Leðjuslagur þingmanna stjórnarandstöðu og ráðherra

Þingmönnum stjórnarandstöðu tókst í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að ná nýjum lágpunkti í málefnafátækt, dylgjum og rangfærslum í umræðum um sölu Bankasýslunnar á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka.  Bankasýsla ríkisins framkvæmdi þessa sölu, og armslengd fjármálaráðherra frá sölunni þýðir, að hann hafði engin áhrif á það, hvernig "hæfir fjárfestar" voru skilgreindir, eða hvaða tilboðum var tekið. 

Stjórnarandstaðan virtist hins vegar telja, að hann hefði átt að rýna bjóðendalistann og vinza úr að eigin geðþótta. Það kemur heim og saman við spillt hugarfar þessarar stjórnarandstöðu og veikleika gagnvart afskiptum ráðherra af smáu og stóru. Þetta er auðvitað löngu úrelt viðhorf. 

Einn ráðherrann varð skyndilega vitur eftir á og þóttist hafa lýst andstöðu fyrirfram við þessa útboðsleið, en enginn kannast við slíkt, hvorki í ríkisstjórn né í þingflokki Framsóknar. Hér er mikill draugagangur á ferð, enda kosningar á næsta leiti. 

Björn Leví Gunnarsson, minnipokamaður og pírati, varð þinginu enn til skammar með göturæsislegu tali í þingnefnd.  Téður minnipokamaður heldur, að hann sæki sér einhverja upphefð í því að láta eins og bjáni á Alþingi.  Aðeins bjána getur dottið í hug að fara með staðlausa stafi í þingnefnd á borð við það, að ráðherra hafi lagt sig niður við að hafa milligöngu um, að Bankasýslan eða verktakar á hennar vegum seldi nánu skyldmenni hans hlut í bankanum. Hvorki söluráðgjafar né Bankasýslan höfðu heimild til að hafna viðskiptum á grundvelli ætternis, og Bankasýslunni var ekki heimilt að spyrja ráðherrann ráða í þessu sambandi vegna eðlilegrar armslengdar, sem á að ríkja á milli ráðherra og viðskiptanna.  Þetta skilur ekki vænisjúkur Björn Leví, sem sér skrattann í hverju horni.  Til þess er armslengdin (Bankasýslan), að ráðherra þurfi ekki að annast gjörninga, þar sem hægt er að efast um hæfi hans.  Út af þessum heilaspuna stjórnarandstöðunnar er búið að þyrla upp miklu moldviðri, og rykið mun ekki setjast  fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar 14.05.2022.

Dramadrottningar stjórnarandstöðunnar hefur þrástagazt á nauðsyn þess að skipa "óháða" rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka þetta margtuggna söluferli.  Það er augljóslega ótímabært að leggja út í þann mikla kostnað, úr því að Ríkisendurskoðun telur, að fenginni beiðni frá ráðherra, að rannsóknin sé á sínu verksviði.  Þá tók Seðlabankinn frumkvæðisákvörðun um að fela Fjármálaeftirliti sínu að fara ofan í kjölinn á vinnubrögðum söluverktakanna, sem Bankasýslan fól verkið, og þóknuninni til þeirra.  Það hefur verið látið, eins og þessir söluverktakar hafi handvalið kaupendur að eigin geðþótta, en það er auðvitað tóm vitleysa.  Allir hæfir fagfjárfestar, án tillits til stærðar, gátu gert tilboð í hlut. Jafnræðis er talið gætt á milli kaup- og söluaðila, þegar fagfjárfestir gerir tilboð í eignarhlut.  Einstaklingar eru þess vegna ekki fagfjárfestar. Hvers vegna átti að útiloka litla fagfjárfesta ?  Í ljós kom, að þeir lyftu fremur verðinu upp en hitt. Það er misskilningur, að útboðið hafi átt að einskorða við "kjölfestufjárfesta".  Þvert á móti var áherzla lögð á að trufla markaðinn sem minnst, og þess vegna voru engar hömlur lagðar á endursölu keypts hlutar.

Stærstir voru íslenzku lífeyrissjóðirnir.  Þeir kröfðust afsláttar, líklega magnafsláttar.  Hversu heilbrigt er það, að lífeyrissjóðirnir eigi stóran hlut í bankanum ?  Þeir eru nú þegar ráðandi í stjórnum ýmissa fyrirtækja, sem eru í viðskiptum við bankann, þ.e.a.s. þeir munu sitja beggja vegna borðs.

Flestir telja þó, að gott verð hafi fengizt fyrir bankann.  Undantekning eru þeir, sem alls ekki vilja selja hluti ríkisins í bönkunum, þ.e. ríkisafskiptasinnar (aðallega sameignarsinnar).  Halda menn, að það auki samkeppni og rekstrarhagkvæmni bankakerfisins hérlendis, að ríkissjóður eigi meirihlutann í tveimur af þremur stærstu fjármálastofnunum á markaði hérlendis ?  Erlendis er ríkisrekstur meginhluta fjármálakerfisins hvorki talinn þjóna hagsmunum neytenda né skattborgara (að mestu sniðmengi). Hvers vegna ætti annað að gilda hérlendis ?

Eftir útboðið kynti ráðherrann Lilja Dögg Alfreðsdóttir undir æsing stjórnarandstöðunnar með því að halda því fram, að hún hafi verið andvíg því að fara að ráði Bankasýslu ríkisins um þá aðferð, sem var viðhöfð. Til hvers í ósköpunum var hún að þessu ? Hún sat í ráðherranefnd með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, sem undirbjó verkið.  Hinir ráðherrarnir í nefndinni kannast ekki við slíka gagnrýni Lilju þar.  Hún er því í ógöngum og gróf sína holu enn dýpri með því síðar að halda því fram, að hinir ráðherrarnir hefðu líka haft sínar efasemdir.

  Hvernig brást fjármála- og efnahagsráðherra við þessum flóttalegu ummælum á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis 29.04.2022 ? Morgunblaðið skýrir frá því daginn eftir undir fyrirsögninni:

"Þráspurðu Bjarna um útboðið".

Þar gat eftirfarandi að líta undir undirfyrirsögninni "Kannast ekki við efasemdirnar":

"Þá þótti einnig eftirtektarvert, þegar fjármálaráðherra sagðist ekki kannast við að hafa haft miklar efasemdir í ráðherranefnd gagnvart útfærslu sölunnar, þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Pírata, spurði hann út í það.

Daginn áður hafði Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, sagt á Alþingi, að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hefðu deilt áhyggjum, sem hún hafði áður greint frá í ráðherranefnd, sem vörðuðu aðferðafræðina, sem varð ofan á við söluna á bréfum í bankanum.  

Að sögn Bjarna fór fram umræða um kosti og galla sölunnar, og fannst honum ekki lýsandi að talað væri um efasemdir.

Þegar Þorbjörg spurði, hvort Lilja hefði verið að fara með rangt mál daginn áður, sagði Bjarni, að hann teldi Lilju ekki hafa verið að viðra lagalegar áhyggjur, heldur pólitískar áhyggjur af því, hvernig menn geti viðhaldið góðum stuðningi meðal þjóðarinnar eftir því, hvaða leið væri farin." 

 

Spyrja má, hvað viðskipta- og menningarmálaráðherra gangi til með því að skálda upp eigin mótbárur við þá söluaðferð á ríkiseign í Íslandsbanka, sem Bankasýslan lagði til,  2 nefndir Alþingis lögðu blessun sína yfir og ríkisstjórnin samþykkti að lokum.  Á Alþingi voru engar sérstakar efasemdaraddir um aðferðina sem slíka fyrr en eftir á, heldur kunnugleg gagnrýni sameignarsinna á sölu ríkiseigna yfirleitt. Síðan kórónar viðskipta- og menningarmálaráðherra vitleysuna með því að gera samnefndarmönnum sínum í viðkomandi undirbúningsnefnd sölunnar, forsætis- og fjármála- og efnahagsráðherra, upp, að þau hafi líka verið með böggum hildar út af þessari sölu.  Þessi skrýtni ráðherra virðist vera algerlega úti á þekju og ekki gera sér grein fyrir þeim vandræðum, sem hún veldur ríkisstjórninni með þessari hegðun sinni, nema hún vilji hana feiga.  Framsókn er jafnan söm við sig.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband