ekki til greina hjá svona virðulegri stofnun, eins og dómstóllinn er."

Er nema von, að hugur hæstaréttarlögmannsins leiti á fjarlæg mið í leit að skýringu, en það væri reyndar alveg óskiljanlegt, ef þessi vegferð væri einhvers konar greiði íslenzka dómarans við æskuvin sinn.  Hvílíkri spillingu og hrossakaupum hjá MDE í Strassborg lýsir það ?  Það er ótrúlegra en söguþráður lélegrar skáldsögu í jólabókaflóði á Íslandi.  Þeir vinirnir skála líklega og hlæja ótæpilega næst, þegar leyft verður að hittast innan 2 m. 

Í lok greinar Jóns Steinars kom rúsínan í pylsuendanum:

"Þegar dómstóllinn ytra kemst að svona niðurstöðu, er hann að brjóta freklega gegn fullveldi Íslands.  Þessi erlenda stofnun hefur engan afskiptarétt af efni íslenzkra lagareglna um skipun dómara, svo lengi sem í þeim reglum felst ekki í sjálfum sér beint brot á réttindum sakbornings, t.d. með því að láta verjanda hans eða eiginkonu dæma. 

Svo er eins og hjartað sigi ofan í buxur hjá flestum Íslendingum, þegar þessi erlendu fyrirmenni hafa sent frá sér valdskotna ákvörðun sína, sem enga stoð hefur í lögskiptum okkar við þá [þ.e. þau-innsk. BJo]. Í stað þess að velta vöngum yfir því, hvernig bregðast skuli við ofbeldinu með undirgefnum ráðstöfunum, ættu landsmenn að hvetja forráðamenn þjóðarinnar til að mótmæla þessari aðför hástöfum og gera grein fyrir því, sem augljóst ætti að vera, að við lútum ekki ríkisvaldi úr höndum þessarar stofnunar á borð við það, sem nú var að okkur rétt.  Sjálfstætt og fullvalda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt."

Þetta er hverju orði sannara, og Sjálfstæðisflokkurinn þarf nú að standa undir nafni og hafa forgöngu um það, sem hæstaréttardómarinn fyrrverandi skrifar hér að ofan.  Dómsmálaráðherrann er ritari flokksins og henni stendur það næst að hafa forgöngu um verðugt svar til Strassborgar. Pistill hennar í Morgunblaðinu 9. desember 2020 drepur þó í dróma alla von um það.  Er það þá svo, að álykta verði, að sú lyddulýsing, sem hæstaréttarlögmaðurinn viðhefur hér að ofan (um líffæri og klæði), eigi m.a. við um hana ? 

Það er hins vegar alveg víst, að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur ekki misst hjartað ofan í buxurnar við þessi tíðindi frá Strassborg og mun taka málstað fullveldisins í þessu máli hér eftir sem hingað til.  Hún er með hreinan skjöld í þessu máli, enda varaði hún bæði þingforsetann og forseta lýðveldisins við þeirri aðferð þingsins að greiða atkvæði um alla umsækjendur um dómaraembætti í Landsrétti, sem hún mælti með, í einu lagi, en MDE fetti fingur út í það.  

 Grexit vofir yfir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það verður ekki betur séð af þessum ritdómi en Why Iceland höfundurinn hafi laumast í smiðju Jóns Helgasonar Öldin sextánda með uppbyggingu á söguþræðinum.

Magnús Sigurðsson, 16.12.2020 kl. 15:20

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni.

Það er hreint með ólíkindum hvernig þetta dómaramál er allt upp byggt. Lögmaður hér á Íslandi kærir dóm til mannréttindadómstólsins á þeirri forsendu að dómarar hafi ekki verið rétt skipaðir. Dómur dómstólsins féll á sléttu og kom oddaatkvæðið í hlut persónulegs vinar sækjanda! Hvar í veröldinni er slíkt látið viðgangast, að dómari sé persónulegur vinur annars aðila í því máli sem hann skal dæma í? Hvernig hefði dómurinn fallið ef einhver annar dómari, ótengdur málsaðilum, hefði haldið á þessu oddaatkvæði? Í það minnsta vó röksemdarfærsla minnihluta dómara mun þyngri en meirihlutans.

Íslenska ríkið ákveður síðan að áfrýja málinu til "æðra" dómstigs. Það er þó ekki æðra en svo að það var m.a. skipað sama manni og dómur stóð um! Hvers vegna mótmæltu ekki stjórnvöld harðlega þegar ljóst var hverngi dómaraskipan var? Var kannski ætlun stjórnvalda að málið færi á þann veg er það fór? Reyndar áttu stjórnvöld strax í upphafi, áður en fyrra dómsmálið var tekið upp, að mótmæla því að persónulegur vinur sækjanda sæti þann dóm.

Það má sjálfsagt margt finna að íslensku dómskerfi. Það má einnig sjálfsagt gagnrýna skipan dómara hér. En ekkert af þeirri gagnrýni kemst þó í hálfkvist á þá gagnrýni sem hægt er að hafa um störf Mannréttindadómstóls Evrópu, í þessu máli. Af því liggur stæk fýla!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 16.12.2020 kl. 16:00

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg rétt, Gunnar.  Engu er líkara en hugtakið "vanhæfi" sé annaðhvort óþekkt hjá MDE eða hunzað.  Það er óþarfi að setja allt á annan endann hér út af dómi frá dómstóli, þar sem þannig er í pottinn búið.  Sýndarmennskan ríður ekki við einteyming, þegar þingmaður, nú síðast í morgun, þenur sig í ræðupúlti Alþingis út af því, að lög um MDE gildi á Íslandi.  Það vill svo til, að við erum með Stjórnarskrá, sem kveður á um, að hérlendis gildi dómar íslenzkra dómstóla og aðrir dómstólar trompa þá ekki.

Bjarni Jónsson, 17.12.2020 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband