Landbúnaður er undirstöðugrein

Nýlega kom fram hjá sérfræðingi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, að á Íslandi væri nú grundvöllur til að efla mjög kornræktina. Þetta taldi hann vera mikilvægt fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er áreiðanlega rétt hjá honum. 

Auk öryggissjónarmiðsins eru tvenns konar rök í viðbót, sem mæla með eflingu kornræktar, t.d. í stað innflutts skepnufóðurs. Þjóðhagslega er þessi kornrækt æskileg, því að hún sparar gjaldeyri. Aðgerðin er líka umhverfisvæn, því að hún minnkar flutninga til landsins, og hún minnkar þannig kolefnisspor íslenzka landbúnaðarins, en stjórnvöld hafa gert honum að kolefnisjafna sig fyrir árslok 2040. Var það gert í samráði við Bændasamtökin ?

Það er viðamikið verkefni, sem ekki má verða fjárhagslegur baggi á landbúnaðinum, þannig að hans prýðilegu vörur hækki í verði fyrir vikið og hann missi jafnvel markaðshlutdeild. 

Það hlýtur að vera nærtækt fyrir bændur að kolefnisjafna starfsemi sína með skógrækt. Þeir gætu t.d. heimilað Skógrækt ríkisins eða landshlutabundnum skógræktarfélögum að gróðursetja ungplöntur í landi sínu gegn því, að kolefnisbinding skógarins komi kreditmegin í kolefnisbókhald jarðarinnar, en skógræktarfélagið eigi skóginn, sem er á landi bóndans, í tiltekinn árafjölda og skuli halda honum við með grisjun og nýta hann samkvæmt nánara samkomulagi. 

Slík ný nýting á uppþurrkuðu, óræktuðu landi, ásamt kornyrkju, er ólíkt gæfulegri en sú dæmafáa vitleysa að breyta þessu landi í fúamýrar á ný með því að moka ofan í skurði að tilhlutan hins opinbera  Votlendissjóðs eða annarra. 

Þann 22. júlí 2021 birtist í Bændablaðinu fróðleg grein eftir Kára Gautason með fyrirsögninni:

"Bændur standa frammi fyrir tvöfaldri vá".

Þar stóð m.a.: 

"Bændur standa nú frammi fyrir tvöfaldri vá; annars vegar ógn loftslagsbreytinganna sjálfra, og svo hins vegar hugsanlegri ógn vegna vanhugsaðra ákvarðana stjórnvalda í loftslagsmálum. Þess vegna kann að vera ráð að borga strax, grípa til kostnaðarsamra ákvarðana og aðgerða þegar í stað að því gefnu, að það fáist metið í formi sanngjarnra mótvægisaðgerða." 

  Það eru ýmis áform hérlendis um að minnka kolefnislosun með framleiðslu vistvæns eldsneytis, lífdísils, repjuolíu (nepjuolíu) o.þ.h., sem bændur eru eðlilegir kaupendur að til að minnka kolefnisspor sitt, enda verði verð lífræna eldsneytisins samkeppnishæft við dísilolíuna. Sveitarfélagið þarf að losa bændur við úrgang, sem vonandi verður hægt að selja til væntanlegs sorporkuvers, svo að þeir þurfi ekkert að urða, enda er að ganga í gildi bann við slíku. Losun gróðurhúsalofttegunda frá dýrahaldinu er erfiðari viðfangs og þarfnast kolefnisjöfnunar að mestu. 

"Fyrirheit um að kolefnisjafna íslenzkan landbúnað á næstu 19 árum er tröllaukið verkefni, sem mun kosta mikið fé.  Það fé mun bætast ofan á framleiðslukostnað íslenzkra búvara, svo að samkeppnishæfni þeirra mun minnka, komi ekkert annað til. Íslenzkir bændur gætu framleitt kolefnishlutlaust kjöt, en það yrði svo dýrt, að neytendur myndu í hrönnum kaupa ódýrara innflutt kjöt, sem ekki væri framleitt með jafnströngum kröfum.

Niðurstaða þeirrar jöfnu yrði hin versta fyrir þjóðarbúið, kolefnisútblástur minnkaði ekki neitt, en afkomu íslenzks landbúnaðar hefði verið kollvarpað." 

 Það, sem þarna er lýst, er angi af asanum, sem verið hefur á forsætisráðherra og umhverfisráðherra við að skuldbinda landsmenn til að minnka kolefnislosun á undan ýmsum öðrum án þess að kostnaðarmeta áætlunina fyrst.  Óþarft er að taka fram, að engu mundi breyta fyrir hlýnun jarðar, þótt hin örlitla losun Íslands mundi minnka aðeins hægar en sem nemur 0 nettólosun árið 2040.  Flas gerir engan flýti. 

"Landbúnaðarráðherra Þýzkalands lýsti því á hinn bóginn yfir síðastliðinn vetur, að nauðsynlegt yrði að setja græna tolla á innflutt matvæli, til þess að verja lífsviðurværi bænda í Evrópu. Hið sama er uppi á teninginum þar ytra og hér.  Kolefnisjafna á þýzkan landbúnað eigi síðar en 2050 - á meðan Íslendingar stefna að árinu 2040.  Þjóðverjar gefa sér sem sagt 10 árum lengri tíma en Íslendingar."

Forsætisráðherra og umhverfisráðherra er meira í mun að baða sig í sviðsljósinu, einnig erlendis, vegna háleitra markmiða um kolefnisfrítt Ísland og hika ekki við að leggja þær fjárhagsbyrðar á landsmenn, sem þetta gort þeirra kostar.  Það er ábyrgðarlaust að skuldbinda landsmenn fram í tímann án þess að vita, hversu hár reikningurinn verður.  Umgengni vinstri grænna við fé landsmanna er ámælisverð. 

Í lokin skrifaði Kári Gautason:

"Að mínu viti er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir, að kostnaður við að kolefnisjafna búvörur hefti íslenzkan landbúnað sú að drífa í boðuðum verkefnum og ná árangri sem fyrst.  Jafnframt þyrfti að setja fram það eðlilega og ófrávíkjanlega skilyrði gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla og þeirra, sem framleidd eru hérlendis.

Eitt ber þó að hafa í huga: verði íslenzkur landbúnaður ekki loftslagsvænni en sá, sem við keppum við - þá mun þessi aðferð ekki virka.  Því þarf að kappkosta að ná forskoti í loftslagsmálum; það er einfaldlega lífsspursmál fyrir íslenzkan landbúnað.  Sé ekki hugsað stórt og af framsýni í þessum efnum með því t.d. að auka framleiðni og afurðasemi gripa, koma á fót kolefnissamlagi, tryggja orkuskipti, innleiða græna tækni og gervigreind, munu margar sveitir verða eins og býli bóndans, sem nefndur var í byrjun, eyðibýli." 

Bændasamtökin verða að vinna með stjórnvöldum að því, að kolefnisjöfnunin fari fram án þess að draga úr samkeppnishæfni landbúnaðarins og helzt án þess, að hún leiði til hækkana á landbúnaðarvörum til neytenda. Ekki má taka nein skref án vandaðrar kostnaðaráætlunar og fjármögnunar, sem ekki raskar hag bænda. Bóndi er bústólpi - bú er landstólpi, því skal hann virtur vel. 

Það er mikið undir í kosningunum í haust og mikilvægt, að landsbyggðarfólk velji inn á þing fulltrúa, sem raunverulega bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, en eru ekki ofurseldir hugmyndafræði um að innlima Ísland í ríkjasamband Evrópu eða með brenglaða sýn á samlífi mannsins við íslenzka  náttúru. 

Hrafnseyri við Arnarfjörð júní 2011  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni og takk fyrir þarfa og góða grein.

Meðan landbúnaður er utangarðs í stjórnkerfinu er ekki mikils að vænta frá stjórnvöldum, til eflingar og framfara í landbúnaði. Allt rekst þar á annars horn.

Sem dæmi um stjórnleysið eru plast mál og mengun frá því. Þegar bóndinn kaupir rúlluplast greiðir hann skilagjald af því í ríkissjóð. Að notkun lokinni fær hins vegar bóndinn ekki skilagjaldið til baka, heldur lendir það í höndum þeirra er safna því saman til förgunar. Þetta leiðir af sér að einstaka bændur sjá engan hag í því að halda vel um notað rúlluplast, þó vissulega fjöldinn geri það. Einn bóndi getur því sett ásýnd heillar sveitar í svaðið. Annað sem þetta fyrirkomulag veldur er að bóndinn hefur ekkert um það að segja hvert hans notaða plast fer, hvort það fer til endurvinnslu hér heima og hljóti þannig framhaldslíf, eða hvort því er troðið í gáma, flutt til Svíþjóðar og nýtt þar sem eldsneyti í ruslaorkuverum þeirra. Þetta er aðeins eitt dæmi um stjórnleysi stjórnvalda og fæð þeirra til einnar undirstöðu atvinnugreinar landsins okkar. Fjölmargt fleira mætti nefna, sem segir nákvæmlega sömu sögu. Stjórnmálamenn tala gjarnan vel til landbúnaðar, einkum á tímum atkvæðaveiða. Minna fer fyrir framtakinu hjá þeim!

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 31.7.2021 kl. 23:30

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, mikið rétt, Gunnar.  Nú er tekin til starfa plastendurvinnsla í landinu, nánar tiltekið í Hveragerði, ef ég fer rétt með.  Auðvitað eiga nú bændur að fá skilagjald heyrúlluplasts endurgreitt fyrir að safna því saman.  Stjórnvöldum ber skylda til að leggja meiri rækt við landbúnaðinn af heilnæmisástæðum og af öryggisástæðum, svo að ekki sé minnzt á umhverfismálin.

Bjarni Jónsson, 1.8.2021 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband