Efnahagsátök og styrjaldarvafstur

Stríðið um Úkraínu 2022 eru mestu stríðsátök í Evrópu síðan 1945, þegar Heimsstyrjöld 2 lauk.  Það er athyglisvert, að nú eru Úkraínumenn og Rússar í aðalhlutverkunum, og þeir léku stór hlutverk í heimsstyrjöldinni 1941-1945.  Úkraínumenn voru kúgaðir og hart leiknir í ríkjasambandi Ráðstjórnarríkjanna undir Jósef Stalín, og margir þeirra tóku Wehrmacht fagnandi sem frelsurum 1941, en Schutzstaffel (SS) og GESTAPO Heinrich Himmlers gengu þannig fram á hernámssvæðunum, að Úkraínumenn snerust gegn hernámi Þriðja ríkisins, og kunni Wehrmacht framgöngu Himmlers og manna hans litlar þakkir fyrir, því að Úkraínumenn gerðu Wehrmacht lífið miklu erfiðara en ella. Nú hamrar ódámurinn Vladimir Putin á því við landsmenn sína, að Rússland eigi aftur í höggi við nazista handan landamæra sinna við Úkraínu og Eistland, og bráðum kemur áreiðanlega að Lettlandi og Lithauen o.fl.  Sannleikurinn er sá, að yfirgangur og stríðsglæpir Putins minna í mörgu á aðfarir Foringja Þriðja ríkisins.  Mannfyrirlitning þeirra og miskunnarleysi beggja er slík, að hvorugur getur talizt mennskur og má þar af leiðandi telja vitstola. 

Stríðið um Úkraínu núna er líka háð af Vesturveldunum, þótt ekki sé það enn með hermönnum á vígvellinum eða á höfunum, en að því getur hæglega komið m.v. málflutning höfuðpaurs stríðsglæpamannanna í Kreml.  NATO er núna að búa sig undir vopnuð átök við Rússland, varnarstríð, og þess vegna ættu menn fyrir löngu að vera hættir að taka mark á hótunum þorparans um, að afhendi Vesturveldin Úkraínumönnum sóknarvopn, líti hann á það sem stríðsyfirlýsingu NATO.  Vesturveldin verða að venja sig af þeim kæk að láta þetta gegnumrotna ríki stjórna gerðum sínum.  Ekkert stöðvar einræðisherra með guðlega köllun til illvirkja annað en valdbeiting máttar, sem hefur í fullu tré við fólið. 

Efnahagsþvinganir Vesturveldanna gagnvart Rússlandi eru sögulega einstæðar, og áhrif þeirra á Rússland munu ráða miklu um Úkraínustríðið og átök í heiminum næstu árin.  Þær hafa nú þegar skapað öngþveiti í þessu trnUSD 1,6 hagkerfi og valdið rétt einni hótuninni frá forseta Rússlands; í þetta sinn var það hótun um beitingu kjarnorkuvopna.  Þetta var heimskulegasta hótunin af þeim öllum og sýnir dómgreindarleysi þessa einræðisherra.  Hann skilur ekki, að hann hefur glatað stöðu sinni út á við.  Vestrænir leiðtogar skilja nú flestir loksins, að friðsamleg sambúð við stríðsglæpamennina í Kreml er útilokuð. Ef Rússar ekki losa sig við illmennið og draga sig alfarið út úr Úkraínu með sinn her, þá verður öngþveiti í Rússlandi, og landið verður þriðjaheimsland, sem mun ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið. 

Snöggum umskiptum til hins verra í Rússlandi í kjölfar efnahagsþvingana Vesturveldanna er tekið eftir um allan heim, ekki sízt í Kína, þar sem aðalritari kommúnistaflokksins ætlar að skilja eftir sig þá arfleifð að hafa fært Taiwan undir vald Kínastjórnar í Peking. Vestrið verður að vinna þetta efnahagsstríð gegn Rússlandi og síðan að koma á laggirnar lagagrundvelli, sem ávarðar skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að beita megi mismunandi stigum þessa öfluga tóls.

Þann 26. febrúar 2022 fóru Vesturveldin yfir Rúbíkon ána í anda rómverska herforingjans Júlíusar Cesars forðum, þegar efnahagsþvinganir voru settar á 11. stærsta hagkerfi heims.  Með því að gera viðskipti vestrænna fyrirtækja við rússneska banka ólögleg, nema á sviði orkuviðskipta, og útiloka þá frá alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT, stórminnkaði fjármagnsflæði yfir rússnesku landamærin.  Frysting þess hluta gjaldeyrisforða Seðlabanka Rússlands, sem geymdur er á Vesturlöndum, hindrar aðgengi rússneska ríkisins að rúmlega helmingi þessa mrdUSD 630 forða.  Rúblan féll um tæplega 30 % á fyrstu 10 dögum stríðsins, en mun eitthvað hafa hjarnað við um sinn  vegna tekna rússneskra olíu- og gasfyrirtækja, en fyrir gasið til Evrópu fá þeir um 1 mrdUSD/sólarhr. m.v. núverandi gasverð.  Meiri verðbólga geisar nú í Rússlandi en víðast hvar annars staðar og bætist við 10 % lækkun lífskjara í Rússlandi frá 2014, er Rússar lögðu undir sig Krím og fengu á sig vægar viðskiptaþvinganir.  Hlutabréfavísitalan í Moskvu  hefur lækkað um a.m.k. 90 % frá 24.02.2022, og vöruskortur hefur hafið innreið sína.

Rússland er ríki á fallanda fæti(failed state), því að það er þegar gjaldþrota pólitískt og bráðlega efnahagslega.  Það er dæmigert fasistaríki, þar sem mikilleiki Rússlands er hafinn upp til skýjanna með aðstoð rétttrúnaðarkirkjunnar, en þessi mikilleiki er innantómur, því að hann er reistur á hernaðarmætti, sem er ekki fyrir hendi.  Putin sigar hernum á lítil ríki í grennd, s.s. Georgíu og Tétseníu, og nú stærra ríki, sem hann taldi mundu verða sér auðveld bráð, alveg eins og Mússólíni á sinni tíð.  Sá var gerður afturreka úr Abbessyníu í NA-Afríku (Eþíópía-Eritrea), og Þjóðverjar urðu að bjarga ítalska hernum undan Grikkjum vorið 1941, sem tafði "Operation Barbarossa" um örlagaríkar vikur. 

Nú hefur Úkraínumönnum tekizt að eyða þriðjungi rússneska hersins, og framganga hans í Úkraínu sýnir engan mikilleika, heldur þvert á móti algera lágkúru á vígvellinum  og níðingshátt gagnvart almennum borgurum.  Það er ekkert eftir af Pótemkíntjöldum fastaleiðtogans Putins. Það er ekki hægt að gera neina samninga við hann; það er aðeins hægt að sigra hann.  

Í Kænugarði er aftur á móti fram kominn pólitískur leiðtogi Vestursins í stríði, sem líkja má við Winston Churchill 1939.  Fyrsti forsætisráðherra Rússlands eftir fall kommúnistastjórnarinnar 1991 var gagnmerkur maður, sem lézt fyrir aldur fram 2009.  Árið 2007 gaf Yegor Gaidar út bók, "Collapse of an Empire: Lessons for modern Russia".  Þar greinir hann hættuna, sem umheiminum stafar af Rússum undir einræðisstjórn.  Reynt verði með öllum tiltækum ráðum að ná ítökum á öllu yfirráðasvæði Ráðstjórnarríkjanna. Nú hefur hrollvekjuspá Yegors Gaidars rætzt. Vesturveldin verða að knýja fram skilning á því í Kreml, að öllu afli Vesturveldanna verður beitt til að koma í veg fyrir, að fasistastjórninni í Kreml, blóðugri upp að öxlum, takist ætlunarverk sitt. Ef eitt ríki fellur, bíða hinna sömu örlög.  Úkraínumenn berjast nú ekki einvörðungu fyrir föðurland sitt, heldur hinn lýðræðislega heim allan.  

Ef Vestrinu tekst að ráða niðurlögum hinna illu afla í Kreml með aðgerðum sínum (til þess þarf að draga verulega úr eldsneytiskaupum af Rússum), verða langtímaáhrifin af því veruleg.  Heimurinn er ókræsilegur, og ýmis ríki munu þá reyna að smeygja sér út úr vestrænu fjármálakerfi. Slíkt dregur úr áhrifum þvingunaraðgerða og mun leiða til breyttra heimsviðskipta (End of Globalisation).  Á 4. áratugi 20. aldarinnar var uppi ótti við viðskiptabönn samfara uppgangi einræðis og efnahagslegra áhrifasvæða. 

Óttinn við þetta efnahagsvopn verður mestur í einræðisríkjum, en á þeirra snærum er nú helmingur trnUSD 20 gjaldeyrissjóða og varasjóða ríkisstjórna heimsins.  Þótt Kínastjórn muni geta valdið Vestrinu og bandamönnum vestrænna ríkja (lýðræðisríkjunum) gríðarlegu tjóni með því að stöðva afhendingu aðfanga til þeirra, ef Kínaher ræðst á Taiwan, gæti Vestrið þá fryst varasjóð Kínastjórnar upp á trnUSD 3,3.  Jafnvel Indverjar, sem enn hafa neitað að fordæma innrás Rússa í Úkraínu, hafa ástæðu til að íhuga stöðu sína í þessu ljósi.  Á næstu 10 árum gætu tæknibreytingar leitt af sér þróun peningakerfis, sem gerir löndum kleift að sniðganga vestrænt fjármálakerfi. Kínverska stafræna mynttilraunin hefur nú 261 milljón (M) notendur.  Núna er erfitt að koma trilljónum bandaríkjadala fyrir til ávöxtunar utan vestrænna markaða, en í tímans rás munu fleiri ríki e.t.v. reyna að koma varasjóðum sínum víðar fyrir með fjárfestingum. 

Klofningur fjármálaheimsins virðist vera óhjákvæmilegur.  Með víðtækari og áhrifameiri notkun viðskiptaþvingana sem vopns í pólitískri baráttu við andstæðinga eiga Vesturveldin á hættu, að fleiri ríki reyni að rjúfa sig frá vestrænu fjármálakerfi en æskilegt þykir.  Þess vegna þurfa Vesturlönd að afloknum núverandi átökum við Rússland að leitast við að koma sér upp einhverju regluverki um þessar þvingunarráðstafanir.  Bitlitlar þvingunarráðstafanir ætti að forðast.  Víðtækar og djúptækar þvingunarráðstafanir með lömunaráhrif að hætti viðskipta- og fjármálahamlanna gegn Rússlandi ætti aðeins að vera unnt að beita gegn árásaraðila, sem hefur ólögmætt stríð að alþjóðalögum.       

      

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

"Sannleikurinn er sá, að yfirgangur og stríðsglæpir Putins minna í mörgu á aðfarir Foringja Þriðja ríkisins.  Mannfyrirlitning þeirra og miskunnarleysi beggja er slík, að hvorugur getur talizt mennskur og má þar af leiðandi telja vitstola. "

Hvorugur mun líklega sæta ábyrgð. Það verður aðstöðva brjálæðið með einhverju móti . Einn dallur á botninn breytir ekki heildinni.

Halldór Jónsson, 14.4.2022 kl. 17:45

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Að semja við Rússa undir stjórn Putins er ekki fremur hægt en hægt var að semja við forystu Þriðja ríkisins undir stjórn Adolfs Hitlers.  Það er ekki hægt að viðurkenna, að innrás og illvirki í öðru landi séu leið ríkja til að færa út kvíarnar.  Hið eina ásættanlega að mínum dómi er, að rússneski herinn hverfi með sitt hafurtask austur til "móður Rússlands".  

Það væri einsdæmi í seinni tíð, ef eldur í herskipi án árásar á það að utan leiddi til, að það sykki. Það er sérkennilegt að ráðast svo á Kænugarð með eldflaugum "í hefndarskyni".  Moskva var flaggskip rússneska flotans.  Rússar eru svo litlir karlar, að þeir geta ekki einu sinni viðurkennt ósigur sinn, heldur spinna upp ósennilegan lygavef.  Þeir eru flæktir í eigin ósannindi, illvirkjarnir atarna.  

Bjarni Jónsson, 15.4.2022 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband