Þorskastríð á milli ESB og Noregs í uppsiglingu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) undir forsæti Úrsúlu von der Leyen hefur átt mjög mótdrægt á ferli sínum og margoft mátt lúta í gras.  Nægir að nefna bóluefnaklúðrið.  Þar var um að ræða útvegun og dreifingu bóluefnis innan ESB, sem Framkvæmdastjórninni hafði aldrei verið formlega falið, en lækninum í forsetastóli Framkvæmdastjórnarinnar þótti svo tilvalið að spreyta sig á, að hún fékk ráðherraráðið til að fela Framkvæmdastjórninni þetta hlutverk.

Einhverjum datt þá í hug að láta þessa miðstýringu spanna allt EES, sem var fótalaus hugdetta og reyndist leiða til slíks ófarnaðar, að framvinda bólusetninga hér minnir á ferð lúsar á tjöruspæni í samanburði við Ísraelsmenn, Breta og Bandaríkjamenn. Nýjasta asnastrikið í þessum efnum í nafni Framkvæmdastjórnarinnar er bann Ítala við útflutningi á bóluefni til Ástralíu frá verksmiðju AstraZeneca á Ítalíu.  Tollabandalagið fórnar hiklaust frjálsum viðskiptum á milli heimsálfa, ef vindar blása óhagstætt fyrir Brüssel. Það á eftir að útskýra skilmerkilega fyrir Íslendingum, hvernig og hvers vegna sú ákvörðun var tekin í Stjórnarráðinu að láta viðvaninga í lyfjaviðskiptum í hópi búrókrata í Brüssel í hópi, sem venjulega fæst við merkingar á kjötvörum, sjá um jafnmikilvægan málaflokk fyrir Íslendinga og kaup á bóluefni gegn faraldri, sem valdið hefur miklum búsifjum, óneitanlega er.  

Nú ætlar Úrsúla von der Leyen að hressa aðeins upp á ásýndina með því að knésetja Norðmenn í deilu við þá um þorskveiðiheimildir við Svalbarða.  Hér er kominn rétt einn slóðinn eftir BREXIT, því að við útgönguna úr ESB tóku Bretar til sín fiskveiðiheimildir við Svalbarða, sem þeir höfðu fyrir löngu samið um við Norðmenn.  Eftir situr ESB með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða við svipaðar kringumstæður.  

Við hörmum, að Noregur skuli hafa tekið einhliða ákvörðun, sem gengur gegn hefðbundinni nálgun viðfangsefnisins, og takmarkað þorskmagnið, sem ESB-flotinn má veiða í kringum Svalbarða, segir Framkvæmdastjórnin við norska blaðið Nationen 1. marz 2021. Samt hafa Norðmenn leyft ESB að hefja þorskveiðar við Svalbarða í ár. Engu að síður telur ESB, að Noregur hafi brotið Svalbarðasáttmálann, og ætlar næstu vikurnar að ræða innbyrðis og ákvarða gagnráðstafanir, les refsiaðgerðir, á hendur Norðmönnum. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur sagt við Nationen, að ekki verði hopað fyrir hótunum og hugsanlegum þvingunum ESB.  Ekki mun þessi framkoma fjölga stuðningsmönnum EES í Noregi, enda fjarar nú undan þessum sérkennilegu ESB-tengslum í Noregi.  

Sjávarútvegsráðherra Noregs segir við Nationen, að ekki komi til greina, að hvert ríkjanna 46, sem undirrituðu Svalbarðasáttmálann, ákvarði kvóta sér til handa. Hann segir það misskilning hjá ESB, að Norðmenn fylgi ekki Hafréttarsáttmálanum í hvívetna.

Nýlega sendi Noregur mótmælaorðsendingu til ESB, og Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra, fundaði með framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála, Litháanum Virginijus Sinkevicius, um deiluna. Stríðið heldur áfram sem orrahríð í orðum, á meðan heildarkvótinn, sem Noregur hefur úthlutað ESB, hefur ekki verið fiskaður allur. Þá mun sverfa til stáls. 

Bretar fengu á grundvelli gamals samnings um 5 kt úthlutað við Svalbarða, en þá hljóp hland fyrir hjartað á Framkvæmdastjórninni, sem engan slíkan gamlan hefðarrétt átti, en tók sér rétt til að úthluta sjálfri sér  28,431 kt af þorski á verndarsvæði þorsks, sem var 10 kt meira en Noregur hafði úthlutað ESB án Breta við Svalbarða 2020.  25.02.2021 voru 6 togarar á svæðinu, og flestir á þorskveiðum.  4 voru frá ESB og 2 frá Bretlandi. 

Málið er, að kreppa steðjar að fiskveiðum ESB eftir BREXIT.  ESB má nú aðeins veiða tímabundið 1/4 af venjulegu magni innan brezku lögsögunnar fyrir utan umsamda flökkustofna. Skipafloti ESB-landanna er að mestu bundinn við höfn.  

Viðhorf ESB virðist vera, að hver taki sér kvóta við Svalbarða. Það er ósjálfbært viðhorf og sýnir, hversu aftarlega á merinni Framkvæmdastjórnin er, þegar kemur að umgengni við náttúruna. Með þorskastríði verður vonandi hægt að koma vitinu fyrir Evrópusambandið í þessum efnum.  Noregur mun í slíkri snerru hafa sterk spil á hendi, segir Andreas Östhagen, fræðimaður við Stofnun Friðþjófs Nansens.  Hann telur alveg ljóst, að alþjóðlegur hafréttur njóti forgangs í stjórnsýslu Svalbarða og telur það rangt, að Svalbarðasáttmálinn myndi heimild til annarra til úthlutunar kvóta.  Málatilbúnaður ESB geta verið mistök, þar sem fáeinir búrókratar hafa búið til tillögu, sem er illa undirbúin, segir Andreas. Þetta er afar diplómatískt orðalag hjá Norðmanninum, þegar vitað er, að Framkvæmdastjórnin sleikir nú sár sín og reynir, hvað hún getur að ganga nú í augun á aðildarlöndunum. Framkvæmdastjórnin vanmetur vilja og úthald Norðmanna. 

Auk þorskkvótanna tók ESB sér kvóta í snjókrabba.  Það er ný auðlind, sem engin söguleg veiðigögn eru til um, svo að hægt sé að reikna út kvóta.  Landhelgisgæzla Noregs segir við Nationen, að hún muni yfirtaka öll skip og færa til hafnar, sem hefja snjókrabbaveiðar upp í kvóta, sem ESB úthlutar. Enn virðast ESB-snjókrabbaskip ekki hugsa sér til hreyfings.

Af hálfu Noregs hefur verið gefinn kostur á að leysa deiluna með kvótaskiptum, en ESB hefur hafnað því. ESB telur slíkt veikja réttarlega stöðu sína, sem virðist vera veik fyrir. Ef ESB skiptir sér af krabbaveiðunum, getur það leitt til þess, að norska krafan um umráðaréttinn yfir landgrunni Svalvarða fari fyrir alþjóðarétt. Niðurstaðan þar mun hafa áhrif á, hvernig hugsanlegri olíu-, gas- eða málmvinnslu á hafsbotninum verður háttað.  Tapi Noregur málinu fyrir Alþjóða dómstólnum í Haag, þannig að dæmt verði, að Svalbarðasáttmálinn spanni einnig landgrunnið umhverfis Svalbarða, mun Noregur verða í fullum rétti að segja, að þá ætli Noregur ekki að opna fyrir boranir þar eftir gasi og olíu. Það stendur hvergi í Svalbarðasáttmálanum, að Norðmenn verði að leyfa auðlindavinnslu, segir Östhagen við Nationen.

Norðmenn græða ekkert á að leyfa öðrum að bora, þar sem í sáttmálanum stendur, að einungis megi skattleggja starfsemina til að standa undir stjórnsýslunni á Svalbarða. 

Þetta mál sýnir, að Framkvæmdastjórnin er tilbúin að ganga langt til að þóknast hagsmunaaðilum í sjávarútvegi ESB-landanna.  Samkvæmt CAP - "Common Agricultural Policy" - eiga auðlindir hafsins í lögsögu aðildarlandanna að vera undir stjórn ESB.  Hið sama mun verða uppi á teninginum með auðlindir hafsins í lögsögu Íslands, ef Samfylkingu, Viðreisn og pírötum verður að ósk sinni um, að Ísland verði aðili að ESB.  Auðvitað munu Íslendingar þá eiga hefðarrétt innan eigin lögsögu, en m.t.t. mjög slæmrar verkefnastöðu fiskiskipaflota ESB er líklegast, að ESB-flokkarnir, ef þeir komast til valda á Íslandi, muni þjóðnýta aflahlutdeildir íslenzkra veiðiskipa og síðan bjóða þær upp á sameiginlegum markaði allra ESB-landanna, en uppboðsstefnan, jafnglórulaus og hún er, myndar kjarnann í sjávarútvegsstefnu Samfylkingar og Viðreisnar.  Þá munu íslenzkar sjávarbyggðir fá að lepja dauðann úr skel. Það er með öðrum orðum mikið hagsmunamál fyrir almenning í landinu að halda téðum þremur flokksviðundrum frá Stjórnarráðinu.   

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Böðvar Guðmundsson

Bíta í gras  !

Böðvar Guðmundsson, 12.3.2021 kl. 20:35

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það ætla ég rétt að vona,og vísa þá til seinustu málsgreinar þinnar.Minnist þá einnig hvernig ESB-flokkarnir hafa gengið á móti hag Íslands í öllum auðlinda málum og er því sterk áminning þín til okkar kjósenda að sniðganga þá, auk þess að kynna þeim sem segjast ekkert vita um þau mál. þeir eru ótrúlega margir yngri sem eldri.

Helga Kristjánsdóttir, 13.3.2021 kl. 02:36

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Við skulum vona að enginn taki símtöl frá Loga og Þorgerði eftir næstu kosningar. ESB hefur allaveg ekki gert neitt ennþá sem ætti að auka fylgið hjá þeim

"Do you know how many presidents and prime ministers call Pfizer and Moderna? They don't answer. But when it's me, they take the call," Netanyahu said

og hann virðist vera búinn að landa kosningasigri

Grímur Kjartansson, 14.3.2021 kl. 09:54

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Samfylking og Viðreisn eru óafmáanlega tengd ósk um ESB-aðild Íslands í huga fólks.  Íslendingar vilja ekki verða hluti af búrókratísku stórríki Evrópu.  Þess vegna mun hvorki ganga né reka hjá þessum flokkum í stjórnarandstöðu, enda eru þeir gjörsneyddir aðlaðandi hugmyndum í pólitík.  Hraksmánarleg framganga VG í heilbrigðismálum með skyni skroppinn heilbrigðisráðherra hlýtur að verða þessum þröngsýna stjórnaflokki að fótakefli.  Það verða sóknarfæri fyrir víðsýn, sjálfstæð og borgaraleg öfl í næstu Alþingiskosningum.  

Bjarni Jónsson, 14.3.2021 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband