Um kuldabola og annað illþýði

Í desember 2020 komu í ljós óviðunandi veikleikar á innviðum lands og höfuðborgar. Hitaveita ON, dótturfyrirtækis OR (Orkuveita Reykjavíkur) varaði við ófullnægjandi upphitunarafköstum, sem hefði leitt til kólnunar í húsum, nema gripið yrði til arinelds eða kamínufíringar, þar sem það er hægt, og/eða rafhitunar.  ON/Hitaveita brá á það ráð að hækka hitastig vatnsins, og virtist inntakshitastigið hækka um 8°C hjá pistilhöfundi í Garðabæ, sem leiddi sjálfvirkt til minna rennslis.  Lítil starfsemi var í sundlaugum svæðisins á þessu tímabili vegna umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana.  Enginn fimbulkuldi varð, og allt forðaði þetta vandræðum.  Það er hins vegar með öllu óviðunandi, að rekstri Hitaveitu ON (Orku náttúrunnar) skuli vera þannig háttað, að hann þoli mjög litla ágjöf. Þar verður að vera borð fyrir báru til að mæta óvæntri ágjöf, eins og allar vel reknar veitur reyna að haga málum.

Hinn veikleikinn er heldur ekki nýr af nálinni, en var mjög svæsinn núna.  Þetta voru tjörublæðingar í Þjóðvegi 1, aðallega frá Borgarnesi til Akureyrar.  Þó að vikuþíða og rigning komi eftir frostakafla á þetta ekki að gerast.  Það þarf að rýna gerð undirlags og olíumalar.  Kannski hentar engin olíumöl fyrir þær aðstæður og umferðarþunga, sem ríkjandi eru á milli Borgarness og Akureyrar.  Þá þarf að fara yfir í gott malbik, þótt það sé dýrara en olíumölin, því að samfélagslega er það sennilega hagkvæmast á þessari leið að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar Vegagerðar og vegfarenda, svo að ekki sé nú minnzt á öryggi vegfarenda. Klæðningin er aðeins einn af mörgum kostnaðarþáttum nútíma vegagerðar.

Ýmsir hafa klórað sér í hausnum út af þeirri vegferð, sem Orkuveita Reykjavíkur undir stjórn jarðfræðingsins Bjarna Bjarnasonar virðist vera á.  Hann hefur t.d. básúnað opinberlega, að engin þörf sé á að fjárfesta nokkuð í orkuöflun né styrkingu dreifikerfa til að bregðast við fyrirsjáanlegri álagsaukningu (bæði aukning afls- og orkuþarfar) af völdum orkuskiptanna, nema e.t.v. í snjallorkumælum.  Þetta er viðsjárverður áróður forstjórans og stingur í stúf við heilbrigða skynsemi, ráðleggingar Samorku og viðhorf Landsvirkjunar.  Ef viðhorf forstjórans um að fresta fjárfestingum í orkuöflun og dreifikerfum vatns og rafmagns, þar til allt er komið á yztu nöf, eins og virðist vera að einhverju leyti hjá ON, síast niður í dótturfyrirtækin, þá er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að, eins og Bakkabræður sögðu: botninn er þá suður í Borgarfirði.  

Morgunblaðið gerir þessi mál að umræðuefni í forystugrein á jólaföstu, 17. desember 2020, undir fyrirsögninni:

"Gallar á grunnþjónustu":

"Ekkert bar út af hjá Veitum vegna kuldakastsins.  Það gæti verið vegna þess, að almenningur fór sparlega með vatnið, en ekki hefur síður skipt máli, að ekki varð jafnkalt og spáð hafði verið.

Þessi tilkynning varð hins vegar til þess, að margir fóru að velta fyrir sér, hvort eitthvað væri að hjá veitum.  Það er í verkahring fyrirtækisins að sjá borgarbúum fyrir heitu vatni [ON aflar þess, Veitur dreifa því - innsk. BJo].  Það ætti ekki að koma á óvart, að kólni í veðri og gæti orðið kalt í nokkra daga.  Það ætti því ekki að teljast mikil tilætlunarsemi að gera ráð fyrir, að Veitur séu undir slíkt búnar.

Í frétt um helgina kom fram, að spurn eftir heitu vatni hefði farið vaxandi og við það hefði vatnsborð á jarðhitasvæðum farið lækkandi.  Slík þróun á ekki að koma aftan að hitaveitu.  Innan fyrirtækisins er enginn skortur á þekkingu, og því vaknar sú spurning, hvað valdi því, að þegar spáð er köldu veðri, þurfi það að senda út slíkt ákall til viðskiptavina sinna.  Sú spurning vaknar, hvort lykilástæða fyrir því sé sú, að slíkt kapp sé á að ná peningum út úr fyrirtækinu vegna bágrar fjárhagstöðu Reykjavíkur, að Veitur hafi ekki nægilegt fé til nauðsynlegra rannsókna og þróunar. 

Talsmenn ON hafa opinberlega kennt Kófinu um aukið álag húshitunar.  Það er rétt, að sjaldan hafa fleiri Íslendingar dvalið samtímis á landinu og í Kófinu, því að allmargir með búsetu erlendis sneru heim, og mjög fáir hafa ferðazt utanlands.  Á móti koma hins vegar sárafáir erlendir ferðamenn, svo að margir gististaðir hafi staðið auðir. Þar er áreiðanlega dregið úr húshitun eftir föngum. Þótt óvenjumargir hafi dvalið á heimili sínu lungann úr sólarhringnum, hefur óskitastig í íbúðunum varla verið hækkað út af því.  Fremur, að vinnuveitendur hafi sparað vatn á vinnustaðnum, eins og hlýtur að hafa átt sér stað í sundlaugunum líka. 

Það er þess vegna ekki trúlegt, að vatnsnotkun hjá einni dýrustu hitaveitu landsins hafi aukizt umfram fjölgun skráðra notenda.  Líklegra er þá, að leki sé farinn að hrjá Veitur.  Með rennslismælingum og samanburði við selt vatn geta Veitur komizt að þessu. 

Árni Gunnarsson, fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur, furðar sig á þeirri stöðu, sem hitaveitumál höfuðborgarsvæðisins virðast hafa ratað í.  Hann ritaði grein í Fréttablaðið 15. desember 2020, sem hann nefndi:

"Kuldaboli enduruppvakinn".

Hún hófst þannig:

"Opið bréf til stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur [hér greinir Árni ekki á milli ON og Veitna, heldur snýr sér beint að móðurfyrirtækinu, sem segir sína sögu-innsk. BJo].  

Þriðja árið í röð mega höfuðborgarbúar búa við að vera af stjórnendum OR varaðir við yfirvofandi vatnsskorti hjá Hitaveitunni vegna þess, að spáð er frostdögum næstu daga. Í fjölmiðlum er slegið upp fyrirsögnum um, að viðbragðsáætlun veitunnar hafi verið virkjuð; geta kerfisins komin að þolmörkum þess, sem er sögð vera um 18.000 [m3/klst] í hámarks rennsli, samsvarandi um 1.015 [MW] í varmaafli (m.v. nýtingu vatnsins 80/30°C)."

Af svari Guðmundar Óla Gunnarssonar, starfandi forstöðumanns hitaveitu Veitna, við grein Árna Gunnarssonar, má ráða, að það eru ekki nógu róttækar mótvægisaðgerðir á döfinni þar á bæ til að vega upp á móti notkunaraukningu, sem lýsir sér með yfirlýsingu 3 ár í röð frá Veitum um yfirvofandi hitavatnsskort.  Hann horfir til Krýsuvíkur sem framtíðarnýtingarsvæðis, en skrifar svo:

"Við getum enn aukið heitavatnsvinnsluna á Hengilssvæðinu.  Það eru þó dýr mannvirki, varmastöðvarnar í virkjununum, og að byggja þær áður en þörf er á þeim er enn dýrara.  Við þurfum að fara næstum hálfa öld aftur í tímann, aftur í olíukreppuna upp úr 1970, þegar uppbygging hitaveitu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur var á fullu, til að sjá viðlíka aukningu á heitavatnsnotkun og við höfum séð nú í ár.  Sennilegasta ástæðan er breytt notkun okkar á húsnæði í faraldrinum.  Þetta hefur hugsanlega líka þýtt það, að aukningin í kuldakastinu á dögunum var ekki eins mikil og við óttuðumst."

 

Þetta eru ósannfærandi útskýringar, og það skín í gegn, að stjórnendur ON tefla á tæpasta vaðið með, hvort Hitaveitan annar hámarksþörf eða ekki.  Það eru dregnar lappirnar með að reisa nýjar varmastöðvar, þar til full nýting fæst á þær, og þar með má ekkert út af bregða í rekstrinum.  Svona reka menn einfaldlega ekki veitur.  Þar þarf jafnan að vera svo stórt borð fyrir báru, að stærsta eining kerfisins megi falla úr rekstri við verstu aðstæður, eins og gerist, þar sem Murphy ræður ríkjum (það slæma, sem gerist, gerist jafnan á versta tíma), án þess að viðskiptavinir verði fyrir skakkaföllum af þeim sökum.  Þessir atburðir hafa opinberað einhvers konar rússneska rúllettu með OR, sem forstjórinn hlýtur að bera höfuðábyrgðina á.

Gagnrýni Árna Gunnarssonar á þannig rétt á sér.  Hann hélt áfram:

"Spurt er, hvernig getur það staðizt, að aflgeta Hitaveitunnar nægir nú ekki til að standa undir álagi, þegar frost er úti samfellt í nokkra daga ?

Á sama tíma hefur veitan aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeizlaðri, svo [að] ekki sé minnzt á þá, sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu, langt umfram þarfir Hitaveitunnar."

Sóunin, sem Árni minnist á, á sér einkum stað á Hellisheiði og kann að vera óafturkræf, a.m.k. ef miðað er við núlifandi notendur hitaveitu OR.  Orkusóun af þessu tagi er óviðunandi framganga gagnvart komandi kynslóðum.  Í stað þess að predika um, að óþarft sé að virkja nokkuð á næsta áratugi fyrir orkuskiptin, væri forstjóra OR nær að skapa jafnvægi í nýttum gufuforðabúrum Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar, þ.e. að taka þaðan ekki meira en streymt getur inn. Hann þarf kannski að sníða sér stakk eftir vexti. 

Kostnaðarskiptingin á milli hitaveitu og rafveitu ON vekur grunsemdir um, að einokunarstarfsemi hitaveitunnar greiði niður samkeppnisstarfsemi ON, rafveituna.  Hvernig má það annars vera, að snarazt hefur algerlega á merinni, hvað gjaldskrá hitaveitunnar varðar frá 2003, er ný orkulög og Orkupakki 1 frá ESB tóku gildi á Íslandi ?

Árni Gunnarsson skrifaði undir lok greinar sinnar:

"[Hvernig er] [þ]essi staða upp komin, þrátt fyrir að gjaldskrá Hitaveitunnar er nú hærri borin saman við helztu hitaveitur landsins ?" 

Þetta er mjög mikilvæg spurning. Til að leita svara þarf sennilega að kryfja stofn- og rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar og fara rækilega í saumana á bókhaldi ON, sérstaklega Nesjavallavirkjunar og Hellisheiðarvirkjunar, þar sem bæði er einokunar- og samkeppnisstarfsemi. Þá þarf einnig að kanna, hvort eigendur OR blóðmjólka samstæðuna, t.d. með óeðlilegum arðgreiðslukröfum.  Slíkt eru mjög óeðlilegir stjórnarhættir hjá fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, sem einnig þjónustar íbúa annarra sveitarfélaga, t.d. með heitt og kalt vatn.  Sennilega fær sannleikurinn ekki að koma í ljós fyrr en nýir valdhafar taka við stjórnartaumunum í Reykjavík og endurskipuleggja stjórn Reykjavíkur og fyrirtækja hennar, en fjárhagur höfuðborgarinnar stefnir nú í algert óefni með glórulausri skuldasöfnun, skattheimtu uppi í rjáfri og lélegri þjónustu að mati borgarbúa sjálfra. 

Gleðilegt nýár.  

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Fyrir aldamótin síðustu var hér bæjarstjóri í Kópavogi maður að nafni dr. Gunnar Ingi Birgisson. Hann var flæmdur héðan af pólitískum öfundarseggjum sem héldu að þeir gætu gert betur. Sem þeir gátu auðvitað ekki og hefur hér öllu aftur farið síðan og engar tækninýjungar sjást sem von er af tæknilega ómenntuðum lýð í bæjarstjórninni.

En Gunnar gerði það að láta steypa 140-150 mm þykka steypu á göturnar franhjá Snáralindinni. Þessar götur eru heilar í dag án viðhalds og það sér eiginlega ekki á þeim slit. Eina sem sést af göllum er að undirleggið sem var bögglaberg var ekki nógu gott aumstaðar og hreyfist þegar það molnar af umferðartritringi, En nagladekkn slíta steypunni ekki einu sinni og engin hjólför sjást. Þetta var þá ódýrara þá en sama þykkt af malbiki, að ekki sé talað um klæðningu sem er handónýt eins og dæmin sanna.

Þessu eru allir búnir að gleyma. 

Vélin Gomaco skriðmótavél sem gerði þetta er enn til í Borgarnesi og eitthvað af þekkingunnni ennþá þó margir séu dauðir. Óþekkt hæðarnákvæmni og rennisléttur vegur.    En þarna var sannað hvernig hægt er að gera óslítandi götur.

Uppi í Kollafirði er 24 cm. steypa sem er orðin 50 ára og hefur aldrei þurft að gera við. Hún mun örugglega endast óviðgerð í aldarfjórðung í viðbót.

En  spekin í dag er bara malbik og klæðning af því að öllum liggur svo á að enginn hefur tíma til að hugsa og dýralæknar eru skipaðir vegamálastjórar líklega vegna sérþekkingar sinnar á beljuspenum fremur en slitlögum.

Halldór Jónsson, 4.1.2021 kl. 02:24

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Halldór;

Já, mjög margar ákvarðanir stjórnenda, ekki sízt bæjarstjóra, eru þess eðlis, að tæknilegur bakgrunnur léttir þeim leiðina að hagkvæmustu niðurstöðu fyrir umbjóðendurna.  Ég geri ráð fyrir, að dýralæknirinn, sem fer með æðsta vald Vegagerðarinnar og er undir yfirumsjón annars dýralæknis, hafi aðgang að hæfu fólki, sem er í stakk búið að gera tillögur, sem hagkvæmastar eru til lengdar varðandi vegina, en tilfallandi blæðingar eru óviðunandi, dýrar og stórhættulegar. 

Bjarni Jónsson, 4.1.2021 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband