11.8.2022 | 11:09
Kjarnorkan mun ganga í endurnýjun lífdaganna
Fyrir villimannlega innrás Rússlands í Úkraínu var það meint loftslagsvá, sem helzt mælti með fjölgun kjarnorkuvera. Þar sem hvorki er fyrir hendi fallorka vatns né jarðgufa, er jarðefnaeldsneyti eini orkugjafinn, sem knúið getur raforkuver með stöðugu afli og umtalsverðu uppsettu afli auk kjarnorkuveranna. Við téða innrás bættust við rök fyrir kjarnorkuverum, þ.e.a.s. Rússar tóku til við að beita jarðefnaeldsneytinu, aðallega jarðgasinu, sem vopni á Evrópulöndin með því að draga úr framboðinu. Þeir, sem gerst þekktu til þankagangsins í Kreml, höfðu fyrir löngu varað við, að þetta mundi gerast, en við slíkum viðvörunum var skellt skollaeyrum, t.d. í Berlín, þar sem gjörsamlega ábyrgðarlaus stefnumörkun fór fram fyrir hönd fjölmennasta ríkis Evrópusambandsins.
Þar með hækkaði orkuverðið upp úr öllu valdi. Þorparar í Kreml kunna að skrúfa algerlega fyrir gasflæðið til Evrópu í haust með voveiflegum afleiðingum fyrir evrópsk heimili og fyrirtæki. Það er engin huggun harmi gegn, að um sjálfskaparvíti er að ræða, sem barnaleg utanríkispólitík Angelu Merkel ber sök á.
Þess vegna hefur öllum samningum vestrænna ríkja við rússnesk fyrirtæki um ný kjarnorkuver verið rift. Allt traust er horfið um fyrirsjáanlega framtíð, og djúpstætt hatur á Rússum hefur myndazt í Úkraínu og gengið í endurnýjun lífdaganna víða í fyrri nýlendum Ráðstjórnarríkjanna í Austur-Evrópu. Það geisar viðskiptastríð á milli Rússlands og Vesturlanda og blóðugt stríð á milli Rússlands og Úkraínu. Hið síðar nefnda stríð mun ákvarða örlög Evrópu á þessari öld og er í raun stríð hugmyndafræðikerfa einræðis og yfirgangs annars vegar og hins vegar lýðræðis og friðsemdar. Líklega sígur sól hins víðfeðma Rússaríkis senn til viðar. "Der Zeitgeist" eða tíðarandinn er ekki hliðhollur nýlendustefnu nú fremur en hann reyndist hliðhollur þjóðernisjafnaðarstefnu fyrir miðja 20. öldina. Hvort tveggja tímaskekkja m.v. þróunarstig tækni og menningar.
Viðskiptalíkan Þýzkalands um tiltölulega ódýra orku úr jarðefnaeldsneyti og mikla markaði fyrir iðnvarning í Rússlandi og Kína hefur lent uppi á skeri, enda var hún tálsýn um friðsamlega sambúð lýðræðisríkja og einræðisríkja með sögulega útþenslutilhneigingu. Þegar Rússland fær ekki lengur aðgang að vestrænum varningi og vestrænni tækni, mun landið verða fyrir hæfileikaleka, sem hófst þegar í febrúar 2022, og hnigna ört þess vegna og vegna margháttaðrar einangrunar. Þetta fjölþjóðaríki siglir inn í innri óstöðugleika, borgarastyrjöld, sem sennilega hefst með uppreisn í Tétsníu á þessu ári. Nokkrir baráttumenn frá Tétseníu hafa barizt með úkraínska hernum, og ætlunin er að nota tækifærið nú, eftir að rússneski herinn hefur orðið fyrir skelli í Úkraínu og er upptekinn við grimmdarverk sín þar gegn óbeyttum borgurum, til að gera uppreisn gegn leppstjórninni í Grozni.
Putin hefur lagt sig í framkróka við að sundra Vesturveldunum. Eitt af fáum handbendum hans við völd á Vesturlöndum um þessar mundir er hinn hægri sinnaði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Í sögulegu samhengi vekur afstaða hans til samstarfs við Rússa fyrir hönd Ungverja furðu. Hann hefur samþykkt áform um 2 nýja rússneska kjarnakljúfa í Paks verinu í miðju landinu, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harðlega á þeim grundvelli, að rússneskt kjarnorkuver muni veita Rússum of mikil áhrif í landinu. Nú þykir vafasamt, að Rosatom muni geta lokið verkefninu vegna viðskiptabanns Vesturveldanna. Stríð Rússa við Úkraínumenn hefur opinberað, hversu vanþróað ríki Rússland er. Ríkið stendur á brauðfótum, en hefur haldið sér á floti með útflutningi á orku og hráefnum. Það sækist eftir yfirráðum í Úkraínu til að mergsjúga Úkraínumenn, sem standa á hærra menningarstigi en steppubúarnir í austri.
Bretar eru nú að endurskoða afstöðu sína til þátttöku Kínverja í kjarnorkuverkefni í Bradwell. Einræðisríkin Rússland og Kína eru nú búin að spila rassinn úr buxunum sem áreiðanlegur viðskiptafélagi. Brot ríkisstjórnar Kína á samningi við Breta um sjálfstæði Hong Kong og móðursýkisleg viðbrögð hennar við heimsókn forseta Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, til Taiwan í ágústbyrjun 2022, sýna lögleysuna og yfirganginn, sem einkennir framferði einræðisríkja.
Ein af afleiðingum yfirstandandi orkukreppu er aukinn áhugi á kjarnorku, en Vesturveldin ætla ekki að fara úr öskunni í eldinn og afhenda Rússum, og varla Kínverjum heldur, lykilinn að þessum orkuverum. Kjarnorkuverin geta séð eigendum sínum fyrir mikilli orku með hámarks áreiðanleika. Það er ljóst, að hefði uppbyggingu kjarnorkuvera í Evrópu verið haldið áfram á síðasta áratug og þessum bæði til að draga úr loftmengun, koltvíildi í andrúmsloftinu og kverkataki Rússa á orkukerfinu, þá væri meira gas til ráðstöfunar nú fyrir iðnað og kyndingu húsnæðis í Evrópu. Þetta er ástæða þess, að Finnar, sem reitt hafa sig í talsverðum mæli á rússneskt gas, sem nú er búið að skrúfa fyrir, er umhugað um þá tækni, sem fyrir valinu verður í kjarnorkuverum þeirra.
Frakkar hafa verið leiðandi á sviði kjarnorku í Evrópu og fá meira en helming sinnar raforku frá kjarnorkuverum. Af þessum ástæðum blasir ekki sama hryggðarmyndin við orkukerfinu þar og í Þýzkalandi. Emanuel Macron lýsti því yfir 10. febrúar 2022, að Frakkar mundu senn hefja nýtt uppbyggingarskeið kjarnorkuvera í landi sínu og að nýting sjálfbærra orkugjafa (mikil vatnsorka er virkjuð í Frakklandi) og kjarnorku væri sjálfstæðasta leiðin (most sovereign) til að framleiða raforku.
Bretar hafa líka verið drjúgir í kjarnorkunni. Í apríl 2022 sagði forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í heimsókn til HPC kjarnorkuversins, sem er á byggingarstigi, að verið væri þáttur í stefnumörkun um orkuöryggi Breta:
"Við getum ekki leyft landi okkar að verða háð rússneskri olíu og gasi",
sagði hann við þetta tækifæri. Til að gefa nasasjón af byrðum almennings á Bretlandi af orkukreppu Evrópu og heimsins alls má nefna, að f.o.m. október 2022 mun meðalfjölskylda á Bretlandi þurfa að greiða 3582 GBP/ár eða um 590 kISK/ár, sem mun hækka um 19 % strax um næstu áramót. Þetta er ófremdarástand, sem eitt og sér dugir til að draga úr allri eftirspurn og keyra samfélagið í samdrátt. Bretlandi er vaxandi ólga á vinnumarkaði, enda er þar í þokkabót spáð 13 % verðbólgu síðustu 12 mánuði í október 2022. Atvinnulífið er almennt ekki í neinum færum til að bæta launþegum þessa lífskjaraskerðingu, því að fyrirtækin eru sömuleiðis mörg hver að sligast undan auknum rekstrarkostnaði og nú fjármagnskostnaði, því að Englandsbanki er tekinn að hækka stýrivexti sína ofan í þetta ástand í tilraun til að veita verðbólgunni viðnám.
Þann 24. febrúar 2022 urðu vatnaskil í sögu 21. aldarinnar, einkum í Evrópu. Markaðir gjörbreyttust og samskipti þjóða líka. Tvípólun blasir við í heimsstjórnmálum. Annars vegar Vesturveldin og önnur lýðræðisríki heims, þar sem mannréttindi og lög og réttur eru lögð til grundvallar stjórnarfarinu, og hins vegar einræðisríkin Rússland og Kína með Rússland á brauðfótum og fáein önnur löglaus einræðisríki á borð við hið forneskjulega klerkaveldi í Íran.
Markaðir Íslendinga í Evrópu fyrir fisk og ál hafa batnað fyrir vikið um hríð a.m.k vegna mun minna framboðs frá einræðisríkjunum vegna viðskiptabanns á Rússa og tollalagningar áls frá Kína og framleiðsluminnkun þar. Yfirvofandi kreppa getur þó sett strik í reikninginn hér líka. Við þessar viðkvæmu aðstæður blasir við, að engin sóknarfæri eru fyrir verkalýðshreyfinguna til að auka kaupmáttinn frá því, sem hann var um síðustu áramót og varnarsigur væri fyrir verkalýðshreyfinguna, ef tækist nokkurn veginn að varðveita þann kaupmátt að öllu samanlögðu á næstu árum. Það yrði einstök staða fyrir Ísland í samanburði við flestar þjóðir heimsins. Svisslendingar eru þó á svipuðu róli. Þar er þó félagsaðild að verkalýðsfélögum miklu lægri en hér. Eru verkalýðsfélögin hérlendis e.t.v. gengin sér til húðar ? Væru launþegar betur settir með staðbundnum samningum við sína vinnuveitendur ? Þessir vinnuveitendur eru í stöðugri samkeppni um starfsfólk.
Staðan á mörkuðunum ofan í mikla peningaprentun á Covid-tímanum (2020-2021) hefur valdið mikilli verðbólgu í heiminum. Þrátt fyrir lítinn sem engan hagvöxt í ESB og Bretlandi, hafa seðlabankarnir hækkað stýrivexti til að kveða verðbólgudrauginn niður. Þetta mun að líkindum keyra Evrópu í djúpa efnahagskreppu. Hún kemur ofan í skuldakreppu eftir Covid og getur valdið því, að ríki á evrusvæðinu fari fram á hengiflug greiðsluþrots vegna hás vaxtaálags á ríkisskuldabréf. Evrópu bíður erfiðari vetur en dæmi eru um, eftir að hungursneyðinni eftir Síðari heimsstyrjöldina linnti. Óhjákvæmilega hlýtur angi þessa grafalvarlega ástands að teygja sig til Íslands. Það er bezt að hafa eggin í körfunni ættuð sem víðast að, en frá bandamönnum þó. Heyrðist einhvers staðar í horni klisjan um, að nú sé Íslendingum brýnast að ganga í Evrópusambandið ? Eru engin takmörk fyrir vitleysunni, sem talin er vera boðleg landsmönnum ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Þetta er athyglisvert og ítarlegt hjá þér en áður en maður sannfærist um að kjarnorka sé örugg lausn í orkumálum eru þrjár mikilvægar spurningar sem þarf að svara.
1) Hvernig er hægt að leysa vandamálið með geislavirkan úrgang sem ég lærði að væri fylgifiskur og safnaðist bara upp?
2) Hvernig er hægt að fyrirbyggja að kjarnorkuver verði fyrir árásum eins og skelfilegar fréttir frá Úkraínu fjalla um?
3) Hvernig er hægt að tryggja betra eftirlit svo slys eins og Chernobylslysið verði ekki aftur?
Ingólfur Sigurðsson, 12.8.2022 kl. 05:28
Sæll, Ingólfur;
Takk fyrir málefnalega athugasemd þína og fullkomlega eðlilegar efasemdir:
1) Geislavirkur úrgangur safnazt enn upp, en í minna mæli en áður m.v. unna raforku í GWh vegna endurvinnslu, sem gerir kleift að nýta efnið aftur, og verður lokaúrgangur þá minna geislavirkur en áður, þótt helmingunartími hans teljist enn í öldum. Af sjálfu leiðir, að frágangur hans getur enn ekki talizt vera fullkomlega öruggur, en ég minni á, að jarðefnaeldsneytis raforkuverin hafa valdið 100 - 3300 sinnum fleiri dauðsföllum á hverja unna TWh en kjarnorkuverin.
2) Það er ekki hægt að verja orkuver árásum, nema hafa þau neðanjarðar, og vatnsorkuver hafa verið sett inn í fjöll, en það má draga úr hættunni með öflugum byggingum og innbyggðu öryggi í stýrikerfið, sem tryggir kólnun kjarnakljúfanna við bilun.
3) Eftirlitið getur verið gloppótt, en hönnun kjarnorkuveranna er aðalatriðið. Hún þarf, þegar allt bregst, að hindra ofhitnun kjarnakljúfsins, og þannig eru nútíma vestræn kjarnorkuver hönnuð.
Bjarni Jónsson, 12.8.2022 kl. 11:17
Molten salt reactor kjarna ofnar er svarið.
https://vatnsidnadur.net/2018/06/08/umhverfisvaenni-kjarnorka-imsr-orkubyltingin-er-hafin/
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 12.8.2022 kl. 11:54
https://tlh.manly-battery.com/info/samsung-develops-floating-nuclear-power-plant-72106892.html
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 12.8.2022 kl. 11:59
Vatnskældir úrankljúfar sem voru hannaðir fyrir kafbáta, eiga EKKERT erindi á þurru landi! Ef kjarnorka á eitthvað erindi til framtíðar er það "molten salt reactor" tæknin.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2022 kl. 15:10
Ég vona að þeim takist að gera Þóríum orkuver að varanlegum kosti. Það eru nú um 7 tilraunaver í gangi sem lofa góðu. Þessi kostur ætti að eyða allri skeptík, þar sem þessi tækni er nánast hættulaus og mengunin margfalt minni og marg endurnýtanleg. Það yrði draumastaða fyrir heiminn ef þetta yrði ofaná. Það mun þó reynt að gera erfitt fyrir öllum nýjum og lofandi orkugjöfum. Hagsmunir eru þungir og velta heilu efnahagskerfin á því að svona lausnir verði ekki að veruleika. Ef ekki væri fyrir pólitík og hagsmunapot væri semnilega búið að leysa stóran hluta orkuvandans.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.8.2022 kl. 20:17
Má líka nefna að þóríum orkuver yrðu aldrei uppiskroppa með orkugjafan. Þetta er einfaldlega bráðið salt með sérstaka eiginleika milljón sinnum orkumeira en kolefnaeldsneyti.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.8.2022 kl. 20:22
https://youtu.be/GAiHtrWHxK0
Villandi titill. Þetta er meira um kosti Þóríum orkuvera. Þetta er framtíðin ef pólitík og hagsmunir ríkjandi orkuframleiðslu hætta að leggja stein. Götu þessarar þróunar. Meðan við rífumst og sláumst útaf þessu, eru Kínverjar búnir að ná forskoti.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.8.2022 kl. 21:16
þakka þér fyrir enn einn stórgóðan pistil, um hryðjuverkaárás Rússa á Úkraínu og orkumál almennt. Þú ert einn af fáum bloggurum með heilbrigða sýn á árásina og auðvitað djúpstæða þekkingu á öllu sem viðkemur orku og nýtingu hennar. Fróðlegt að lesa fyrir okkur hin, sem höfum minna vit á þeim málum.
Theódór Norðkvist, 13.8.2022 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.