Evrópusambandið er á misskilningi reist

Forverar Evrópusambandsins (ESB), Kola- og stálbandalagið, og Evrópubandalagið, höfðu það hlutverk að brjóta niður viðskipta- og samskiptamúra vegna djúpra sára í kjölfar Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Sú var bein afleiðing hefndarráðstafana Vesturveldanna í garð hins sigraða þýzka keisaradæmis, sem Þjóðverjar reyndar losuðu sig við strax í kjölfar uppgjafarinnar í nóvember 1918. 

Við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari horfðu málin öðru vísi við, og Þjóðverjar voru þá teknir öðrum tökum, þótt einnig væru þau miskunnarlaus, því að landi þeirra var skipt upp, og þeir misstu mikil lönd til nágrannanna.  Bundeswehr var stofnaður á rústum Wehrmacht, því að um 1500 yfirmanna heraflans voru úr Wehrmacht, þar af um 1200 af austurvígstöðvunum.  Öllu skipti, að nýtt stjórnkerfi Vestur-Þýzkalands var reist á lýðræði og valddreifingu, og Þýzkaland er einn af máttarstólpum NATO og vestrænnar samvinnu. 

Allt tal um, að pólitískur samruni Evrópu sé nauðsynlegur til að treysta friðinn, er helber fásinna og til trafala eðlilegum og skilvirkum samskiptum þjóða. Þjóðverjar eru öflugasta akkeri friðsamlegrar samvinnu í Evrópu, en stjórnvöld ýmissa annarra þjóða hafa reynzt miklu gjarnari á að beita herjum sínum, og virðist hið miðstýrða Frakkland með marga litla Napóleóna eiga verulega bágt með sig í þessum efnum.  

Það er fráleit hugmynd, sem reynzt hefur vonlaus, að byggja miðstýrt, samevrópskt embættismannakerfi ofan á stjórnkerfi Evrópulandanna til að fara með sívaxandi völd um málefni aðildarlanda þessa ríkjasambands.  Öll meginverkefni þessa miðstýrða risa hafa misheppnazt, svo að nú er nóg komið af þessari tilraunastarfsemi Evrópuríkjanna, sem ekki er lengur hægt að taka alvarlega.  Æðsti strumpur utanríkismála ESB var á dögunum niðurlægður á blaðamannafundi með Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu með þeim ummælum utanríkisráðherrans, að Evrópusambandið væri óáreiðanlegur samstarfsaðili. 

ESB mistókst að stilla til friðar í bakgarði sínum á Balkanskaga, þegar Serbar ætluðu að knýja fram endursameiningu Júgóslavíu með vopnavaldi, og mörg grimmdarverk voru framin í nafni þjóðernishreinsana og trúarbragða.  Hreinn viðbjóður. Það voru að lokum  Bandaríkjamenn sem beittu flugher sínum og stilltu til friðar.  

Evran er misheppnuð að dómi margra hagfræðinga, og hefur mátt upplifa svo alvarlega kreppu, að við lá, að hún sundraðist. Evruna vantar sameiginlegan ríkissjóð sem bakjarl, en býr að evrubankanum, sem ranglega er kallaður Seðlabanki Evrópu.  Á yfirborðinu er hann sterkur, en í bankastjórn hans vegast á gjörólík viðhorf til peningamálastjórnunar, hið germanska og hið rómanska.  Stýrivextir bankans eru neikvæðir, og hann prentar peninga í gríð og ergi, en samt er hagvöxtur á svæðinu niðri við 0.  Þetta er langvarandi sjúkdómsástand, sem endar annaðhvort með miklu gengisfalli eða sundrun gjaldmiðilsins. 

Seinasta mistakahrinan er bóluefnaklúður Framkvæmdastjórnarinnar, sem hefur rúið hana trausti.  Öðrum þræði eru þetta átök við nýfrjálsa Breta.  Bræði Framkvæmdarstjórnarinnar stafar af því, að brezka stjórnin hefur staðið sig margfalt betur en Framkvæmdastjórnin við útvegun og dreifingu bóluefna.  Nú hefur myndazt samkeppnisaðili í Evrópu við Framkvæmdastjórnina.  London gjörsigraði Brüssel í þessari fyrstu lotu. Heyrzt hefur, að Framkvæmdastjórnin hugsi Bretum þegjandi þörfina og muni reyna að valda "City of London" tjóni, ekki með Messerschmitt sprengjuvélum, heldur með því að gera fjármálamiðstöðinni í London lífið leitt, en um hana var ekki samið í fríverzlunarsamninginum (BREXIT).

Morgunblaðið hefur gert þessu máli mjög góð skil.  Föstudaginn 5. febrúar 2021 birtist þar forystugrein, sem hét:

"Evrópusambandið, vandi Evrópu".

Hún hófst þannig:

"Yfirgengileg viðbrögð Evrópusambandsins (ESB) við bóluefnavandræðum þess í liðinni viku hafa orðið mörgum tilefni til umhugsunar um eðli sambandsins og þá sérstaklega yfirstjórnar þess.  Ofan á furðulegt andvaraleysi og seinagang í miðjum heimsfaraldri bættist ótrúlegt dómgreindarleysi og bráðlæti, sem hefur fellt bæði framkvæmdastjórn ESB, Ursulu von der Leyen, forseta hennar og Evrópusambandið sjálft í áliti um allan heim og innan sambandsins líka." 

Fyrri mistök stjórnenda ESB hafa verið á sviði fjármála og utanríkismála, en nú er komið að heilbrigðismálum, sem flestum standa nær og miklar tilfinningar eru við tengdar.  Kommissarar reyndust láta sér heilsu og líf fjölda manns í léttu rúmi liggja og sólunduðu dýrmætum tíma í kaupahéðnaþjark.  Þegar kom í ljós, að ESB varð aftarlega á merinni um framvindu bólusetninga og viðureign við farsóttina, þá kom í ljós algert virðingarleysi Evrópusambandsins fyrir lögum og rétti. Kom reyndar ekki öllum í opna skjöldu.  

Kaldlyndi framkvæmdastjórnarinnar gagnvart alþýðu manna hefur áður komið fram.  Skemmst er að minnast evrukreppunnar um 2012, þegar henni lá við falli.  Þá var frönskum og þýzkum bönkum bjargað, en alþýða Suður-Evrópu hneppt í skuldaviðjar.  ESB gerði sitt til að hneppa Íslendinga í skuldaviðjar með því að gerast meðflytjandi máls Breta og Hollendinga gegn Íslendingum í s.k. Icesave-málum 2011. 

Evrópusambandið hafði engin svör við flóttamannastrauminum frá Sýrlandi 2015, þegar Þjóðverjar tóku af skarið af miklu veglyndi sínu, sem endurspeglaðist í orðum Austur-þýzka efnafræðingsins á kanzlarastóli í Berlín: "Wir schaffen das".  Þjóðverjar eru hins vegar alls ekki búnir að bíta úr nálinni með þessa rúmu milljón flóttamanna, sem enn er eftir í landinu frá þessum tíma. 

Evrópuhambandið er nú komið á þann stað í tilverunni, að margir Evrópumenn spyrja sig, hvers vegna þeir sitji uppi með yfir 30 k blýantsnagara og baunateljara í Brüssel á skattfríum ofurlaunum.  Þessar afætur flækja aðeins málin fyrir íbúana og eru til trafala.  Næsta spurning verður, hvernig hægt verður að losna við þá.    

Uppi á Íslandi hafa nokkrar hryggðarmyndir í pólitík tekið trú á þetta vonlausa apparat "3. flokks möppudýra" í "Brüssel.  Það er allt í lagi, á meðan kjósendur geta skemmt sér við að virða þessi aflóga pólitísku dýr fyrir sér í dýragarðinum þeirra.  Kjósendur þurfa að gera sér grein fyrir, að Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin hafa engin heilbrigð viðhorf fram að færa í stjórnmálum, en eru öll bundin á klafa "Evrópuhugsjónarinnar", sem nú er orðið útbrunnið skar, án þess að hryggðarmyndir íslenzkra stjórnmála hafi manndóm í sér til að viðurkenna, að trúin þeirra var villukenning falsspámanna án jarðsambands. 

Í forystugrein Morgunblaðsins var síðan hnykkt á því, hvað ESB raunverulega er:

"Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart.  Þeir hafa um árabil varað við því, að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar, sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpazt sönnunargögn fyrir öllu þessu."

Það er ótrúleg blindni og lágkúra fólgin í því að róa að því öllum árum að binda trúss Íslands á þessa aflóga truntu "kjötkatlaklúbb[s] afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna".  Íslenzkir kjósendur, sem stutt hafa þessi ósköp, hljóta nú margir hverjir að hafa fengið sig fullsadda á smjaðrinu fyrir þessu óþarfa og gagnslausa ríkjasambandi. 

"En hvað hafa Evrópusinnar til málanna að leggja um þetta ?  Hverjar eru varnir þeirra fyrir Evrópusambandið og þessi afleitu vinnubrögð og viðbrögð ?  Hvernig skýra þeir þessa vanhæfni, fautaskap og vanvirðu við alþjóðarétt ?" 

Þeir, sem enn vilja styðja stjórnmálaflokka, sem hafa það efst á blaði hjá sér, að dusta rykið af umsókn Íslands um aðild að ESB og reka sem fyrst endahnútinn á þann langþráða draum, standa nú í sömu sporum og félagar í sértrúarsöfnuði, þar sem upp hefur komizt um alvarlega siðferðisbresti trúarleiðtoganna, jafnvel glæpi.  Þeir harðsvíruðustu munu tína það til, að veikir einstaklingar hafi valizt til trúnaðarstarfa, en ekkert sé bogið við uppbyggingu safnaðarins og átrúnaðinn sjálfan.  ESB-sinnarnir hafa fullt leyfi til sinna skoðana og eru nú komnir í hóp faríseanna forðum, þegar þeir hrópa mærðarlega: Úrsúla, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn. 

Í blálok þessarar ágætu forystugreinar stóð þetta:

"Evrópuhugsjónin kann sumum að hafa virzt fögur í upphafi, en hún hefur snúizt upp í andhverfu sína, þar sem hin máttugu ríki ráða því, sem þau vilja, og núningurinn eykst, en vanhæfni og vanmáttur hinnar ólýðræðislegu valdastéttar í Brussel eru orðin að sérstökum vanda." 

Evrópuhugsjónin er dauð.  Hún varð eitt af mörgum fórnarlömbum farsóttarinnar C-19.  Það þýðir ekki að reyna að endurlífga hana, því að andi tímans (der Zeitgast) er henni ekki hliðhollur.  Eitt þessara "máttugu" ríkja taldi hag sínum betur borgið utan þessa ríkjasambands en innan, og gekk úr tollabandalaginu 01.01.2021, og nú fara viðskipti þess fram á grundvelli fríverzlunarsamnings, sem tók við af tollabandalaginu.  Lögsaga Íslands snertir nú hvergi lögsögu Evrópusambandsins, heldur Grænlands, Bretlands, Færeyja og Noregs.  Það er engin ástæða fyrir eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi að leita inngöngu í meginlandsklúbb um viðskipti, landamæraleysi og alls konar viðskiptalega, fjármálalega og tæknilega skilmála, þar sem Frakkar og Þjóðverjar eru vanir að fara sínu fram.  Téðir eyjarskeggjar óska eftir að eiga viðskipti í allar áttir og kæra sig ekkert um takmarkanir eða jafnvel þvinganir af hálfu skrifræðisbákns ESB. 

Engu að síður eigum við að rækta alls konar menningarsambönd og viðskiptasambönd við aðildarlönd ESB, sérstaklega við Þjóðverja, sem sömuleiðis er annt um frá fornu fari að rækta sambandið á öllum sviðum við Íslendinga.  Upplag þjóðanna er svipað, tungur þeirra af sömu rót og þeim verður yfirleitt vel til vina.  Þjóðverjar hafa lengi átt viðskipti við Íslendinga, og Íslendingar studdu þá (Hamborgara í Hansasambandinu) í samkeppni og í bardögum við Englendinga og Dani á 16. öld.  Jón, biskup, Arason á Hólum vildi losa um völd Danakóngs yfir verzluninni og færa hana til Hamborgara.  Hann var í sambandi við Þýzkalandskeisara, Karl 5., sem var kaþólskur, og hefur sennilega átt erfitt með að veita hinum lútersku Hamborgurum þann stuðning, sem þurfti, og þess vegna náði Danakóngsi undirtökunum hérlendis, sem þróuðust yfir í einokunarverzlun Dana, mesta niðurlægingarskeið Íslandssögunnar.  Berlaymont sekkur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

"Evrópuhugsjónin kann sumum að hafa virzt fögur í upphafi, en hún hefur snúizt upp í andhverfu sína, þar sem hin máttugu ríki ráða því, sem þau vilja, og núningurinn eykst, en vanhæfni og vanmáttur hinnar ólýðræðislegu valdastéttar í Brussel eru orðin að sérstökum vanda."

Minnir þetta ekki eitthvað á kommúnismann í soviet sáluga?

kv. hrossabrestur  

Hrossabrestur, 12.2.2021 kl. 17:44

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Tvö skrifræðisfyrirfrigði, en ólík að sögu og eðli.  Hins vegar voru Ráðstjórnarríkin líka reist á misskilningi.  Hann var sá, að afnám eignarréttarins mundi skapa paradís á jörðu.  Það þurfti ekki einu sinni að reyna það.  Hugmyndin eru draumórar letingjans, enda sagði góður maður, að letin væri upphaf allra synda.   

Bjarni Jónsson, 12.2.2021 kl. 18:16

3 Smámynd: Hrossabrestur

Já þetta er mikið rétt hjá þér, mynstrið er alls staðar eins hjá þessu fólki sem trúir á þessi fyrirbrigði

það er að gera helst ekki neitt nytsamlegt og láta einhverja aðra sjá fyrir sér.

kv. hrossabrestur

Hrossabrestur, 12.2.2021 kl. 18:50

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Sammála öllu þessu kollegi Bjarni. Þú ert bara svo gríðarlega innblásinn af  hugsunum.  Ef þú notaðir aðeins færri orð og snubbóttari stíl þá yrði þetta allt mun aðgengilegra aflestrar.

Halldór Jónsson, 12.2.2021 kl. 22:58

5 Smámynd: Böðvar Guðmundsson

Las um "Kola-og stálsambandið" stofnað 1942 af Þjóðverjum.

Átti að samræma vinnslu og nýtingu í Frakklandi, Niðurlöndum og Þýskalandi.

Hugmyndin að ESB   ?

Böðvar Guðmundsson, 13.2.2021 kl. 11:11

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Aðgengilegt eða safaríkt - þar er efinn ?

Bjarni Jónsson, 13.2.2021 kl. 14:38

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Athyglisvert, Böðvar.  Sennilega hefur "Kola- og stálsamband" Þriðja ríkisins verið stofnað að undirlagi Albert Speer, sem skipaður var hergagnaráðherra í febrúar 1942.  Með endurskipulagningu náði hann að auka framleiðsluna fyrir Wehrmacht á öllum sviðum gríðarlega, en það var of seint.  Eftir sigurinn yfir Frökkum sumarið 1940 var Hitler svo sigurviss, að hann lét stöðva þróun nýrra vopna.  Hún var ekki endurupptekin fyrr en 1942.  Eitt af því, sem frestaðist, var ME-262 orrustuþota.  Hún komst ekki í bardaga fyrr en á útmánuðum 1945, en hefði getað skipt sköpum.  Ein af mörgum hernaðarlega röngum ákvörðunum Hitlers var að heimta, að ME-262 yrði þróuð sem sprengiflugvél.  Það tafði fyrir.  Hann heimtaði "Vergeltungswaffen". 

Bjarni Jónsson, 13.2.2021 kl. 14:52

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Letin Bjarrni "upphaf allra synda",það get ég tekið undir en tenngdafaðir minn sagð oft að ekkert væri betra en vinnan fyrir þá sem væru veiklaðir og vel á sig komnir líkamlega.

Helga Kristjánsdóttir, 13.2.2021 kl. 23:29

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Helga: hamingjan snýst um að hafa gaman af því, sem haft er fyrir stafni.  Svo höfum við nauðungarvinnu og þrældóm.  Hið síðar nefnda er ósiðlegt og skapar óhamingju eða hörmungar.

Bjarni Jónsson, 14.2.2021 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband