Sér undir iljar sósíalista

Heilbrigðisráðherra hefur verið rekin á flótta frá stefnu sinni um ríkisvæðingu skimana og rannsókna á sýnum teknum úr konum við leit að krabbameini.  Rannsóknir þessar voru áður stundaðar hjá Krbbameinsfélaginu, en Landsspítalinn var alls ekki í stakkinn búinn að taka við þessum rannsóknum, svo að sýnin voru send utan til Danmerkur. Þjónusta Dananna var ófullnægjandi og hætta talin á ruglingi, enda virtust sýni jafnvel týnast. 

Gösslaragangur ráðherrans við þessa valdsmannslegu yfirtöku á viðkvæmri þjónustu er yfirgengilegur, og má hiklaust segja, að nú sé mælirinn fullur varðandi mistök þessa ráðherra. Það voru skjólstæðingarnir, konurnar, sem í hlut áttu, sem með einurð sinni og samstöðu hröktu ráðherrann á flótta frá fyrri ákvörðun um ríkisvæðinguna, svo að nú mun Krabbameinsfélagið fá þessi verkefni á ný, ef rétt er skilið. 

Þegar ráðherrann tílkynnti uppgjöf sína í þessu máli, fór hún illa að ráði sínu, því að hún axlaði ábyrgðina ekki sjálf, heldur kenndi Kófinu (C-19) um og miklum önnum Heilsugæzlu höfuðborgarsvæðisins þess vegna.  Þetta var lítilmannlegur og lúalegur gerningur af hálfu ráðherrans, því að Heilsugæzla höfuðborgarsvæðisins með Óskar Reykdalsson í broddi fylkingar lék ekki aðalhlutverkið í þessum sorgarleik, heldur ráðuneytið.  Þessi uppákoma segir meira en mörg orð um trúverðugleika og persónuleika þessa sósíalista á ráðherrastóli. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sami ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur reynt að svelta stofulækna til uppgjafar.  Það er þyngra en tárum taki, að ríkisvaldið skuli grafa undan einni af þremur meginstoðum heilbrigðiskerfisins. Aðförin er ekki bara brot gegn atvinnuréttindum stofulæknanna, heldur hlýtur minni þjónusta þeirra að leiða til verra heilsufars skjólstæðinganna og aukins álags á heilsugæzluna og sjúkrahúsin, sem ekki máttu við meira álagi, sízt í Kófinu.

Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, ritaði m.a. um þetta í Morgunblaðið 1. júlí 2021 undir fyrirsögninni:

"Vandinn sem aldrei var til".

Greinin hófst þannig:

"Því hefur ranglega verið haldið fram af yfirvöldum, að starfsemi stofulækna aukist í sífellu og á hana verði að koma böndum.  Stjórnvöld hafa gengið hart fram í því að sauma að þjónustunni með neikvæðni og röngum upplýsingum og hafa ekki hlustað á álit og ráðgjöf lækna.  Ferlið við gerð Heilbrigðisstefnu til 2030 og ráðgjöf kvensjúkdómalækna og rannsóknarlækna varðandi leghálsskimanir eru 2 skýr dæmi.  Fleiri aðferðum hefur verið beitt, eins og stöðvun á nýliðun stofulækna með ólögmætum hætti árin 2015-2018.  Sú aðgerð var svo úrskurðuð ólögmæt í héraðsdómi og henni hnekkt.  Einnig hafa stjórnvöld lagt stein í götu starfseminnar með langvarandi samningsleysi, en síðast var samið við stofulækna árið 2013, og enginn samningur hefur verið í gildi frá því í lok árs 2018."  

Það er með hreinum ólíkindum, að ríkisvaldið (heilbrigðisráðuneytið) skuli koma fram af slíkri óbilgirni gegn stofulæknum, að halda mætti, að þeir væru afætur, sem þyrfti að fjarlægja.  Þessu verður að linna, og það verður að hleypa heilbrigðri skynsemi að.  Það verður að setja í opinbera heilbrigðisstefnu, að heilbrigðisgeirinn skuli samanstanda af 3 stoðum, ríkisspítölum, þar af einu háskólasjúkrahúsi, heilsugæzlustöðvum, sem geti verið með frjálst rekstrarform, og einkareknum læknamiðstöðvum/stofum, þótt ríkissjóður fjármagni alla starfsemina og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiði fyrir þjónustu og hafi eftirlit með tveimur síðast nefndu. Hið opinbera skuli jafnframt beina verkefnum í þann farveg, þar sem kostnaður er lægstur að uppfylltum öllum gæðakröfum.

Þetta þýðir, að sjúkrahúsin verða að hafa kostnaðarbókhald, sem gerir SÍ kleift að bera saman kostnað við sérfræðieiningar stofulækna.  Tækniþróunin er í þá átt, að tæknilega er hægt að aflétta sífellt fleiri aðgerðum af t.d. háskólasjúkrahúsinu en áður, og það ber hiklaust að gera, ef það er hagstætt fyrir skattborgarana.  Þetta ber að njörva niður í nýrri heilbrigðisstefnu.  Það er mjög líklegt, að þannig mætti með hagkvæmum hætti útvista aðgerðum af spítölum sem nemur a.m.k. 20 % fjölgun sérfræðieininga árið 2020 eða 4,3 M sérfræðieininga.  Með því að ríkisvaldið semji við stofulækna og nýti sér þjónustu þeirra, eins og eðlilegt má telja, gæti sá kostnaður ríkissjóðs hækkað um 50 % með ofangreindri fjölgun sérfræðieininga um 20 %, en hafa verður í huga, að hann yrði samt undir 6 % af heildarútgjöldum ríkissjóðs til heilbrigðismála. Það er líklegt, að finna megi út hagkvæmustu verkaskiptinguna út frá hagsmunum ríkissjóðs og að hún muni jafngilda hlutdeild stofulækna, sem er hærri en 6 %, e.t.v. 6-10 % af heildarkostnaði við heilbrigðiskerfið.

"Nú hefur enginn samningur verið við sérfræðilækna í 2,5 ár, og starfsemin hefur minnkað samfellt frá árinu 2016.  Slæmar afleiðingar þessarar stefnu stjórnvalda eru nú að koma fram.  Versnandi aðgengi, lenging á biðlistum og aukið álag á aðra þætti kerfisins. Þetta ásamt óvissu um framtíð starfseminnar er meðal ástæðna þess, að gamalgrónar læknastöðvar [t.d. Domus Medica - innsk. BJo] eru að loka.  Meðalaldur sérfræðilækna á stofu hækkar sífellt (nálgast 60 ár), og nýliðun lækna og nýjungar í læknisþjónustu verða of hægfara."

Ósjaldan heyrast stjórnmálamenn skjalla þekkingariðnaðinn og telja hann til vaxtarbrodda atvinnulífsins.  Í reynd eru þessir sömu stjórnmálamenn dragbítar á þróun læknisfræðinnar á Íslandi, því að einkageirinn knýr oft þá þróun.  Nýliðun stéttarinnar hefur verið heft, og íslenzkir sérfræðingar í útlöndum sjá ekki mikla starfsmöguleika, þar sem Landsspítalann vantar nýtt húsnæði með nútímalegri starfsaðstöðu og einkageiranum er haldið í spennitreyju, sem stöðugt er hert á með ruddalegum hætti af forstokkuðum sósíalista, sem vill þessa starfsemi feiga. 

"En hvað skyldi þessi niðurskurður skýra mikið af vaxandi álagi, sem nú er á aðra pósta heilbrigðiskerfisins ?  Álagi, sem sumir þeirra eru að kikna undan, bráðadeild LSP og geðþjónustan. Áhugavert væri að meta hugsanlegt tjón, sem sjúklingar verða fyrir vegna þessa og eins áhrifin á starfsumhverfið.  Hvort tveggja gæti verið verulegt." 

Það eru tengsl á milli allra þessara þátta heilbrigðisgeirans og læknastofustarfseminnar.  Ef dregið er úr síðast nefndu starfseminni, eins og raunin hefur verið undanfarin ár með sérstakri tilstuðlan heilbrigðisráðuneytisins, eykst álagið á hina þættina.  Heilbrigðisráðherra hefur magnað það ófremdarástand, sem nú hrjáir heilbrigðisgeirann.  Í lýðræðisþjóðfélagi ætti auðvitað að setja slíkan ráðherra af hið bráðasta, en forsætisráðherra heldur yfir henni hlífðarskildi. Þennan hlífðarskjöld verða kjósendur að rífa burt í kosningunum í haust, ef þeir eiga að eygja von um bætta tíð í þessum efnum, með því að hætta stuðningi við Vinstri hreyfinguna grænt framboð og reyndar aðra vinstri flokka, en færa stuðning sinn yfir á þá flokka, sem lofa stuðningi við sterkt og fjölbreytilegt heilbrigðiskerfi. 

Nýjasta hneykslið í ranni heilbrigðisráðherra er kaldranaleg hundsun hennar á ákalli ljósmæðra við Fæðingardeild Landsspítalans, en þar og á öðrum fæðingardeildum ríkisins hefur nú skapazt neyðarástand vegna fjölgunar fæðinga í landinu og fækkunar ljósmæðra.  Það er hræðilegt fyrir landsmenn að búa við stjórn, sem engan veginn er vandanum vaxin á viðkvæmu sviði. 

Að lokum skrifaði Þórarinn Guðnason:

"Þessari óheillaþróun þarf að snúa við, taka upp nýjungar og liðka fyrir nýliðun.  Starfsöryggi og rekstrarumhverfi stofulækna þarf að bæta.  Augljóslega þarf að semja við lækna og bæta við verulegum fjármunum í þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar, rétt eins og fjármunir hafa verið auknir til heilsugæzlu og sjúkrahúsa. 

Þetta þarf að gera áður en fleiri læknastöðvar loka og áður en fleiri læknar gefast upp á stofurekstri og snúa sér að öðrum verkefnum. 

Það má einfaldlega ekki lengur láta reka á reiðanum með sérfræðilæknisþjónustuna utan spítala.  Hún hefur setið eftir, og nú er hætt við, að sjúklingarnir verði skildir eftir með sárt ennið vegna heimatilbúins vanda, sem í raun var aldrei til."  

Hernaðinum gegn heilbrigðiskerfinu verður að linna.  Heilbrigðisráðherra hefur málað skrattann á vegginn af fullkomnu ábyrgðarleysi og hreinræktuðum fordómum í garð starfsemi stofulæknanna.  Að þessu leytinu má líkja henni við riddarann sjónumhrygga, don Kíkóta, sem barðist við vindmyllur.  Ráðherrann kann ekki að skammast sín.  Það er eiginlega þyngra en tárum taki, og ætti aldrei að þurfa að gerast hér, að formaður Læknafélags Reykjavíkur sjái sig knúinn til að skrifa svona grein, en hafi hann þökk fyrir að útskýra stöðuna fyrir almenningi. 

Ábyrgir Alþingismenn (þar eru því miður flautaþyrlar líka) hljóta að fylgjast með þeirri grafalvarlegu stöðu, sem heilbrigðisráðuneytið hefur skapað í heilbrigðismálum. Einn þeirra, Óli Björn Kárason, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. apríl 2021, undir fyrirsögninni:  

"Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi".

Þar stóð m.a.:

"Sárast er að horfa upp á, hvernig skipulega er verið að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum.  Almenningur verður að sætta sig við þjónustu innan ríkisrekins tryggingakerfis á sama tíma og efnafólk fær skjóta og góða þjónustu sjálfstætt starfandi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.  Fyrirheitið um, að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag verður án innihalds.  Ég óttast, að þá bresti ýmislegt annað í íslenzkri þjóðarsál. 

Tregða heilbrigðisyfirvalda til að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila er óskiljanleg.  Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús aukið." 

Þessi texti þingmannsins gefur vonir um, að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki aftur að ríkisstjórn, þar sem forstokkaður sósíalisti fær að leika lausum hala og rústa heilbrigðiskerfinu í nafni sósíalistískrar hugmyndafræði lítils þingflokks.  Næst verður að njörva niður endurreisn heilbrigðiskerfisins með aukinni þátttöku þriðju stoðarinnar, einkarekinna læknastofa og læknamiðstöðva, ef þær verða hagkvæmasti kosturinn fyrir sjúklingana og skattborgarana.

Óli Björn hélt áfram:

"Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra fábreytileika og aukinna útgjalda.  Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda.  Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri." 

Það er ljóst af þessu, að ÓBK gerir sér grein fyrir stöðunni í bráð og lengd, sem upp er komin í íslenzka heilbrigðiskerfinu og er bein ógn við öryggi sjúklinga og hagsmuni skattborgaranna. Hann mun áreiðanlega tala fyrir öflugri viðspyrnu í þingflokki sjálfstæðismanna, enda er hún í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.

Að lokum skrifaði ÓBK:

"Þegar yfirvöld skilja ekki, að læknavísindin eru þekkingariðnaður, sem nærist á fjölbreytileika, ekki sízt í rekstrarformi, er sú hætta raunveruleg, að í stað framþróunar verði stöðnun. Ríkisvæðing elur ekki af sér nýsköpun, tryggir ekki lífsnauðsynlega nýliðun, gengur gegn atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna, og kannski það, sem er verst: dregur úr þjónustu og öryggi við sjúklinga.

Er þetta sú framtíðarsýn, sem ætlunin er að kynna landsmönnum fyrir komandi alþingiskosningar ?"

Óli Björn Kárason hefur greinilega gert sér grein fyrir, hvert ráðherrann stefnir með heilbrigðiskerfið núna, og til hvers það mun leiða fyrir þjónustuna og þann, sem borgar, skattgreiðendur. Þá er góð von til þess, að aðrir þingmenn flokksins og jafnvel aðrir frambjóðendur flokksins muni vekja rækilega máls á núverandi óheillabraut ráðherrans og benda á aðra leið, leið fjölbreytni, betri þjónustu og atvinnufrelsis.  Sósíalistar mega ekki komast upp með að smygla stefnu sinni bakdyramegin inn á þjóðina.  Ef almenningur vill ríkisvæðingu heilbrigðisgeirans og ganga af stofustarfseminni dauðri með lengingu biðlista og lakari nýtingu fjármagns en með einkarekstri, sem nýtt getur tækniþróunina til að aflesta spítalana, þá kýs hann sósíalistana.  Að öðrum kosti kýs almenningur hina, sem eru opnir fyrir möguleikum einkarekstrar til bættrar þjónustu við sjúklinga og sparnaðar fyrir ríkissjóð. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband