Er hagsmuna Íslands bezt gætt í Brüssel ?

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og Landlæknir eiga eftir að gera Alþingi og þjóðinni sómasamlega grein fyrir því, hvernig og á hvaða forsendum var komizt að því, að Evrópusambandið (ESB) væri betur í stakk búið en Íslendingar sjálfir að verða sér úti um bóluefni. Málsmeðferð og frammistaða framkvæmdastjórnar ESB við útvegun bóluefna við faraldrinum C-19 er orðin að hneyksli aldarinnar í Evrópu.  Öllum, nema íslenzka heilbrigðisráðherranum, er ljóst, að Íslendingar veðjuðu á rangan hest.

  Ísraelsmenn eru tiltölulega fámenn þjóð, um 8,8 M manns, en þeir gengu í það af forsjálni og krafti í tæka tíð að útvega sér bóluefni og hafa getað bólusett um fimmtánfalt fleiri landsmenn núna að tiltölu en Íslendingar. Fyrir mitt ár (2021) munu þeir fyrirsjáanlega ljúka verkinu, en hvað sem innantómum yfirlýsingum íslenzka heilbrigðisráðherrans líður nú á þorranum um "þorra íslenzku þjóðarinnar" bólusettan fyrir sumarið (2021) stefnir í, að það verði nær 15 %, ef ráðherrann á við sumardaginn fyrsta 2021.

Ef minnimáttarkenndin var að drepa íslenzku búrókratana, sem veittu ráðherranum ráðleggingar af sinni alkunnu víðsýni og djúpu baksviðsþekkingu, hvers vegna var þá ekki fremur leitað aðstoðar Breta, sem vitað var að búa við miklu skilvirkara stjórnkerfi en þunglamalegt samráðsferli og reiptog 27 ríkja í ESB með búrókrata í Brüssel, sem eru algerir viðvaningar í samningum um kaup á bóluefni ?  Sú reynsla og þekking er hjá hverju ríki um sig og hefur lengi verið. Dómgreindarleysið við stjórnvöl íslenzkra heilbrigðismála ríður ekki við einteyming. Mun heilbrigðisráðherra axla sín skín við sumarkomuna, þegar í ljós kemur, að yfirlýsingar hennar um framvindu bólusetninga reynast orðin tóm, eða mun Pfizer skera hana úr snörunni ? Þótt stjórnsýslan í Reykjavík sé ekki upp á marga fiska, er þó víst, að færsla stjórnsýslunnar alfarið til Brüssel jafngildir að fara úr öskunni í eldinn. 

 Klúður aldarinnar í Brüssel hvílir þyngst á herðum Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, en hún neitar að sæta ábyrgð og axla sín skinn.  Hún hefur jafnframt neitað að biðjast afsökunar á mistökum sínum, en hreytir út úr sér, að við lok embættistíðar sinnar eftir 3 ár verði hægt að dæma hana af verkum sínum. Þessi þýzka kona, fædd og uppalin í Belgíu, læknir að mennt,  er vel þekkt í Berlín, og ekki af glæstum ráðherraferli.  Þar á bæ hefur verið gefizt upp á henni, og er Berlín nú tekin að bera víurnar í Sputnik V í Moskvu.  Ungverjar o.fl. hafa þegar útvegað sér þetta rússneska bóluefni. Það mun vera svipaðrar gerðar og AstraZeneca bóluefnið.

Von der Leyen var landvarnaráðherra Sambandslýðveldisins áður en hún tók við forsetastarfinu af Juncker, sem þótti tiltakanlega rakur, jafnvel á lúxembúrgískan mælikvarða.  Þau fádæmi hafa nú gerzt, að hann ásamt aðalsamningamanni ESB í BREXIT-ferlinu, Barnier hinum franska, hafa gagnrýnt málatilbúnað framkvæmdastjórnarinnar í bóluefnamálum harðlega, en það keyrði um þverbak, þegar hún hótaði útflutningsbanni á bóluefni frá ESB, lét lögreglu storma inn í verksmiðju AstraZeneca í Belgíu og hótaði lokun landamæra Írlands og Norður-Írlands. Framkvæmdastjórn ESB er hrokkin af hjörunum.

Bundeswehr hefur aldrei frá stofnun verið í jafnlélegu ásigkomulagi og við brotthvarf Úrsúlu úr landvarnaráðuneytinu í Berlín.  Hún braut niður liðsanda hersins með því að banna honum að marsera (enginn gæsagangur) og syngja gamla þýzka hersöngva, hún reif niður myndir af þekktum stjórnmálamönnum Vestur-Þýzkalands í sínum Wehrmacht-búningi, t.d. mynd af Helmut Schmidt, fyrrverandi kanzlara, og gerði sér far um að rífa niður fornar hefðir hersins.  Hún bauð út varahlutahald Luftwaffe, og það endaði með, að framleiðendum var falið að sjá um varahlutahaldið.  Þegar til átti að taka, var lítið til og aðeins 4 orrustuþotur Luftwaffe bardagaklárar á einu skeiði, og enn færri kafbátar flotans (die Kriegsmarine). Hún neitaði Luftwaffe um að endurnýja flugflotann með því að kaupa nýjustu útgáfu F35 frá Bandaríkjunum, en samdi þess í stað við Frakka um þróun á nýjum orrustuvélum, sem taka mun allt að 20 árum að fá tilbúnar til þjónustu.  Yfirmaður Luftwaffe sagði af sér fyrir vikið. Læknirinn og 7 barna móðirin skildi eftir sig sviðna jörð í Berlín. Nú berast fregnir af því, að Luftwaffe fljúgi með hjálpargögn og heilbrigðisstarfsfólk til Portúgals til að létta umsátursástand heilbrigðiskerfisins þar af völdum kórónuveiru.  Þar er að verki Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýzkalands, sem verður sennilega hægri hönd hins nýja kanzlaraefnis CDU/CSU, Laschet, ef sá síðar nefndi snýr á Bæjarann Söder, sem þykir hafa staðið sig vel í Kófinu.

Í Morgunblaðinu 2. febrúar 2021 birtist mögnuð forystugrein undir fyrirsögninni:

"Bóluefnastríð ESB".

Þar var drepið á ógæfu Framkvæmdastjórnarinnar og ekki skafið utan af því:

"Forysta og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er skipuð 3. flokks möppudýrum, sem ekki voru kosin af neinum, og því er ekki heldur hægt að kjósa þau burt, sama hversu illa þau kunna að standa sig.  Flest eru þau raunar til Brussel komin einmitt vegna þess, að kjósendur í heimalöndum þeirra höfnuðu þeim, mörg með spillingarmál á bakinu eða höfðu sýnt af sér þvílíka vanhæfni og vanrækslu, að ekki þótti á það hættandi að hafa þau nærri valdataumunum heima fyrir. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, er fyrirtaksdæmi um þetta, en hún hrökklaðist til Brussel úr embætti varnarmálaráðherra Þýzkalands, eftir að hneykslismálin höfðu hrannazt upp og varnir landsins svo stórlaskaðar eftir, að gantazt var með, að mannkynssagan væri mun betri, hefði hún aðeins verið varnarmálaráðherra um 80 árum fyrr." 

Ef von der Leyen hefði verið varnarmálaráðherra rúmlega 80 árum fyrr, hefði Wehrmacht meira að segja mistekizt að reka Frakka út úr Rínarlöndum eftir Ólympíuleikana 1936, hvað þá að gjörsigra þá sumarið 1940, þrátt fyrir mun meiri sameiginlegan herafla og hergögn Breta og Frakka en Þjóðverja.  Bardagar urðu harðir, t.d. voru skotnar niður yfir 2000 flugvélar Bandamanna og yfir 1000 Luftwaffe-vélar.  

Nú er spurningin, hvort íslenzka stjórnkerfið, sem virðist bera lotningarfulla virðingu fyrir því, sem kallað er 3. flokks möppudýr í Brüssel, muni hér eftir hugsa sig um tvisvar áður en allt traust er sett á þennan risa á brauðfótum.  Íslenzka stjórnkerfið verður að hrista af sér slenið og fara að gera sér grein fyrir, hve hættulegt það er að reiða sig á Evrópusambandið, þegar miklir hagsmunir Íslands eru í húfi.  Það er jafnvel aðildarþjóðunum, hverri á fætur annarri, að verða ljóst. 

"Kröfur um, að von der leyen segi af sér, hafa orðið æ háværari um helgina [mánaðamótin jan-feb - innsk. BJo] og munu tæplega dofna nú í vikunni.  Þær eru réttmætar, en vandinn er djúpstæðari; hann felst í Evrópusambandinu sjálfu, lýðræðishalla þess, ábyrgðarleysi helztu stjórnenda og takmarkalausum valdaþorsta og vanhæfni Brusselbáknsins, sem birtist með augljósum og átakanlegum hætti í bóluefnismálunum.  Þar þurfa Íslendingar að leita annarra leiða."

Þetta er hverju orði sannara.  Úrsúla von der Leyen hefur neitað að biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu, vanrækslu og síðar flumbruhætti framkvæmdastjórnarinnar. Hún er nú komin í felur, illar tungur segja ofan í neðanjarðarbyrgi (Bunker), en frá framkvæmdastjórninni kom, að aðeins Páfinn í Róm væri óskeikull.  Fyrr má nú vera.  Þau kunna ekki að skammast sín.  Þess vegna eru þau 3. flokks.  Frá von der Leyen heyrðist áður en hún hvarf ofan í bunkerinn, að hægt yrði að dæma feril hennar, þegar honum lyki, að þremur árum liðnum.  Það er því miður borin von, að von der Leyen batni.  Háfleygt tal og asnastrik eru hennar ferileinkenni. 

Til að rifja málið upp er rétt að hverfa til upphafs þessarar ágætu forystugreinar Morgunblaðsins:

"Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með bóluefnastríðinu undanfarna daga, sem náði hámarki á föstudaginn [29.01.2021 - innsk. BJo], þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) setti útflutningsbann á bóluefni frá ríkjum sambandsins, að því er virðist í bræðiskasti yfir eigin vanhæfni og vanmætti við öflun bóluefnis við kórónaveirunni, sem leikið hefur álfuna svo grátt undanfarið ár." 

 Það var ekki nóg með, að framkvæmdastjórnin sóaði 3 mánuðum í fyrrasumar í þrefi við bóluefnafyrirtækin um verð og skaðabótaábyrgð, ef bóluefnin reyndust haldlaus eða skaðleg, heldur reyndi hún í vetur með óprúttnum aðferðum að troða sér fram fyrir þá forsjálu í röðinni, t.d. Breta, sem gengu frá samningum í júní 2020, þremur mánuðum á undan ESB.  Síðan reyndi hún að koma sök á viðsemjendur sína fyrir tafir; heimtaði bóluefni frá AstraZeneca á Bretlandi, sem framleiðir nú fyrir brezka markaðinn samkvæmt 8 mánaða gamalli pöntun, og réðist í húsrannsókn hjá bóluefnaframleiðanda í Belgíu til að kanna, hvort hann flytti út bóluefni (til Bretlands).  Síðan klykkti hún út með hótun um lokun landamæranna á Írlandi án samráðs við írsku ríkisstjórnirnar. 

Þetta sýnir, að virðing Framkvæmdastjórnarinnar fyrir lögum og rétti ristir grunnt, og hún er tilbúin til að ganga langt í þvingunarúrræðum, ef henni finnst stigið ofan á skottið á sér.  Þetta framferði hlýtur að vekja óhug hérlendis, eins og það hefur gert um allan hinn vestræna heim.  Brüsselvaldið hefur sett hrottalega niður, og það ríður ekki feitum hesti frá fyrstu viðureigninni við Breta eftir útgöngu þeirra úr þessu misheppnaða ríkjasambandi.  Eftir sem áður er innganga Íslands þangað enn efst á lista Samfylkingar, Viðreisnar og væntanlega pírata einnig. Það verður þó að gera þá kröfu, að núverandi stjórnvöld á Íslandi sjái að sér og hætti að líta á ESB sem traustan bakhjarl og láti ekki lengur aðildarumsókn rykfalla í skúffu í Berlaymont, heldur afturkalli og ógildi hana.  Eftir sem áður kappkostum við að efla samskiptin við þjóðríkin í Evrópu sem og annars staðar.  

"Framkvæmdastjórnin, í samráði við helzta aðildarríki ESB, tók af skarið og ákvað síðastliðið sumar að annast öflun og dreifingu bóluefnis í öllum aðildarríkjunum, að Evrópusambandið væri sérstaklega vel til þess fallið að taka að sér miðstýringu þessa stærsta og mikilvægasta verkefnis í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Að það hefði fullkomna yfirsýn yfir vandann, nyti stærðar sinnar til þess að gera góð innkaup og kæmi í veg fyrir innbyrðis samkeppni Evrópuríkjanna." 

Það mátti vera ljóst hér uppi á Íslandi, eins og í Lundúnum, að skrifræðisbákninu í Brüssel undir stjórn misheppnaðs forseta framkvæmdastjórnarinnar yrði það um megn að gera skjóta og hagstæða samninga við bóluefnaframleiðendur.  Við þær aðstæður áttu heilbrigðisyfirvöld að virkja umboðsaðila lyfjafyrirtækjanna og kunnáttumenn á þessu sviði með sambönd í þessum geira til að semja um bóluefnaafhendingu fyrir landsmenn.  Einkaframtakið má ekki virkja að mati heilbrigðisráðherra, og nú situr hún og forsætisráðherrann uppi með klúðrið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband