Ný innviðareglugerð Evrópusambandsins

Nú er Orkupakki 4 (OP#4) frá Evrópusambandinu (ESB) til rýni og mats innan EFTA í því augnamiði að móta sameiginlega stefnu Íslands, Noregs og Liechtensteins til þeirrar málaleitunar framkvæmdastjórnar ESB, að þessi EES ríki innleiði í lagasafn sitt þá viðamiklu orkulöggjöf, sem stundum er kölluð Vetrarpakkinn, en er í raun OP#4, af því að hún leysir af hólmi OP#3.  Gagnvart Innri orkumarkaði ESB eru þessi 3 ríki mjög ólík og eiga þess vegna ólíkra hagsmuna að gæta.  Þar að auki eru skoðanir mjög skiptar og tilfinningar blendnar á Íslandi og í Noregi til þeirrar tilhneigingar ESB að sveigja orkumál aðildarríkjanna í sífellt auknum mæli undir vaxandi miðstjórnarvald Sambandsins.  Fyrir utan vafasamar tæknilegar afleiðingar af slíku tiltæki og einskis sýnilegs ávinnings af slíku leikur mjög mikill vafi á því, bæði á Íslandi og í Noregi, hvort stjórnarskrár landanna leyfi slíkt framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem ríkin eiga ekki aðild, eins og felst í innleiðingu OP#4.  

Málið er hins vegar fjarri því svo einfalt, að nóg sé að einblína á eina reglugerð, eina tilskipun eða jafnvel lagabálk, eins og OP#4, þegar afleiðingarnar fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar eru metnar.  Það eru fleiri tilskipanir og reglugerðir, sem getur þurft að taka tillit til, því að þær vinna saman að því að styrkja enn miðstjórnarvaldið, sem felst í öðrum gerðum, t.d. OP#4.  

Ein slíkra gerða er innviðareglugerð nr 2020/0360(COD), sem er endurskoðun á 347/2013, sem ESB af einhverjum ástæðum, sem ekki hefur verið upplýst um, hætti við að gera að EES-máli, en sú nýja verður það þó mjög líklega. Þess vegna verður íslenzka utanríkisráðuneytið að vinna vandaða heimavinnu nú til að verða ekki tekið sofandi í bólinu, þegar kemur að innleiðingu innviðareglugerðarinnar hérlendis. Undirbúningsvinnan felst í að vega og meta frá hvaða atriðum reglugerðarinnar nauðsynlegt er, hagsmuna og stjórnarskrár landsins vegna, að leita eftir undanþágu og beita neitunarvaldi, ef það ekki fæst.

Endurskoðunina skýrir ESB með því, að laga eigi innviðareglugerðina að "Green Deal" Sambandsins, sem nú er allt um lykjandi.  Aukið er við hana, svo að hún auk flutningskerfis fyrir rafmagn og jarðgas, spanni græn gös, s.s. vetni, og flutningskerfi fyrir koltvíildi, sem á að geyma (og halda frá andrúmsloftinu), annaðhvort til niðurdælingar og bindingar eða til framleiðslu lífeldsneytis.  

Á rafmagnshlið miðar reglugerðin við 4 stjórnsvæði Orkusambands Evrópu; þar af er Norð-Vestursvæðið eitt, og tekur Framkvæmdastjórnin sem dæmi: "e.g. from wind farms in the North and Baltic Seas to storage facilities in Scandinavia and the Alps".  Þarna er hugmyndin sú, að vindorkuver úti fyrir ströndu vinni með vatnsorkuverum Skandinavíu og Alpanna, svo að vatn sparist.  Síðan er hægt að taka mikið afl út úr vatnsorkuverunum, hugsnlega með viðbótar búnaði þar o.fl, þegar aflskortur verður í ESB-löndunum. Þannig verður hægt að leysa gasorkuver í Orkusambandinu af hólmi sem varaorkuver fyrir jöfnunarafl og -orku inn á kerfið.  Að sjálfsögðu mundi Ísland falla inn í þessa hugmyndafræði, ef Icelink-sæstrengurinn verður lagður og allir nauðsynlegir innviðir reistir innanlands til að þjóna þessum sæstreng.  Ísland yrði þá eins konar orkunýlenda ESB. Innviðareglugerðin snýst um að útbúa stjórnkerfi í hverju aðildarlandi, sem sé sniðið til að raungera þessa hugmyndafræði, og að það verði gert sem erfiðast að þvælast fyrir markmiðum Orkusambands Evrópu.

ÓLJÓST ER, HVORT MILLILANDATENGINGAR OG FLUTNINGSKERFI INNANLANDS GETA ORÐIÐ PCI-VERKEFNI, ÁN ÞESS AÐ RÍKISVALDIÐ Í VIÐKOMANDI LANDI MÆLI MEÐ ÞVÍ (PCI=Project of Common Interest, forgangsverkefni Orkusambandsins):

Það eru svæðisstjórnstöðvar Orkusambands Evrópu sem leggja til, að verkefni fari á PCI-skrána samkvæmt gr. 3 í þessari innviðareglugerð.  Ísland er á norð-vestur svæðinu með Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Þýzkalandi og Eystrasaltsríkjunum. Meirihluti þeirra tekur ákvörðun um verkefni inn á PCI-skrána við atkvæðagreiðslu.  Ísland og Noregur hafa ekki atkvæðisrétt í svæðisstjórninni. Þetta er alveg óaðgengilegt fyrir Ísland án neitunarvalds.  Tillaga svæðisstjórnarinnar fer til ACER til umsagnar og síðan til Framkvæmdastjórnarinnar annað hvert ár. 

Fyrsta PCI-verkefnaskráin eftir þessari nýju forskrift á að hljóta samþykki 30.11.2023.  Hægt er að túlka gr. 3.3.a í þessari innviðareglugerð þannig, að Ísland og Noregur hafi neitunarvald um þau verkefni, sem beint snerta þessi ríki.  Ef Ísland hafnar verkefni, skal orkustjóri Íslands leggja fram í svæðisstjórninni rökstuðning fyrir höfnun. Það er óljóst, hvað verður um PCI-verkefnið, ef önnur ríki eða meirihluti þeirra í svæðisstjórninni fallast ekki á röksemdirnar.  Þetta verða íslenzk stjórnvöld að fá á hreint núna, á meðan svigrúm er til að koma athugasemdum að hjá EFTA/ESB, og utanríkisráðherra þarf að gera það ljóst, að skilyrði fyrir innleiðingu Íslands á þessari reglugerð sé, að landið fái skýlaust neitunarvald um verkefni, er varða landið beint og tillaga er uppi um, að fari inn á PCI-skrána. Það er mjög líklega hægt að fá Noreg til að standa með Íslandi að slíkri stefnumörkun EFTA.

GÆTI ICELINK AFTUR ORÐIÐ PCI-VERKEFNI ?:

  Samkvæmt gr. 3c skal PCI-verkefni uppfylla eftirtaldar 2 kröfur hið minnsta:

1. Það fer yfir landamæri tveggja aðildarríkja hið minnsta.

2. Það er á umráðasvæði eins aðildarríkis og hefur marktæk jákvæð áhrif á orkuflutning á milli landa.

Nú eru hvorki Ísland né Bretland aðildarríki ESB, þótt Ísland sé í Orkusambandi Evrópu eftir innleiðingu OP#3, og þess vegna ætti ekki að vera hætta á endurlífgun Icelink á vegum ESB.  Hins vegar gerir tækniþróunin kleift að leggja og reka æ lengri háspennta jafnstraumsstrengi neðansjávar. Mögulega mun þó ESB kjósa að líta á Ísland sem aðildarland vegna EES-samningsins og þeirrar þýðingar, sem vatnsafl Íslands hefur fyrir Orkusamband Evrópu. Þetta verður utanríkisráðherra að fá á hreint.  

ESB GRÍPUR INN Í LEYFISVEITINGAFERLI, SEM Í GILDI ER Í HVERJU LANDI:

Samkvæmt gr. 10 á allt ferlið áður en umsókn um leyfisveitingu fyrir verkefni, sem innviðareglugerðin spannar, t.d. orkumannvirki, er send, að taka að hámarki 2 ár. Innan þessara tímamarka á að gera áhættugreiningu fyrir náttúru og þjóðhagslega arðsemi verkefnisins og Skipulagsstofnun að afgreiða umhverfismatið.  Frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir t.d. virkjun eða flutningsmannvirki er send til sveitarstjórnar skulu að hámarki líða 18 mánuðir að ákvarðanatöku.  Allt ferlið má mest taka 42 mánuði.  Frestunarslakinn er mest 9 mánuðir, svo að heildartíminn getur allra mest orðið 51 mánuðir eða 4 ár og 3 mánuðir frá rannsókn á fýsileika og forhönnun að framkvæmdaleyfi.  Þetta er mun þrengri tímarammi en við eigum að venjast hérlendis, en mjög langur undirbúningstími og afar seinvirkar opinberar stofnanir hafa verið gagnrýndar hérlendis, m.a. af fráfarandi orkumálastjóra, enda tekur þar út yfir allan þjófabálk.  Þarf blýantsnagara í Brüssel til að vekja iðnaðarráðherra o.fl. upp af Þyrnirósarsvefni um þetta ófremdarástand ? 

Hvað sem því líður er ótækt, að ESB grípi með þessum hætti inn í leyfisveitingaferli hjá ríki, sem er ekki í Sambandinu.  Utanríkisráðherra verður að vera á varðbergi gagnvart þessu og verja fullveldi landsins.  

INNVIÐAREGLUGERÐIN GERIR YFIRVÖLDUM ÞAÐ ERFITT AÐ HAFNA LEYFISUMSÓKN UM PCI-VERKEFNI:

Samkvæmt gr. 3 á PCI-verkefni að hafa hæsta forgang í kerfisáætlunum orkuflutningsfyrirtækja landanna.  

Samkvæmt gr. 5 eiga þeir, sem eiga verkefnið, að skila ársskýrslu fyrir 31.12. árið, sem verkefnið fór inn á PCI-skrána og síðan áfram.  Orkustjóri landsins sendir hana til ACER og gerir grein fyrir orðnum og fyrirsjáanlegum seinkunum á leyfisveitingaferlinu.  

Samkvæmt gr. 6 getur framkvæmdastjórn ESB, eftir samkomulag þar um við viðkomandi aðildarland, útnefnt ESB-samræmanda í allt að eitt ár, og þetta tímabil má framlengja tvisvar, ef PCI-verkefni steytir á skeri.  

Samkvæmt gr. 8 skal hvert ríki útnefna opinbera stofnun, sem skal hafa það hlutverk og heimildir til að auðvelda og samræma leyfisveitingaferlið fyrir PCI-verkefni. Það skal gera í síðasta lagi 01.01.2022. 

 Formlega er það áfram Ísland, sem samþykkir leyfi eða synjar um leyfisveitingu, en hér hefur ESB sett upp alls konar hliðarkerfi, sem eiga að gera synjun PCI-verkefnis fjarlægan möguleika.  Það er ótækt fyrir fullvalda ríki, að ESB geti skipað samræmanda, sem geti auðveldað leyfisveitingaferlið og jafnvel skipað Orkustofnun eða sveitarstjórn að auðvelda samþykktarferlið fyrir verkefnið.  Utanríkisráðherra verður að fá undanþágu frá þessu fyrir Ísland. 

HINDRAR GR. 7 EINHLIÐA STÖÐVUN PCI-VERKEFNIS ?:

 Samkvæmt gr. 7 skal framkvæma PCI-verkefni fumlaust, þótt því hafi seinkað af ástæðum, sem eru taldar upp í rafmagnstilskipuninni 2019/944, gr. 51.a, b eða c.  Mismunandi aðferðir við að koma verkefninu á réttan kjöl eru tíundaðar, en það er ómögulegt að stöðva verkefni, sem er komið á þennan rekspöl.  Þáverandi olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Freiberg, svaraði spurningu í Stórþinginu í ágúst 2019, að gr. 51 í ofangreindri rafmagnstilskipun ætti ekki við um Noreg vegna þess, að átt væri við lönd, sem ekki byggju við Statnett-fyrirkomulagið, sem er hið sama og Landsnetsfyrirkomulagið hérlendis.  Þessi túlkun er langsótt.  Norskur lagaprófessor, sem hér hélt fyrirlestur í HÍ um OP#3 2018, Peter Th Örebech, telur túlkunina ranga í skýrslu sinni:

"EUs Energibyrås Energipakke 3 & 4 og Kongeriket Norges Grunnlov", september 2020. 

ESB OG VINDMYLLUR ÚTI FYRIR STRÖNDU:

Samkvæmt gr. 14 eiga ríki með land að hafi að gera áætlun um nýtingu hafsvæðis til raforkuvinnslu.  Það skal gera í samstarfi við Framkvæmdastjórnina og á grundvelli orkumarkmiða ESB.  Skuldbindandi áætlun á að vera tilbúin í síðasta lagi 31.07.2022 og tilgreina skal þar markmið fyrir árin 2030, 2040 og 2050. 

Virkjun hafvinds hefur lítið verið í umræðunni á Íslandi, enda mjög dýr aðferð fyrir raforkuvinnslu og getur rekizt á ýmsa aðra hagsmuni.  Fyrir Ísland á þetta ekki að vera málefnasvið, sem stjórnað er af ESB, og þess vegna er nauðsynlegt að fá undanþágu frá þessu. Nú mun reyna á utanríkisráðuneyti Íslands að verja hagsmuni Íslands á orkusviðinu fyrir ásælni og miðstýringaráráttu Evrópusambandsins.  Það er ekki til of mikils mælzt.   

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband