Rotnir stjórnarhættir öfugmælaskálda borgarinnar

Sem bornum og barnfæddum Reykvíkingi, þótt annars staðar hafi nú búið í hálfa öld, rennur höfundi þessa pistils til rifja, hvernig komið er málefnum höfuðborgarinnar. Fjárhagur borgarinnar sígur stöðugt á ógæfuhlið vegna skuldasöfnunar til þess eins að halda útbólgnu borgarbákninu gangandi. Þegar greiða þarf af lánum vegna "þungu" borgarlínunnar og standa undir tapinu af rekstri hennar, mun borgarsjóður fyrirsjáanlega komast í þrot.  Það verður greiðslufall hjá borgarsjóði, og Reykjavík verður að segja sig til sveitar. 

Óráðsía í fjármálum endar alltaf með ósköpum.  Hinn alræmdi braggi, þar sem borgin henti um hálfum milljarði ISK (mrdISK 0,5) út um gluggann til að fjölga veitingastöðum í Reykjavík, var að sjálfsögðu bara toppurinn á ísjakanum.  Verkefnastjórnun borgarinnar er í skötulíki og fagmennskunni hefur hrakað undir stjórn Dags B. Eggertssonar.  Dæmi er Gaja, gasgerðar- og jarðvegsgerð (moltuvinnsla) úr sorpi, kostaði rúmlega mrdISK 6,0 og fór langt fram úr kostnaðaráætlun, en gæði moltunnar eru allsendis ófullnægjandi vegna efnainnihalds, sem er yfir skaðlegum mörkum samkvæmt fjölþjóðlegum viðmiðunum. Svona fer, þegar kenjar óráðþægra og einstrengingslegra stjórnmálamanna eru látnar ráða ferðinni, en góð verkfræðileg þekking látin sigla sinn sjó.  Í öllum verklegum framkvæmdum og skipulagsmálum, ekki sízt á sviði samgöngumála, er þetta alvarlegur löstur á stjórnarháttum borgarinnar. 

Djúpstæð spilling á auðveldan leik, þegar fagmennskunni er ýtt purkunarlaust til hliðar af duttlungafullum stjórnmálamönnum, eins og þeim, sem skipa núverandi meirihluta borgarstjórnar.  Í forystugrein Morgunblaðsins, 28. apríl 2022, var drepið á þetta undir fyrirsögninni:

"Hrópar á dagsljós".

Forystugreinin endaði þannig:

"Þessi grein þingmannsins [Ásthildur Lóa Þórsdóttir] úr Flokki fólksins er einkar athyglisverð.  En ýmsum gæti þótt millikaflinn, sem ekki komst fyrir í svo stuttri grein, ekki vera síður merkilegur.  Skeljungur var keyptur.  Hluthöfum var skömmu síðar boðið að selja nýjum eigendum bréf á nokkru, en þó mjög varfærnu, yfirverði. Ýmsir lífeyrissjóðir héldu að sér höndum í þeim efnum, og nú er talað um, að "þeir hafi lokazt inni", eins og kallað er. 

Nú virðist vera að koma smám saman í ljós, að stóri hluthafinn hafi staðið í miklu leynibralli við borgarstjórann í Reykjavík. Það brall hafi aldrei verið rætt uppi á borðum borgarstjórnar, sem sætir miklum tíðindum, ef rétt er.  Ljóst er þó, að einhverjir úr hópi borgarfulltrúa hafa komið að málinu ásamt Degi B. Eggertssyni og hafa vitað meira um málið en aðrir borgarfulltrúar og hvað þá almenningur í borginni.  Það verður varla hægt að kalla það annað en samsæri af hálfu borgarstjórans og þeirra, sem að brugginu standa, að láta eins og ekkert sé, á meðan borgarbúar eru plataðir að kjörborðinu. 

Mikið hefur verið fundið að söluaðferðum á Íslandsbanka og virðist óneitanlega óhönduglega hafa verið haldið um sölu hans.  En umrætt milljarðatugabrask undir handarjaðri borgarstjórans og söguhetjunnar í grein Ásthildar Lóu, þingmanns, virðist enn síður þola dagsljósið.  Hlýtur að teljast með miklum ólíkindum, ef forráðamenn Kauphallarinnar standa ekki þegar í stað fyrir trúverðugri rannsókn á málinu og því, hvernig almennir hluthafar voru leyndir flestu af því, sem fram fór og kostaði þá fúlgur fjár, þótt mest af því sé mun dreifðara en hitt, sem verður eftir í höndum köldu karlanna." [Undirstr. BJo.]

Hér er stórmál á ferðinni, spillingarmál borgarstjórans í Reykjavík og flokks hans, Samfylkingarinnar, sem furðu gegnir, að ekki sé komið í hámæli í kosningabaráttunni í Reykjavík.  Samfylkingin hefur undanfarnar vikur kastað reyksprengjum út af meintum ávirðingum í tengslum við sölu á um mrdISK 50 hlut ríkisins í Íslandsbanka.  Nú er komið í ljós, að það var til að kæfa umræðuna um þeirra eigin hneyksli í Reykjavík fram yfir sveitarstjórnarkosningarnar.

Hvers vegna í ósköpunum er ekki hrópað á "óháða rannsóknarnefnd" til að fletta ofan af óboðlegum og óheiðarlegum vinnubrögðum borgarstjórans í Reykjavík, þar sem ráðabruggið snýst um tugmilljarða verðmæti í Reykjavík ? Hvers vegna hrópar ekki útibú Samfylkingarinnar, furðufuglarnir í píratahreyfingunni, sem styðja gjörspilltan borgarstjórann, á opinbera útskýringu á því, sem fram hefur farið á milli borgarstjórans og refsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ?  Hvers vegna vekja konfektkassar til sölufulltrúa á snærum Bankasýslu ríkisins meiri áhuga þingmanns pírata, Björns Levís Gunnarssonar, en brask borgarstjórans með eignir Reykvíkinga ?  Það hljóta að vera til fleiri skýringar á því en sú, að sá ósvífni eintrjáningur sér aldrei skóginn fyrir trjánum.  Hann missir allan trúverðugleika sem vindmylluriddari gegn  "spillingunni", ef hann ekki heimtar öll spil á borðið nú í þessu borgarstjórahneyksli, því að sporin hræða.  

Af hálfu Samfylkingarinnar gætir hér sams konar þöggunar og hún beitti fyrir Alþingiskosningar í september 2021.  Þá var vitað, að vonarstjarna hennar, Kristrún Frostadóttir, hafði breytt MISK 3,0, sem hún sem bankastarfsmaður þáði að gjöf, í MISK 80-100.  Virði hlutabréfa, sem hún óverðskuldug þáði að gjöf frá bankanum, þar sem hún starfaði, þrítugfaldaðist á skömmum tíma. 

Það var eðlilegt, að hún ryki upp eins og naðra að aflokinni sölu á ríkisbréfum í Íslandsbanka, þótt ekkert heyrðist í henni á undirbúningsstigunum, og fjargviðraðist út af nokkurra % gróða smárra fjárfesta, sem höfðu leyst út bréf sín.  Hér er helber hræsnin í öllu sínu veldi.  Siðlaust fólk reynir með upphrópunum og innistæðulausum aðdróttunum að rýra mannorð heiðvirðs fólks, en leikur sjálft tveimur skjöldum og er í raun með allt á hælunum í siðferðislegum efnum.

Undir langvinnri leiðsögn Samfylkingarinnar er fjárhagur höfuðborgarinnar nú svo veikur, að hún er ekki til neinna stórræða.  Við þessar aðstæður hefur Samfylkingin sprengt aðra reyksprengju, sem á að hylja veikan fjárhag með draumsýn um stórverkefni, sem hún lætur sem Reykjavík hafi efni á, en mun leiða til greiðsluþrots borgarinnar, af því að verkefnið mun skila stórtapi og aðeins auka vandann, sem því af draumaprinsinum í stóli borgarstjóra er ætlað að leysa.  Með umferðarlausnum Samfylkingarinnar í borginni kórónar hún mistök sín við stjórnun borgarinnar.  Í Morgunblaðinu, 29. apríl 2022, birtist forystugrein þessu lútandi undir fyrirsögninni:

"Mikill vandi, lítið um lausnir".

Þar stóð m.a.:

"Hann [borgarstjórinn í Reykjavík] nefndi, að á næsta kjörtímabili "fara borgarlínan og Miklubrautarstokkur í framkvæmd, margar framkvæmdir klárast, en aðrar fara í gang" og bætti því við, að hætta væri á, að framkvæmdir tefðust, ef fólk, sem er með "óljósa framtíðarsýn" kæmist að.  Og hann nefndi einnig, að ef ætti að kollvarpa stefnunni, væri hætt við, að húsnæðisuppbygging tefðist og tafirnar í umferðinni yrðu meiri."

Um þessi orð duglauss borgarstjóra má segja, að þarna taki moldin að rjúka í logninu.  Nú er einmitt bráðnauðsynlegt "að kollvarpa stefnunni" í Reykjavík til að fá hreyfingu á framfaramálefnin.  Þegar í stað á að hverfa frá rándýrri og hægfara "þéttingu byggðar", sem er ætlað að fjölga fólki í grennd við væntanlega borgarlínu og þrengja að einkabílnum með fáum bílastæðum á íbúð og fækkun akreina fyrir bíla.

Í staðinn á að brjóta nýtt land undir byggð, en Reykjavík á nóg af landi, og þar á að skipuleggja fjölbreytilega byggð með fjölbreytilegum byggingaraðilum, en umfram allt að fjölga íbúðum mun meira en nú er gert árlega til að bæta úr brýnni þörf, sem er orðið ekki aðeins þjóðfélagsvandamál á Íslandi, heldur líka efnahagsvandamál (verðbólga). Aðalskipulagi þarf að bylta, festa Reykjavíkurflugvöll í sessi (er Framsókn í Reykjavík á móti Reykjavíkurflugvelli ?) og tryggja rými fyrir umferðarlausnir, sem virka til að bæta umferðaröryggi og eyða óþarfa umferðartöfum (mislæg gatnamót, fjölgun akreina). Lausnirnar eru fyrir hendi og margreynt að virka, en það þarf pólitískan vilja til að draga Reykjavík út úr forneskjunni (frumstætt gatnakerfi og umferðarstýring).

Borgarlínudellunni á að breyta úr "þungri" borgarlínu á miðju vegstæði í "létta" borgarlínu á hægri kanti, eins og "Samgöngur fyrir alla" hafa lagt til.  Þann 29. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein eftir prófessor Jónas Elíasson:

"Kreppa í samgöngum höfuðborgarsvæðisins".

Þar kenndi margra grasa, en 2 tilvitnanir verða látnar duga:

"Í fljótu bragði má áætla, að umframeldsneytiseyðsla vegna umferðartafa sé 10.000-20.000 t/ár.  Þetta samsvarar kolefnislosun allt að 60 kt/ár af CO2; til viðbótar kemur ryk og önnur mengun [t.d. níturoxíð og brennisteinn - innsk. BJo].  Það verður að ætlast til, að Reykjavík komi með mótvægisaðgerðir, sem virka.  Ef ekki, geta þessar tölur þrefaldazt á tiltölulega stuttum tíma."

Dyntótt og ófagleg stefnumörkun í málefnum höfuðborgarinnar, eins og sú, sem þar hefur nú fengið að viðgangast allt of lengi, er auðvitað ekki útlátalaus, heldur kostar stórfé og kemur niður á lífsgæðum almennings.  Kostnaður vegna slysa í umferðinni vegna frumstæðra gatnamóta og þrengsla ásamt tímasóun í óþarfa umferðartöfum, nemur um þessar mundir um 100 mrdISK/ár.  Við þetta bætast nokkrir milljarðar ISK/ár vegna eldsneytiskostnaðar í lausagangi vegna óþarfa umferðartafa.  Hér er um að ræða a.m.k. 600 kISK/ár á hvern þann, sem verður fyrir barðinu á afleiðingum frumstæðs gatnakerfis í Reykjavík. Þetta er ekkert smáræði, og varpar upphæðin ljósi á nauðsyn þess að kjósendur í Reykjavík noti nú tækifærið og varpi af höndum sér stjórnmálamönnum, sem enga burði hafa til að stjórna borginni í þágu almannahags.

"Hún [borgarlínan] er framlenging á núverandi strætókerfi á mjög dýrum sérakbrautum, sem geta ekkert gert, nema koma í veg fyrir seinkanir [strætó]; þær eru [þó] mjög litlar.  Strætó stendur sig vel og seinkar mjög lítið.  Hvernig á þá að bæta kerfið ?

Bandarískur sérfræðingur lýsti því í fyrirlestri 2015 (sjá Þórarin Hjaltason, Mbl. 12. apríl 2022), en enginn hjá Reykjavíkurborg virðist muna eftir þeim fyrirlestri í dag, sem verður að teljast slæm fagleg villa.  Aðalatriðið í hans tillögum til að bæta almenningssamgöngur var einfalt: þétta ferðir og láta reynsluna af því segja til um næsta skref í ferlinu.  Enga nýja stóra vagna, engar sérbrautir, nema samkvæmt þörf og þá hægra megin.  Og hér má bæta við: ekkert í hans fyrirlestri ýtti undir stórt borgarlínustökk í anda Mao Tse [Tung], þ.e.a.s. þreföldun á farþegafjölda í einni svipan."

Það ættu að hringja margar aðvörunarbjöllur hjá sveitarstjórnum höfuðborgarsvæðisins og í samgönguráðuneytinu út af því, að ráð virtra sérfræðinga eru hundsuð í þessu borgarlínumáli.  Engu að síður er verkefnið nú komið á sjálfstýringu framjá kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum.  Þeir, sem verða með bein í nefinu í sveitarstjórnum höfuðborgarsvæðisins eftir kosningarnar 14. maí 2022, verða að berja í borðið og stöðva ferlið, þar til fengizt hefur samþykki viðkomandi bæjarfélaga fyrir nákvæmri legu, og þar til fengizt hefur á hreint, hver á að reka borgarlínu.  Það hefur hvorki verið áætlað almennilega, hver rekstrarkostnaðurinn verður né hverjar verða tekjurnar.  Vagnakaup eru í lausu lofti.  Strætó er rekinn með tapi og nokkrir mrdISK/ár munu bætast við tap almenningssamgangnanna með tilkomu borgarlínu.

Hér er um að ræða mjög alvarlega mynd af gæluverkefni stjórnmálamanna, sem hvorki tæknilegur né fjárhagslegur grundvöllur er fyrir.  Þetta er óásættanleg staða, því að fjárveitingar til verkefnisins lenda í svelg, sem verður langvarandi byrði á íbúum höfuðborgarsvæðisins og tekur fé frá arðsömum fjárfestingum um allt land.  Þetta heitir óráðsía.    

 

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Og allt þetta brölt, allur þessi kostnaður og öll sú óvissa um enn frekari kostnað, til þess eins að gera tilraun til að fjölga farþegum með almenningsvögnum úr 4% í 12%. Engin vissa er fyrir því hvort það takist, þó eru meiri líkur en minni til að svo muni ekki verða, samkvæmt sögunni síðustu tíu ár. En þá var einum milljarði á ári kostað til að auka fjöldann úr 4% í 6%. Árangur af þeim tíu milljörðum var 0%!

Hvernig er hægt að réttlæta slíkan kostnað, sem reyndar liggur ekki enn fyrir hver verður að lokum, en notum bara áætlanir, hvernig er hægt að réttlæta slíkan kostnað fyrir svo fáa íbúa á höfuðborgarsvæðinu? Og hvernig er hægt að réttlæta að ríkissjóður skuli greiða meirihluta þess kostnaðar? Hvernig má það vera að núverandi ríkisstjórn og sú síðasta, skuli hafa tekið í mál að fjármagna þannig kosningaloforð vinstriflokkanna?

Gunnar Heiðarsson, 6.5.2022 kl. 07:47

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sporin frá borgarlínubrölti í Noregi, "Bussveien", hræða.  Þar hefur kostnaður sums staðar allt að þrefaldazt m.v. áætlun.  Þeir, sem skoðað hafa lítillega kostnaðaráætlanir um reykvísku borgarlínuna, telja, að kostnaðurinn gæti nálgazt mrdISK 200 áður en upp verður staðið frá þessu risavaxna gæluverkefni.  Það er ævintýralegt ábyrgðarleysi að vinna að því með oddi og egg að henda gríðarlegum upphæðum í verkefni til að stytta tafatímann í umferðinni í Reykjavík, þegar sú stytting verður hverfandi lítil, ef nokkur, og tæknilegar lausnir blasa við, sem eru miklu ódýrari og auka öryggið og stytta tafirnar samstundis.  Allt er á huldu um rekstur og rekstrarkostnað þessarar pólitísku hugmyndar.

Bjarni Jónsson, 6.5.2022 kl. 17:46

3 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er stórmál og Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að gera þetta að kosningamáli og fara rækilega ofan í það. Alla vega mikilvægara og málefnalegra en Frelsisborgararnir. 

Jón Magnússon, 6.5.2022 kl. 19:06

4 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Til að gera alla aðalsamgöngu ása höfuðborgasvæðisins ljósfría með mislægum gatnamótum þörfnumst við um 25 slík.  Kosnaður ca 50-70 milljarðar. Hraðbrautir fyrir stræto og almenna umferð fra Leirutanga i Mosó vestur í miðbæ og háskóla, fra völlunum í Hafnafirði vestur í Haskola, Hverfis strætovagnar geta siðan smalað fólki saman fyrir stærri hraðvagna sem aka á fáa staði þaðan sem hverfisvagnar dreifa farþegum nær endastað ef þarf.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 7.5.2022 kl. 09:58

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón.  Það dugar ekkert hálfkák við að fást söfnuðinn, sem er við völd í Reykjavík án þess að stjórna þar af nokkru viti.  Það hefði þurft tangarsókn að borgarstjóranum og Samfylkingunni, þar sem áherzluatriðin væru téð hneykslismál Dags og aðalhluthafans, hættan og gallarnir við stórkallalega hugarsmíð, sem kallast borgarlína og mótað hefur skipulagsmál og allt of hæga uppbyggingu í Reykjavík, og síðan brothætt fjárhagsstaða borgarinnar vegna gáleysis sóaranna í meirihluta borgarstjórnar.  Ég þekki hvorki haus né sporð á þessum "Frelsisborgurum", og þá er ég hræddur um, að þeir skírskoti ekki til margra, sem gætu hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík 14.05.2022.  Þá þarf auðvitað að hamra á, að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.  

Bjarni Jónsson, 7.5.2022 kl. 16:13

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Lausnin, sem þú hér bendir á, Hallgrímur, leysir úr umferðarteppunum og er ódýrari en "borgarlínan", sem eykur umferðartafirnar.  Heilbrigð skynsami verður að komast að við stjórn borgarinnar og kreddurnar við stefnumörkunina að víkja.  

Bjarni Jónsson, 7.5.2022 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband