Rússland er hryðjuverkaríki

Mafían, sem nú stjórnar Rússlandi, er gengin af vitinu og er þegar búin að senda Sambandríkið Rússland á ruslahauga sögunnar. Hún hefur brotið allar brýr að baki sér með brotum á öllum reglum, sem gilda um samskipti ríkja. Þessi Kremlarmafía lýsti ekki yfir stríði gegn Úkraínu á innrásardaginn, heldur þvaðraði um "sérstaka hernaðaraðgerð", sem hafði það markmið að setja af lýðræðislega myndaða ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og að setja til valda þar strengjabrúðu gjörspilltrar mafíunnar, sem ekki þyrfti að sækja vald sitt til fólksins, heldur til forseta Rússlands. Vladimir Putin er síðan í stríði við stjórnkerfi lýðræðis, sem hann óttast, og lýðræðisríki heimsins með NATO-ríkin í broddi fylkingar. 

Þessi rússneska mafía heldur úti umfangsmiklum lygaáróðri, meinar aldrei, það sem hún segir, og svíkur alla samninga, eins og loftárásir á höfnina í Odessa innan sólarhrings frá undirritun samninga um að heimila og hefja kornútflutning frá þessari miklu hafnarborg við Svartahafið eru nýlegt dæmi um. Annað nýlegt fyrirlitlegt dæmi var að sprengja í loft um fangelsi fyrir úkraínska stríðsfanga í Kherson-héraði, þar sem pyntingar höfðu verið stundaðar, og kenna síðan Úkraínumönnum um að hafa skotið HIMARS-skeyti á fangelsið. 

Þessi glæpsamlegu yfirvöld Rússlands eru óalandi og óferjandi í samfélagi þjóðanna, gjörsamlega siðblind, eins og þau hafa sýnt með löðurmannlegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu gegn almennum borgurum, að þau eru.  Þá hefur mafían orðið uppvís af að brjóta Genfarsáttmálann um meðferð stríðsfanga.   

Ýmsum lygum hefur verið reynt að beita í vitfirringslegum tilraunum til að réttlæta óverjandi innrás Rússahers í Úkraínu 24. febrúar 2022.  Einna afkáralegust er kenning Putins um, að bolsévikar hafi skapað úkraínska ríkið í kjölfar byltingarinnar í Rússlandi 1917, en sögulega séð sé Úkraína hluti af Rússlandi og úkraínska þjóðin ekki til.  Þetta er allt saman alrangt óráðshjal, enda er Kænugarðsríkið eldra en rússneska ríkið og var lengst af sjálfstætt á miðöldum og á hærra menningarstigi en hið rússneska, þótt Kænugarðskóngur hafi oft átt í vök að verjast, t.d. á uppgangstímum pólska og litháíska ríkisins.  Þjóðernistilfinning Úkraínumanna er hrein og fölkskvalaus, eins og þeir hafa sannað með framgöngu sinni við varnir landsins, en á ekkert skylt við nazisma.  Mafían í Kreml heldur þeim áróðri að almenningi í Rússlandi, að rússneski herinn sé að uppræta nazista í Úkraínu.  Þar sannast enn og aftur hið fornkveðna, að margur heldur mig sig. 

Í innantómum gorgeir sínum héldu valdhafar Rússlands, að þeir gætu valtað yfir Úkraínumenn og að þeim hefði með undirróðri flugumanna sinna í Úkraínu tekizt að skapa andrúmsloft uppgjafar og að rússneska hernum yrði jafnvel fagnað með blómum. Hvernig sem vinfengi Úkraínumanna við Rússa kann að hafa verið háttað fyrir 24.02.2022, er alveg öruggt núna, að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hatar Rússa eins og pestina, hugsar þeim þegjandi þörfina og vill allt til vinna  núna að reka þá til síns heima og ganga í raðir lýðræðisríkja Evrópu með formlegum hætti. Er vonandi, að Evrópusambandinu beri gæfa til að taka Úkraínu í sínar raðir og að NATO veiti landinu fullnægjandi öryggistryggingu gegn viðvarandi ógn frá vænisjúkum nágranna í austri. 

 Víðtæk skoðanakönnun í Úkraínu, sem brezka tímaritið "Spectator" birti 29.07.2022, sýndi, að 84 % Úkraínumanna eru andvígir því að láta nokkur landsvæði af hendi við Rússa fyrir frið af því landi, sem var innan landamæra Úkraínu 2014 áður en forseti Rússlands hóf landvinningastríð sín gegn Úkraínu undir fjarstæðukenndum ásökunum sínum um nazistíska eiturlyfjaþræla við stjórnvölinn í Kænugarði, sem ofsæktu rússneskumælandi fólk í Úkraínu.  Ósvífni og fáránleiki þessara ásakana endurspeglast í þeirri staðreynd, að stjórnvöld Úkraínu eru lýðræðislega kjörin og forseti landsins, Volodimir Zelenski, er Gyðingaættar með rússnesku að móðurmáli sínu (ættaður úr austurhéruðunum), en tók sér úkraínsku sem aðalmál á innrásardeginum, 24.02.2022. 

Vladimir Putin hefur breytt Rússlandi í fasistaríki, og rússneski herinn berst undir merki hálfs hakakross.  Vesturlöndum stendur mikil ógn af þeirri stöðu, sem upp er komin í Austur-Evrópu. Kremlverjar hyggjast uppræta Úkraínu sem ríki, og draumurinn er að stofna samslavneskt ríki í Evrópu undir stjórn Kremlar.  Einræðisstjórninni í Kreml stafaði pólitísk ógn af lýðræðisþróuninni í Úkraínu og þoldi ekki, að ríkisstjórnin í Kænugarði sneri við Rússum baki og horfði alfarið til vesturs um samstarf á stjórnmála- og viðskiptasviði.  Það kom svo af sjálfu sér, eftir að landvinningastríð Rússa gegn Úkraínumönnum hófst 2014, að Úkraínumenn sæktust eftir samstarfi við og stuðningi Vesturlanda á hernaðarsviðinu, enda voru þeir rændir hluta af landi sínu. Hættan fyrir Rússland af NATO-aðild Úkraínu var hins vegar aldrei annað en skálkaskjól og ein af útúrborulegum "réttlætingartilraunum" á ínnrásinni 24.02.2022. 

Ef Rússar meintu þetta, hvers vegna réðust þeir þá ekki á Finnland, þegar Finnar sóttu um aðild að NATO ?  Þeim hefði reyndar ekki orðið kápan úr því klæðinu, því að finnski herinn er tilbúinn að taka á móti bjarndýrinu, og finnski herinn er ofjarl Rússahers m.v. lélega herstjórn hans í Úkraínu, lítt þróuð hergögn og lélegan anda innan rússneska hersins. Vladimir Putin dreymir um að sýna umheiminum það, sem hann kallar "mikilleik Rússlands", en honum hefur þvert á móti tekizt að sýna umheiminum, að rússneskir leiðtogar eru lygalaupar og grobbhænsni, og Rússland er í ruslflokki á öllum sviðum. Hvernig dettur þessu hyski í hug að leggja undir sig önnur lönd ?  Það er eitthvað mongólskt í blóðinu, sem þar býr að baki. 

Úkraínuher hefur nú hafið gagnsókn gegn innrásarliðinu í suðurhluta landsins og stefnir á að ná Kherson-héraði, en þar mun Katrín, mikla, 1729-1796, keisaraynja Rússlands frá Stettin í Pommern/Prússlandi, hafa unnið nokkra hernaðarsigra á sinni tíð, og í anda alræmdrar fortíðarþráar núverandi alvalds Rússlands, ætlar hann að innlima þetta svæði í Rússland.  Boðuð er málamynda atkvæðagreiðsla um sameiningu við Rússland í september 2022, og hundruðir kennara hafa verið sendir frá Rússlandi til að heilaþvo blessuð börnin. Er það í samræmi við þá argvítugu Rússavæðingu, sem yfirvöld á hernámssvæðunum stunda.  Hins vegar er starfandi vopnuð andspyrnuhreyfing í Kherson-héraðinu, sem taka mun höndum saman við úkraínska herinn um að reka óþverrana af höndum sér. 

Andspyrnuhreyfingu virðist vera að vaxa fiskur um hrygg í Rússlandi sjálfu, þrátt fyrir ógnarstjórn Kremlar, því að eldar hafa brotizt út víðs vegar um Rússland í skráningarstöðvum hersins, í verksmiðjum - jafnvel í Moskvu, í vopnageymslum og í a.m.k. einni jarðgasvinnslustöð í Síberíu.

Ljóst er, að þungavopn frá Vesturlöndum geta snúið gangi stríðsins við Úkraínumönnum í vil, ef þau verða afhent þeim í þeim mæli, sem Úkraínumenn hafa farið fram á.  HIMARS-fjölflauga, hreyfanlegi nákvæmnisskotpallurinn með 80 km drægni frá BNA er dæmi um þetta. Úkraínumönnum gætu staðið til boða 10.000 flaugar í þessa skotpalla, og þær mundu fara langt með að ganga frá getu rússneska hersins til aðgerða utan landamæra Rússlands. Úkraínumönnum hefur tekizt að eyðilegja birgðageymslur rússneska hersins og skemma aðdráttarleiðir að Kherson-borg með 8 slíkum skotkerfum.  Til viðbótar eru 8 áleiðinni, en úkraínski herinn þarf a.m.k. fimmföldun núverandi fjölda skotpalla til að reka óværuna af höndum sér.  Danir, Bretar og Eystrasaltsríkin hafa afhent flaugar á borð við Harpoon, sem grandað geta skipum, og hafa Úkraínumenn nú þegar valdið miklu tjóni á Svartahafsflota Rússa og tekið aftur Snákaeyju. Þjóðverjar hafa afhent Gephard loftvarnarkerfi og eru að undirbúa afhendingu á öflugasta skriðdreka nútímans, Leopard 2, en hafa verið sakaðir um seinagang og að vera tvíátta. Það er ekki nóg fyrir hinn kratíska kanzlara í Berlín að lýsa yfir í Reichstag, að vendipunktur hafi orðið í utanríkisstefnu Sambandsríkisins Þýzkalands.  Verkin segja meira en nokkur orð.

Vesturlandamenn verða að gera sér grein fyrir því, að alvaldur Rússlands vill lýðræðislegt stjórnkerfi þeirra feigt og að hann er haldinn landvinningaórum um útþenslu Rússlands til vesturs með vísun til landvinninga rússneska keisaradæmisins og Ráðstjórnarríkjanna.  Vesturveldin standa nú þegar í stríði við Rússland á efnahagssviðinu og á hernaðarsviðinu með milligöngu Úkraínumanna, sem bera hita og þunga blóðfórnanna í þágu fullveldis lands síns.  Hættan er sú, að Vesturlönd geri sér ekki grein fyrir því í tæka tíð, að þau hafa ekki efni á því, að Úkraínumenn tapi þessu stríði við kvalara sína um aldaraðir. Hergagnaframleiðslu verður að setja í gang strax, eins og Vesturlöndum hafi verið sagt stríð á hendur.  Ekki dugir að reiða sig á, að birgðirnar dugi. Þær gera það fyrirsjáanlega ekki, allra sízt birgðir Evrópuríkjanna.  

Mest mæðir á Bandaríkjamönnum, og þeir hafa látið í té margháttaða verðmæta aðstoð.  Stefnumörkun þeirra var látin í ljós, þegar utanríkisráðherrann, Antony Blinken, og varnarmálaráðherrann, Lloyd Austin, sneru til baka úr snöggri ferð til Kænugarðs 24. apríl 2022.  Austin sagði þá:

"Úkraínumenn eru staðráðnir í að bera sigur úr býtum.  Við erum staðráðnir í að hjálpa þeim til þess. Og það sem meira er: Við viljum sjá svo stóra burst dregna úr nefi Rússa, að þeir verði ekki færir um að endurtaka það, sem innrásin í Úkraínu felur í sér."  

Nú er eftir að sjá, hvort þessum orðum Bandaríkjamannsins fylgja efndir.  Mikið ríður á því. 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Ég skil ekki alveg einstefnu yfirlýsingar þínar gegn Rússum, því þú hlýtur að geta verið því sammála að fleirri rotin egg megi finna meðal hervelda samtímans - eða hvað finnst þér?

Ég bendi þér í mestu vinsemd á að lesa færslur Arnars Loftssonar um sama málefni hér á blogginu.

Jónatan Karlsson, 3.8.2022 kl. 07:14

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú er hvorki staður né stund til að setja sig í heimsspekilegar stellingar frekar en 1938-1939 til að leita galla í fari þeirra, sem útþenslusinnað einræðisríki hefur ráðizt á, eða á meðal vestrænna lýðræðisríkja, sem vernda vilja og verja fullveldisrétt sjálfstæðra ríkja álfunnar (Evrópu).  Það er uppi tilvistarkreppa, þar sem taka verður skýra afstöðu með eða á móti.  Öll loðmulla í þessum efnum er ekki annað en reykbomba, sem ætluð er til að dylja glæpaverk og glæpsamlega fyrirætlun árásarríkisins.  Fimmtu herdeildirnar láta sig aldrei vanta, þegar kallið kemur. 

Bjarni Jónsson, 3.8.2022 kl. 10:23

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Lymskan er vopn í huga útþennslusambands Evrópu sem þegar hefur varpað bólusprengjum á Ísland til að veikja lýðræði þess.Ætli þeir hafi ekki komið þessu til leiðar og finnst þeir verða að hervæðast. Bjarni þú varst dugmikill baráttumaður gegn því að ísland samþykkti Orkupakka #3,ég varð miður mín að sjá þig svo hvassan gegn Rússum,sem áttu engra annara kosta völ- á örlagastundu. 

Helga Kristjánsdóttir, 3.8.2022 kl. 17:53

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gagnrýni á innleiðingu orkulöggjafar Evrópusambandsins á Íslandi, þar sem ríkja gjörólíkar aðstæður í orkumálum, og andstaða við blóðuga innrás hrotta í ríki í Evrópu, eiga ekkert sameiginlegt.  Ég hef líka miklar efasemdir um að sóa milljörðum ISK af skattfé almennings í haldlausar og jafnvel skaðlegar sóttvarnaraðgerðir yfirvalda gegn C-19 SARS-Cov-2 veirunni.  Bóluefnin eru endingarlítil og jafnvel skaðleg.  Þetta breytir ekki því, að þegar viðfangsefnið er að kveða niður nýlendustefnu rússneskra hrotta í Evrópu, þá styð ég stefnu íslenzkra stjórnvalda, NATO og hins vestræna heims.  

Bjarni Jónsson, 4.8.2022 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband