Stríðið veldur hungursneyð

Árásarstríð Kremlarstjórnar á hendur Úkraínu hefur snúizt upp í niðurlægingu hennar og Rússahers.  Þar með er ljóst, að zarinn er ekki í neinu, þegar hann gortar af sögulegum "mikilleik Rússlands".  Hernaður Rússa í Úkraínu er ömurlegur og frammistaða þeirra hræðileg, bæði á vígvöllunum sjálfum og gagnvart almennum borgurum, sem þeir níðast á.  Engu er líkara en villimannlegum hernaði forseta Rússlands á hendur fullvalda, lýðræðislegu menningarríki vestan Rússlands sé ætlað að valda sem mestu tjóni á nútímalegum innviðum Úkraínu og menningarverðmætum og drepa fjölda almennra borgara.  Allar hliðar þessa hernaðar Rússlands eru viðbjóðslegar og óverjandi og sýna, að engin friðsamleg samskipti eru hugsanleg við hrokafull og grimm yfirvöld þessa ríkis. Herstjórn Rússa er í skötulíki, eins og hún hefur oftast verið í sögulegu ljósi, sbr Fyrri heimsstyrjöld, þegar Austurríksmenn og Þjóðverjar unnu hvern sigurinn á fætur öðrum, en alltaf sendi keisarinn nýtt herútboð, og nýliðunum var skipað á vígvöllinn og leiddir þar til slátrunar.  Þetta endaði reyndar með stjórnarbyltingu.  

  Það er liður í hernaði Rússlands að loka fyrir aðgengi Úkraínu að Svartahafi fyrir útflutningsvörur sínar, aðallega landbúnaðrvörur. Rússar hafa goldið þetta dýru verði, því að Úkraínumönnum hefur tekizt að sökkva nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi, þótt þeir eigi engan flota sjálfir, þ.á.m. forystuskipi Svartahafsflotans, Moskvu, með tveimur eldflaugum. Rússar beita þessu lúalega bragði í því skyni að koma höggi á Úkraínu, sem verður af útflutningstekjum, og á Vesturlönd, bandamenn Úkraínumanna, sem verða fyrir barðinu á miklum verðhækkunum. Nú er Royal Navy hennar hátignar, Bretadrottningar, á leiðinni inn á Svarthahafið til að rjúfa þetta svívirðilega, rússneska hafnbann. Verður ruddinn að gjalti, þegar stór strákur kemur til að skakka leikinn ?

Upplýst hefur verið, að í heiminum séu nú aðeins til hveitibirgðir, sem endast til júlíloka 2022, og verð birgðanna mun væntanlega stöðugt hækka, þar til framboð eykst að nýju. Nokkrar þjóðir munu ekki hafa ráð á lífsnauðsynlegum lanbúnaðarvörum á núverandi verði, hvað þá sumarverðinu 2022, og verðinu 2023, og þar mun fjölga í hópi þeirra, sem verða hungursneyð að bráð, um tugi milljóna á ári vegna þessa viðurstyggilega stríðs. Rússnesku stríðsglæpamennirnir í Kreml hafa framkallað þennan vanda og neita að létta á honum með því að hleypa kornflutningum frá Úkraínu um Svartahaf.  Þetta ábyrgðarlausa framferði Rússa sýnir, að núverandi yfirráð Rússa við Svartahafið eru óviðunandi.  Hrekja verður rússneska herinn austur fyrir landamæri Úkraínu, eins og þau voru staðfest með Búdapest samkomulagi Rússa, Úkraínumanna, Bandaríkjamanna og Breta 1994.    

Hveiti hækkaði um 53 % frá ársbyrjun 2022 til 15.05.2022, og 16.05.2022 hækkaði það um 6 %, þegar Indverjar tilkynntu um stöðvun útflutnings á því vegna hitabylgju, sem er líkleg til að skemma uppskeru ársins 2022.  Rússland og Úkraínu hafa samtals selt um 28 % af hveitinu á heimsmarkaðinum og 29 % af byggi, 15 % af maís og 75 % af sólblómaolíunni.  Þessir atburðir ættu að vekja framleiðendur og yfirvöld hérlendis upp til meðvitundar um þörfina á stóraukinni akuryrkju hérlendis vegna fæðuöryggis þjóðarinnar, en einnig er innlend framleiðsla ýmissa korntegunda nú orðin fyllilega samkeppnishæf í verði.  Yfirvöld ættu að steinhætta að hvetja til og greiða fyrir moldarmokstur ofan í skurði, þar sem land hefur verið þurrkað upp, sem ýmist má nýta undir akuryrkju, skógrækt eða aðra ræktun, sem einnig bindur koltvíildi. 

Starfsmenn Landbúnaðarháskólans eru vel meðvitaðir um stöðuna og hafa gert matvælaráðuneytinu viðvart.  Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ritaði umhugsunarverðan pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 20.05.2022 undir fyrirsögninni:

"Eflum fæðuöryggi".

Hún endaði þannig:

"Í greinargerð með tillögunum [Landbúnaðarháskóla Íslands] er bent á, að innlend akuryrkja leggi aðeins til um 1 % af því korni, sem nýtt er á Íslandi.  Það er óásættanlegur árangur, þegar það liggur fyrir, að hér er hægt að rækta korn, hvort sem er til manneldis eða til fóðurgerðar. Raunar var stunduð kornrækt á Íslandi um aldir, en vegna breytinga í atvinnuháttum varð hagkvæmara að flytja það eingöngu inn.  Fyrir liggja skýrslur og stefnur um, að auka skuli akuryrkju.  Til staðar eru rannsóknarinnviðir, þekking og reynsla bænda af því, hvernig eigi að rækta korn við norðlægar aðstæður. Það, sem þarf, er aðgerðaáætlun, sem virkjar þann kraft, sem ég tel, að búi í möguleikum akuryrkju.  Greina þarf þá markaðsbresti, sem komið hafa í veg fyrir, að kornrækt eflist af sjálfu sér, þannig að á næstu árum fari af stað metnaðarfull uppbygging í akuryrkju á Íslandi.  Að þessu verður unnið á komandi misserum.  Þannig verði bleikir akrar stærri hluti af landslagi íslenzkra sveita." 

Nú þarf aðgerðir, en ekki meiri skriffinnsku á þessu sviði, þ.e.a.s. bændur þurfa að brjóta nýtt land undir akuryrkju.  Það er of seint núna að sá, en næsta vor þarf að gera það.  Innflutningsverð hefur væntanlega í venjulegu árferði verið lægra en kostnaður hérlendis við akuryrkju og þreskingu o.fl, og þess vegna hefur innlend markaðshlutdeild verið jafnsáralítil og raun ber vitni um, en nú er það væntanlega breytt, ef fræin eru til reiðu. 

Hins vegar kunna bændur að vera hikandi við að taka áhættuna, því að kornrækt getur vissulega brugðizt  vegna tíðarfars, og þar þurfa stjórnvöld að stökkva inn á sviðið núna í nafni fæðuöryggis og veita tryggingar gegn mögulegu tjóni bænda og annarra aðila í þessu framleiðsluferli. Hvers vegna eru engar lausnir kynntar til sögunnar af hálfu ríkisins í þessu greinarkorni matvælaráðherrans ? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka enn einn skynsamlegan pistilinn um hryðjuverkaárás Pútíns á Úkraínu. Hressandi að lesa þegar manni finnst bloggið vera að fyllast af klappstýrum hryðjuverkamannsins, sem er ótrúlegt.

Annars sá ég á YouTube-rás sem ég hef gaman að, OverSimplified þar sem mannkynssagan er rakin í teiknimyndaformi, að Lenín og félagar hafi fendið þá snilldarhugmynd að í staðinn fyrir að gefast upp - hætta bara að berjast, sem er de facto uppgjöf.

Auðvitað varð það til þess að þeir friðar- eða uppgjafarskilmálar sem Rússlandi var boðið fyrst, versnuðu til muna þar sem Þýskaland gat sótt enn lengra í austurátt. Er til hugmyndafræði sem slátrar heilbrigðri skynsemi rækilegar en kommúnisminn?

Theódór Norðkvist, 25.5.2022 kl. 20:55

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Er það stríðið eða efnahagsþvinganirnar sem eru að valda aukinni hungursneyð - undanfarin ár hafa 20% íbúa í Jemen TREYST á matargjafir
Samt verða Afríkubúar 2 000 000 000 innan 10 ára - hvaðan kemur brauðið þá

Grímur Kjartansson, 26.5.2022 kl. 20:10

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú  hittir naglann á höfuðið, Theódór.  Margar vitlausar kenningar hafa farið á flot í sögu mannkyns, en það er vissulega leitun að jafnvitfirrtri kenningu og kommúnismanum.  Hann var og er jafnvel enn boðaður af trúarhita, og áhangendurnir eru sannfærðir um, að þeir hafi höndlað æðsta sannleika.  Sannleikurinn er þó sá, að kommúnisminn er handónýtt hugarfóstur rugludalla, sem virkar ekki í mannheimum.

Í Jemen er hryllilegt ástand vegna borgarastríðs að undirlagi Írana (sjíta-múslima) gegn súnnítum, sem Sádi-Arabar styðja.

Fyrst dregur úr viðkomu með aukinni menntun kvenna og réttindum þeim til handa. Það leggst margt á eitt og veldur fæðuskorti: vitlaus viðbrögð við Kófinu, orkuskortur og hafnbann Rússa á Úkraínumenn til að nefna eitthvað. 

Bjarni Jónsson, 27.5.2022 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband