Næg raforka er undirstaða hagvaxtar og velmegunar

Það kom fram hjá Stefáni Einari Stefánssyni, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu á gamlaársdag 2021, að Ísland hefði á árinu 2020 (Kófsbæling í algleymingi) reynzt vera með 5. hæstu landsframleiðslu á mann í USD í heiminum að teknu tilliti til "kaupmáttarjafnvægis" (Purchasing Power Parity) eða kUSD 55,2, en fyrir ofan voru Bandaríkin, kUSD 63,4, Noregur, kUSD 63,3, Danmörk, kUSD 60,6 og Holland, kUSD 59,3. Íslendingar eiga raunhæfa möguleika á að bæta stöðu sína enn í þessum samanburði.  Það gæti t.d. gerzt, ef ferðamennskan í ár (2022) verður  líflegri en í fyrra og aukningin hér verði hlutfallslega meiri en t.d. í Hollandi og Danmörku. Ef spár um loðnuvertíðir í ár og næstu ár rætast, mun útflutningur loðnuafurða einnig hjálpa til, en hagkvæmnin verður minni en efni stóðu til vegna tímabundins offramboðs, og af því að brenna verður dýrri olíu í kötlum fiskimjölsverksmiðjanna í stað rafhitunar, sem búið er fjárfesta mrdISK 3-4 í.

Það mundi og vafalítið einnig gerast, án tillits til uppgripa erlendra ferðamanna og loðnu, ef hér verður nægt framboð orku, raforku og varmaorku, á hagstæðu verði fyrir notendur.  Því miður eru mörg teikn á lofti um, að svo verði ekki á næstu árum vegna mikils hægagangs í öflun virkjanaleyfa, sem eitthvað munar um, hjá virkjanafyrirtækjunum.  Þar er eiginlega bara HS Orka, sem er með eitthvað (35 MW) í bígerð.  Lognmolla hvílir yfir opinberu fyrirtækjunum.  Þessi staða er grafalvarleg fyrir þróun hagvaxtar í landinu, og landsmenn tapa vegna raforkuskorts af nýjum tækifærum til sjálfbærrar nýrrar verðmætasköpunar. 

Auðvitað eru miklar áhyggjur af þessu innan atvinnulífsins, þótt miklar fjarvistir vegna einkennalausrar sóttkvíar og einangrunar þeirra, sem greinzt hafa með C-19, yfirskyggi önnur vandamál í flestum fyrirtækjum núna. Allt moðverk sóttvarnaryfirvalda, skimanir, greiningar, rakningar, sóttkví, einangrun, samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur, mætti nú að ósekju missa sín. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritaði grein af hófsemd um ógöngur orkumálanna í Morgunbaðið 30.12.2021 undir fyrirsögninni:

"Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkulinda":

"Orkunýtingin hefur skipt gríðarlegu máli við þróun íslenzks samfélags; auk orkufyrirtækjanna sjálfra eru rekin öflug fyrirtæki, sem nýta orkuna, gróðurhúsaáhrif nýtingarinnar eru hverfandi, alls kyns fyrirtæki í tækni, ráðgjöf, sölu og þjónustu hafa sprottið upp; mikill fjöldi fólks byggir afkomu sína á störfum þessu tengdum, og opinber rekstur og þjónusta nýtur góðs af skattgreiðslunum."

Þetta er hverju orði sannara hjá Halldóri Benjamín.  Þrátt fyrir bölbænir vinstri manna, þegar þessi slóð var rudd á dögum Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971, hefur orkukræfur iðnaður vaxið og dafnað, og í kringum hann hefur myndazt klasi flutningafyrirtækja, vélaverkstæða, rafmagnsverkstæða, verkfræðistofa o.fl. Stórnotendur rafmagns, sem mynda kjarnann í þessum klasa, eru líka grundvöllur að hagstæðu raforkuverði til almennings, sem nýtur einfaldlega góðs af hagkvæmni stærðar raforkukerfisins í þessu tilviki. 

Mikil þekking hefur líka safnazt upp í orkufyrirtækjunum, sem þurfa að glíma við séríslenzk viðfangsefni vegna þess, sem einkennir íslenzka raforkukerfið, þ.e. fáeinir stórnotendur og 2 aðalvirkjanasvæði (Suðurland og Austurland), sem tengd eru saman með langri og veikri Byggðalínu í hring.  Blönduvirkjun og Kröfluvirkjun ásamt Þeistareykjavirkjun þarna á milli bæta rekstrarskilyrði landskerfisins (styrkja kerfið). 

Nokkru seinna vék Halldór Benjamín að því sjálfskaparvíti, sem nú veldur atvinnulífinu stórtjóni, sem mun vaxa ár frá ári, nema næstu vatnsár verði mjög hagstæð, þ.e. ótrúlega óskilvirku, þunglamalegu og dýrkeyptu leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir, sem nú hefur framkallað orkuskort, sem veldur aukinni olíubrennslu og mun hægja á orkuskiptunum:

"Lagaumhverfið hefur hins vegar reynzt snúið við að eiga.  Ný náttúruverndarlög frá árinu 2013 takmarka mjög allar framkvæmdir á friðlýstum svæðum og banna þær í þjóðgörðum, nema þær, sem tengjast þjóðgarðinum sjálfum.  Skipulagslög, ný lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda, og fleiri lagabálkar, gera að verkum, að allar nýjar virkjanir (og raflínur) þurfa að fara í gegnum langt og flókið ferli, þar sem sveitarstjórnir og almenningur hefur mikið um að segja, hvort framkvæmdin geti orðið að veruleika.  Þessi lög eru þó að mestu svipuð og almennt gerist í Evrópu og hafa þróazt svipað og þar."

Kannski liggur hundurinn grafinn þar, að aðstæður á meginlandi Evrópu eru gjörólíkar aðstæðum hérlendis, og þess vegna gæti lausnin á þessu alvarlega vandamáli falizt í séríslenzkri lagasetningu um virkjanir og flutningslínur, en það er ljóst, að þá þurfa kunnáttumenn og lagasmiðir að láta hendur standa fram úr ermum.  Orð innviðaráðherrans í kosningabaráttunni gætu gefið von um glætu í þessum efnum.  Honum er áreiðanlega ljóst, hvað er í húfi fyrir þjóðarbúið og fyrir orðstír Íslands á tímum meintrar loftslagsvár.  Það er saga til næsta bæjar á tímum, þegar reynt er hvarvetna að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, skuli þessi bruni vaxa á Íslandi vegna raforkuskorts, þótt nóg sé af endurnýjanlegum og óvirkjuðum orkulindum í landinu.  Þetta er merki um óstjórn og er eins og þriðja heims heilkenni á samfélaginu.

Að lokum skrifaði Halldór Benjamín:  

"Það blasir við, að lagaumhverfi nýrra virkjana er orðið allt of flókið og að nauðsynlegt er að endurskoða það.  Fyrsta verkefnið hlýtur að vera að endurmeta ferlið við rammaáætlun m.a. með hliðsjón af lagabreytingum, sem átt hafa sér stað frá því, að lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun voru samþykkt.  

Nýting endurnýjanlegra orkulinda dregur úr losun og stuðlar að sjálfbærri þróun íslenzks samfélags og verður að taka mið af efnahags- og félagslegum þörfum okkar og komandi kynslóða ekki síður en náttúru- og umhverfisvernd."

Ef beitt er beztu tækni og hönnun tekur mið af lágmörkun breytinga á umhverfinu, þótt það komi niður á hagkvæmni virkjunar, þá mun kostnaðar- og ábatagreining leiða í ljós, að verjandi er að virkja allt, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og flest af því, sem þar er í biðflokki.  Hér er um að ræða allt að 2200 MW í uppsettu afli og 16 TWh/ár. Þetta er nóg næstu áratugina.

Ráðherra umhverfis-, orku- og loftslags hefur skipað nokkra starfshópa til að safna gögnum og gera tillögur um, hvernig koma mætti framkvæmdum á skrið í orkugeiranum.  Upplýsingarnar um stöðu Rammaáætlunar, virkjanaundirbúnings og flutningskerfis eru fyrir hendi.  Nú þarf að forgangsraða og hleypa fullhönnuðum verkefnum af stokkunum.  Stytztur aðdragandi er að smáum vatnsaflvirkjunum, P<10 MW.  Ráðherra yrði orkujafnvæginu í landinu gagnlegur, ef hann mundi einfalda og straumlínulaga undirbúningsferli smávirkjana og greiða götu tafarlausrar tengingar þeirra við dreifikerfi landsins, en vonandi fellur hann ekki í freistni og leyfir vindmyllugarða nærri byggð eða á áberandi stöðum og fórnar þannig sérstöðu Íslands sem lands endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirki, sem falla vel að umhverfinu.  Um slíkt getur líklega sízt náðst sátt.

Þríhyrningur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkulinda" er víðsfjarri í gufuaflsvirkjunum Reykjanesskagans þar sem flestum erlendum fyrirmönnum í Íslandsferð er stillt upp til að mæra Hellisheiðarvirkjun þar sem farið var langt fram úr sjálfbærri nýtingu með 300 megavatta virkjun.

Forstjóri Landsvirkjunar tók það sérstaklega fram við opnun Þeystareykjavirkjunar að hún yrði höfð aðeins 90 megavött til þess að stunda ekki "ágenga orkuöflun", en nýjasta útspil hans er samt að stækka virkjunina. 

"Þú veist það, að ef við virkjum ekki stanslaust verður kreppa og atvinnuleysi" sagði Finnur Ingólfsson við mig fyrir 20 árum. 

Spurt var á móti: "En hvað gerist þegar við verðum búnir að virkja allt virkjanlegt?"

Svar Finns: "Það kemur okkur ekki við, því að við verðum dauðir þá."

Ómar Ragnarsson, 4.2.2022 kl. 12:53

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk fyrir þetta, Ómar.

Við gerð Hellisheiðarvirkjunar fóru stjórnendur Reykjavíkur ekki rétt að. "Bjargað var í horn" með því að flytja gufu að virkjuninni frá gufuforðabúri, sem átti að þjóna annarri virkjun.  Spurning, hversu lengi sú ráðstöfun dugar.  

Ætli samrunaorka verði ekki komin til skjalanna, "þegar við verðum búnir að virkja allt virkjanlegt" ?

Bjarni Jónsson, 5.2.2022 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband