Gagnslaus hreinorkupakki - eykur framsal fullveldis

Með Hreinorkupakka Evrópusambandsins (ESB), sem ESB nefnir líka stundum Vetrarpakkann, en er í raun Orkupakki 4, enda arftaki OP#3, verða völd fulltrúa ESB á Íslandi á sviði raforkumála aukin mikið, ef ekki verður spyrnt við fótum. Orkustjórinn, æðsti fulltrúi ESB á Íslandi á sviði orkumála, er nú þegar með Orkupakka 3 (OP#3) utan valdsviðs ráðherra og óháður ráðherravaldi og í raun æðsti maður raforkumála á Íslandi. Hann hefur með öðrum orðum ígildi ráðherravalds. Það er hið versta mál og skref aftur á bak, að þessi orkustjóri landsins (National Energy Authority) skuli ekki lúta lýðræðislegri stjórn löggjafar- og framkvæmdavalds í landinu. Þessi grundvallarbreyting var gerð að þjóðinni forspurðri vegna þróunar á Evrópusamstarfinu, sem ekki var fyrirséð árið 1993, þegar Alþingi staðfesti gjörning þáverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

OP#4 er mikill lagabálkur 8 gerða, þar af 4 reglugerða og 4 tilskipana.  Megininnihaldið er fólgið í tilskipun þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/944 frá 05.06.2019 um fleiri sameiginlegar reglur fyrir Innri raforkumarkað ESB en áður og aukin völd orkustjóra ESB ásamt aukinni miðstýringu, og reglugerð þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/942 frá 05.06.2019 um valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB og samráðsvettvangs allra orkustjóra EES og um að koma á fót stjórnstöðvum nokkurra landfræðilega afmarkaðra svæða innan Orkusambands Evrópu ásamt fleiru.  Þriðja skjalið, sem verið hefur í umræðunni á vettvangi EFTA undanfarið er reglugerð þings og ráðs ESB nr 2019/943 frá 05.06.2019 og er í raun samsuða úr ofangreindum tveimur gerðum, sem þýðir t.d., að ef ACER-reglugerðin hér að ofan verður dæmd óleyfileg til innleiðingar á Íslandi vegna árekstra við Stjórnarskrána, þá gildir hið sama um reglugerð 2019/943.  

Kjarninn í þeim 4 reglugerðum, sem í OP#4 eru, er sá, að stofnaðar eru svæðisstjórnir, sem orkustjórar í hverju landi á svæðinu heyra undir, og ACER er síðan yfir öllum þessum stjórnstöðvum og úrskurðar í ágreiningsmálum á milli landanna.  Norðurlöndin, nema Færeyjar og Finnland, Eystrasaltslöndin, Þýzkaland og Holland verða undir stjórnstöðinni, sem Ísland mundi heyra undir, en það verður alls ekki séð, að Ísland eigi neitt erindi inn í þetta stjórnkerfi, á meðan Alþingi ekki hefur heimilað tengingu Íslands við rafkerfi þessa svæðis, en eins og kunnugt er sló Alþingi þann varnagla við innleiðingu OP#3.  Þótt samskipti orkustjórans á Íslandi við svæðisstjórnstöðina verði látin fara um hendur starfsmanna ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, af því að Ísland er aðili að EFTA, sem er viðskiptabandalag og ekkert í líkingu við ríkjasambandið ESB, er mikið vafamál, að þetta stjórnunarfyrirkomulag raforkumálanna standist Stjórnarskrá. 

Svæðisstjórnstöðin ákveður líka, hversu mikið afl og orka í landinu skal standa til reiðu fyrir millilandatengingar.  Ábyrgðin á afhendingaröryggi rafmagns mun færast smátt og smátt úr landi, þótt enginn sé aflsæstrengurinn.

Núna rýnir orkuhópur Fastanefndar EFTA OP#4 og hefur byrjað á eftirfarandi 3 gerðum:

ACER-reglugerð 2019/942:  Á meðan sá varnagli er í gildi frá innleiðingu OP#3, að enginn sæstrengur verði lagður til Íslands til tengingar raforkukerfis landsins við Innri orkumarkað ESB án samþykkis Alþingis, þá á þessi reglugerð ekkert erindi inn í lagasafn Íslands, enda liggur í leikmannsaugum uppi, að þessi reglugerð felur í sér meira fullveldisframsal en Stjórnarskrá og önnur lög landsins leyfa. Þess vegna þarf að krefjast undanþágu fyrir Ísland frá þessari reglugerð. Þeir, sem vilja innleiða þessa reglugerð hérlendis, hafa óhreint mjöl í pokahorninu, t.d. það að ætla sér að fjarlægja alla varnagla, sem settir hafa verið gegn slíkri sæstrengstengingu.

Það er óþarfi að spyrja um afstöðu þeirra, sem vilja, að Ísland verði aðildarland Evrópusambandsins, því að með innleiðingu þessarar gerðar og hinna tveggja gengur Ísland í raun í ESB á sviði orkumála, þ.e. gengur í Orkusamband Evrópu, og öðlast þar með stöðu nýlendunnar á þessu sviði, missir sjálfstjórn í hendur búrókrata í Brüssel, sem ekkert umboð hafa þegið frá íbúum þessa lands. Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Raforkutilskipun 2019/944: Hún felur í sér óaðgengilegar kvaðir um, að íslenzk löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB um millilandatengingar og um raforkumarkaðinn innanlands.  Þá felur þess tilskipun í sér gríðarlegt eftirlit með Landsneti og möguleika á því, orkustjórinn setji stjórn Landsnets til hliðar.  Hér er þess vegna líka um algerlega óaðgengilega skilmála að ræða.  Þess vegna er ekki stætt á öðru gagnvart lýðræðislegum stjórnunarrétti almennings í landinu og Stjórnarskránni en að krefjast undanþágu frá þessari tilskipun í Fastanefnd EFTA og í Sameiginlegu EES nefndinni, ef málið fer þangað.  Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Reglugerð nr 2019/943: Þessi reglugerð er blanda af tveimur ofangreindum gerðum.  Þar sem þær eru báðar óalandi og óferjandi að íslenzkum rétti að mati þessa höfundar, er þessi það líka.

Í Fastanefnd EFTA, þar sem þessar 3 gerðir eru til umfjöllunar um þessar mundir, er nauðsynlegt, að fulltrúar Íslands geri fulltrúum hinna EFTA-landanna skilmerkilega grein fyrir því, hvers vegna Íslandi er ekki fært að innleiða þessar 3 gerðir í íslenzkan rétt.  Ef ekki fæst skilningur á því, verður Ísland að beita neitunarvaldi á þessar 3 gerðir í Fastanefndinni, og munu þær þá ekki koma til efnislegrar umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þar verður ESB-fulltrúunum hins vegar formlega tilkynnt um afstöðu EFTA. 

Í Noregi er uppi stjórnarskrárdeila í dómskerfinu um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í Stórþinginu í marz 2018 um Orkupakka 3.  Á meðan svo er, er fullkomlega óviðeigandi, að EFTA, ráðuneyti og þingnefndir í EFTA-löndunum, vinni að undirbúningi innleiðingar arftakans, Vetrarpakkans eða OP#4.  Málið verður sennilega ekki útkljáð fyrr en 2022 í dómskerfinu, og þá gæti orðið ný atkvæðagreiðsla um OP#3 í Stórþinginu, en þá yrði innleiðing hans í norsk lög aðeins samþykkt, ef 3/4 viðstaddra þingmanna samþykkja hana.  Ef mið er tekið af norskum stjórnmálum núna og horfum eftir Stórþingskosningar í september 2021, mun það ekki gerast, heldur verður Orkupakki #3 þá felldur.  Hann fellur þá og úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein.

Strax í apríl 2021 er að vænta vísbendingar frá Hæstarétti Noregs um það, sem koma skal í "ACER-málinu", því að þá er búizt við svari frá honum við fyrirspurn Stórþingsins um það, hvort við atkvæðagreiðslu um innleiðingu Járnbrautarpakka 4 frá ESB eiga að láta einfaldan meirihluta duga eða krefjast aukins meirihluta.  Í þessu máli er líka deilt um umfang fullveldisframsals, sem felst í að færa æðsta vald yfir járnbrautum Noregs til ERA, Járnbrautarstofnunar ESB. 

Með leikmannsaugum séð er líklegt, að Hæstiréttur Noregs áskilji aukinn meirihluta, því að varðandi samninga við útlönd má aðeins beita einföldum meirihluta við atkvæðagreiðslu um þjóðréttarlega samninga, og innleiðing á gerðum ESB er það ekki, heldur er þar um að ræða valdframsal frá ríkinu um innanlandsmálefni til ESB, nánar tiltekið stofnunar, þar sem Noregur er ekki fullgildur aðili.  Þetta hefur í EES-samninginum verið fóðrað með því að stilla ESA upp sem millilið, en hún (Eftirlitsstofnun EFTA) er í þessu viðfangi aðeins ljósritunarstofa fyrir ACER, eins og prófessor í réttarfari við Háskólann í Ósló, Eivind Smith, hefur sýnt fram á.  Slík ljósritunarstofa jafngildir beinu streymi fyrirmæla og upplýsinga í báðar áttir og getur ekki fullnægt formlegum kröfum um meðferð fullveldis.      

 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Karl Þorleifsson

Það er merkilegt að ekki fari hærra yfir þessum og fyrri orkupakka.  Á þingi sitja landráðamenn sem ætti að draga fyrir dóm, þar sem þeir vísvitandi fara gegn stjórnarskránni.  Þessi gjörningur er í boði Katrínar Jakobsdóttur og fylgisveina hennar.   Þar eru þeir ekki undanskildir Bjarni Ben eða Guðlaugu Þór.   Ætli núverandi orkumála og nýsköpunarráðherra geri sér grein fyrir því að hún er í raun valdalaus verði orkupakki 4 samþykkur.  Engin alþingismaður getur falið sig á bak við að vita ekki um málið, þeir vissu þetta er umræðan um orkupakka 3 leit dagsins ljós, en þá þegar hafði ég sent þeim orkupakka 4 og þar með vissu þau í hvað stefndi. 

   Íslenska þjóðfylkingin hvetur kjósendur til að kynna sér málið til hlítar og láta ekki lygavefstjóra ESB sinna villa sér sýn.  Ykkar er valið hvernig alþingi lýtur út að loknum kosningum, þín er ábyrgin.

 

Guðmundur Karl Þorleifsson, 15.3.2021 kl. 16:19

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er heimóttarskapur íslenzkra stjórnvalda.  Þau norsku eru ekki með þetta dæmalausa pukur, heldur senda nú OP#4 út í þjóðfélagið og biðja um skoðanir borgaranna á málinu.  Hér fara ráðuneytin með málið, eins og um mannsmorð væri að ræða, enda sýna þau enga viðleitni eða snefil af getu til að kryfja þessi orkumál til mergjar.  Það, sem þau eru vön að senda þingmönnum, er "bolaskítur" og svaml á yfirborðinu.  Þessir blýntsnagarar ráðuneytanna eru gjörsamlega gagnslausir.  Um hendur þeirra læki allt inn, sem frá ESB-kollegunum kemur, ef ekki kæmi aðhald utan úr þjóðfélaginu.  

Bjarni Jónsson, 15.3.2021 kl. 18:13

3 Smámynd: Guðmundur Karl Þorleifsson

Sæll Bjarni og þakka þér þitt innlegg í þetta málefni.  Ég tók mér bessarsleifi til að deila grein þinni, svo hún fengi meiri dreifingu, lesningu og umræðu í samfélaginu.  Ef þú er ekki sáttur við það þá láttu mig vita en ég get þess að hún er frá þér komin og hvet alla til að lesa hana.  

  Það sem mér fynnst merkilegast eru fréttamiðlar svo ekki sé talað um ríkismiðilinn RÚV, sem þaga þunnu hljóði um þetta.  Það hefur oft komið upp í huga minn hvort stórum hluta Íslendinga sé hreinlega mútað?

  Góðar stundir og við höldum baráttunni fyrir sjálfstæði Íslendinga áfram.

Guðmundur Karl Þorleifsson, 16.3.2021 kl. 09:53

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Að sjálfsögðu er bezt að dreifa boðskapnum sem víðast.  Það hefur þó a.m.k. einn fjölmiðill áhuga á, hvaða orkustefna verður ofan á hérlendis, en það er Útvarp Saga.  Þar var ég í klukkustundar löngu viðtali um málefnið hér og í Noregi miðvikudaginn 10. marz 2021 kl. 1400.  

Brüssel-heilkennið tröllríður sumum fjölmiðlum, og þeir kæra sig ekkert um að taka þátt í að vekja athygli á, að hluti gerðaflóðsins, sem hingað berst frá Brüssel, ógnar hagsmunum landsmanna, af því að hér eru gjörólíkar aðstæður m.v. meginland Evrópu.  

Síðan er fréttamatið almennt furðulegt, því að upp er romsað runu um fjölda jarðskjálfta alls, fjölda yfir 5 eða yfir 4 eða yfir 3 eða fjölda smita af C-19.  Þetta er gjörsamlega andlaus fréttaflutningur og gagnslítill, en tiltölulega auðveldur fyrir fréttamennina, því að nánast enga hugsun þarf til.  Orkumálin eru e.t.v. hinum megin á kvarðanum.  

Bjarni Jónsson, 16.3.2021 kl. 10:33

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Tek undir með ykkur, það er magnað hvað lítið heyrist um þetta mál í fjölmiðlum. Og takk fyrir þitt framlag, Bjarni. Tók mér það bessaleyfi að afrita skjölin sem þú hengdir við pistilinn, til að lesa vel og vandlega. Eftir að hafa hraðlesið þau er ljóst að um stórmál er að ræða, mun stærra en op3 pakkinn.

Mat fréttamiðla hér á landi á mikilvægi frétta er undarlegt, eins og þú nefnir í athugasemd #4, Bjarni. Þar gleymir þú þó því sem mest og oftast er rætt í þessum miðlum, það er hvað frægt og minna frægt fólk aðhefst. Það má helst ekki reka við án þess að íslenskir fjölmiðlar koma því skilmerkilega til skila! Stóru málin, þau sem skipta máli fyrir framtíð lands og þjóðar eru látin vera, meðan smámálin eru gerð að stórfréttum. Og margir þingmenn elta vitleysu fjölmiðla. Ef hundur hverfur í nokkra daga er ekki látið nægja að auglýsa eftir honum. Nei, hellst þarf að hengja einhvern fyrir vikið, hvort sem hann kom þar nálægt eða ekki og Alþingi síðan undirlagt þessu hundshvarfi í marga daga. Á meðan er náttúruauðlindum fórnað til alþjóðlegra auðhringa!

Þegar op3 komst í hámæli og andstaðan við þann pakka varð ljós, var afsökun ráðamanna að of langt væri gengið á ferlið, að athugasemdir hefðu þurft að koma fyrr. Að rétti tímapunktur til andmæla væri áður og á meðan málið væri í afgreiðslu embættismanna í fastanefnd EFTA. Nú er op4, eða vetrarpakkinn, í þessu ferli. Því skildi maður ætla að einhver kynning væri komin fram af hálfu stjórnvalda um málið, svo almenningur gæti þá gert við það athugasemdir. En því fer fjarri, málinu er haldið eins leyndu og hægt er. Það segir það eitt að ráðamenn þjóðarinnar ætla sér að leika sama leikinn aftur, nota sömu aðferð og við samþykkt op3.

Hitt er svo alveg kýrskýrt að það er aldrei of seint að hafna tilskipunum ESB vegna EES samningsins. Alveg sama þó embættismenn séu búnir að afgreiða málið í lokuðum fundarherbergjum í Brussel. Um þetta er EES samningurinn alveg skýr. Alþingi hefur alltaf síðasta orðið og skiptir þar engu hvað embættismenn hafa sagt, gert eða undirritað. Allar þeirra gerðir miðast við að Alþingi staðfesti þær. Við teljum okkur jú lifa í lýðræðisríki, stjórnað af kjörnum fulltrúum. Ekki einræðisríki stjórnað af andlitslausum embættismönnum án umboðs þjóðarinnar!

Hvort um verulegan skort á kjarki hrjáir þingmenn okkar, eða hvort vit þeirra er af svo skornum skammti, skal ósagt látið, enda breytir svo sem ekki hver ástæða aumingjaskapar er.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 16.3.2021 kl. 16:28

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir þetta tilskrif, Gunnar.  Já, orkulöggjöf Evrópusambandsins heggur of djúpt í knérunn fullveldis landsmanna, til að hægt sé að eftirláta hana embættismönnum utanríkisráðuneytisins.  Það, sem frá þeim hefur komið hingað til, vitnar aðeins um yfirgripsmikið þekkingarleysi.  Fréttastofurnar virðast flestar vera í bullandi meðvirkni með embættismönnum.  Þar með bregðast þær lýðræðislegri umfjöllun í landinu.  Eitt af því, sem ámælisverðast er við orkupakkana er, að með þeim eru gerðar róttækar breytingar á stjórnfyrirkomulagi þessa mikilvæga málaflokks, án þess að áður hafi verið djúptæk umræða um þessar breytingar á meðal almennings og stjórnmálamanna.  Þetta er mjög slæm þróun, og afleiðingin er m.a. sú, sem þú nefnir, að allt púðrið fer í hrein aukaatriði og algert smælki, sem á afar takmarkað erindi til almennings.  

Bjarni Jónsson, 16.3.2021 kl. 18:13

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Guðlaugur Þór Þórðarson Utanríkisráðherra sagði í viðtali  á útvarpi Sögu, að það væri ENGINN ORKUPAKKI FJÖGUR TIL.  Þetta segir nokkuð til um hversu óforskammaðir stjórnarherrar landsins eru........

Jóhann Elíasson, 17.3.2021 kl. 11:08

8 Smámynd: Jóhann Elíasson

Guðlaugur Þór Þórðarson, Utanríkisráðherra Íslands, sagði það í viðtali á Útvarpi Sögu AÐ ÞAÐ VÆRI ENGINN ORKUPAKKI FJÖGUR TIL, ÞESSI UMMÆLI SÝNA ÞAÐ SVART Á HVÍTU HVERSU LANGT STJÓRNMÁLAMENNIRNIR ERU TIL Í AÐ GANGA VIÐ AÐ LJÚGA AÐ ÞJÓÐINNI.........

Jóhann Elíasson, 17.3.2021 kl. 11:47

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann.  Já, mér voru sögð þessi ummæli íslenzka utanríkisráðherrans, þegar ég heimsótti Útvarp Sögu 10.03.2021.  Þau sýna, að þessum manni hefur verið innrætt orðanotkun embættismanna Evrópusambandsins.  Þeir vilja ekki kannast við Orkupakka 4, þótt s.k. Vetrarpakki eigi í heild sinni að leysa Orkupakka 3 af hólmi.  Að afneita Orkupakka 4 er orðhengilsháttur af versta tagi, því að honum er ætlað að smygla hrárri orkulöggjöf Evrópusambandsins hingað til lands, pakkaðri inn í grænar umbúðir tízkuheitisins "Hreinorkupakki".  Ég er gáttaður á því, að þessi utanríkisráðherra skuli gera jafnlítið úr sjálfum sér og þetta orðagjálfur hans ber vott um. Hefur hann þó ekki úr háum söðli að detta eftir umræðurnar um OP#3. 

Bjarni Jónsson, 18.3.2021 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband