11.1.2021 | 11:41
Kófsviðbrögðin
Viðbrögð heimsins við bráðsmitandi sjúkdómsfaraldri af völdum veiru úr kórónufjölskyldunni, sem er ábyrg fyrir öllum inflúensupestum, sem herjað hafa á mannkynið frá upphafi vega, er rannsóknarefni, því að þau eiga sér enga hliðstæðu. Ef hættan af völdum þessa sjúkdóms er vegin og metin, virðist hún litlu meiri en af völdum skæðrar hefðbundinnar inflúensu, en smitnæmið er aftir á móti meira.
Þegar afleiðingar sóttvarnaraðgerðanna á líf og heilsu fjölda manns, sem misst hafa atvinnu sína og lent í fátækt af völdum sóttvarnaraðgerðanna, eru virtar, ásamt gríðarlegri skuldasöfnun hins opinbera, fyrirtækja og heimila, þá sækir óhjákvæmilega að sú hugsun, að viðbrögðin séu vanhugsuð, yfirdrifin og að mörgu leyti misheppnuð.
Er COVID-19 (C-19) eins viðsjárverður sjúkdómur og yfirvöld og meginmiðlar vilja vera láta ? Sebastian Rushworth, M.D., (SR) hefur á vefsetri sínu sýnt fram á, að dánarhlutfall sýktra í heild er lægra en 0,2 %, sem þýðir, að færri en 1 af hverjum 500 sýktra deyja. Hér á Íslandi hafa tæplega 6000 manns greinzt með C-19 og 29 látizt úr sjúkdóminum, þegar þetta er ritað, svo að hlutfall látinna af greindum er tæplega 0,5 %, en samkvæmt rannsóknum hérlendis gætu tvöfalt fleiri hafa smitazt en opinberlega hafa greinzt, svo að þokkalegt samræmi er á milli þessara talna hérlendis og talna SR.
Samkvæmt SR er dánarhlutfallið um 0,03 % eða minna en 1 af hverjum 3000 undir sjötugsaldri. Hérlendis eru 4 dauðsföll undir sötugu af völdum C-19 eða 0,07 % af greindum, allt í góðu samræmi við SR að því gefnu, að hlutfall smitaðra og greindra sé a.m.k. 2.
Reynslan af C-19 er sú, öfugt við Spænsku veikina 1918, sem einnig var af völdum veiru af kórónustofni, að faraldurinn leggst þyngzt á aldurhnigna, og athugun SR bendir til, að þeir hefðu hvort eð er átt stutt eftir. Þannig er yfirleitt ekki um mjög ótímabæran dauðdaga að ræða af völdum C-19, ólíkt því, sem á við um flesta aðra faraldra og átti t.d. við um Spænsku veikina 1918. Þannig leiddi rannsókn SR á tíðni dauðsfalla í ýmsum þjóðfélögum árið 2020 ekki í ljós frávik frá meðaltali. Á Íslandi voru dauðsföll 2020 marktækt færri en að meðaltali árin 3 þar á undan. Þetta má vissulega skýra með sóttvarnarráðstöfunum og breyttu hegðunarmynztri fólks.
Fullyrðingar um, að félagslegar ráðstafanir hins opinbera á formi alls kyns hafta á starfsemi og samkomutakmarkana, séu bezta vörnin og jafnvel nauðsynlegar ráðstafanir til að fækka dauðsföllum af völdum faraldurs á borð við C-19, styðjast ekki við vísindalegar rannsóknarniðurstöður. Kínverska áróðursmaskínan kom þó þeirri flugu inn í höfuð heimsbyggðarinnar í febrúar-marz 2020 með þekktum afleiðingum hvarvetna.
Íslenzka heilbrigðiskerfinu hefur hins vegar í heildina tekizt mjög vel upp við að fást við þennan faraldur, þrátt fyrir augljóst fyrirhyggjuleysi í upphafi og þrátt fyrir ófullnægjandi aðstæður í húsnæði Landsspítalans, sem sumt er um nírætt. Þær hafa m.a. komið niður á þjónustu við aðra sjúklinga, og eiga landsmenn eftir að bíta úr nálinni með það.
Bólustning framlínufólks og framlágra ætti strax að létta undir starfsemi sjúkrahúsanna, og þar með þarf mikill fjöldi smita ekki að varpast yfir í ófremdarástand á sjúkrahúsum landsins. Í þessu sambandi eru rannsóknir bóluefnaframleiðenda í 3. fasa þó áhyggjuefni, því að í sumum tilvikum undanskildu þeir viðkvæma hópa frá rannsóknum sínum. Þetta eru einmitt hóparnir, sem mikilvægast er að veita vernd eða ónæmi gegn því að smitast af SARS-CoV-2-veirunni. Þess vegna er í sumum tilvikum rennt blint í sjóinn með áhrif bólusetningarinnar, og verður gerð grein fyrir rannsóknum SR á þessu síðar.
Það verður að gera þá kröfu til nýja Landsspítalans, að húsnæði hans verði hannað m.a. með hliðsjón af að fást við skæða heimsfaraldra. C-19 sjúkdómurinn er í raun og veru bara létt æfing borinn saman við hrylling á borð við ebólu, sem upp kom í Vestur-Afríku fyrr á þessari öld.
Orðrómur er uppi um "langvinnt kóf". SR hefur sýnt fram á, að 98 % C-19 sjúklinga hafa náð sér að fullu innan þriggja mánaða, og að engin marktæk gögn styðji, að C-19 leiði til langtíma veikinda (það eru slæm gögn, reist á lággæða rannsóknum, sem hafa verið notuð um allan heim til að skjóta fólki skelk í bringu).
SR hefur líka bent á, að baráttuaðferðirnar gegn C-19, s.s. meiri háttar hræðsluáróður, frestaðar áformaðar barnabólusetningar og skólalokanir munu leiða til mun fleiri tapaðra lífára en þeirra, sem tapast beint af völdum veirunnar. Gögnin, sem SR hefur notað til að sýna fram á þetta, eru almenningi aðgengileg og birt í nokkrum rómuðustu og virtustu vísindaritum heimsins.
Að þessu öllu virtu, hvað í ósköpunum gengur þá á í heiminum ? Lokanir hafa í mörgum tilvikum verið umfangsmeiri í annarri bylgjunni erlendis en í þeirri fyrstu. Að sumu leyti á það við um Ísland líka í s.k. þriðju bylgju, þótt við vitum núna mun meira um veiruna. Það var hyggilegt að fara afar varlega í marz 2020, þegar lítið var vitað um C-19. Það á alls ekki við lengur.
SR hefur sett fram tilgátu, sem er hans tilraun til að útskýra ótrúlega stöðu Kófsins. Hann hefur unnið með Ulf Martin að smíði þessarar tilgátu, en sá hefur ritað mikið um þessi mál á vefsetri sínu. Eins og allir vita, hófst C-19 í Kína, og Kína er alræðisríki kínverska kommúnistaflokksins, sem á sér langa sögu strangs eftirlits með fjölmiðlum í Kína og vel smurðrar áróðursvélar.
SR telur, að kínverska forystan hafi fljótt gert sér grein fyrir, að C-19 var ekki alvarleg ógnun, engu verri en slæm inflúensa. Það var e.t.v. skýringin á upphaflegum viðbrögðum þeirra að þagga umræðu um sjúkdóminn niður og láta hann líða hjá. Brátt kom þó í ljós, að það var ekki hægt vegna frásagna á félagsmiðlunum, sem dreifðust hratt um þrátt fyrir tilraunir til ritskoðunar.
Þá breyttu yfirvöldin um baráttuaðferð. Þau ákváðu að setja á svið sýningu, sem gæti verið beint úr Hollywood-kvikmynd. Þannig var veröldin mötuð vandlega í janúar og febrúar 2020 á tilbúnum sviðsmyndum frá lokunum og útgöngubanni í Wuhan. Við sáum hlið að blokkarhverfi rafsoðin föst í lokaðri stöðu, menn í þéttum varnargalla sótthreinsa húsnæði, lík liggjandi á götum úti og flota af tækjum úða yfir allt í kring.
Kannski var þessari sviðsetningu aðallega ætlað að sýna styrkleika. Kannski var ætlunin að leiða önnur ríki út í þær einstöku sjálfsskaðandi aðgerðir, sem fylgdu í kjölfarið, eða kannski var það bara heppileg aukaafurð af sviðsetningu Kínverjanna. Hvað, sem því líður, þá fullyrtu kínversk stjórnvöld, að þau hefðu ráðið niðurlögum kórónuveirunnar SARS-CoV-2 á rúmlega mánuði. Þann 11. febrúar 2020 tilkynnti Kína um 6900 ný smit á sólarhring. Einum mánuði seinna voru ný smit komin niður í 15 á sólarhring í öllu Kína, í landi, þar sem býr 1,4 milljarður manna.
Um þessar mundir, þegar annars staðar er glímt við aðra bylgju faraldursins, tilkynnir Kína um 20 smit á sólarhring. Yfirvöldin fullyrða, að færri en 5000 manns hafi, enn sem komið er, látizt úr C-19 í Kína. Það eru færri látnir en í Svíþjóð, landi með íbúafjölda um 0,7 % af Kína.
Af einhverjum ástæðum er lagður trúnaður á tölurnar frá Kína og aðrar upplýsingar þaðan um Kófið þrátt fyrir vitneskju um Kína sem alræðisríki með vel smurða áróðursvél. Því er treyst, að tímabundin lokun og útgöngubann í Wuhan hafi verið svo árangursrík, að ráðið hafi verið niðurlögum sjúkdómsins í landinu og að faraldurinn hafi ekki tekið sig upp að nýju.
Af reynslunni annars staðar að dæma fær þetta ekki staðizt. SR hefur sýnt fram á í skrifum sínum með vísun í gögn, að aflokanir stjórnvalda eru almennt óskilvirkar. Á þeim tíma, þegar Wuhan var lokað í febrúar 2020, hafði veiran þegar grasserað í Kína í nokkra mánuði og hlýtur að hafa náð að dreifast vítt og breitt um Kína. Að loka einni borg, þegar veiran hafði þegar dreift sér um landið, var augljóslega gagnslaus aðgerð og einvörðungu framkvæmd í áróðursskyni.
Hver varð niðurstaðan af þessu ? Fjölmiðlar um allan heim fóru í yfirgír og dreifðu myndunum frá Kína um allt. Þegar smit bárust til annarra landa, voru allir orðnir innstilltir á, að þar væri drepsótt á ferð. Kröfur komu fram í ritstýrðum fjölmiðlum og á félagsmiðlunum um sams konar aðgerðir yfirvalda og í Kína, úr því að aðgerðir Kínverja hefðu "augsýnilega" borið svo góðan árangur. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld, hrædd um að missa atkvæði, fóru að þessum kröfum. Kjósendur, horfandi upp á stigmögnun stóraðgerða stjórnvalda, ályktuðu þá, að ótti þeirra væri á rökum reistur, og urðu jafnvel enn óttaslegnari og kröfuharðari um sóttvarnaraðgerðir. Þetta var stýrislaufa með innbyrðis mögnun á aðgerðir. Afleiðingar þessara óskapa eru þekktar.
Að öld liðinni munu sagnfræðingar ekki fjalla um C-19 sem drepsótt, sem gengið hafi um heim allan, eins og Spænska veikin, heldur munu þeir taka C-19 sem dæmi um, hversu auðvelt hafi verið á þessum tíma að skapa hugarástand fjöldamóðursýki. Ef við gefum okkur, að þannig sé ástandið, hversu lengi mun þá núverandi móðursýki vara ?
SR telur, að flestar ríkisstjórnir hafi grafið sig ofan í holu varðandi C-19. Þær hafi dregið upp mynd af hættulegri, jafnvel lífshættulegri sjúkdómi en þau afbrigði af C-19 eru, sem þegar hafa komið fram. Þær vita þetta, en að játa villu síns vegar núna er ómögulegt. Sumpart er það vegna þess, að stjórnvaldsaflokanir hafa valdið svo miklum þjáningum, að það mundi stappa nærri sjálfsmorði að segja, að þær hafi verið óþarfar. Sumpart er það vegna þess, að fjölmiðlar og almenningur eru svo sannfærðir um alvarleika sjúkdómsins, að sérhver ríkisstjórn, sem héldi einhverju öðru fram, fengi á sig merkimiða ábyrgðarleysis og afvegaleiðingar.
Þess vegna er eina ráðið upp úr holunni að beita töfrabragði. Töfrabragðið er bólusetning. Það skiptir engu máli, hvort bóluefnin hafa nokkur einustu áhrif á heildarfjölda dauðsfalla, eða hvort þau vernda gamla og lasburða, sem eru alltaf í mestri hættu vegna alvarlegra sjúkdóma, eða hvort þau hindra útbreiðslu farsóttarinnar. Hið eina, sem máli skiptir núna er að komast upp úr holunni eins hratt og hægt er án þess að játa að hafa nokkurn tíma leikið afleik í þessari skák við SARS-CoV-2. Þegar nógu margir hafa verið bólusettir, geta ríkisstjórnir lýst yfir, að hættuástand sé afstaðið. Þjóðhöfðingja verður hægt að hylla sem hetjur. Við getum öll tekið upp fyrri siði.
Þessi pistill er reistur á pistli Sebastian Rushworth, M.D. frá 03.01.2021, "Why did the world react so hysterically to covid ?"
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Það er eitt sem ég velti fyrir mér varðandi langtímaáhrifin Bjarni. Er það ekki rétt að þessi 2% sem finna fyrir þeim eru 2% þeirra sem greinast með pestina? Miðað við mat WHO í október höfðu 10% heimsbyggðarinnar smitast, en einn tuttugasti af þeim fjölda greinst. Af því má þá væntanlega álykta að hlutfall þeirra sem upplifa langtímaáhrifin sé einn tuttugasti af 2%, eða 0,1%, eða hvað?
Þorsteinn Siglaugsson, 11.1.2021 kl. 14:25
Sæll, Þorsteinn;
Ég held, að ekkert sé vitað um langtímaáhrif C-19 á sýkta, en ógreinda, og að Sebastian Rushworth vísi til rannsókna á greindum. Það er væntanlega ekki hægt að álykta, að sýktir og ógreindir verði aldrei varir við langtímaáhrif, þ.e. meira en 3 mánuðum frá sýkingu, en það má ætla, að þau séu sjaldgæfari en hjá greindum, þ.e. < 2 %, af því að einkenni sjúkdómsins eru líklega yfirleitt vægari hjá ógreindum en greindum. Ef við köllum hlutfall sýktra, sem telja sig finna fyrir langtímaáhrifum, L, þá gildir væntanlega: 0,1 % < L < 2 %. Hafa ber í huga, að SR telur engin langtímaáhrif enn þá vísindalega sönnuð á SARS-CoV-2. Eftirköstin geta farið eftir líkamlegu og andlegu ástandi fyrir sýkingu.
Bjarni Jónsson, 11.1.2021 kl. 18:21
Þetta ætti að ver öllum ljóst núna en það er það ekki, af hverju ?
Aðal vandál okkar núna er að 95% allra fréttamanna og allir yfirmenn opinbberra stofnaanna á íslandi eru í raun búin að opinbere sig sem vanhæfa bjána, þau vita það og viðbrögðn virðst ætla að verða ofbeldi og ofsóknir í garð þeirra sem reyna að koma vitinu fyrir hjörðina.
Guðmundur Jónsson, 13.1.2021 kl. 10:36
Varðandi fréttaflutninginn, Guðmundur, var afar hörð gagnrýni á hann vegna skaðsemi hans fyrir líðan og heilsufar almenning í Morgunblaðsgrein Ólafs Ó. Guðmundssonar, geðlæknis, þann 9. janúar 2021. Það þarf vart frekar um að binda.
Bjarni Jónsson, 13.1.2021 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.