Nýr stjórnarsáttmáli og orkumál

Núverandi ríkisstjórn, sem hlaut endurnýjað umboð í Alþingiskosningunum 25. september 2021 til að fara með völd í landinu næstu 4 árin, ýtti á undan sér óútkljáðum málum, sem nú er óhjákvæmilegt að leysa úr flokkanna á millum, og það er vafalaust ástæða þess, að hægt virðist miða við stefnumörkun fyrir nýtt kjörtímabil. 

Þótt ríkisstjórnin hafi haldið velli og vel það, er pólitískt óverjandi að leggja upp í nýtt kjörtímabil án þess að stokka upp spilin, enda hafa valdahlutföll flokkanna breytzt.  Nú síðast, 9. október 2021, hljóp á snærið hjá Sjálfstæðisflokkinum, þegar öflugasti þingmaður Miðflokksins söðlaði um og gekk til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna.  Að honum er mikill fengur, og þessi atburður veikir stjórnarandstöðuna enn (hún hlaut skell í kosningunum) og eykur um leið vægi Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið og við stefnumörkun formanna ríkisstjórnarflokkanna. Minna má á ötula baráttu Birgis Þórarinssonar gegn Orkupakka #3. Þar gekk hann vasklega fram.  

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um að minnka stórlega þörf á jarðefnaeldsneyti á Íslandi hangir gjörsamlega í lausu lofti, ef ekki verður leyst ný innlend orka úr læðingi og aukin stórlega raforkuvinnsla hér.  Til að mæta þörfum orkuskiptanna og auknum þörfum atvinnulífs og heimila fram til 2040 þarf að auka raforkuvinnslugetu landsins um tæplega 60 % (12 TWh/ár) eða um 600 GWh/ár að jafnaði. Spá Statnett fyrir Noreg er aukning raforkuþarfar um 70 TWh/ár eða 50 % til 2050, en Norðmenn eru nú þegar komnir lengra í rafbílavæðingunni en við.  Þetta gæti verið fjárfesting í virkjunum hérlendis, flutningslínum og aðveitustöðvum upp á mrdUSD 10. 

Í heild verður sparnaður eldsneytisinnflutnings væntanlega yfir 1,1 mrdUSD/ár vegna hækkandi eldsneytisverðs, þegar dregur úr framboði jarðefnaeldsneytis, og arðsemi orkusölu til almennrar aukningar verður vafalítið svo góð, að endurgreiðslutími þessara miklu fjárfestinga verður innan við 1 áratugur. Yfirvöld þurfa því ekki að draga lappirnar af ótta við, að landsmenn reisi sér hurðarás um öxl með fjárfestingum í "grænorku" og flutningi hennar innanlands. Það er þvert á móti bráðnauðsynlegt að hefja það ferli af alvöru sem fyrst að draga úr innflutningsþörf jarðefnaeldsneytis, því að verðlagning þess erlendis mun ella sliga þjóðarbúskapinn og þar með hagvöxtinn.  Tæknin er nú þegar fyrir hendi til eldsneytisframleiðslu. Þeir, sem nota vilja loftslagsvandann einvörðungu til að berja sér á brjóst og fara í hlutverk faríseans, leggjast hins vegar þversum gegn öllum raunhæfum lausnum á viðfangsefninu. 

Morgunblaðið er með puttann á púlsinum, ekki sízt á sviði orkumála, og helgaði allt leiðarapláss sitt 11. október 2021 þessu mikilvæga máli. Síðari forystugrein blaðsins 7. október 2021 hét:

"Rafvæðing kallar á rafmagn".

Hún hófst þannig:

"Í áhugaverðu viðtali Morgunblaðsins við Tómas Má Sigurðsson, forstjóra HS Orku, var m.a. komið inn á það, hvort virkja þyrfti meira hér á landi til að sjá bílaflota landsmanna fyrir rafmagni.  Tómas lýsti þeirri skoðun sinni, að svo væri, og vísaði í því sambandi til orkuspárinnar [Orkustofnunar]. Hann sagði hana liggja fyrir og sýna, að "til að rafvæða bílaflotann og til að framleiða eldsneytið, sem sparar okkur gjaldeyri, þarf einfaldlega að virkja". 

Hann bætti því við, að til "þess að geta lagt okkar af mörkum varðandi loftslagsmarkmið, ekki aðeins Íslands, heldur heimsins alls, þurfum við að virkja okkar endurnýjanlegu orkugjafa skynsamlega".  

Það er einvörðungu fólk, sem eru málsvarar útúrborulegra sjónarmiða um stöðvun hagvaxtar, minnkun framleiðslu og minni neyzlu almennings, sem heldur því fram, að ekki þurfi að virkja. Framsækið þjóðfélag getur ekki látið stjórnast af viðlíka firrum, en núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki afhuga þeim.  Á meðan hann gegnir þessu embætti, er ekki von á góðu. 

Téður Tómas Már er aðeins málsvari heilbrigðrar skynsemi í þessum málum.  Hann er hvorki að fara með fleipur né ný sannindi í þessu viðtali.  Hann segir hið augljósa, en í þjóðfélagi, sem hefur verið afvegaleitt hrottalega í umhverfisverndarlegu tilliti, eins og hatrömm mótmæli gegn nánast öllum orkuframkvæmdum vitna um, verður góð vísa aldrei of oft kveðin. Morgunblaðið á líka heiður skilinn fyrir að draga hvað eftir annað sannleikann fram í þessum málum, þar sem gildismatið hefur verið kolbrenglað með svartagallsrausi um skaðleg áhrif framkvæmda á náttúruna.  Það er ekki minnzt á jákvæð áhrif, eins og hreinsun jökulvatna af leir, t.d. Þjórsá og Jökulsá á Brú, eða hækkun á grunnvatnsstöðu á hálendinu í grennd við miðlunarlón með bættu gróðurfari sem afleiðingu.  

Téðri forystugrein lauk þannig:

"Augljóst er, að ekki fer saman að koma í veg fyrir nýjar virkjanir og segjast vilja rafvæða bíla, skip og önnur framleiðslutæki, sem enn nýta jarðefnaeldsneyti.  Og eins og Tómas bendir á, þá eru stórnotendur raforku ekki að fara að loka, eins og aðstæður eru um þessar mundir. Raforka fyrir bílaflotann fæst því ekki með lokun álvers eða sambærilegum breytingum sem betur fer.

Framundan hljóta því að vera frekari virkjanir.  Stjórnvöld og Alþingi verða að koma sér saman um beztu kostinga í þeim efnum og tryggja, að framkvæmdir geti hafizt hið fyrsta."

Svo mörg voru þau sjálfsögðu orð, og á hugann leitar sú spurning, hvernig í ósköpunum komumst við á þann stað, að umræða skynsemdarfólks þyrfti að taka á sig þessa mynd ?  Svarið er, að kreddufólk og ofstækis hefur náð að afvegaleiða umræðuna svo, að fjöldinn allur er orðinn ruglaður í ríminu og trúir því, að Íslendingar eigi að halda að sér höndum í virkjanamálum, því að við eigum ekki "að fórna íslenzkri náttúru" til að bæta CO2-losunarstöðuna á heimsvísu.  Þetta er bábilja í ljósi tæknilegrar getu okkar til að virkja krafta náttúrunnar með lágmarksröskun á náttúrunni.  Sú röskun er svo lítil, að hún er langt innan þeirra marka, sem þjóð í landi síbreytilegrar náttúru á að geta sætt sig við í ljósi ávinningsins.

Margir þeirra, sem hæst láta gegn þjóðhagslega hagkvæmum framkvæmdum, eru afturhaldsseggir og -sprundir, sem lítil tengsl hafa við náttúruna, en hafa bitið í sig meinloku um skaðsemi hagvaxtar og neyzlu, svo að ekki sé nú minnzt á erkióvininn sjálfan, einkabifreiðina, svo öfugsnúið sem það sjónarmið er í landi á borð við okkar.

Varðandi neyzlumynztur nútímans telur höfundur þessa pistils, að neyzla margra mætti vera valvísari, t.d. m.t.t. heilsufars, og að vinna beri að eflingu hringrásarhagkerfis með beztu tækni þess geira.  Það verður þó aðeins gert með þekkingu að leiðarljósi, en ekki undir stjórn misheppnaðra stjórnmálamanna með umhverfisvernd á vörunum, eins og gas- og jarðgerðarstöð Sorpu er sorglegt dæmi um, en þar sóuðu óhæfir stjórnmálamenn vinstri meirihlutans í borgarstjórn rúmlega mrdISK 6 í GAJA, sem framleiðir ónothæfan (eitraðan) jarðvegsbæti.  Landið þarf eitt orkuver, sem brennir öllum lífrænum úrgangi við hátt hitastig og vinnur úr honum orku, sem nýta má til raforkuvinnslu og hitaveitu. Það er sjálfsagt að staðsetja það innan seilingar þéttbýlis, sem ekki hefur aðgang að fullnægjandi jarðhita. 

Í Morgunblaðinu 8. október 2021 birtist frétt um orkuskiptin undir fyrirsögninni:

"Aukin raforka lykill að orkuskiptum".

Sannleiksgildi fyrirsagnarinnar blasir við öllum réttsýnum mönnum, en í þjóðfélaginu eru þverhausar, einnig á Alþingi, sem berja hausnum við steininn, vilja jafnvel lýsa yfir neyðarástandi á Íslandi vegna hlýnunar jarðar (raunhlýnun lofthjúpsins er 0,14°C/áratug samkvæmt beztu mæligögnum gervitungla), en þverskallast gegn nýjum orkuframkvæmdum.

"Varðandi útflutning á rafeldsneyti segir hún [Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir], að nú hafi skapazt möguleikar á að framleiða slíkt eldsneyti á vökvaformi á umhverfisvænan hátt. Okkar hlutverk sé að tryggja, að ákjósanlegt umhverfi sé til staðar.  Nú þegar fer hér fram metanólframleiðsla, og áform eru um aukningu á því sviði.  Þórdís segir, að í gangi sé ákveðin stefnumótun í vetnismálum með hagaðilum. Tækifæri séu til að ná markmiðum innanlands og eins til að fara í útflutning." 

Núverandi stöðu á orkumörkuðum má jafna við orkukreppu, því að það gætir framboðshörguls, einkum á jarðgasi, en jarðgas er notað til upphitunar og eldunar í Evrópu og víðar og til raforkuvinnslu á móti slitróttum rekstri vindmyllna og sólarhlaða. Forðabúr Evrópu af jarðgasi innihalda nú aðeins 40 % af hámarksforða, en á þessum árstíma venjulega 90 %. Það verður fyrirsjáanlega gasskortur á hörðum vetri, en sleppur kannski annars, ef Nord Stream 2 verður keyrð á fullu (gasi).  Þessi staða hefur leitt til hækkunar orkuverðs upp úr öllu valdi í Evrópu og straumleysi í Kína, sem aftur veldur því, að verkefni á borð við framleiðslu rafeldsneytis hérlendis, sem voru ekki hagkvæm fyrir einu ári, eru líklega orðin það nú.  Þá ætti að einbeita sér að innanlandsmarkaðinum.  Þar með er dregið úr kolefnisgjöldum landsins vegna skuldbindinga ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og dregið úr innflutningsþörf á jarðefnaeldsneyti. Einhver málfátækur mundi kalla þá stöðu "win-win".

Blaðamaðurinn tók líka viðtal við forstjóra Landsvirkjunar í þessari frétt: 

""Núverandi orkukerfi er að miklu leyti fullnýtt og orkan bundin í langtímasamningum við alþjóðleg fyrirtæki, sem eru með starfsemi hér.  Þau hafa engin áform um að draga úr starfsemi sinni", segir Hörður.  Hann bendir á, að þó nokkrir ónotaðir virkjunarkostir séu í nýtingarflokki Rammaáætlunar og hægt sé að ráðast í þau verkefni.  Fleira megi skoða, eins og t.d. vindorku, sem geti orðið 3. stoð orkuöflunar með vatnsafli og jarðhita.

Hörður segir loftslagsvandann stærsta umhverfisvanda heimsins.  Alls staðar þurfi að byggja upp umhverfisvæna orkuvinnslu, sem komi í stað jarðefnaeldsneytis.  Við uppbyggingu endurnýjanlegrar orkunýtingar togist á náttúruverndarsjónarmið og umhverfissjónarmið.  Sú umræða er alls ekki einskorðuð við Ísland."

Nú segir Hörður Arnarson, að virkjanirnar og miðlunarlónin séu að mestu fullnýtt.  Öðru vísi mér áður brá.  Fyrir 2-4 árum, á dögum umræðunnar um OP#3 og raforkusölu til útlanda hélt hann því fram, að hún væri skilyrði þess að hindra, að vatn rynni framhjá virkjunum ónotað til sjávar.  Nú er komið annað hljóð í strokkinn, enda vatnsstaða Þórisvatns slæm.  Í septemberbyrjun 2021 komst vatnshæðin yfir lágmark m.v. árstíma, en tók að lækka mánuði síðar og stefnir undir lágmark í vetur og skerðingu ótryggðrar raforku til iðnaðarins. Sérvitringar og þvergirðingar eiga eftir að verða okkur dýrir á fóðrum.   

Af þessum ástæðum er brýnt að hefja virkjanaframkvæmdir, og Hörður segir það hægt, en hvers vegna í ósköpunum er þá setið með hendur í skauti ? Ef kyrrstaðan á sér pólitískar skýringar, er það í fyrsta sinn, sem afturhaldið í landinu nær kverkataki á athafnalífi landsins.  Er þá stjórnarsamstarfið of dýru verði keypt ?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Forseti Frakklands ætlar að láta ESB skilgreina kjarnorkuver sem græna orku
Þurfum við Íslendingar ekki að fá okkur eitt kjarnorkuver
Þá væri allaveg eitthvað vit í upprunavottorði þess rafmagns sem maður er að kaupa

Mynd frá Grímur Kjartansson.

Grímur Kjartansson, 13.10.2021 kl. 16:19

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Frakkar eru í einstaklega góðri stöðu í orkumálum innan ESB, af því að yfirvöld þar hafa ekki beygt sig fyrir þrýstingi um að draga úr vægi kjarnorkuvera þar, enda held ég, að sá þrýstingur hafi verið miklu minni en austan Rínar.  Það hlaut að koma að því, að einhver Evrópuleiðtogi boðaði þróun kjarnorkunnar, en það hefur Macron, forseti, nú gert og boðað einingar af fjölbreytilegu afli, en nú eru einingarnar einvörðungu stórar, 1 GW eða meir.  E.t.v. koma þóríum kjarnorkuver við sögu þar.  

Sölu á þessum aflátsbréfum, sem þú minnist á, ætti að hætta, því að það, sem við fáum í staðinn (rangt bókhald), skaðar ímynd landsins.

Bjarni Jónsson, 13.10.2021 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband