Ferli ákvarðanatöku í lýðræðisríki

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum), hefur reynzt eljusamur talsmaður einstaklingsfrelsis og lýðræðis í hefðbundnum vestrænum skilningi. Hann hefur iðulega í ræðu og riti, á "öldum ljósvakans" og á síðum Morgunblaðsins vakið athygli á veikleikum í stjórnarfari landsins, sem þó eru ekki bundnir við Ísland, sem kalla mætti útþynningu lýðræðisins og felast í úthýsingu raunverulegrar stefnumörkunar ríkisins frá Alþingi eða ráðherrum, sem standa þurfa Alþingi reikningsskap gerða sinna samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins, til embættismanna innanlands og utan. Með erlendum embættismönnum er hér átt við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og stofnanir og embættismenn á hennar vegum, sem með ákvörðunum sínum, reglugerðum og tilskipunum, eru orðnir áhrifaríkir um lagasetningu á Íslandi vegna innleiðingar Alþingis á reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins), sem Ísland er aðili að síðan 1994. Hér verða aðeins tekin 3 dæmi um innlenda embættisfærslu, sem  vitna um gagnrýniverða embættisfærslu í ljósi krafna um lýðræðislegar heimildir.  

Samkvæmt innleiðingu Alþingis á Orkupakka 3 (OP3) haustið 2019 (Orkulöggjöf ESB á þeim tíma.  Núgildandi orkulöggjöf ESB er OP4, sem hefur enn ekki verið innleidd í EFTA-ríkjum EES vegna skorts á pólitískum stuðningi við það á Stórþinginu og innan norsku ríkisstjórnarinnar.) skal Orkumálastjóri vera fulltrúi ACER-Orkustofnunar ESB á Íslandi og sjá til þess, að ákvæðum gildandi orkupakka sé framfylgt á landinu.  Þar er eindregið mælt með orkukauphöll fyrir raforku, þ.e. að markaðurinn ákvarði orkuverðið á hverri klukkustund sólarhringsins.  Við afbrigðilegar aðstæður, eins og nú ríkja í Evrópu, hefur þetta fyrirkomulag reynzt neytendum herfilega illa og rafmagnið, eins og jarðefnaeldsneytið, orðið þungur fjárhagsbaggi á mörgum heimilum.

Nú eftir þinglok í vor bregður svo við, að Landsnet (undir eftirliti Orkumálastjóra) kynnir til sögunnar nýja undirstofnun sína, sem ætlað er að innleiða þetta markaðsfyrirkomulag á Íslandi. Í ljósi þess, að við núverandi aðstæður orkumála á Íslandi (orkuskort) eru mestar líkur á, að verðmyndun rafmagns eftir skammtíma framboði og eftirspurn muni leiða til umtalsverðra hækkana á meðalverði rafmagns á Íslandi, er vert að spyrja, hvort eðlilegt sé, að embættismenn vaði áfram með þetta mál án þess, að Alþingi hafi fjallað um það sérstaklega ?  Málið er a.m.k. einnar vandaðrar áhættugreiningar virði. 

Þann 23. júní 2022 ritaði Arnar Þór Jónsson grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Engin stemning ?".

Hún hófst þannig:

"Í viðtali við RÚV 16. júní sl. lét Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, þau ummæli falla, að ekki yrði gripið til takmarkana "strax" vegna fjölgunar Covid-smita. Slíkt réðist af "því, hvernig faraldurinn þróast".  Í beinu framhaldi sagði Þórólfur "alveg ljóst, að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu, eða hvar sem er".  Ástæða er til að vekja athygli almennings á þessum síðastnefnda "mælikvarða" sóttvarnalæknis, sem hann hefur raunar ítrekað vísað til í öðrum viðtölum."

Það er líka ástæða til að fetta fingur út í þá áráttu fráfarandi sóttvarnarlæknis að tala um nauðsyn þjóðfélagslegra takmarkana yfirvalda vegna pestar, sem mjög líkist inflúensu, en getur, eins og flensan, leitt af sér ýmis stig lungnabólgu, ef ónæmiskerfi líkamans er veikt fyrir og líkamann vantar D-vítamín.

  Samanburðarrannsóknir á viðbrögðum yfirvalda víða um heim gefa til kynna, að heildardauðsföllum fækki ekki við þjóðfélagstakmarkanir til að stemma stigu við C-19.  Þar sem yfirvöld reka harðýðgislega einangrunarstefnu vegna C-19, eins og í Kína, grasserar pestin enn.  Þarna hefur ofurtrú á stjórnsemi yfirvalda leitt embættismenn víða á villigötur, en aðeins hjarðónæmi getur kveðið þessa pest niður (hjarðónæmi af völdum almennra smita, því að bóluefnin, sem kynnt hafa verið til sögunnar, hindra ekki smit og veikindi).  

Bóluefnafarsinn gegn C-19 er kapítuli út af fyrir sig og ber keim af einhvers konar peningamaskínu lyfjaiðnaðarins, sem yfirvöld hafa látið ginnast til að ánetjast (vanheilagt bandalag stórfyrirtækja, stjórnmálamanna og embættismanna til að græða á ótta almennings).  Bóluefnin veittu ekkert hjarðónæmi, sem þó var lofað, m.a. af íslenzka sóttvarnarlækninum, og ending þeirra í líkamanum reyndist skammarlega skammvinn, enda var hún horfin, eins og dögg fyrir sólu innan 3 mánaða samkvæmt rannsóknum, sem sænski læknirinn Sebastian Rushworth hefur kynnt á vefsetri sínu. 

Slæmar aukaverkanir bóluefnanna, í sumum tilvikum lífshættulegar, eru miklu algengari en af hefðbundnum bóluefnum.  Leyfisveiting fyrir almennri notkun þessara mRNA-bóluefna voru mistök, reist á allt of stuttum athugunartíma á virkninni.  Var þar samsæri á ferðinni ?  Nauðsynlegt er rannsaka það niður í kjölinn.  Enn ráðleggur íslenzki sóttvarnarlæknirinn örvunarkammt, nú þann 4. í röðinni með þeim orðum, að slíkt dragi úr einkennum C-19.  Eru vísindalegar rannsóknir, sem hægt er að treysta, að baki þeirri fullyrðingu, eða eru þessar upplýsingar komnar frá hagsmunaaðilum ?  Nú er allt annað afbrigði á ferðinni en Wuhan-útgáfan, sem þróun bóluefnanna var sniðin við.  Þekkt er, að flensusprautur eru gagnslausar, nema við afbrigðinu, sem flensubóluefnin eru þróuð við.

"Ummælin um "stemningu" sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska, sem íslenzk stjórnmál hafa ratað í.  Þau eru til merkis um öfugþróun, sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast, þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng [það virtist gerast í Kófinu-innsk. BJo]; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa [gerðist með RÚV í Kófinu og vinstri slagsíðan þar keyrir úr hófi fram, enda lögbrot-innsk. BJo]; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna, sem boða "lausnir".  Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín."

 

Hafrannsóknarstofnun gegnir geisilega mikilvægu hlutverki, enda starfa þar margir hæfir sérfræðingar.  Vísindalegar niðurstöður þeirra og ráðgjöf er þó ekki óumdeild, og það er miður, þegar starfsmenn í sjávarútvegi sjá knúna til að bera brigður á réttmæti ráðlagðra aflamarka mismunandi tegunda. Hafró verður að leggja sig fram um að útskýra ráðgjöf sína fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fyrir eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.  Ráðherrann hefur síðasta orðið, eins og á sviði sóttvarna, en verður að hafa þungvæg og hlutlæg mótrök til að ganga í berhögg við stofnanir ríkisins.  

Þann 23. júní 2022 birtist harðorð grein í garð Hafró eftir Björn Jónasson, skipstjóra á Málmey SK1, og Ágúst Ómarsson, skipstjóra á Drangey SK2, undir fyrirsögninni:

"Rugluð ráðgjöf".

Hún hófst þannig:

"Allan hringinn í kringum landið erum við sjómenn að upplifa mokfiskerí bæði grunnt og djúpt og nánast á hvaða veiðarfæri sem er.  Sjórinn er sem sagt kjaftfullur af fiski.  Á sama tíma ákveður Hafrannsóknastofnun að skera veiðiheimildir í þorski niður um 6 % til viðbótar við 13,5 % niðurskurð í fyrra.  Í karfa er niðurskurðurinn á milli ára hvorki meiri né minni 20 %, enda þótt hann mokveiðist, hvar sem menn bleyta í veiðarfærum."

Það er ótvíræð jákvæð afleiðing lækkunar veiðihlutdeildarstuðuls niður í 20 % af viðmiðunarstofni (viðmiðunarstofn þarf að skilgreina á heimasíðu Hafró), að fiskurinn skuli nú vera mun veiðanlegri en áður var.  Sérfræðingar Hafró hafa sagt, að endurskoðun á gömlum stórfiski upp á við í áætlaðri stofnstærð hafi leitt til endurskoðunar niður á við í viðmiðunarstofnstærð (ekki sama og heildarstofnstærð).  Þetta er nokkuð torskiljanleg útskýring og kemur á sama tíma og "hafið (landhelgin) er fullt af fiski".  Það er þess vegna engin furða, að brigður séu bornar á réttmæti þess að draga úr fiskveiðiheimildum á þessu og næsta fiskveiðiári.  Hér stendur upp á Hafrannsóknarstofnun að útskýra niðurstöður sínar betur.  Það hefur verið viðurkennt af hálfu stofnunarinnar, og um það birtist frétt í Morgunblaðinu 24. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Vill ræða við sjómenn".

Fréttin hófst þannig:

"Forstjóri Hafrannsóknastofnunar vill efna til samtals við sjómenn um ráðgjöf stofnunarinnar um hámarksafla einstakra nytjategunda fiska.  Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri, segir, að slíkt samráð hafi verið viðhaft áður og það þurfi að endurvekja.  Hann segir þó spurningu, hvort það eigi að vera í því formi, sem var, eða með öðru fyrirkomulagi."

Á heimasíðunni https://www.hafogvatn.is mætti vera kjarnyrt og skýr útlistun á, hvers vegna Hafrannsóknarstofnun telur nú nauðsynlegt að draga úr veiðum á nokkrum tegundum til að tryggja sjálfbæra nýtingu þessara stofna, og hvers vegna ekki hefur enn dregið neitt úr veiðanleika þeirra í lögsögunni. 

Sjávarútvegurinn er svo þjóðhagslega mikilvægur og svo margir hafa lífsviðurværi sitt af nytjastofnum við Ísland, að nauðsynlegt er, að almenningur skilji, hvað sérfræðingar Hafró eru að fara með ráðgjöf sinni.

Höfundur þessa pistils er ekki í nokkrum færum að draga réttmæti hennar í efa, enda hefur hún verið rýnd og samþykkt af sérfræðingum ICES-Alþjóða hafrannsóknarráðsins.  Það mætti gjarna árétta stefnumörkunina um þróun nytjastofnanna við Ísland, sem ráðgjöfin tekur mið af. Er sú stefnumörkun ættuð frá Alþingi, ráðuneyti eða Hafrannsóknarstofnun ?

20100925_usp001  

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband