23.8.2021 | 11:27
Hvað kostar að ná kolefnishlutleysi
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzk stjórnvöld hafa sett landsmönnum það markmið að verða kolefnishlutlausir, þ.e. að starfsemi þeirra á landi valdi engri nettó losun gróðurhúsalofttegunda (CO2-ígilda), árið 2040. Árið 2019 (2020 var afbrigðilegt ár) nam jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga 43,3 PJ (Peta Joule samkvæmt talnaefni Orkustofnunar-OS-2021-T008-01) eða 16,2 % af heildarorkunotkun landsmanna. Mönnum til glöggvunar nam þetta rúmlega 89 % af vinnslu vatnsorkuveranna. Þetta er ekkert smáræði, þótt það að tiltölu sé mun minna en að jafnaði í öðrum löndum.
Það verður að koma sjálfbær orka í staðinn, raforka, og þessi lokarafvæðing orkukerfisins á Íslandi mun nema um 6,7 TWh/ár m.v. stöðuna 2019, og nemur þessi rafvæðing um 34 % af raforkunotkun landsmanna 2019. Gera má ráð fyrir, að uppsett afl slíkra virkjana þurfa að vera um 1000 MW=1,0 GW til að knýja bílaflotann, vinnuvélarnar, skip og báta og innanlandsflugið, og væntanlega tæplega 9 TWh/ár, ef millilandaflugi og millilandasiglingum er bætt við.
Kostnaður við þessar virkjanir (1000 MW) gæti numið um mrdISK 350 og við flutnings- og dreifikerfið mrdISK 100 að meðtöldum jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands, sem verður að koma samhliða þessari miklu rafvæðingarviðbót, til að tryggja bæði æstæðan og kvikan stöðugleika raforkukerfisins.
Kostnaður við hleðsluaðstöðu í höfnum, á flugvöllum og við vegi ásamt áfyllistöðvum vetnis og lífeldsneytis, gæti numið mrdISK 100. Þá er ótalin vetnisverksmiðja og dreifikerfi vetnis. Alls eru þetta mrdISK 550. Bretar áætluðu fyrir nokkru, að orkuskiptin hjá sér mundu kosta mrdISK 900 á íslenzkan mannfjöldamælikvarða. Á Bretlandi verða orkuskiptin tiltölulega umfangsmeiri en hér, því að þeir þurfa að afnema kolaorkuver og gasorkuver og leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni og/eða vetni eða lífeldsneyti. Kostnaðaráætlunin mrdISK 900 þótti mörgum vanáætluð, svo að kostnaður Breta gæti að tiltölu orðið tvöfaldur kostnaður Íslendinga við orkuskiptin. Kostnaðurinn tæplega 30 mrdISK/ár er ekki óyfirstíganlegur, enda lendir hann að mestu á orkugeiranum og einkageiranum. Orkugeirinn er vel í stakkinn búinn. (Tal um að skipta Landsvirkjun upp er út í hött, því að hún er bundin af samningum um að standa við ákveðið afhendingaröryggi, sem hún getur ekki í bútum.) Svo er mikilli raforkunotkun á íbúa fyrir að þakka (uppsett afl 7,0 kW/íb).
Tvö risavaxin verkefni bíða jarðarbúa. Annað er að draga úr orkufátækt, og hitt eru orkuskiptin. Hvort tveggja er óhugsandi án gríðarlegrar rafvæðingar heimsbyggðarinnar, og þessi gríðarlega rafvæðing er óhugsandi án þess að nýta kjarnorkuna í stórum stíl. Þess vegna var kúvending Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, 2011, glapræði, en hún fékk Bundestag til að samþykkja það í tilfinningalegu uppnámi í kjölfar Fukushima-áfallsins í Japan að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands fyrir árslok 2022. Jafnframt á Þýzkaland að verða kolefnishlutlaust 2050. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman, enda eru Þjóðverjar nú að ræsa kolakynt orkuver til að ná endum saman á milli framboðs og eftirspurnar raforku. Bretar fara þá einu leið, sem fær er í þessum efnum, að reisa kjarnorkuver, sem leysa munu öll kolakynt orkuver Bretlands af hólmi fyrir árslok 2025.
Rannsóknir hafa sýnt, að líkaminn ræður við geislun upp að ákveðnu marki án þess að bíða tjón af. Enginn lézt af völdum "Three Mile Island" kjarnorkuversbilunarinnar í Bandaríkjunum, og heldur enginn af völdum "Fukushima" áfallsins, sem leiddi af náttúruhamförum við Japansstrendur, utan einn, sem lézt, þegar svæðið í grenndinni var tæmt af fólki.
Eftirlitsiðnaðurinn á Vesturlöndum hefur lagt þá röngu forsendu til grundvallar, að öll geislun sé hættuleg og fært sig stöðugt upp á skaptið með kröfugerð, sem leitt hefur af sér stórfelldar kostnaðarhækkanir við að hanna og reisa kjarnorkuver. Þetta hefur t.d. leitt af sér aukningu rafstrengja úr 600 km árið 1973 í 1140 km árið 1978 í jafnstórum kjarnorkuverum. Kostnaðurinn við kjarnorkuver var u.þ.b. 3,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra hafði náð 2,0 GW og lækkaði niður í 1,0 USD/W við 32 GW uppsafnað afl um 1970, en þá tóku kröfur eftirlitsiðnaðarins að vaxa.
Afleiðingin af sívaxandi öryggiskröfum, sem eru komnar fram úr öllu hófi og skynsemi, er, að kostnaðurinn við kjarnorkuver er nú um 6,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra nemur um 256 GW. Kjarnorkuver framleiða nú aðeins um 10 % raforku heimsins. Til þess að íbúar jarðarinnar, sem hafa aðgang að minna rafafli en íbúar ESB (að meðaltali 0,7 kW/íb), nái ESB-meðaltalinu, þarf að bæta við uppsettu afli, sem nemur 5,0 TW. Þannig þrefaldast núverandi uppsett afl. Hvaðan á slíkt afl að koma ?
Til þess að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi þarf raforkuvinnsla úr kolefnisfríum orkulindum að koma frá 25 TW af virkjuðu afli, sem jafngildir tíföldun á núverandi raforkuvinnslu. Geta vindmylla og sólarsella virkar eins og krækiber í helvíti hjá þessari miklu þörf.
Aðeins kjarnorkan getur annað henni, en þá stendur heimurinn frammi fyrir því, að hræðsluáróður græningja og annarra slíkra hefur sett þessa tækni sums staðar í skammarkrókinn, og opinberir eftirlitsaðilar á Vesturlöndum hafa með óraunhæfum og öfgafullum hönnunarkröfum gert kjarnorkuverin ósamkeppnisfær við jarðgasorkuver og kolakynt orkuver. Hvernig á þá að verða við kröfum IPCC um að ná kolefnisjöfnuði sem allra fyrst til að bjarga jörðunni ? Eina sjáanlega úrræðið er að draga saman seglin, fara úr hagvexti í samdrátt hagkerfanna samkvæmt ráðleggingum græningja og höfunda "Endimarka vaxtar" og áhangenda þeirra, en hversu mikinn samdrátt þarf ? Sú hugmynd er endileysa og gengur alls ekki upp, enda næst engin samstaða um hana á heimsvísu, og þar með fellur hún um sjálfa sig.
Kostnaður við raforkuvinnslu í jarðgasknúnum orkuverum er 70-80 USD/MWh og í kolaorkuverum 50 USD/MWh. Ef hægt er að reisa kjarnorkuver á 2,50 USD/W, þá verður raforkukostnaður þeirra 35-40 USD/MWh. Suður-Kóreumenn geta þetta með skynsamlegum og nægum gæða- og öryggiskröfum, og ekki er ólíklegt, að Kínverjar séu á svipuðum slóðum, en á Vesturlöndum hefur hinn opinberi eftirlitsiðnaður hert eftirlitskröfurnar með hverju tæknilegu framfaraskrefi, sem kjarnorkuiðnaðurinn hefur stigið, svo að kostnaðurinn hefur 2-3 faldazt, gjörsamlega að óþörfu.
Með raforkukostnaði nýrra kjarnorkuvera yfir 120 USD/MWh hefur eftirlitsiðnaðurinn kyrkt kjarnorkuiðnaðinn og þannig girt fyrir, að orkuskiptin geti farið fram í löndum, sem að mestu eru háð jarðefnaeldsneyti við raforkuvinnslu og háð eru þessum sjálfseyðandi reglum.
Þegar svona er í pottinn búið, er ástæða til að spyrja að hætti Rómverja: "cuo bono" eða hverjum í hag ? Svarið liggur í augum uppi. Þeir, sem hagnast á, að orkuskiptin geti ekki farið fram samhliða eðlilegri efnahagsþróun og hagvexti, eru jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn og samdráttarsinnarnir, sem hafa lengi þann steininn klappað í fávísi sinni, að eina ráðið til að bjarga jörðunni sé "að pakka í vörn", stöðva hagvöxtinn og minnka neyzluna á öllum sviðum, sem leiða mun til fjöldaatvinnuleysis, fjöldagjaldþrota og ríkisgjaldþrota. Þetta er algerlega vanheilagt bandalag. Það er kominn tími til að leiða sannleikann fram í dagsljósið. Hver er hin raunverulega hitastigshækkun lofthjúpsins, reist á dæmigerðum gervihnattamælingum hitastigs í mörgum sniðum í mörgum hæðum frá jörðu, en ekki bara yfirborðsmælingum, sem þar að auki eru háðar ýmsum skekkjuvöldum.
Það þarf að veita leyfi til að reisa kjarnorkuver í lítilli stærð, eins konar líkan, sem gera má tilraunir á, til að komast til botns í því, hvaða öryggiskröfur eru nauðsynlegar, og hverjar er skynsamlegt að afnema. Grundvallarspurningin er þessi: hversu mikil má geislun á tímaeiningu verða áður en hún verður skaðleg (það hefur alltaf verið ákveðin geislavirkni í náttúrunni og er jafnvel í banönum, sem innihalda geislavirkt kalíum). Það þarf að afnema núverandi viðmið eftirlitsyfirvalda: "As low as Reasonably achievable"-ALARA, því að hún er ekki reist á neinum leyfilegum geislunarþröskuldi og eyðileggur alla möguleika kjarnorkuiðnaðarins til að geta keppt við eldsneytisiðnaðinn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2268422/
Halldór Jónsson, 23.8.2021 kl. 14:21
Kostnaðurinn við kolefnishlutleysi er allur peningurinn og geta þín til að vinna þér inn pening.
Og það er tilgangurinn.
Ásgrímur Hartmannsson, 23.8.2021 kl. 19:08
Kollega Halldór: þakka þér fyrir að birta þennan pistil minn á vefsetri þínu. Kínverjar stefna að kolefnishlutleysi fyrir 2060. Þeir munu geta náð því með kjarnorku, og kjarnorkuvæðing þeirra er hafin fyrir alvöru. Vesturlönd munu ekki ná kolefnishlutleysi án kjarnorku, nema þau geti virkjað meira vatnsafl og/eða jarðgufu.
Bjarni Jónsson, 23.8.2021 kl. 20:37
Nú ætla Kínverjar að ræsa lítið Thorium kjarnorkuver í sept í tilraunarskyni.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 24.8.2021 kl. 12:29
Mjög áhugavert, Hallgrímur Hrafn. Það verður fróðlegt að frétta af því. Eins og þú veizt, er þetta mjög álitleg tækni, því að geislavirkni úrgangsins er minni og helmingunartími hennar aðeins nokkrir áratugir, muni ég rétt, og það má auðveldlega sníða þessi kjarnorkuver eftir vexti. Það kemur mér ekki á óvart, að Kínverjar séu komnir á fremsta hlunn með prófanir, og þá segir mér svo hugur, að eftir fáein ár verði risin þóríum kjarnorkuver í Kína og jafnvel víðar.
Bjarni Jónsson, 24.8.2021 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.