Orkumál valda hagsmunaárekstrum

Lengi hafa pólitísk átök orðið hérlendis tengd virkjunum og orkunýtingu, og hófust þau líklega að ráði með ágreiningi í þjóðfélaginu og inni á Alþingi um Títanfélagið á upphafsárum fullveldisins og áform þess um virkjun í Þjórsá, þar sem nú er Búrfellsvirkjun 2, og nýtingu orkunnar þaðan til stóriðju, líklega aðallega áburðarframleiðslu.  Átökin um Þjórsá blossuðu upp að nýju eftir stofnun Landsvirkjunar af ríkissjóði, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ árið 1965 og þeirra áforma Viðreisnarstjórnarinnar að framselja þessu nýja fyrirtæki vatnsréttindin í Þjórsá (aðallega komin frá Títanfélaginu) með það fyrir augum að virkja þetta mikla vatnsfall, fyrst með þá langstærstu og hagkvæmustu virkjun landsins við Búrfell.  Ákvörðunin um þetta og um ráðstöfun stórs hluta orkunnar til dótturfyrirtækis svissneska félagsins Alusuisse í Straumsvík var mjög umdeild í þjóðfélaginu, og það varð mjótt á mununum á Alþingi, þegar til atkvæðagreiðslunnar kom.  Sú framfarahugmynd að byggja upp öflugt raforkukerfi á Íslandi með gjaldeyri frá stórsölu rafmagns til útflutningsiðnaðar í eigu Svisslendinga varð ofan á og hefur reynzt giftudrjúg. Úrtöluraddir heyrast enn í dag, en hvað bjóða þær upp á annað en atvinnuleysi og hor í nös ?

Nú er enn komið að því að virkja Þjórsá, í þetta sinn með virkjanastækkunum upp frá og síðan í Neðri-Þjórsá með s.k. Hvammsvirkjun, sem á að verða tæplega 100 MW.  Raforkan frá henni færi til að knýja fyrsta hluta orkuskiptanna á næstu árum fram undir 2030, vetnisverksmiðjur og rafmagnsfartæki.  

Í heiminum olli olían, sem nú þarf að leysa af hólmi á Íslandi og annars staðar, oft spennu í samskiptum þjóða, einnig í okkar heimshluta.  Þrennt lá t.d. aðallega að baki

"Aðgerð Rauðskegg - Operation Barbarossa" 1941:

að berja bolsévismann niður, að tryggja fæðuöflun Þriðja ríkisins og að fá öruggt aðgengi að og umráð yfir olíulindum fyrir Stór-Þýzkaland.  Þessi hernaðaráætlun mistókst hrapallega, eins og kunnugt er, af ástæðum, sem ekki verða tíundaðar hér.  

Nú á dögum hefur vakið athygli, að þýzka ríkisstjórnin hefur gert samninga við eldsneytisgasfélög í Rússlandi, sem ráða miklum lindum í Síberíu og leggja og reka miklar gaslagnir.  Þjóðverjar hafa gert þessa samninga við Rússa í trássi við bandamenn sína í Austur-Evrópu, t.d. Pólverja, og einnig gegn vilja Frakka og Bandaríkjamanna.  Sýnir þetta, hvað þeir leggja mikla áherzlu á að fjölga orkuaðdráttum, jafnvel þótt Rússar, sem enn sæta viðskiptabanni af hálfu Vesturveldanna eftir hernám Krímskagans, nái þar með tangarhaldi á gasknúinni starfsemi þeirra, húsnæðisupphitun og eldamennsku.  

Kína sækir nú í sig veðrið sem stórveldi og sækir ekki sízt fram á orkusviðinu.  Hernaðarumsvif Kínverja hafa aukizt mjög á Suður-Kínahafinu, og það er aðallega vegna olíulindanna, sem þar liggja undir hafsbotni.  Olían er grunnefni í öllu plasti og þar af leiðandi undirstaða mikils iðnaðar, en hún er líka undirstaða mikilla valda og auðs einstaklinga, félaga og þjóða.  Sagt er, að völd Vladimirs Putin flæði úr rússneskum olíulindum.  Hálfri annarri öld eftir, að John D. Rockefeller myndaði fyrstu olíuauðlegðina í heiminum, njóta afkomendur hans enn afrakstursins.  Miðað við mikilvægi olíunnar fyrir nútíma siðmenningarþjóðfélög er ekki skrýtið, að erfitt reynist að vinda ofan af umsvifum umboðsmanna hennar og slæmum áhrifum á loftslagið.

Enn sem komið er, er enginn augljós arftaki olíunnar í sjónmáli, þótt ýmsir séu nefndir.  Það er þó orðið ljóst, að þróunin er í átt til enn víðtækari rafvæðingar, t.d. í samgöngum, með betri rafgeymum en áður.  Gríðarlegur auður mun myndast á næstu árum og áratugum við framleiðslu á ofurrafgeymum, rafmagnsfartækjum og við vinnslu málma og steinefna, sem til þeirrar framleiðslu þarf.

Stríð um rafmagnsfartæki og rafgeyma mun væntanlega ekki minna á viðskiptastríð 16.-19. aldar með herskipum og herjum, sem gengu hér og þar á land, en það verða líklega spennuþrungin tæknileg átök með stolnum teikningum, uppgötvunum og stjörnustarfsmönnum (verkfræðingum) samfara útsmognum aðferðum við að komast yfir sjaldgæfa málma s.s. kobalt og nikkel. 

Bandaríkjamenn eru nú að búa sig undir að styrkja stöðu sína verulega á þessu sviði.  Undirstaðan er öruggt aðgengi að miklu magni liþíummálmsins, sem er lykilefni fyrir nútíma rafgeyma í rafmagnsfartæki.  Nýlega komust þeir að því, að með jarðvökvanum í borholum fyrir 11 jarðgufuvirkjanir, sem nýta 260°C heitan jarðvökva við suð-austur jaðar Salton Sea í Suðaustur-Kaliforníu, kemur upp liþíum.  Rannsóknarskýrsla SRI International í marz 2020 gaf til kynna, að þar mætti vinna 600 kt/ár af Li, en það er tæplega áttföld notkun ársins 2019.  Þarna eru þá einhverjar mestu birgðir af Li, sem þekktar eru í heiminum, en aðalnámurnar eru núna í Ástralíu, Kína og Suður-Ameríku.  

Blómaskeið rafmagnsbílsins er framundan, og Kína leiðir inn á þetta blómaskeið.  Á heimsvísu eru nú aðeins 3 % allra nýrra bíla rafknúnir, en hlutfallið er mun hærra á Íslandi, en alrafbílar eru um 3 % af heildarfjölda bíla á Íslandi (um 6200 talsins).  Árið 2021 er búizt við, að hlutfall rafknúinna nýbíla í heiminum verði 5 % og 10 % árið 2025. Þjóðverjar taka fullan þátt í þessu kapphlaupi, og hlutdeild alrafbíla í fólksbílaframleiðslu stærstu þýzku bílaframleiðendanna árið 2025 á að verða um fjórðungur. 

Þróunin í þessa átt er hröð, og studdir af ríkissjóði leiða kínverskir bílkaupendur þessa þróun í heiminum, en þeir kaupa um helming allra nýrra rafmagnsbíla í heiminum um þessar mundir, og iðnjöfrar landsins hafa byggt upp mestu framleiðslu bílarafgeyma í heiminum.  Rafgeymagerðirnar ganga undir skammstöfununum NMC og LFP.  Þær voru þróaðar í Bandaríkjunum, en Kínverjar hafa skotið Bandaríkjamönnum og öllum öðrum aftur fyrir sig í framleiðslumagni fyrir rafbíla. Ýmislegt bendir til, að Bandaríkjamenn vilji verða með í þessari keppni. 

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla, aðalrafbílaframleiðandinn núna, er að koma sér fyrir í Kína.  Gigafactory 3 í eigu Tesla, þar sem settir eru saman rafbílar fyrirtækisins og rafgeymar,  er staðsett í Shanghai.  Model 3 frá Tesla er mest seldi rafbíllinn í Kína, og nýlega ákváðu yfirvöld í Beijing að niðurgreiða Model Y jeppann frá Tesla. Tesla gæti selt 40 % af framleiðslu sinni í Kína.

Tesla reisir nú nýja rafbílaverksmiðju og rafgeymaverksmiðju í Þýzkalandi sunnan Berlínar.  Þar með er lagður grunnur að baráttu um evrópska og einkum þýzka rafbílamarkaðinn.  Þar liggur VW-samsteypan á fleti fyrir með mjög mikil áform á þessu sviði undir merkjum VW, Audi og Porsche. "Festung Europa" verður ekki auðsótt frekar en fyrri daginn. Þannig verður harðvítug samkeppni á rafbílamörkuðum heimsins á milli Kínverja, Bandaríkjamanna og Þjóðverja. 

Á Íslandi munu neytendur, eins og annars staðar, njóta góðs af þessari samkeppni.  Hérlendis er umhverfislega og þjóðhagslega meiri ávinningur af rafmagnsbílum en víðast hvar annars staðar vegna raforku alfarið úr "hreinum" og innlendum orkulindum.  Samkeppni er líka um raforkusöluna.  Þann 15. desember 2020 birtist baksviðsfrétt um það í Morgunblaðinu, að Orka náttúrunnar, ON, dótturfyrirtæki veitufyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hygðist starfrækja 44 hraðhleðslustöðvar fyrir árslok 2020 og 57 fyrir árslok 2021. 

ON sætir kæru til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem kalla má misnotkun fyrirtækisins á markaðsstöðu sinni.  Í Morgunblaðinu, 17. desember 2020, var frétt undir fyrirsögninni:

"Óvíst hvenær rannsókninni á samkeppnismáli ON lýkur".

Þar stóð þetta m.a.:

"Haft var eftir framkvæmdastjórum N1 og Ísorku [í Morgunblaðinu 16.12.2020-innsk. BJo], að ON hefði með niðurgreiðslum hamlað uppbyggingu einkaaðila á hraðhleðslustöðvum."

ON er nú umsvifamest á markaði fyrir hleðslu rafmagnsbíla hérlendis.  Það sætir undrun, að fyrirtækið skuli leggja svo mikla áherzlu á þennan markað, því að augljóslega vofir inngrip Samkeppniseftirlitsins inn í þessa markaðssókn yfir.  Ef litið er til Evrópusambandsins (ESB), sést á Orkupakka 4, að orkufyrirtækjum og veitufyrirtækjum ESB er bannað að keppa á þessum markaði, því að þau njóta yfirburða og geta hæglega misnotað aðstöðu sína á markaði, eins og ON er uppvís að núna með því að veita viðskiptavinum sínum á almennum raforkumarkaði afslátt af verði hleðslurafmagns. 

Landsvirkjun undirbýr sig fyrir álagsaukningu vegna orkuskiptanna.  Fyrirtækið ætlar að auka aflgetu sína og geta þannig sinnt álagstoppum, sem fyrirsjáanlega munu myndast vegna hleðslu rafmagnsfartækja á kvöldin.  Landsvirkjun býst jafnframt við að geta sparað vatn í miðlunarlónum sínum, m.a. Þórisvatni, þegar vindorkuver koma til skjalanna, en undirstaðan að hagkvæmni þeirra er rekstur á hámarksafköstum, sem vindur leyfir hverju sinni, og þá verður dregið úr afköstum vatnshverflanna á móti. 

Í Morgunblaðinu 4. marz 2020 birtist frétt Helga Bjarnasonar um þetta:

"Þarf að auka sveigjanleika orkukerfisins".

Hún hófst þannig:

"Áform Landsvirkjunar um að stækka 3 aflstöðvar sínar á Þjórsár/Tungnaár svæðinu snúast um að auka uppsett afl og þar með sveigjanleika í orkuöflun til þess að geta mætt orkuskiptum í samgöngum, breytingum vegna væntanlegrar uppbyggingar vindorkuvera og aukins rennslis til virkjana vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Landsvirkjun hefur tilkynnt áform um stækkun Hrauneyjafossstöðvar, Sigöldustöðvar og Vatnsfellsstöðvar til yfirvalda vegna vinnu verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar við mat á orkukostum.  Snúast verkefnin um að auka uppsett afl stöðvanna, en orkuvinnsla eykst tiltölulega lítið."

 

 Þessar aðgerðir eru af sama toga og Búrfellsvirkjun 2, þar sem aflgetan var aukin um 100 MW fyrir fáeinum árum.  Ofangreint eykur aflgetu Landsvirkjunar e.t.v. um 200 MW og mun vinna gegn orkusóun á formi framhjárennslis, því að með öflugra flutningskerfi má draga niður í öðrum virkjunum og keyra hinar á fullu afli, á meðan miðlunarlón þeirra eru full.  Þetta er hagstætt, því að vatn framhjá virkjun er verðlaust. 

Kvöldtoppurinn stækkar með fleiri rafmagnsbílum, og þá þarf að reiða sig á aukna aflgetu.  300 MW duga lengi í þeim efnum, en auðvitað þarf orku líka.  Hún kemur fyrst um sinn frá smávirkjunum vatnsafls og frá vindrafstöðvum, en almennileg viðbótar orkugeta þarf að koma inn á kerfið til að anna orkuskiptum og nýjum iðnaði um miðjan komandi áratug, ef orkuskortur á ekki að hamla þeim hagvexti, sem nauðsynlegur verður til að reisa hagkerfið við og snúa af braut skuldasöfnunar til uppgreiðslu á lánum.

"Tilgangur framkvæmdanna er að auka sveigjanleika í orkuöflun virkjana Landsvirkjunar til þess að mæta orkuskiptum í samgöngum, væntanlegri uppbyggingu vindorkuvera og auknu rennsli að virkjunum vegna hlýnunar loftslags.  Til útskýringar bendir Ólafur Grétar [Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Landsvirkjunar] á það, að þegar stór hluti ökutækja verði rafknúinn, muni þau gjarna vera í hleðslu á sama tíma, þ.e.a.s. á kvöldin og nóttunni.  Þá sé framleiðsla vindorkuvera mjög sveiflukennd, eins og eðlilegt er.  Þetta hafi þær breytingar í för með sér, að framleiðsla virkjana Landsvirkjunar verði ekki eins jöfn [og áður]. Það kalli á aukið afl með fjölgun véla í virkjunum. 

Ekkert vatn rennur framhjá virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu nú.  Því verður sama vatnsmagnið notað við framleiðsluna og til taks er nú.  Hins vegar eykst framleiðslan nokkuð vegna betri nýtni nýju vélanna en þeirra eldri."

Það eru tíðindi, ef engin umframorka rennur óbeizluð til sjávar framhjá virkjunum í Þjórsá-Tungnaá, því að það var ein helzta röksemd Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, fyrir aflsæstreng til Bretlands, að koma þyrfti umframorku Landsvirkjunar í lóg. Höfundur þessa pistils benti reyndar á, að hún væri svo lítil og óstöðug, að hún gæti ekki réttlætt þessa viðskiptahugmynd, en þrákelknin sat við sinn keip, og vitleysan var margendurtekin.  Það er samt ótrúlegt, að Búrfell 2 hafi dugað til að nýta vaxandi afrennsli síðsumars.

Í lokin stóð í þessari frétt:

"Spurður, hvort stækkun aflstöðvanna dragi úr þörf fyrir áformaður virkjanir í Neðri-Þjórsá, segir Óli Grétar svo ekki vera.  Ef þörf verði á aukinni orku inn á raforkukerfið, gætu virkjanir í Neðri-Þjórsá komið til greina.  Þær henti hins vegar ekki til að auka afl til að auka sveigjanleika, eins og þörf verði á næstu árin."

Þetta er rétt, svo langt sem það nær.  Aflgetu virkjana í Neðri-Þjórsá þarf hins vegar að miða við mesta rennsli, sem verður, þegar allar vélar virkjananna í Efri-Þjórsá og Tugnaá eru keyrðar á fullu, því að annars þarf að veita vatni framhjá virkjunum í Neðri-Þjórsá.  Þess vegna er líklegt, að aflgeta Hvammsvirkjunar muni verða valin yfir 100 MW. Til að nýta umframorku í kerfinu, sem þannig verður til, kemur vetnisverksmiðja vel til greina, sem hönnuð væri fyrir ákveðið grunnálag, en væri í stakk búin til að taka við ódýrri umframorku. 

Brandenburger Tor 

 Olíuborun á ísi

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband