ETS-kerfi ESB er óþörf byrði

Það er ekki aðeins á sviði bóluefnaútvegunar, sem hérlendum búrókrötum, höllum undir Evrópusambandið, ESB, ásamt óstyrkum stjórnmálamönnum, tókst að hengja íslenzku þjóðarskútuna aftan í draugaskip Evrópu, heldur var það einnig gert í loftslagsmálunum á sinni tíð, þótt hér séu losunarmál koltvíildis með allt öðrum hætti en í ESB. Þessi undarlega staða gæti hafa myndazt vegna þrýstings frá hinum EFTA-ríkjunum í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) um að fylgja leiðsögn búrókratanna í Brüssel, svo gáfulegt sem það nú er, en í Noregi og Liechtenstein er stjórnkerfið undirlagt af fólki, sem hrifið er af þeirri tilhugsun að verða hluti af stórríki Evrópu, þótt t.d. norska þjóðin deili ekki þeim hagsmunatengdu viðhorfum "elítunnar" með henni. Það er vert að hafa í huga núna á þjóðhátíðardegi Norðmanna, frænda okkar, "Grunnlovsdagen".  Í íslenzka utanríkisráðuneytinu er ekki fúlsað við slíkum "trakteringum" téðra búrókrata, hvað sem líður drýldni og sjálfshóli fyrir sjálfstæðisviðleitni þar á bæ.  

Þann 8. maí 2021 birtist baksviðsfrétt Þórodds Bjarnasonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fanga kolefni en greiða samt".

 Hún hófst þannig:

"Ef íslenzk álver taka þátt í þróun og nýtingu tækni, sem fangar koldíoxíð varanlega, þá þurfa þau engu að síður að greiða milljarða í losunargjöld innan ETS-kerfisins, viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir.  Að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls, samtaka álframleiðenda, vantar hvata í ETS-kerfið til að þróa og tefla fram nýjum lausnum, þrátt fyrir að slíkur hvati hafi verið frumforsendan fyrir því, að kerfinu hafi verið komið á fót."

Þetta sýnir, að ETS-kerfið hentar illa við íslenzkar aðstæður, enda er það sniðið við að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni, þar sem skórinn kreppir einmitt í ESB.  Sá hlutur er sem kunnugt er næstum 100 % á Íslandi. 

Fyrir álver eru ýmsir kostir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en róttækasta leiðin er að leysa kolaskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með eðalskautum (t.d. úr keramik).  Ef tilraunir risanna, Rio Tinto og Alcoa, sem þeir hafa sameinazt um, takast með þetta, má búast við, að þeir muni reisa nýjar verksmiðjur með þessari nýju tækni, þótt raforkunotkunin per áltonn muni að öllum líkindum verða meiri en nú er til að vega upp á móti hitamyndun  frá bruna kolaskautanna.

Að óbreyttu gerir ETS gjaldkerfið íslenzku álverin væntanlega ósamkeppnishæf við ný kolefnisfrí álver.  Risafjárfesting af þessu tagi er ekki fýsileg fyrir álverseiganda, sem er aðeins með raforkusamning til 2036. Hefur Landsvirkjun reynt að hvetja til þessarar þróunar á Íslandi með því að bjóða hagstæða langtímasamninga til kolefnisfrírra álverksmiðja ?  Í mekki fagurgalans heyrist þó ekkert um raunhæf verkefni.  Þess vegna ríkir stöðnun í íslenzkri iðnvæðingu.  Orðin ein duga skammt.

"Losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er hvergi minni en á Íslandi [vegna innlendrar þróunar kerstýritækni og árvekni starfsmanna - innsk. BJo]. Þrátt fyrir það bera álverin kostnað af sinni losun, en ekki álver í Kína, sem knúin eru með kolaorku og losa því tífalt meira.  Ástæðan er sú, að ETS-kerfið nær einungis til evrópskra álvera.  Hættan, sem skapast við það, er, að álframleiðslan flytjist út fyrir álfuna, þar sem kolefnisfótsporið er stærra, en ekki þarf að greiða fyrir losunina."

ETS-kerfið hentar illa iðnaði, sem er færanlegur og stendur í alþjóðlegri samkeppni.  Kerfið hefur unnið gegn upphaflegum stefnumiðum með þessum "kolefnisleka"; það er vanhugsað, af því að gríðarlegar fjárfestingar og tækniþróun þarf til orkuskipta í iðnaði.  Á sama tíma er ETS mikil byrði á fyrirtækjunum, og þau hafa þess vegna ekki bolmagn til orkuskiptanna.  (Meginstarfsemi Rio Tinto og Alcoa er utan EES.) 

Það væri mun eðlilegra að umbuna fyrirtækjum, sem hafa lágmarkað sína losun niður í tæknilega mögulegt gildi, með því að sleppa þeim undan ETS um hríð (einn áratug) til að auðvelda þeim að þróa og innleiða nýja, kolefnisfría tækni.  

Síðan í apríl 2020 hefur álverð á markaði LME hækkað um 75 % og nálgast þá 2600 USD/t Al.  Spár hafa sézt um 3000 USD/t Al árið 2021.  Skýringin er sú, að framleiðsla hvers kyns varnings, þ.á.m. bifreiða, er með vaxandi hlutdeild áls af orkusparnaðar ástæðum, og Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu sinni af mengunarástæðum og eru nú orðnir nettó innflytjendur áls.  Öðru vísi mér áður brá.

Álver hvarvetna eru þess vegna að fara upp í fulla framleiðslugetu og jarðvegur að skapast til að auka framleiðslugetuna.  Hvernig bregðast Íslendingar við þeirri nýju stöðu ?  Á að grípa gæsina á meðan hún gefst, eða á að sitja á gerðinu, horfa í gaupnir sér og tauta, að orkulindir landsins séu að verða uppurnar ?  Hvar er sóknarhugurinn í verki ? Það væri mesta fásinna að gefast þannig upp fyrir afturhaldssjónarmiðum hérlendis, sem einkennast af svartagallsrausi í hvert sinn, sem taka á til hendinni við framkvæmdir, sem leiða til nýrrar verðmætasköpunar, sem veigur er í. Verði slík sjónarmið ofan á, geta atvinnuvegir landsins ekki veitt vaxandi þjóð atvinnu og þá velmegun, sem mikil spurn er eftir.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband