17.8.2022 | 12:57
Að finna fjölina sína
Þremur dögum eftir upphaf innrásar Rússlands í Úkraínu hélt kanzlari Þýzkalands, kratinn Olaf Scholz , ræðu í þýzka Sambandsþinginu í Berlín, Bundestag, sem kennd er við "Zeitenwende" eða tímamót. Þýzka þjóðin hafði líklega orðið fyrir meira áfalli við þennan glæpsamlega gjörning Kremlarstjórnarinnar en aðrar vestrænar þjóðir fyrir utan auðvitað saklaus fórnarlömbin, Úkraínumenn sjálfa. Ástæðan var sú, að Þjóðverjar höfðu a.m.k. frá kanzlaratíð kratans Willys Brandts lagt sig fram um að efla vinsamleg samskipti við Rússa og treystu því, að gagnkvæmir viðskiptahagsmunir myndu halda rússneska birninum í skefjum.
Þjóðverjar höfðu í þessu skyni tekið mikla áhættu í orkumálum og reitt sig á ábyrga afstöðu Rússa og áreiðanlega afhendingu kola, olíu og jarðgass, þannig að árið 2021 nam t.d. hlutdeild rússnesks gass af þýzka gasmarkaðinum um 55 % og hafði þá hækkað úr 30 % um aldamótin 2000. Nú um miðjan ágúst 2022 nemur þessi hlutdeild um 25 %, en samt hækkar í birgðatönkum Þjóðverja fyrir jarðgas. Þeir hafa aðlagað sig stríðsástandinu furðufljótt.
Þjóðverjar hafa löngum verið veikir fyrir ævintýrum. Á Íslandi og miklu víðar eru Grímsævintýri alþekkt eða hluti þeirra. Þetta er safn ævintýra hinna ýmsu germönsku ættbálka, sem tala þýzka mállýzku, og safnararnir hafa samræmt mismunandi útgáfur og jafnvel sniðið að eigin höfði.
Eitt ævintýranna fjallar um Karl Katz, geitahirði í Harz-fjöllum í Mið-Þýzkalandi. Dag einn leiðir villuráfandi geit téðan Karl inn í langan helli, þar sem hann hittir skrýtna karla, sem freista hans með drykk, og hann lætur ánetjast og fellur í djúpan svefn. Þegar hann vaknar, skynjar hann fljótt, að svefntími hans verður ekki talinn í klukkustundum, heldur í árum. Heimurinn er breyttur.
Margir Þjóðverjar finna sig nú í sömu stöðu og Karl. Þjóðin hafi verið eins og svefngenglar. Eftir Endursameiningu Þýzkalands voru þeir ánægðir með árangur sinn á sviði efnahagsmála og utanríkismála og trúðu því til hægðarauka, að kerfi þeirra virkaði nánast fullkomlega. Stjórnmálamenn þeirra töldu þeim trú um ævarandi velgengni með lágmarks núningi við umheiminn og auðvitað núll-losun gróðurhúsalofttegunda í nánustu framtíð.
Að vakna síðan upp með andfælum við hávaðann frá rússneskum skriðdrekum, sem héldu með offorsi innreið sína í Evrópuríkið Úkraínu, var hræðileg reynsla. Þjóðverjar upplifa sig ekki, eins og Karl, stadda í framtíðinni, heldur áratugum aftur í fortíðinni. Í stað þess að þeysa á hraðbraut (Autobahn) inn í víðsýnt lýðræðiskerfi, hefur stór hluti heimsins hallazt í átt til ómerkilegs lýðskrums, sem Þjóðverjar þekkja allt of vel úr eigin fortíð.
Í stað þess að njóta tímabils friðsamlegrar samvinnu, sem Þjóðverjar töldu, að þeir hefðu lagt grunninn að, reka Þjóðverjar sig nú á, að krafizt er vopna og hermanna af þeim. Auðlegð Þýzkalands reynist nú ekki stafa einvörðungu af dugnaði íbúanna, eins og ævintýraútgáfan af þýzku þjóðfélagi skáldaði, heldur á ódýrri orku og ódýru vinnuafli, og auðvitað hefur nú komið á daginn, að þessi Vladimir Putin, sem skenkti Þjóðverjum 2 gaslagnir undir Eystrasalti frá Rússlandi, hefur nú reynzt vera úlfur í sauðargæru, einn af grimmustu og miskunnarlausustu úlfum Evrópusögunnar, sem ekki vílar fyrir sér að hóta að sprengja stærsta kjarnorkuver Evrópu í loft upp og staðfestir þannig glæpsamlegt eðli sitt.
Allt, sem forveri Olaf Scholz á kanzlarastóli, Angela Merkel, beitti sér fyrir í orkumálum Þjóðverja, var eins og eftir pöntun frá téðum Putin. Hún "flippaði út-flippte aus" eftir stórflóðið í Fukushima 2011 og lét loka helmingi kjarnorkuvera Þjóðverja strax og setti lokadag á 3 síðustu 31.12.2022, og hún fékk Bundestag til að banna jarðgasvinnslu með vökvaþrýstiaðferð (fracking).
Þjóðverjar hafa ekki farið sömu leið og nágrannarnir í Hollandi, sem nýta enn Groningen gaslindirnar, sem hafa gefið af sér mrdUSD 500 síðan 1959. (Í The Economist var af þessu tilefni 1977 skrifað um hollenzku veikina. Hér er stuðzt við The Economist-23.07.2022-Let the sleeper awaken.) Samt eru gasbirgðir Þjóðverja alls ekki litlar. Um aldamótin 2000 dældu Þjóðverjar upp 20 mrdm3/ár af jarðgasi, sem nam um fjórðungi af gasnotkun Þjóðverja. Þótt jarðfræðingar meti nýtanlegan jarðgasforða Þjóðverja um mrdm3 800, hefur vinnslan hrapað niður í 5-6 mrdm3/ár, sem nemur um 10 % af innflutningi jarðgass frá Rússlandi til Þýzkalands fyrir Úkraínustríð.
Það er sorgleg skýring á þessu. Af jarðfræðilegum ástæðum er nauðsynlegt að beita vökvaþrýstingi á jarðlögin til að ná upp nánast öllu þýzku jarðgasi, en þýzkur almenningur er haldinn óraunhæfum ótta við þessa aðferð, og á þessum tilfinningalega grundvelli tókst Merkel árið 2017 að fá Bundestag til að banna í raun vinnslu jarðgass með vökvaþrýstiaðferð í ábataskyni, þótt þýzk fyrirtæki hafi frá 6. áratugi 20. aldar notað þessa tækni við jarðgasvinnslu án nokkurs skráðs tilviks um umhverfistjón.
Það er ekki erfitt að rekja ástæður téðs ótta almennings. Árið 2008 sótti stórt bandarískt olíufélag, Exxon, um stækkun athafnasvæðis fyrir gasvinnslu fyrirtækisins í Norður-Þýzkalandi með þessari vökvaþrýstiaðferð. Þegar s.k. umhverfisverndarsinnar hópuðust saman til mótmæla, hoppaði Græningjaflokkurinn, sem nú er í ríkisstjórn og þá var í sókn, um borð í mótmælafleyið. Hið sama gerði "Russia Today", málpípa Kremlar, og spann upp aðvaranir um, að þessi tegund gasvinnslu leiddi til geislavirkni, fæðingargalla, hormónaójafnvægis, losunar gríðarlegs magns metans, eitraðs úrgangs og eitrunar fiskistofna. Ekki minni sérfræðingur en náungi að nafni Vladimir Putin lýsti því yfir í ræðustóli á alþjóðlegri ráðstefnu, að téð vökvaþrýstiaðferð gasvinnslu mundi valda því, að sótsvart sull spýttist út um eldhúskrana almennings. Þjóðverjar virðast ginnkeyptir fyrir ævintýrum, en það eru margir aðrir.
Hræðsluáróður af þessu tagi á greiða leið að eyrum almennings. Augljóst er nú til hvers refirnir voru skornir hjá Putin. Hann vildi drepa gasvinnslu Þjóðverja í dróma til að gera þá háða Rússlandi um þennan mikilvæga orkugjafa, og kanzlarinn sjálfur, prestsdóttirin frá Austur-Þýzkalandi, beit á agnið. Það er alls ekki einleikið.
"Að þessu búnu gáfumst við hreinlega upp við að útskýra, að vökvaþrýstivinnsla jarðgass er algerlega örugg", andvarpar Hans-Joachim Kümpel, fyrrverandi formaður meginráðgjafarráðs ríkisstjórnarinnar um jarðfræði. "Ég get í raun ekki áfellzt fólk, sem hefur enga þekkingu á jarðfræði, ef allt, sem það heyrir um viðfangsefnið, eru hryllingssögur."
Þýzkir gasframleiðendur segja, að í ljósi þróaðri, hreinni og öruggari vinnsluaðferða nútímans, gætu þeir tvöfaldað vinnsluafköstin á 18-24 mánuðum, ef þeir fengju tækifærið. Með slíkum afköstum gætu Þjóðverjar dælt upp gasi fram á næstu öld. Slíkt mundi draga úr innflutningsþörf að jafngildi u.þ.b. 15 mrdUSD/ár. Það er ekkert ævintýri. Núverandi ríkisstjórn Þýzkalands er ekki líkleg til að slaka á hömlunum í þessum efnum, þótt hart sverfi að Þjóðverjum, en væri Friedrich Mertz kanzlari væri meiri von til, að heilbrigð skynsemi og öryggishagsmunir væru í fyrirrúmi, en ekki tvístígandi og hálfgerður rolugangur.
Friedrich Mertz er formaður stjórnarandstöðuflokksins CDU, sem er miðhægriflokkur Konrads Adenauers og dr Ludwigs Erhards, og hann er tilbúinn til að leiða Þýzkaland til forystu í Evrópu gegn árásargirni Rússlands undir forystu hins siðblinda Putins, sem nú bítur höfuðið af skömminni með því að setja stærsta kjarnorkuver Evrópu í uppnám, láta rússneska herinn hafast þar við og skjóta þaðan eldflaugum og úr sprengivörpum. Öfugmælin og ósvífnin nálgast hámark, þegar sami Putin sakar Bandaríkjamenn um að lengja í Úkraínustríðinu og efna til ófriðar um allan heim. Margur heldur mig sig. Hann þarf ekki annað en að gefa rússneska hernum fyrirmæli um að hætta blóðugu og illa ígrunduðu árásarstríði sínu í Úkraínu og hverfa inn fyrir rússnesku landamærin til að binda endi á þessi fáránlegu átök, sem hafa gjörsamlega eyðilagt orðstír Rússa. Þrátt fyrir "vatnaskil" hjá kratanum Olaf Scholz, er hann enginn bógur til að finna fjölina sína sem leiðtogi frjálsrar Evrópu við gjörbreyttar aðstæður.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.