Er komin forskrift fyrir Landsspítalann ?

Svo virðist leikmanni sem starfsemi Landsspítalans hrörni með hverju árinu, sem líður. Það verður tæplega rakið til þess, að fjárveitingar hafi verið skornar við nögl síðan 2014, því að fjárveitingarnar hafa aukizt um tugi milljarða ISK umfram launahækkanir heilbrigðisstarfsfólks.  Samt upplýsti formaður sjúkrahússlækna í fréttum RÚV 22.08.2021, að fyrir 1-2 misserum hefðu ekki allir umsækjendur um stöður hjúkrunarfræðinga verið ráðnir vegna fjárskorts. Þetta kemur skattborgara í opna skjöldu, því að í sumar hefur verið svo alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki, að þeirra hefur verið leitað með logandi ljósi innanlands og utan, til að spítalinn geti haldið í horfinu í Kófinu.  Kófið hefur opinberað, að viðnámsþróttur Landsspítalans er hættulega lítill og ótrúlega lítill.  Þegar svo er komið, verður að stokka upp spilin og breyta um stefnu, því að Landsspítalinn er nú sem stórskip á rúmsjó með laskað stýri.

Eitt af bjargráðunum núna hefur verið að leita til einkaframtaksins um starfsfólk.  Það hljóta að hafa verið þung spor fyrir heilbrigðisráðuneytið, því að það hefur reynt að torvelda starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks m.a. með því að standa gegn endurnýjun samninga við það, eins og dæmi verður tekið um síðar í þessum pistli.  Heilbrigðisráðuneytið hefur reynt að bregða fæti fyrir starfsemi sjálfstæðra félaga með því að færa frá þeim verkefni, en það hefur allt farið í handaskolum, enda eru Landsspítalinn og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir illa í stakkinn búnar til að taka við nýjum verkefnum á þessari stundu. 

Öll er þessi framkoma heilbrigðisráðuneytisins fordæmanleg og vitnar alls ekki um, að hagsmunir sjúklinga vegi þungt þar á bæ.  Meira er þar lagt upp úr pólitískum kreddum um einokunarstarfsemi ríkisins en læknisfræðilegum og rekstrarlegum sjónarmiðum. 

Morgunblaðið birti nýlega viðtal við Björn Zoëga (BZ), sem tók við stöðu Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi 2019. Hann hefur á stuttum tíma unnið "kraftaverk" á íslenzkan mælikvarða á rekstri sjúkrahússins og snúið rekstrinum úr halla í hagnað, fækkað starfsfólki og fjölgað sjúkrarúmum.  Hann segir, að fjármögnun sjúkrahúsa úr ríkiskassanum með fastri árlegri fjárlagaupphæð sé úrelt þing. Í það kerfi vanti alla hvata, en sjúkrahússrekstur er ekki frábrugðinn öðrum rekstri að því leyti, að hann verður að hafa bæði gæðatengda og fjárhagstengda hvata og markmið að keppa að, ef hann á að geta tekið framförum.

Karolinska er ekki lengur á föstum fjárlögum, heldur á árangurstengdum greiðslum fyrir hvern sjúkling.  Þetta er nauðsynlegt að taka upp hér á öllum sjúkrahúsum landsins, og verkbókhaldið þarf að vera eins alls staðar, einnig í einkageiranum, svo að raunahæfur samanburður fáist fyrir verkkaupann, Sjúkratryggingar Íslands. 

Þegar BZ tók við stöðu Karolinska fækkaði hann í hópi starfsfólks um 550 manns og nokkru síðar um 400 manns, þannig að nú eru þar tæplega 1000 færri á launaskrá en áður, en á sama tíma jók hann starfsemina og þar með tekjur spítalans. Hvernig fór hann að þessu ?  Það er líklegt, að hann hafi skilið verkefni, sem ekki voru hluti af kjarnastarfsemi spítalans, frá reglulegri starfsemi og útvistað verkefnum sem aðkeyptri þjónustu, sem spítalinn þurfti að láta vinna fyrir sig.  Þannig sparast fé, og starfsemin verður hnitmiðaðri.  Þessa leið getur Landsspítalinn líka farið. Einnig er líklegt, að stjórnendalögum Karólínska hafi verið fækkað og ábyrgðin færð í auknum mæli til yfirlæknanna, þar sem hún á heima.

Nýlega komst í hámæli, að Landsspítalinn rekur einhvers konar upplýsingadeild, sem ráðleggur yfirlæknum að hunza "skrattakollana" á fréttastofunum. Þessu má hæglega útvista og spara fé.  Tölvukerfi Landsspítalans mun líkjast illa samstæðum bútasaumi. Nauðsynlegt er, að allur búnaður sjúkrahússins sé tengdur saman í eina heild.  Þetta er dýrt, og verður vonandi hluti af "Nýja Landsspítalanum".  Leita má fyrirmynda til Karolinska og annarra um, hvernig að tölvu- og innranetsmálum er staðið þar.  Það væri síðasta sort að reyna að finna upp hjólið hér. 

Með innleiðingu hvatakerfis fyrir starfsfólk Karólínska, sem eftir varð, tókst BZ að fjölga sjúkrarúmum um rúmlega 26 %, úr 950 í 1200.  Það er mjög æskilegt að leita í smiðju BZ með þessi hvatakerfi og kynna þau fyrir starfsfólki Landsspítalans.  Þótt þar reynist hugur í fólki til innleiðingar, er björninn ekki þar með unninn, því að allsendis óvíst er, að þessi hvatakerfi falli stjórnendum heilbrigðisráðuneytisins í geð. Það er einhver ástæða fyrir því, að verkeiningarkerfið, sem BZ hóf að þróa, á meðan hann var forstjóri Landsspítalans, hefur ekki enn verið innleitt þar.

  Það er brýnt að skipta um húsbændur í heilbrigðisráðuneytinu áður en nokkur von á að vera til nauðsynlegrar uppstokkunar og umbóta í heilbrigðiskerfinu í anda BZ. 

Í Staksteinum Morgunblaðsins mátti m.a. lesa eftirfarandi 17.08.2021:

"Útgjöld til heilbrigðismála fara sífellt vaxandi hér á landi, en töluvert vantar upp á framleiðnina. Skýrist það að hluta til af fjandsamlegu viðhorfi til einkarekstrar, en að hluta til má ætla, að horfa þurfi til skipulags Landsspítals."

  Það verður ekki hjá því komizt, að útgjöld ríkisins til heilbrigðismála munu fara vaxandi vegna öldrunar, þ.e. hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar, en alveg sérstaklega af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að finna leiðir til að auka starfsánægju á sjúkrahúsunum, svo að í stað núverandi atgervisflótta, sem augljóslega hrjáir Landsspítalann, laði sjúkrahúsin til sín hæfileikafólk, sem lokið hefur löngu námi, og haldist vel á fólki. Núna erum við á meðal yngstu þjóða í OECD, en að aldarfjórðungi liðnum verða Íslendingar á meðal elztu þjóða þar, ef svo heldur fram sem horfir. Þetta hlýtur að hafa gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar í för með sér og minnkar tekjustreymið í þjóðfélaginu.  Lífeyrissjóðirnir munu þá ekki lengur  þenjast út, heldur minnka og þjóðinni mun fækka vegna ófullnægjandi viðkomu.  Hagvöxtur og verðbólga verða nálægt 0, eins og þekkt er í Japan. 

Þetta er ekki sérlega glæsileg framtíðarsýn. Nú eru 4-5 á vinnumarkaði á móti hverjum 1 utan hans, en að aldarfjórðingi liðnum mun hlutfallið hafa helmingazt. Nú hrjáir "fráflæðisvandi" sjúkrahúsin, þ.e. aldrað, útskrifað fólk teppir rúm, jafnvel á háskólasjúkrahúsinu, af því að það á í engin hús að venda, þótt kostnaður legurýma háskólasjúkrahússins sé á við dýrustu svítu.  Svíar hafa séð við þessu.  Þeir gefa viðkomandi sveitarfélagi (hreppi þess aldraða) fáeinna sólarhringa frest að sækja hinn aldurhnigna skjólstæðing, en að frestinum liðnum er sveitarfélaginu gert að standa straum af kostnaði legurúmsins, og hann er sá hæsti, sem þekkist, svo að fráflæðisvandi þekkist þar ekki. 

Hitt atriðið, sem nefnt var í Staksteinatilvitnuninni, fjandskapurinn við einkarekstur í heilbrigðisgeiranum, er mikill ljóður á ráði heilbrigðisráðuneytisins, svo að ekki sé nú sterkar að orði kveðið. Þetta viðhorf er hvorki hægt að verja með vísun til hagsmuna skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins né með vísun til hagsmuna ríkissjóðs.  Eina skýringin á þessu fráleita viðhorfi er sú, að hér sé um löngu úreltar og steinrunnar kreddur frá kommúnismanum að ræða, sem svældi alla atvinnustarfsemi undir sig og veitti fólki ekkert val. Að þessi ósköp skuli ganga ljósum logum í stjórnarráði Íslands árið 2021 er stórfurðuleg tímaskekkja og einsdæmi á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað. Kannski þarf að leita til Kúbu Karíbahafsins til að finna viðlíka viðundur. 

Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðismanna í Kraganum, gerði aðför heilbrigðisráðuneytisins að einkaframtaki í heilbrigðisgeiranum að umræðuefni í Morgunblaðsgrein sinni 18. ágúst 2021:

"Atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna - réttindi sjúkratryggðra".

"Nokkrum mánuðum fyrir útskrift [sjúkraþjálfara] breyttu heilbrigðisyfirvöld reglugerð um endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands vegna sjúkraþjálfunar.  Endurgreiðslan er samkvæmt gjaldskrá, sem stofnunin setur einhliða, en ekki hafa tekizt samningar milli sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga.  Breytingin lætur kannski ekki mikið yfir sér, en gjörbreytir forsendum ungra sjúkraþjálfara. Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúklings er, að sjúkraþjálfarinn hafi starfað í a.m.k. 2 ár sem sjúkraþjálfari í a.m.k. 80 % starfshlutfalli eftir löggildingu. 

Sem sagt: enginn viðskiptavinur þeirra sjúkraþjálfara, sem nýlega hafa lokið námi, á rétt á endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum næstu 2 árin.  Eða: allir þeir, sem ákveða að nýta sér þjónustu nýútskrifaðra, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, eru sviptir sjúkratryggingum.

Við getum einnig stillt þessu upp með eftirfarandi hætti: með reglugerðinni er verið að skerða atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara í 2 ár. Eftir langt og strangt 5 ára nám, þar sem gefin voru fyrirheit um full starfsréttindi - atvinnuréttindi - er jafnræðisreglan þverbrotin, og reglan um meðalhóf í stjórnarathöfnum er rykfallið og merkingarlaust hugtak í djúpum skúffum kerfisins."

Þetta dæmi sýnir, að heilbrigðisráðuneytið sést ekki fyrir í ósvífninni.  Það hikar ekki við lögbrot í viðleitni sinni við að koma einkaframtakinu í heilbrigðisgeiranum á kné.  Það er í heilögu stríði undir gunnfána marxisma og einokunar.  Auðvitað ætti að lögsækja ráðherrann fyrir valdníðslu.  Svona lagað er undirmálsstjórnsýsla, og henni verður að linna með því að hreinsa óhæfa stjórnendur út úr heilbrigðisráðuneytinu.  Með aðgerðum sínum gera þeir aðeins illt verra, og sjúklingarnir fara jafnan verst út úr ofstækistilburðum ráðamanna. 

"Því miður eru dæmin um sjúkraþjálfarana og talmeinafræðingana ekki þau einu um, hvernig hægt og bítandi er verið að grafa undan sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum, takmarka atvinnufrelsi þeirra og hafa réttindi af sjúkratryggðum. Staða sjálfstætt starfandi sérfræðilækna er lítið skárri, og hægt, en örugglega, er verið að hrekja þá út úr sameiginlegu tryggingakerfi okkar allra.  Og þar með verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum. 

 Flest verðum við að sætta okkur við heilbrigðisþjónustu innan ríkisrekna tryggingakerfisins með tilheyrandi biðlistum. Efnameira fólk kaupir þjónustuna beint eða í gegnum eigin tryggingar af sérfræðilæknum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum.  Áratuga barátta fyrir því, að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, verður að engu gerð."

Framferði heilbrigðisráðherra á þessu kjörtímabili hlýtur að hafa virkað sem blaut tuska framan í þingflokk sjálfstæðismanna.  Í næstu ríkisstjórn, sem hann stendur að, verður hann að fá einhvers konar tryggingu fyrir því, að látið verði af lögbrotum og ofstopafullri yfirtroðslu á atvinnuréttindum starfsfólks utan opinbera geirans og purkunarlausri réttindasviptingu sjúkratryggðra í anda sósíalismans. Verði hér vinstri stjórn að afloknum þingkosningunum í september 2021, má telja víst, að haldið verði áfram einokunarstefnunni og að svæla einkaframtaksfólk inn á launaskrá Landsspítalans.  Það verður mikið tjón fyrir heilbrigðisþjónustuna og nýliðun í hópi lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna, sem eru með alþjóðlega menntun.  Sú staðreynd, að Ísland á í samkeppni við útlönd um hámenntaða og hæfa sérfræðinga, er hundsuð með þessum stríðsrekstri gegn einkaframtakinu. 

Samhliða uppstokkun á Landsspítalanum og hreinsun út úr heilbrigðisráðuneytinu þarf að stórefla einkageirann, sem einn getur bætt úr þeim þjónustuskorti (lengingu biðlista), sem fyrirsjáanlegur er á næstu árum, þar til Nýi Landsspítalinn verður að fullu kominn í brúk. 

 

 

    

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

"Nokkrum mánuðum fyrir útskrift [sjúkraþjálfara] breyttu heilbrigðisyfirvöld reglugerð um endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands vegna sjúkraþjálfunar.  Endurgreiðslan er samkvæmt gjaldskrá, sem stofnunin setur einhliða, en ekki hafa tekizt samningar milli sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga.  Breytingin lætur kannski ekki mikið yfir sér, en gjörbreytir forsendum ungra sjúkraþjálfara. Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúklings er, að sjúkraþjálfarinn hafi starfað í a.m.k. 2 ár sem sjúkraþjálfari í a.m.k. 80 % starfshlutfalli eftir löggildingu. 

Sem sagt: enginn viðskiptavinur þeirra sjúkraþjálfara, sem nýlega hafa lokið námi, á rétt á endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum næstu 2 árin.  Eða: allir þeir, sem ákveða að nýta sér þjónustu nýútskrifaðra, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, eru sviptir sjúkratryggingum.

Við getum einnig stillt þessu upp með eftirfarandi hætti: með reglugerðinni er verið að skerða atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara í 2 ár. Eftir langt og strangt 5 ára nám, þar sem gefin voru fyrirheit um full starfsréttindi - atvinnuréttindi - er jafnræðisreglan þverbrotin, og reglan um meðalhóf í stjórnarathöfnum er rykfallið og merkingarlaust hugtak í djúpum skúffum kerfisins."

Er þetta bara hægt?

Halldór Jónsson, 26.8.2021 kl. 13:07

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Góð grein.

Birgir Loftsson, 26.8.2021 kl. 14:01

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kollega Halldór: ég held, að þetta sé lögbrot, og nú hefur frétzt af því, að sjúkraþjálfarar hyggist sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Bjarni Jónsson, 26.8.2021 kl. 17:54

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk fyrir, Birgir Loftsson.

Bjarni Jónsson, 26.8.2021 kl. 17:56

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Gott skipulag er grundvallaratriði í rekstri fyrirtækja. Sé skipulag slæmt leiðir það af sér að starfsfólk flækist hvert fyrir öðru. Því fleiri sem ráðnir eru, þeim mun minni verða afköstin. Ég heyrði í dag af manni sem réði sig sem öryggisvörð til spítalans fyrir skömmu. Stuttu eftir að hann hóf störf var yfirmanni hans sagt upp störfum. Síðan þá hafa hvorki hann né samstarfsmenn hans haft um það minnstu hugmynd hver yfirmaður þeirra er. Þetta er auðvitað skýr vísbending um slæmt stjórnskipulag.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.8.2021 kl. 17:30

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú þegar hefur skipulagið á LSH að einhverju leyti tekið mið af því, að Nýi Landsspítalinn væri tekinn til starfa.  Þar til fyrir skömmu var tryggt, að einn yfirlæknir fyrir hvert svið væri við Hringbraut og annar í Fossvogi.  Nú getur verið yfirlæknir staðsettur í Fossvogi fyrir starfsemi við Hringbraut.  Þetta hefur valdið miklum áhyggjum, óvissu og uppsögnum á LSH, enda hefur ávæningur af óánægju yfirlækna borizt út fyrir stofnunina.  Það er orðin mikil óánægja með fjölgun stjórnunarlaga á LSH.  Parkinsons-lögmálið kemur upp í hugann.  Yfirlýsing 950 starfsmanna á LSH var neyðaróp, sem taka verður mið af.  LSH er gegnumsýrt af vantrausti.  Þetta er skelfilegt ástand.  Skera verður skipulagið upp og fjarlægja meinsemdina.  

Bjarni Jónsson, 28.8.2021 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband