Átök lýðræðis og einræðis og hlutur orkunnar

Með þungvopnaðri innrás víðfeðms vanþróaðs einræðisríkis í lýðræðisríkið Úkraínu, sem var á framfarabraut og kaus að tileinka sér stjórnarhætti og lifnaðarhætti Vesturlanda, enda menningarþjóð að fornu og nýju, hefur loks runnið upp fyrir íbúum Evrópu, hvað til þeirra friðar heyrir í samskiptunum við Rússland.  Hinir ósvífnu og miskunnarlausu stjórnendur Rússlands hafa nú fellt grímuna og sýnt umheiminum, að í hópi siðaðra samfélaga eru Kremlverjar óalandi og óferjandi.  Það þýðir, að engin leið er að eiga viðskipti við Rússlandi, allra sízt með orku. Kremlverjar eru nú teknir að beita orkuvopninu skefjalaust.  Í stuttu máli er gasstreymið frá Síberíu nú bundið við eina lögn, Nordstream 1 undir Eystrasalt og beint til Þýzkalands, og um nokkurra vikna skeið hefur streymið um hana aðeins numið um fimmtungi afkastagetu hennar. 

Þetta er ekki nægilegt til að safna nægum birgðum fyrir veturinn, svo að þá er neyðarástand fyrirsjáanlegt. Evrópusambandið hefur samþykkt 15 % minnkun notkunar fyrirtækja og heimila m.v. árstíma. Það mun draga úr framleiðslugetu landanna og magna "stagflation" eða stöðnunarverðbólgu, sem líka getur verið samdráttur hagkerfisins ásamt mikilli verðbólgu og verður nú hlutskipti ESB-ríkjanna um sinn.  Heimilin munu lækka óskhitastig vistarveranna, en ekki hefur heyrzt um, að hraðatakmörkun verði sett á "Autobahnen", enda er draumur í dós að þeysa á drekum þýzkra bílasmiðja á tæplega 200 km/klst.  Orkukreppan mun þó kalla á breyttan lífsstíl. 

Rússar hafa borið við bilun í hverfli í Nordstream 1 lögninni.  Siemens sendi hann í viðgerð í Kanada, en Kanadastjórn neitaði um hríð um leyfi til að senda hann þaðan og til Rússlands vegna viðskiptabanns, sem Kanada og Þýzkaland eru aðilar að.  Eftir um vikustapp fengur Þjóðverjar þó Kanadamenn til að sniðganga bannið og senda sér hverfilinn vegna orkuneyðar sinnar. Þetta er orðið pólitískt deilumál í Kanada.

Nú ber Putin við ýmsum pappírslegum formsatriðum og neitar að taka við hverflinum vegna viðskiptabannsins. Það er engu orði treystandi frá þessum Putin og útilokað að gera við hann samning, sem heldur. Hann er tækifærissinni, ómerkingur og lygalaupur. Hann notar gasið í kúgunarskyni gagnvart Þjóðverjum o.fl. og reynir að hrekja þá til að opna Nordstream 2.  Þá geti þeir fengið eins mikið og þeir vilji, því að sú lögn er spáný og tilbúin í rekstur.  Að vanda er seigla í Þjóðverjum, og fremur munu þeir skjálfa úr kulda í húsum sínum í vetur en láta undan þessum fyrirlitlegu kúgurum sínum í Moskvu.

  Vandi Þjóðverja o.fl. er þó í sögulegu ljósi eitt allsherjar sjálfskaparvíti.  Enginn bað þá um að styrkja rússneska björninn með orkukaupum af honum, og Þjóðverjar voru meira að segja ítrekað varaðir við af Bandaríkjamönnum og ESB-þjóðum, sem áður voru austan járntjalds, að kaupa svo mikla orku af Rússum, t.d. 55 % af gasþörf sinni, að þeir yrðu illilega háðir þessum viðskiptum. Þeir, sem mesta reynslu hafa af Rússum, óttast þá og vantreysta þeim mest. Þjóðverjar, sem eru allra manna athugulastir og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig, létu meira að segja hjá líða að eiga undankomuleið vísa með því að byggja móttökustöðvar fyrir LNG - fljótandi, kælt jarðgas, í höfnum sínum.  Þetta er ekki einleikið. Stjórnmálaforysta þeirra brást þeim gersamlega, vann ekki heimavinnuna sína, nýtti sér ekki leyniþjónustuupplýsingar, Engilsaxar bjuggu yfir. Það er grunnt á rígnum.

Þá hafa Þjóðverjar fest gríðarlegt fé í raforkuvinnslu, sem er afkastalítil og óviss í stað þess að efla það eina, sem verulega munar um og er kolefnisfrítt, þ.e.a.s. kjarnorkuna.  Útilokunarstefnu var beitt gagnvart kjarnorkunni á þeim grundvelli, að hún væri of hættuleg. Það er falsáróður, eins og sést með því að virða fyrir sér yfirlit um fjölda dauðsfalla per TWh af framleiddri raforku 1990-2014:

Orkugjafi           Dauðsföll per TWh

Kol-----------------------25

Olía----------------------18

Lífmassi-------------------4

Jarðgas--------------------3

Vatnsföll------------------2*

Vindorka-------------------0,04**

Kjarnorka------------------0,03***

Sólargeislar---------------0,02****

*Meðtalin er Banqiao stíflubilun 1975

**Raforka úr vindorku nemur aðeins 7 % af heild

***Meðtalið er Chernobyl-slysið 1986

****Raforka úr sólarhlöðum nemur aðeins 4 % af heild

Þetta yfirlit sýnir, að kjarnorkuver hafa verið álíka hættuleg og vindmyllur og sólarhlöður í dauðsföllum talið, og þau verða sífellt öruggari í rekstri.  Hins vegar er Akkilesarhæll kjarnorkuveranna geislavirki úrgangurinn, sem ekki hefur tekizt að útrýma enn, þótt með endurnýtingu hafi hann minnkað stórlega á hverja TWh talið.  Ógnin er óviss, því að reynt er að búa traustlega um úrganginn til geymslu.

Að sumu leyti svipar þessari framtíðarógn til ógnarinnar, sem lífríki jarðarinnar stafar af meintri hlýnun andrúmslofts.  Umfang þessarar hlýnunar er umdeilt, hvað sem loftslagstrúboðinu líður, en óumdeilt er, að af mannavöldum sé koltvíildi, CO2, aðaláhrifavaldurinn, og út frá þeim áhrifum er koltvíildisjafngildið reiknað út. Í neyð sinni eru Þjóðverjar nú að gangsetja kolaorkuver, sem búið var að loka, en áhrifin af hverri framleiddri orkueiningu í kolaveri eru 200 sinnum meiri á andrúmsloftið en í kjarnorkuveri, sem þó ekki er hægt að grípa til núna vegna fáheyrðs einstrengingsháttar Angelu Merkel í kjölfar Fukushima-slyssins í Japan 2011. 

Í neðangreindu yfirliti getur að líta mynduð gróðurhúsagös í tonnum af koltvíildisjafngildum á hverja GWh framleiddrar raforku:

Orkugjafi                   t CO2/GWh

Kol---------------------------810

Olía--------------------------720

Jarðgas-----------------------490

Lífmassi-------------------80-210*

Vatsföll-----------------------40

Sólargeislar--------------------5

Kjarnorka-----------------------4

Vindmyllur----------------------4

*Háð nýtni katlanna í verinu

Í þessu yfirliti koma fram sterk meðmæli með kjarnorkuverum m.v. þá miklu áherzlu sem vestræn ríki leggja á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að draga úr raforkunotkun.  Hún mun óhjákvæmilega aukast mikið í orkuskiptunum, hvað sem heimóttarlegum áróðri Landverndar á Íslandi líður, sem nálgast heimsmet í sérvizku. Vindrellur og sólarhlöður munu aldrei geta gegnt veigamiklu hlutverki í orkuskiptum Evrópu.  Þar verður að virkja kjarnorkuna. 

Nýjasta kjarnorkuverið á Vesturlöndum er nú loksins að taka á sig mynd.  Þegar það verður tilbúið, mun það geta sent 3,2 GW inn á raforkukerfi Bretlands og annað um 7 % af orkuþörf landsins (þetta jafngildir 640 vindmyllum, en orkugetan væri aðeins 1/3 af orkugetu kjarnorkuversins).  Á þeim 4 árum, sem kjarnorkuverið Hinkley Point C (HPC) við Bristolflóa á vesturströnd Englands hefur verið í smíðum, hefur það stöðugt verið notað sem dæmi um vandann, sem að kjarnorkuiðnaðinum stafar, en þá gleymist neikvæður þáttur eftirlitsiðnaðarins, sem stöðugt hleður utan á kröfugerð sína um varabúnað, öryggiseftirlit og neyðarkerfi. Þetta olli því, að raforka frá nýjum kjarnorkuverum átti erfitt með keppa við kola- og gasorkuver, nema á þau væru lögð há koltvíildisgjöld.  Nú eiga þau erfitt með samkeppnina við vindorku og sólarorku, enda engin auðlindagjöld innheimt af þeim. 

Þegar brezka ríkisstjórnin undirskrifaði samninginn um HPC við franska eigandann EDF árið 2013, þá átti orkuverðið frá verinu að verða 92 GBP/MWh, þá 145 USD/MWh.  Þá kostaði orkan frá vindorkuveri undan ströndu 125 GBP/MWh (36 % meira en frá HPC). 9 árum seinna er HPC 2 árum á eftir áætlun og mrdGBP 10 yfir fjárfestingaráætlun, sem mun hækka orkuverðið frá HPC, en vindmylluverið á hafi úti framleiðir fyrir aðeins 50 GBP/MWh, nú 60 USD/MWh (60 % lækkun). (Þetta skýrir áhuga fjárfesta á vindorkuverum úti fyrir SA-landi, en þá þarf aflsæstreng til Bretlands, sem hækkar raforkukostnaðinn. Orkuverð frá sólarhlöðum hefur fallið jafnvel enn meira). 

Andstæðingum kjarnorkuvera vegna meintrar hættu, sem af þeim stafar, getur nú bætzt liðsauki þeirra, sem telja þau of dýr.  EDF á nú í fjárhagserfiðleikum, eins og mörg önnur orkufyrirtæki Evrópu með langtímasamninga við viðskiptavini.  Önnur fyrirtæki með kjarnorkuver sömu gerðar í smíðum og HPC, þ.e. s.k. EPR-kjarnorkuver, eru líka á eftir áætlun með sín verkefni. 

EDF á í rekstrarerfiðleikum með sín kjarnorkuver frá 2021 vegna tæringar og hefur orðið að loka þeim vegna viðhalds og viðgerða og kaupa á meðan rándýra raforku frá gasorkuverum. Í marz 2022 lækkaði ágóði EDF um mrdEUR 11 af þessum sökum.  Annað högg  upp á 8,4 mrdEUR/mán kom frá frönsku ríkisstjórninni, þegar hún fyrirskipaði ríkisorkufyrirtækinu EDF að selja endurseljendum raforkuna á verði undir gildandi heildsöluverði til að verja neytendur í núverandi orkukreppu.    

Þrátt fyrir allt kemur HPC vel út í samanburðinum við önnur vestræn kjarnorkuver í byggingu.  Hafizt var handa við EPR-verin í Olkiluotu í Finnlandi og Flamanville C í Frakklandi árin 2005 og 2007 (í sömu röð).  Bæði eru enn án tekna af sölu raforku inn á stofnkerfið.  Hið sama er uppi á teninginum með Vogtle-kjarnorkuverið í Bandaríkjunum, sem er hannað með tveimur Westinghouse AP1000 kjarnakljúfum, sem hafizt var handa við 2009.  Árið 2017 hafði verkefnið leitt til gjaldþrots Westingouse.  Öll 3 verin eru með uppfærðar kostnaðaráætlanir, sem eru 2-3 faldar upphaflegu áætlanirnar og um áratug á eftir tímaáætlun. 

Það er mjög alvarlegt mál fyrir Vesturlönd, sem krefst tafarlausrar úrlausnar með tækniþróun, að fara verður til Rússlands og Kína til að finna nýleg  kjarnorkuversverkefni, sem leidd hafa verið til lykta nokkurn veginn í samræmi við áætlanir, en þá fylgja ekki sögunni ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í öryggisskyni að kröfu eftirlitsaðila, en þær eru höfuðástæða þess, hversu mjög kjarnorkuversverkefni þessarar aldar á Vesturlöndum hafa gengið á afturfótunum. Á árunum 2008-2021 hóf og lauk ríkisfyrirtækið Rosatom framkvæmdum við 5 kjarnorkuver með 10 kjarnakljúfum í Rússlandi.  Kínverjar hafa reist kjarnorkuver með ýmissi tækni, þ.á.m. AP1000 og EPR.  Kínverska "General Nuclear Power Group" hóf framkvæmdir við sína 2 EPR kjarnakljúfa í Taishan í Suður-Kína eftir að framkvæmdir voru hafnar í Olkiluotu og Flamanville, en lauk sínu verkefni árið 2019.   Þetta hefur leitt til þess, að vestræn lönd, sem vilja fá ný kjarnorkuver hjá sér til að anna raforkuþörfinni, hafa leitað til fyrirtækja utan Vesturlanda.  Í ársbyrjun 2022 voru þannig uppi áform um, að Rosatom reisti 4 kjarnakljúfa innan Evrópusambandsins, sem yrðu 7 % af þeim 70 GW, sem fyrirtækið hugðist setja upp utan landamæra Rússlands.  Í febrúar 2022 samþykkti brezki kjarnorkueftirlitsaðilinn Hualong 1, kínverska kjarnorkutækni, til uppsetningar í Bradwell í Essex. 

Þá skall Ukraínustríðið á.  15. febrúar 2022, þegar mikill liðssafnaður rússneskra hersveita átti sér stað við landamæri Rússlands og Hvíta-Rússlands að Úkraínu, neitaði Búlgaría Rússum alfarið um alla þátttöku í kjarnorkuveri, sem á að fara að reisa við borgina Belene í norðurhluta landsins.  Efnahagsráðherra Finnlands, Mika Lintila, hefur ítrekað yfirlýsingu sína um, að það verði "algerlega ómögulegt" að veita ráðgerðu rússnesku kjarnorkuversverkefni í Hanhikivi leyfi til að halda áfram. Í marz 2022 útilokaði Tékkland rússneska kjarnakljúfa úr útboði, þar sem Rússarnir höfðu áður verið taldir líklegastir til að verða hlutskarpastir. 

Það er líklegt, að rússneskum kjarnorkuiðnaði muni hnigna vegna viðskiptabanns Vesturveldanna á Rússland, en Rússar hafa keypt ýmiss konar tæknibúnað og jafnvel tækni af Vesturlöndum fyrir sinn iðnað.  Vitað er, að þetta er að eiga sér stað núna við orkulindir Síberíu, þar sem olía og gas er unnið við erfiðar aðstæður.  Án vestrænnar tækni virðast Rússar ekki ráða við að halda vinnslunni þar í horfinu, en eins og kunnugt er, hefur fjöldi vestrænna fyrirtækja með starfsemi í Rússlandi horfið á braut, þar sem allt traust í garð Rússa á sviði viðskipta hefur horfið í einni svipan vegna villimannlegs hernaðar þeirra gegn fullvalda nágrannaþjóð í vestri. 

Ekki verður undan því vikizt hér í lokin að minnast á ótrúlegt framferði rússneska hersins gagnvart kjarnorkuverum í Úkraínu, en þeir hafa lagt á það áherzlu að hertaka þau. Hafa þeir ekki skirrzt við að beina skothríð að þessum verum og möstrum háspennulína frá þeim.  Á fyrstu dögum stríðsins tóku þeir kjarnorkuver í norðurhluta landsins og ollu tjóni á athafnasvæði versins. Sem betur fór mun hernaðarbrölt Rússa ekki hafa raskað rekstraröryggi versins alvarlega í það sinn.  Úkraínskir starfsmenn versins héldu því gangandi, og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin gerði úttekt á verinu. 

Öðru máli gegnir um stærsta kjarnorkuver Evrópu, sem er í suðurhluta Úkraínu.  Það hafa Rússar hertekið og valdið tjóni á því og flutningslínu frá því með eldflaugaárásum, svo að taka hefur orðið einn kjarnaljúfinn úr rekstri. Auðvitað reyna Rússar að ljúga þessum skemmdum upp á Úkraínumenn, en af hverju flýðu þá rússneskir starfsmenn úr verinu skömmu áður en árásin var gerð ?

Rússneski herinn hefur gert athafnasvæði þessa kjarnorkuvers að eldflaugaskotstöð sinni og hergagnabirgðageymslu. Lengra verður varla komizt í undirmálshegðun og hreinni mannfyrirlitningu á stríðstímum.  Það er alveg ljóst, að Rússlandi er stjórnað af siðblindingjum, af bandittum, sem einskis svífast.  Það er alveg makalaust, hversu djúpt Rússland er sokkið í fen mannvonnsku og illmennsku.  Heyrzt hefur, að jafnvel rétttrúnaðarkirkjunni rússnesku, sem kallar ekki allt ömmu sína og lýsti í upphafi stríð Putins sem heilögu stríði til að sameina rússnesku og úkraínsku kirkjuna undir patríarkanum af Moskvu, sé nú nóg boðið.   

  

     

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

https://www.seaborgtech.com/our-technology

Danska fyrirtækið Seaborg ætlar að vera komið með kjarnorkuver sem er plug and play í fjöldaframleiðslu 2026.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 9.8.2022 kl. 07:37

2 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

https://www.seaborgtech.com/our-technology

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 9.8.2022 kl. 07:38

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru athyglisverð tíðindi úr landi Níelsar Bohr.  Danir hafa forystu um vindmyllusmíðar, uppsetningu þeirra og útflutning, en hér hafa þeir greinilega eygt nýtt viðskiptatækifæri.  Þetta er afar áhugavert og raunhæft skref inn í framtíðina.  

Bjarni Jónsson, 9.8.2022 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband