"Íslenzka kvótakerfið er umhverfisvænt"

Umræðurnar um loftslagsmálin og C-19 eiga það sammerkt, að þær einkennast af rörsýn. Það er t.d. fleira, sem ógnar lífríki jarðar en hlýnun andrúmsloftsins, og má nefna fækkun tegundanna í lífríki jarðar.  Það er líka fjölmargt annað en veiran SARS-CoV-2, sem er heilsufarsógn fyrir mannkyn, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarríkjum.  Í baráttunni við þessa kórónuveiru hafa t.d. aðrar bólusetningar setið á hakanum í ýmsum þróunarríkjum, og ýmsir biðlistar hafa lengzt í heilbrigðiskerfum þróaðra ríkja.

Mannkynið reiðir sig á heilbrigð vistkerfi og neytir afurða þeirra s.s. fisks, kjöts, korns, timburs og trefja á borð við bómull og silki. Með ljóstillífun taka tré og aðrar jurtir til sín koltvíildi, CO2, og gefa frá sér ildi (súrefni), O2. Upptaka þeirra af CO2 nemur um 11 mrdt/ár eða um 27 % af losun mannlegrar starfsemi.  Höfin sjúga í sig 10 mrdt/ár og súrna fyrir vikið með neikvæðum áhrifum á lífríkið. 

Virkni vistkerfanna, sem maðurinn nýtir sér, er algerlega háð fjölbreytninni innan þeirra.  Síðan á 10. áratugi 20. aldarinnar hafa rannsóknir sýnt hrörnun fjölbreytni lífríkisins, og vísindamenn sjá nú fram á útdauða margra dýra- og plöntutegunda.  Það yrði í 6. skiptið, sem fjöldadauði tegunda yrði á jörðunni, en í þetta skiptið yrði hann ólíkur fyrri skiptum, m.a. vegna skaðlegra áhrifa hinnar ágengu tegundar "homo sapiens". 

Ef fjölbreytt vistkerfi jarðarinnar breytast í fábreytt vistkerfi, jafngildir slíkt yfirvofandi tilvistarógn fyrir mannkynið og miklum mannfelli. Þessi tilvistarógn er alvarlegri og nær í tíma en hlýnun jarðar, en athyglin og umfjöllunin, sem hún fær, er aðeins brot af athygli og umfjöllun loftslagsbreytinganna. Samt hefur IPBES (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services) gefið út stöðuskýrslur, síðast 2019, um yfirvofandi hrun vistkerfa. Aðeins stefnubreyting í átt að sjálfbærum landbúnaði og tækniþróunin geta dregið úr áfallinu, sem framundan er.  Neyðin af völdum kórónuveirunnar er smáræði hjá þeirri hungursneyð, sem yfir dynur, ef vistkerfi hrynja. 

Í þessu ljósi rennur upp fyrir mörgum mikilvægi íslenzkrar matvælaframleiðslu fyrir fæðuöryggi landsmanna.  Hún er sem betur fer sjálfbær, hvað vistkerfið varðar, bæði á landi og sjó.  Kornyrkju og grænmetisræktun er hægt að auka mikið, en þá þurfa stjórnvöld að skilja sinn vitjunartíma, og fiskeldi í sjókvíum og landkerum er nú þegar í miklum vexti. Þetta verður auðvitað mikilsvert framlag Íslendinga til framleiðslu próteinríkrar fæðu, því að fiskafli úr heimshöfunum fer minnkandi, og um þriðjungur nytjastofna á heimsvísu er ofveiddur um þessar mundir. 

Í Bændablaðinu 8. júlí 2021 var viðtal við dr Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, um íslenzkan sjávarútveg undir sömu fyrirsögn og þessi vefpistill:

""Þegar ég var á sjó um 1990, var fiskirí lélegt.  Það þótti gott að fá 10-12 t/shr, og þá var fiskurinn miklu smærri en hann er í dag. Ég sé þetta í gögnum, sem ég hef rannsakað", segir Stefán.

Nú eru 30 m togbátar að fylla sig á 2-3 dögum, þetta 40-80 t.  Þetta hefði ekki verið hægt að gera 1990.  Þetta er gríðarleg breyting í veiðum á þorski á þessum tíma, en ég hef mest rannsakað þorskveiðar af botnfisktegundum. Þetta hefur líka mikil og jákvæð áhrif á vinnslurnar.  Þær afkasta meiru fyrir vikið og verða hagkvæmari", bætir Stefán við." 

 Það hafa ýmsir horn í síðu kvótakerfisins og færa fram ýmis hraðsoðin rök, sem eru illa ígrunduð, t.d. að árangur kvótakerfisins sé harla lítill, af því að veiðin sé engu meiri en 1980. Þá voru hins vegar miklu fleiri skip að skaka á miðunum og mikilvægir stofnar á borð við þorsk á barmi hruns, sbr "Svarta skýrslan" 1976.  Veiðar og vinnsla voru fjarri því jafnhagkvæmar og nú og fiskurinn minni. Þjóðin öll nýtur góðs af velgengni sjávarútvegsins, þótt "latte-lepjandi" íbúar í 101 R. beri ekki skynbragð á það, eins og endurspeglast í fáránlegri stefnumörkun ESB-flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, hverra stefnumörkun um að stuðla að inngöngu Íslands í Evrópusambandið - ESB mun veita útgerðum ESB-landanna kost á að bjóða í aflaheimildir á Íslandsmiðum að undangenginni þjóðnýtingu núverandi aflaheimilda, ef þessir flokkar fá sínu framgengt.  Hér mun allt fara í bál og brand, ef/þegar hafizt verður handa um að innleiða þessi ósköp.

"Alkunna er, að olíunotkun íslenzks sjávarútvegs hefur dregizt saman um 45 % frá 1990-2017. Þetta hefur gerzt á sama tíma og losun í fiskveiðum heimsins hefur aukizt um 28 % frá 1990-2011.  Það, sem skýrir þetta, segir Stefán [vera], að "með kvótakerfinu var sókn takmörkuð og fyrirtækin neyddust til að fækka skipum og sameina aflaheimildir; m.ö.o. að hagræða.  Þannig lækkuðu þau kostnað og urðu arðbær.  Stóri ávinningurinn var síðan, að veiðistofn mikilvægustu tegundarinnar, þorsksins, stækkaði mikið, og auðveldara varð að sækja þorskinn. Með þessu mikla fiskiríi og fækkun skipa minnkaði olíunotkun Íslendinga við veiðarnar. Þetta er algjör bylting, því [að] afli á sóknareiningu hefur aukizt mikið.  Við förum niður, en heimurinn upp.  Til þess að minnka losun í heiminum þarf að gera tvennt í fiskveiðum: að taka upp kvótakerfi og byggja upp fiskistofna.  Allir umhverfisverndarsinnar ættu því að styðja íslenzka kvótakerfið !", sagði Stefán að lokum." 

  Ef síðasta fullyrðingin er rétt, er andstæðan líka rétt: enginn umhverfisverndarsinni ætti að styðja sóknarmarkskerfi eða sóknardagakerfi.  Ástæðan er t.d. sú, að þessi kerfi fela ekki í sér hvata til að draga úr sóknarkraftinum og þar með fækka skipum og gera kleift að draga úr olíunotkun á hvert veitt tonn í sama mæli og aflamarkskerfið. Færeyingar hafa nokkuð beitt sóknarstýringu án viðunandi árangurs fyrir veiðistofnana og afkomu útgerðanna.

Hérlendis má segja, að markaðurinn stýri sókninni og samkeppnin veldur því jafnframt, að útgerðir leitast við að hámarka tekjur og lágmarka kostnað á sóknareiningu. Afleiðingin af öllu þessu er, að hin "ósýnilega hönd markaðarins" (ekki "hönd Guðs", eins og Maradonna útskýrði eitt af mörkum sínum) hámarkar verðmætasköpun úr auðlind þjóðarinnar í kringum landið, og eigandinn (þjóðin) ber þannig mest úr býtum til lengdar án þess að þurfa að leggja fram nokkurt áhættufé í atvinnurekstur sjálfur.  Það hefur komið fram hjá einum af talsmönnum uppboðsleiðarinnar, Daða Má Kristóferssyni, hagfræðingi og varaformanni Viðreisnar, að hann telji ekki, að tekjur ríkisins af sjávarútvegi mundu vaxa, þótt uppboðsleiðin yrði farin.  Hér skal fullyrða, að til lengdar mundu þær minnka vegna þess, að langtímahugsun hverfur, fjárfestingar skreppa saman og hægir á framleiðniaukningu knúinni áfram af tækniþróun.  Samkeppnisstaðan versnar af þessum sökum, sem leiðir til minni tekna og jafnvel minnkandi markaðshlutdeildar. 

Tilraunastarfsemi með 2. og 3. flokks stjórnkerfi í stað 1. flokks stjórnkerfis er heimskuleg ævintýramennska, sem þjónar annarlegum sjónarmiðum á borð við að koma íslenzka sjávarútveginum á kné í von um, að þá opnist glufa í varnarvegginn gegn því að taka aðlögun Íslands að Evrópusambandinu á nýtt stig, sem endi með fullri aðild, þannig að á ný færist viðamikil ákvarðanataka um málefni Íslands út fyrir landsteinana, í þetta sinn til yfirþjóðlegs valds. Þau, sem fyrir þessu berjast, beita raunar svo lítilfjörlegum málflutningi, að umræða um þetta virðist vera hrein tímasóun, en stjórnmálaflokkarnir, sem þetta setja á oddinn, eru þó alls ekki áhrifalausir, hvorki á Alþingi né í sveitarstjórnum. 

Árangur landvinnslu sjávarafurða við að draga úr olíunotkun er mjög athyglisverður, því að þar hafur olíunotkun minnkað á 22 ára tímabili 1995-2017 úr 200 kt/ár í 20 kt/ár eða um 90 %, og væri minnkunin enn meiri, ef flutnings- og dreifikerfi raforku, einkum á NA-landi, væri í stakkinn búið að standa undir orkuskiptunum. Ófullnægjandi opinberir innviðir standa þróun samfélagsins fyrir þrifum, en aðgæzlulausir stjórnmálamenn gleyma því, þegar þeim liggur mikið á við að setja landsmönnum háleit markmið. 

 Olíunotkun fiskiskipanna hefur minnkað enn þá meira á sama tímabili eða frá 800 kt/ár niður í 410 kt/ár eða um 390 kt/ár, sem eru um 49 %.  Þessi árangur er bein afleiðing af breyttu útgerðarfyrirkomulagi og breyttum viðhorfum innan útgerðanna, þ.e. einn af fjölmörgum ávinningum fiskveiðistjórnunarkerfisins og væri útilokaður með einhvers konar sóknarkerfi. 

Enn er eftir að mestu að nýta lífræna olíu á skipin.  Líklega er hægt losna að töluverðu leyti við innflutta olíu á skipunum, ef vel tekst til við olíugerð innanlands, t.d. úr repju.  Ef tilraunir með að vinna CO2 úr kerreyk stóriðjunnar heppnast og verða innan kostnaðarmarka, er ólíkt gæfulegra að nýta þetta koltvíildi ásamt vetni til eldsneytisframleiðslu en að dæla því ofan í jörðina við ærnum tilkostnaði. 

Þótt sjávarútvegurinn hafi náð frábærum árangri á undanförnum árum á fjölmörgum sviðum, er ekki þar með sagt, að hann hafi búið við fjárhagslega sérlega hvetjandi atlæti stjórnvalda til þess t.d. að minnka olíunotkun sína. Þannig skrifaði Sigurgeir B. Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum í Bændablaðið 8. júlí 2021: 

"En það eru ekki bara lög og reglugerðir að þvælast fyrir [á "vegferð okkar að minni kolefnisútblæstri"].  Skattar hafa nefnilega áhrif líka.  Það var þannig, að þegar Vinnslustöðin hf lét byggja Breka VE, þá var aðalforsenda nýsmíðinnar olíusparnaður upp á 150 MISK/ár vegna stærri, hæggengari og hagkvæmari [með minni orkutöpum - innsk. BJo] skrúfu.  Af þessum 150 MISK/ár sparnaði fer 33 % í hærra veiðigjald á greinina eða 50 MISK/ár.  Skattar hafa einfaldlega áhrif á hegðun fyrirtækjanna."

          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Frábær pistill og umhugsunarverður , takk kollege Bjarni

Halldór Jónsson, 6.8.2021 kl. 04:50

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, kollega Halldór.  Víðsýni vantar við stefnumörkun ríkisins á nokkrum mikilvægum sviðum um þessar mundir.  

Bjarni Jónsson, 6.8.2021 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband