Áhættugreiningu vantar fyrir flutningana

Stórfelldir vikurflutningar eru ráðgerðir frá námu austan Hafurseyjar austan Víkur í Mýrdal og til Þorlákshafnar.  Sveitarfélagið Vík leggst ekki gegn námuvinnslunni sjálfri, en á bágt með að sætta sig við fyrirhugað flutningsfyrirkomulag á vikrinum.  Ráðgert  er að flytja um 1,0 Mt/ár úr námunni eftir þjóðvegum Suðurlands, sem liggja til Þorlákshafnar. Samráð skortir við sveitarstjórnina þar um endastöð þessara flutninga, og hefur sveitarstjórinn lýst því yfir, að ekki komi til mála að samþykkja opinn haug þar, enda skorti lóð undir hann. 

 Einar Freyr Elínarson tjáði sig með skynsamlegum hætti fyrir hönd sveitarfélagsins Víkur í Mýrdal um þessi efni í viðtali við Morgunblaðið 15. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Efasemdir um stórfellda landflutninga".

Viðtalið hófst þannig:

"Við leggjumst ekki gegn námuvinnslu; þarna er skilgreind náma.  En við verðum að sjá útfærsluna öðruvísi", segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi í samtali við Morgunblaðið um áform og mat á umhverfisáhrifum mikilla þungaflutninga með vikur í gegnum sveitarfélagið. Hann segir, að sveitarstjórnin hafi ekki enn fjallað um umhverfismatsskýrsluna, en ljóst sé, að miklar efasemdir séu uppi um þessa landflutninga. 

Þá dregur hann í efa það mat, sem lýst er í skýrslunni á áhrifum flutninganna á umferð.  Þar eru þau metin óverulega neikvæð." 

Hvað liggur að baki þeirri umsögn verkfræðistofunnar, sem ráðin var í þá rannsókn, sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða athafna jafnan er, að áhrifin á umferðina verði óverulega neikvæð ?  Var gerð áhættugreining til að leiða líkum að áhrifum 30 % aukningar á þungaaumferð, sem Vegagerðin telur, að þessi áform jafngildi, og áhrifin á öryggi vegfarenda af völdum aukins vegaslits og meiri viðhaldsþarfar ? Var lagt mat á afleiðingar aukinnar tilhneigingar til erfiðs aksturs fram úr löngum farartækjum á öllum tímum sólarhrings ?  Að öllum þekktum áhættuþáttum meðreiknuðum, hvað má ætla, að slysatíðnin á leið langra flutningabíla aukist mikið með mismunandi örkuml eða jafnvel dauða af völdum þessara flutningabíla með vikur til Þorlákshafnar og til baka til námunnar austan Hafurseyjar ?  Hvaða auknum árlegum kostnaði má búast við vegna slysa, dauðdaga og tjóns á farartækjum og aukins vegviðhalds af þessum völdum ?

Af orðalaginu "óverulega neikvæð" mætti ætla, að áhættugreining verkfræðistofunnar hafi leitt í ljós, að vegfarendur framtíðarinnar á leið téðra þungaflutninga og íbúar í grennd við leiðina verði ekki fyrir mælanlegu tjóni eða áreiti af völdum þessara þungaflutninga, heldur aðeins óþægindum og minni háttar töfum á sinni leið.  Hér skal varpa fram þeirri tilgátu, að sú niðurstaða standist ekki verkfræðilega rýni, heldur beri vitni um flaustursleg vinnubrögð. Það virðist vanta, það sem við á að éta, í þessa rannsókn. 

Miðað við umferðartalningar og upplýsingar um þetta verkefni má áætla, að með viðbótarflutningum um meira en  1,0 Mt/ár (að þunga farartækjanna meðreiknuðum fram og til baka) muni slitið á vegunum verða svipað og frá umferð, sem er 2,5 sinnum meiri en núverandi umferð. Þá vaknar lykilspurningin í þessu máli: hverjar voru hönnunarforsendur leiðarinnar um umferð, sem vegurinn ætti að þola, svo að þáverandi öryggisstöðlum væri fullnægt.  Líklegt er, að í tímans rás hafi sú árlega hámarksumferð, sem vegurinn átti að þola, þegar hann var hannaður, lækkað.

Ef verkefnið stendur og fellur með svona miklu álagi á samfélagsinnviði landsmanna, og hér er lagt upp með, á það ekki rétt á sér.  Þar með er það þó ekki dauðadæmt, því að aðrar flutningaleiðir eru til, og hafa sumar verið nefndar, enda gætu útflutningsverðmætin frá fullri starfsemi á Mýrdalssandi (vikur og sandblástursefni) numið vel yfir 200 MEUR/ár. 

Ein er, að fyrirtækið leggi fram áætlun um lestarteina frá námunni og til Þorlákshafnar.  Önnur er viðleguaðstaða úti fyrir ströndinni og dæling efnisins með þrýstilofti úr landi og út í skip.  Þriðji möguleikinn er svo að koma upp einhvers konar hafnaraðstöðu í grennd við námuna í samstarfi við sveitarfélagið Vík í Mýrdal. 

Nokkrir hafa fjallað um þetta verkefni í fjölmiðlum.  Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur gert þetta verkefni að umfjöllunarefni á vefsetri sínu, og Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli hefur fengið birta grein um efnið í Morgunblaðinu.  Þann 16. ágúst 2022 birtist svo forystugrein um efnið í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: 

"Á 7 mínútna fresti í öld".

Þar sagði m.a.:

"Það eru ótal dæmi til um það, gömul sem ný, hversu sárgrætilega auðvelt er að fá keyptar umsagnir, sem eiga að vera veittar í krafti sérfræðiþekkingar, þótt þær sýnist vera öndverðar öllu því, sem blasir við hverjum manni, að fái staðizt.  Hinu er ekki að leyna, að skýrsla af slíku tagi gæti geymt vott um ólíkindalega gamansemi, þegar niðurstaða hennar er, "að aukning umferðar og hljóðvistar vegna malartrukkanna "hafi nokkuð neikvæð áhrif" eða svo sem miðlungsáhrif m.v., að flokkarnir fyrir ofan heita: "Talsvert neikvæð áhrif, Verulega neikvæð áhrif og Óvissa".  

Það er varla hægt að gera því skóna, að höfundum skýrslunnar sé grín í huga, því að málefnið snýst um dauðans alvöru á þjóðvegunum og mögulega verulega skert lífsgæði þeirra, sem vinna og/eða búa í slíkri grennd við flutningaleiðina, að áhrif hefur á hljóðvist á vinnustað eða á heimili.  Þetta huglæga mat um nokkuð neikvæð áhrif eða svo sem miðlungsáhrif er svo fljótandi, að það er óboðlegt sem niðurstaða í skýrslu frá verkfræðistofu, enda er lesandinn litlu nær með slíka einkunnagjöf höfundanna. 

Hvers vegna var t.d. ekki gerð söfnunarmæling á hávaða við akstursbrautina, þar sem ætla má, að áhrif á hljóðvist verði mest, og viðbótar hávaðinn síðan áætlaður út frá tíðni ferða, hraða og hávaða frá sambærilegum flutningatækjum og búast má við, að verði í þessum vikurflutningum ?  Þá væri eitthvað handfast fyrir þá, sem þurfa að fjalla um málið, og hægt að bera niðurstöðuna saman við staðla, sem um hljóðvist fjalla. 

Það fara senn að æsast leikar á Mýrdalssandi, því að fyrirtæki er að koma þar upp búnaði til vinnslu efnis úr sandinum til yfirborðshreinsunar.  Morgunblaðið sagði frá þessu 18. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Tæki til vinnslu sandblástursefnis".

Fréttin hófst þannig:

Tæki til að vinna sandblástursefni eru komin á lóð fyrirtækisins Lavaconcept Iceland ehf við Uxafótarlæk austan við Vík í Mýrdal.  Áætlað er að hefja vinnslu og útflutning á næsta ári [2023]. Unnið hefur verið að þessu verkefni frá árinu 2008, og nú er skipulagsferli lokið.  Aðstandendur verkefnisins leggja áherzlu á að fá heimamenn í Mýrdal til að vinna sem mest að undirbúningi og síðan vinnslu, þegar þar að kemur, enda var til verkefnisins stofnað til að skapa atvinnu á svæðinu.  Steypa þarf undir tækin og leiða rafmagn á svæðið.  Áætlað er, að 15-20 störf skapist síðan við vinnsluna."

Með aukinni starfsemi í sveitarfélaginu Vík í Mýrdal, sem þarf að koma framleiðslu sinni um borð í skip til útflutnings, eru vaxandi líkur á, að fjárhagsgrundvöllur verði fyrir hafnargerð, viðleguaðstöðu úti fyrir ströndinni eða lagningu járnbrautarteina frá athafnasvæðunum á Mýrdalssandi og til Þorlákshafnar, ef flutningsgeta þjóðvegarins reynist ekki anna fullri flutningsþörf umræddrar starfsemi á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar samkvæmt athugun Vegagerðarinnar eða ef áhættugreining leiðir í ljós óásættanlega meiri slysatíðni á leiðinni eða hávaða í grennd við hana. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

ársumferð austan við Selfoss er rúmlega 5000 bílar daglega, rúmlega 100 ferðir fullfermdra treilerbila er bara smá brot dagsumferðar. Nú hef ég ekki séð hve stór hluti eru bílar yfir 10 tonn í dags umferðinni.Það er þó ljóst að bæta þarf vegakerfið á þessari leið sama hvort þessar 200 ferðir bætast við eða ekki. Það vantar að gera 2+1 veg austur að Jökulsárlóni,

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.8.2022 kl. 09:38

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ekki þekki ég þetta alveg nógu og vel en ég talaði við kunningja minn á Selfossi í gær sambandi við fyrirhugaða "vikurflutninga" hafði hann þetta að segja: ÞAÐ ER ENGINN VIKUR Í ÞESSU FELLI, SEM ÁÆTLAÐ ER AÐ TAKA EFNI ÚR, HELDUR ER ÞARNA HREINN SANDUR.  Málið er að í Evrópu VANTAR hreinan sand, sá sandur sem fæst er er mjög mengaður og mikill þari og skel í honum og dýrt að hreinsa hann og samkvæmt því sem hann sagði þá borgar sig að flytja sandinn frá Íslandi og það gerir meira en að borga sig heldur er stórkostlegur fjárhagslegur ávinningur að því.  Margt fleira sagði hann og vildi meina það í leiðinni að Ísland væri nú þegar komið í ESB og framtíðin væri síður en svo björt...............

Jóhann Elíasson, 21.8.2022 kl. 14:00

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hallgrímur Hrafn; Samkvæmt Vegamálastjóra munu þessi áform auka þungaflutningana megnið af leiðinni um þriðjung.  Það kemur vel heim og saman við mína ágizkun, sem ég lagði til grundvallar þeirri niðurstöðu, að slitálag vegarins verður a.m.k. eins og af 2,5 faldri núverandi umferð með þessari viðbót flutningatækja.  Það er mjög villandi ofeinföldun að reikna hlutfall þessarar þungaumferðar og núverandi umferðar, sem að 2/3 hlutum eru fólksbílar og jeppar.  

Bjarni Jónsson, 21.8.2022 kl. 17:20

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann; Það er stórfurðulegt að halda því fram í fréttum að flytja eigi vikur af Mýrdalssandi.  Ég hef ekki séð vikur þar.  Það ætti samt að vera hægt að flytja sandinn með þrýstilofti, eins og súrál er flutt langar leiðir í rörum.  

Bjarni Jónsson, 21.8.2022 kl. 17:25

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Og enginn kemur með neinar athugasemdir og svo er okkur "sauðsvörtum" almúganum sagt að "dæmið" sé búið að fara í gegnum umhverfismat.  Og enginn veit eitt fyrr en stórkostlegir flutningar eru  fyrirhugaðir.  Það var kannski einfalt að setja VIKURFLUTNINGANA í umhverfismat því það er enginn vikur á svæðinu en aftur á móti er flóknara dæmið með sandinn því hann er í alveg gríðarlegu magni, bæði þarna og það sem á að flytja......

Jóhann Elíasson, 21.8.2022 kl. 18:11

6 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Sæll Bjarni. Getur verið að það aki um 1700 dag-bílar þyngri en almenn umferð, þyngri en 4 tonn austan Selfoss. Þar munar kannski ekki öllu um 100 fulllestaða treilera þar og tóma til baka.Ef við reiknum með að vegirnir séu jafnvel byggðir við Vík þá breytir það sára litlu með endingu vega þar. Nú er hámarkshraði sami á þjóðvegi 1 fyrir flutningabíla og almennri umferð þannig að framúrakstur ætti ekki að vera meiri vegna þessara vagna.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.8.2022 kl. 18:43

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hallgrímur;  Ég heyrði Vegamálastjóra nefna þriðjungsaukningu þungaumferðar af þessum völdum.  Hvað, sem því líður, munar gríðarlega miklu fyrir vegslit að fá rúmlega 1 Mt/ár viðbótar umferð, því að vegslit fylgir öxulþunga í 3. veldi.

Bjarni Jónsson, 22.8.2022 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband